Blik 1951/Þáttur skáta

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1951ctr


ÓSKAR ÞÓR SIGURÐSSON, FÉLAGSFORINGI:


NJÓSNARAR ÚTI Í NÁTTÚRUNNIEinu sinni var ég
lítill drengur.


Sá sem náð hefur þeim aldri að teljast fullveðja maður, hefur raunverulega lokið fyrri hluta ævi sinnar. Æskan er liðin, fram undan eru fullorðinsárin.
Er óeðlilegt, þótt sá, er stendur á slíkum vegamótum, líti yfir liðnar æskustundir, geri sér grein fyrir, hve áhrif þessa fyrri hluta lífs hans móti síðari hlutann?
Nei, það má segja, að æskan sé vor lífsins og þar sé sáð og plantað öllu, er menn þarfnast og vilja uppskera á fullorðins árunum. Þess vegna er öllum nauðsynlegt að verja æskuárunum vel, nota hverja stund til hlítar. Meðan menn eru ungir, finnst þeim æskan aldrei ætla að líða, en þeir munu komast að raun um að hinn lengsti dagur líður að kveldi. Þegar unglingurinn er orðinn fullvaxta, kemst hann að raun um að æskan er aðeins skammur morgunn og er þá öllum kærkomnast, að sá morgunn verði bjartur og fagur, svo að morguns lífsins verði minnzt með fögnuði, þegar hann er liðinn. Hverjum ungling er þessvegna nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að liðin stund kemur ekki aftur, en honum er líka nauðsynlegt að líta fram á við. Framundan er líka líf og ótal tækifæri.

1951 b 39 AA.jpg
Laugard. 19. ág. s.l., fóru 21 „Faxaskáti“ í útilegu í Þjórsárdalinn. Flogið var að Hellu, ekið í bifreið í Þjórsárdal, slegið upp tjaldi í skóginum norðan Ásólfsstaða. Á sunnudag var allt hið markverðasta skoðað og ber tínd. Komið að Hellu á sunnudagskvöld og flogið heim. Allir urðu útiteknir og ánægðir, enda brosti Þjórsárdalur í sínum fegursta skrúða. Ferðin kostaði 110 kr. Myndirnar að ofan eru : Efst t.v. úr Gljúfrinu, efst t.h. við Háafoss, neðar t.v. við Hjálp, neðar t.h. tjaldið í skógarrjóðrinu.
„Einu sinni var ég lítill drengur,“ segir Baden Powell. Hann bætir líka við: „Einhverja skemmtilegustu daga æsku minnar átti ég ásamt fjórum bræðrum mínum. Við fórum í skátaleiðangra kringum strendur Englands. Ekki svo að skilja, að við værum skátar, því þá voru þeir ekki til. En við áttum seglbát, og í honum dvöldum við og vökkuðum yfir öllum árstíðum og hvernig, sem viðraði. Og í tómstundum mínum á skólaárunum stundaði ég skátaíþróttina inni í skógunum. Það var þar, sem ég var vanur að ímynda mér, að ég væri skógarmaður eða njósnari. Ég læddist um og leitaði að merkjum eftir kanínur, héra eða fugla, svo að ég gæti skoðað þau vandlega.
Sem skógarmaður setti ég upp snörur, og þegar ég veiddi kanínur eða héra, var ég vanur að flá af þeim skinnið, hreinsa kjötið og steikja það. En þar sem ég vissi að „rauðskinnar“ voru á næstu grösum (þ.e.a.s. kennarar, sem voru að leita að drengjum, sem fóru út í leyfisleysi), notaði ég lítinn reyklausan eld, sem ekki kom upp um dvalarstað minn. Stundum faldi ég mig uppi í trjám, af því að reynslan hafði kennt mér, að menn líta sjaldan upp fyrir sig. Þannig var ég, án þess að vita af því, að æfa mig í ýmsu því, sem hafði óneitanlega gildi fyrir mig seinna.“
Þetta segir skátahöfðinginn B. Powell frá æskuárunum. Hann kunni að leika sér. Notaði hverja stund til þess að kynnast náttúrunni og læra af dýrunum. Hann átti líka eftir að verða einn mesti njósnari sem uppi hefur verið. Hann lék meira að segja á hina frumstæðu skógarbúa, þá er ólust upp í hinum dimmu skógum og áttu meðfædda eiginleika til þess að varast hætturnar.
En hvar eignaðist hann þessa njósnarahæfileika?
Hann heldur því sjálfur fram, að þeir eigi rætur að rekja til æskuleikjanna. En síðan hefur þessi leikur þjálfast þau tíu ár, er hann dvaldi í skógarþykknum Indlands á leiðum hans í Afríku, og þegar hann bjó á meðal skógarkarlanna í Kanada.
Hann hafði svo mikla ánægju af þessum leikjum. Hann hugsaði með sér: ,,Skyldu ekki drengirnir heima hafa gaman af þessu? Hvers vegna fá þeir ekki að kynnast þessu líka? Sannarlega hefur hann hugsað rétt. Alla drengi þyrstir í ævintýr og útilíf. Alla drengi langar að gerast njósnarar.
Sir Robert Stephenson Smith Baden-Powell Lord of Gillwell, en svo hét hann, er hann lézt 8 janúar 1941, stofnaði æskulýðshreyfingu árið 1907, þá var hann 50 ára. Meðlimi þessar hreyfingu nefndi hann skáta. Orðið skáti þýðir njósnari og er myndað úr enska orðinu scout, sem einnig þýðir njósnari.
Drengir allra þjóða voru ekki seinir á sér, að tileinka sér þessa nýju sérstæðu hreyfingu. Þeir voru orðnir hundrað þúsund árið eftir að B. Powell skipulagði hana og á fjórðu milljón, er hann lézt.
Stúlkurnar fundu fljótt, að skátaleikirnir og skátastörfin áttu líka heima í þeirra hópi. Á fyrstu stóru skátasamkomunni, sem haldin var á Crystal Palace, komu stúlkur með skátahatta og skátastafi og sögðust vera kvenskátar. B.Powell sá, að bersýnilega varð eitthvað að gera fyrir stúlkurnar. Hann fékk því systur sína, Agnesi, til þess að breyta skátastörfunum fyrir kvenskátana.
Árið 1908 skrifaði B. Powell „Scouting for boys“ og er þar skátahreyfingin skipulögð. Þessi merka bók hefur loks verið þýdd fyrir íslenzkan æskulýð og nefnist hún „Skátahreyfingin“. Ég ráðlegg öllum æskumönnum og konum að lesa hana, jafnt hvort þau eru skátar eða ekki. Hún verður ábyggilega góður vinur, áður en lestrinum lýkur.
En hvað er skátahreyfingin? Hvers vegna eru svona margir æskumenn og konur skátar?
Mig langar til að kynna skátahreyfinguna ykkur, en það verður aðeins svipur hjá sjón, vegna þess að skátaleikirnir og — störfin, eru skátarnir sjálfir.

1951 b 40 AA.jpgMyndirnar eru úr róðrarferð, er farin var umhverfis Heimaey á uppstigningardag 1950.
Björgunarbáturinn á Eiðinu var fenginn að láni og settur norður af.
Fyrst var róið vestur í Stafnes og þar þurrkuðu þau fötin, er blotnað höfðu. Einnig var borðað og báturinn standsettur. Í þessum önnum voru myndirnar teknar.
Haldið var suður fyrir Stórhöfða og norður með Urðum, komið inn á höfn um kvöldverðarleyti. S.l. ár voru farnar 9 róðrarferðir á vegum „Faxa“. Flestar austur með Urðum, eða í Klettsvíkina, nokkrar vestur í Smáeyjar og Stafnes.“
Skátahreyfingin.


Hinar miklu andstæður, fátækt og auður, eru raunverulega sameinaðar í skátahreyfingunni. Í fyrstu skátaútilegunni, sem farin var sumarið 1907, tengdi B. Powell þessar megin andstæður mannlegs lífs saman. Hann safnaði saman 25 drengjum og fór með þá út í Brownsea-eyjuna í ánni Thames og kenndi þeim skátaleiki og skátastörf. Þessir 25 drengir voru af öllum stéttum þjóðfélagsins, engu síður úr fátækrahverfum heimsborgarinnar London, en úr höllum höfðingjanna.
Hvernig fór? Margur hefði haldið erfitt að sameina slíkar andstæður og jafnvel ókleift, en við skulum láta tímann svara þessari spurningu.
Þessir 25 drengir urðu fyrst að hundruðum, síðan að hundruðum þúsunda, og loks að milljónum. Æskulýður allra þjóða hefur tileinkað sér leikina, er skátahöfðinginn kenndi þessum 25 drengjum síðsumarkveldið 1907.
Hver voru þessi töfratök, er meistarinn náði á æskulýðnum?
Það fyrsta, sem B. Powell tók eftir, var, að drengirnir undu sér illa í hinum óheppilega klæðnaði, sem þeir voru í. Sumir voru í síðum buxum, jakka og með harðan flibba. Aðrir voru tötralega til fara. Hann sá, að drengirnir voru því óánægðir og að eitthvert ósýnilegt bil var á milli þeirra. Til þess að ná valdi á drengjunum og til þess að efla bræðralagshugsjónina, varð að koma klæðnaður, er einkenndi hreyfinguna og yrði þægilegur við útistarfið. Hann lét því reynslu sína ráða við val búningsins og tileinkaði hreyfingunni þann klæðnað, er honum hafði reynzt beztur.
Hann lét því útbúa skátahatt, barðastóran, til þess að hylja höfuðið fyrir sterkum sólarhita og fyrir miklu regni. Skátaklút til þess að verja axlirnar og hálsinn hita og kulda. Einnig er klúturinn til þess að binda um sár og handlegg í fatli. Skátablússu, þannig, að hún herti hvergi að líkamanum og torveldaði ekki eðlilegar hreyfingar líkamans. Í miklum sólarhita er ermunum brett upp, til þess að fá loftstraum að handleggnum og til þess að þvinga þá síður. Tveir vasar eru á blússunni fyrir sáraumbúðir, flautu og vasaklútinn. Skátabuxur, til þess að auðvelda um gang. Hinar stuttu buxur þvinga ekkert að fótleggjunum. Sólin nær til að baka fæturna og styrkir það hvern einn að ganga í stuttum buxum. Skátasokkar voru nauðsynlegir, þegar farið var yfir kjarr og aðrar ófærur til þess að verja leggina.
Þessi búningur er byggður á reynslu í margra ára útilegu. Hann hefur einnig reynzt öllum skátum vel, hvort heldur hann hefur verið borinn norður við Íshaf eða suður við Miðjarðarhaf.
Máttur skátabúningsins er meiri en nokkurn getur grunað. Upphaflega var skátabúningurinn fyrst og fremst búinn til þess að auðvelda skátunum störf sín úti í náttúrunni.
Skátabúningurinn tengir alla skáta saman og einkennir hreyfinguna. Sjáir þú skáta í skátabúningi, getur þú ekki sagt, hvaða stétt þjóðfélagsins hann tilheyri, eða hvort skátinn sé fátækur eða efnaður. Allir skátar virðast eins. Athugir þú skátabúninginn nánar, geturður sagt skátasögu viðkomandi skáta. Þú getur sagt, hvaðan úr heiminum skátinn sé. Hvað hann hafi verið lengi skáti. Hve mikið af skátafræðum hann hafi lært, eða hvaða flokki, sveit eða deild hann tilheyri í félagi sínu. Þekkir þú leyndardóma skátahreyfingarinnar, geturðu sagt skátasögu skátans án þess að skátinn tali til þín, eða þú hafir séð hann áður?
Alþjóða skátamót, Jamboree, er haldið fjórða hvert ár. Á þetta mót safnast skátar allra þjóða saman og sitja við eldana, syngja sömu söngvana og ræða saman um hin ýmsu áhugamál. Jamboree táknaði áður friðareld Indíánaflokka, sem þeir voru vanir að safnast saman í kringum, þegar semja átti frið. Þetta orð vakti B. Powell aftur til lífsins. Nú er Jamboree ekki lengur staður, sem friður er saminn á, heldur staður, þar sem friðurinn er styrktur, svo að hann haldist sem lengst. Á Jamboree eru allir sem bræður, svo er það einnig allsstaðar, þar sem skátar hittast. Næsta Jamboree verður haldið í Austurríki í ágúst í sumar og fara þangað fjörutíu íslenzkir skátar.
Það má vafalaust fullyrða, að skátabúningurinn hefur tengt hana traustari bræðraböndum og eflt álit almennings á skátunum og skátahreyfingunni meira en nokkuð annað.
Sá sem ferðast hefur í skátabúningi, hefur ekki komizt hjá því að finna það traust, er almenningur ber til skátahreyfingarinnar. Það tíðkast einnig bæði hér á landi og erlendis, að skátar fái ódýrara inn á sýningar og söfn, séu þeir í skátabúningi. Auðvitað var skátabúningurinn upphaflega búinn til þess að auðvelda þessum njósnurum við störf sín, en hitt eru staðreyndir, að almenningur ber traust til þeirra, er honum klæðast.
Skátahreyfingin er alheimshreyfing eins og áður segir. Eitt alþjóðabandalag, samsett úr mörgum landsbandalögum. Í hverju landi eru eitt eða fleiri skátabandalög og í þessum bandalögum eru öll skátafélög viðkomandi lands.
Hverju skátafélagi er skipt niður í flokka, sveitir og deildir. Hvert einstakt skátafélag er raunverulega ríki í ríkinu. Flokkum skátafélaganna má líkja við heimili þjóðfélaganna, Í hverjum flokki eru 7 til 10 skátar og flokksforinginn húsbóndinn. Sveitirnar eru samsettar úr fjórum flokkum og má líkja þeim við kirkju eða skólasóknir þjóðfélaganna. — Sveitunum er stjórnað af sveitarforingja og flokksforingjunum fjórum, þeir mynda sveitarráð. Í þeirra stað koma skólastjórar og skólanefndir eða prestar og sóknarnefndir þjóðfélaganna. Deildirnar eru samsettar úr fjórum sveitum og má líkja þeim við bæjar- eða sveitarfélögin. Deildunum er stjórnað af deildarforingja og sveitarforingjunum fjórum, þeir mynda deildarráð. Í þeirra stað koma bæjarstjórar og bæjarstjórnir, eða oddvitar og sveitarstjórnir. Síðan mynda deildirnar skátafélag og er því stjórnað af félagsforingja og kjörinni stjórn. Hvert skátafélag er því raunverulega smækkuð mynd af þjóðfélagi. Starf félagsforingja og félagsstjórnar er því smækkuð mynd af starfi forseta og ríkisstjórna þjóðfélaganna.
Engum getur dulizt, hve skipting skátafélaganna er raunverulega hugsuð. Hún þroskar unglingana og skapar hjá þeim ábyrgðatilfinningu.
Sem dæmi upp á, hve þessi skipting getur verið gagnleg, er eftirfarandi leið til þess að boða félagið á einn stað. Við skulum hugsa okkur að leita þurfi horfins manns. Félagsforingja berast boðin og nú er betra að hafa hraðann á, enginn tími má fara forgörðum. Félagsforingi flytur deildarforingjum þau, síðan flytur hver deildarforingi boðin til sveitarforingjanna fjögurra í sinni deild, sveitarforingi flytur boðin til flokksforingjanna fjögurra í sinni sveit, flokksforingjarnir taka við boðunum, útbúa lista yfir flokksmeðlimi sína og fara síðan með listann til efsta manns listans, sá efsti fer síðan til þess næsta og síðan koll af kolli, þar til komið er að síðasta flokksmeðlimi. Hann fer með boðin til flokksforingja og þá er allur flokkurinn boðaður og jafnframt allt félagið.
Á þennan hátt er hægt að boða 100 til 150 skáta á einn stað innan klukkustundar, án þess að nokkur einstaklingur hafi boðað fleiri en 1 til 4 skáta.
Skátarnir finna, að þeir eru ómissandi hlekkur í hinni stóru skátakeðju. Þess vegna eru þeir heiti sínu trúir og gera skyldu sína við skátafélagið og þjóðfélagið sitt.
Allt innistarf skátanna miðar að því, að undirbúa skátann undir útilífið. Innistarfið og raunar skátastarfið allt grundvallast á flokksstarfinu. Flokksforinginn kennir skátunum hin ýmsu störf og á flokksfundunum eru æfðir söngvar og leikir. Skátarnir æfa sig á að tala saman með flöggum, ljósum eða hljóðum, læra leyniskriftir og leynimerki skáta, læra að mæla breidd vatna og hæð húsa á einfaldan hátt, læra að þekkja á áttavitann og að ganga blindandi eftir áttavita, læra að teikna landabréf, læra að matreiða og undirbúa útilegur, læra nauðsynlegustu atriði í hjálp í viðlögum o.m.fl. Á flokksfundunun læra skátarnir að standa upp og tala um áhugamál sín. Flokksfundurinn er raunverulega málfundur eða æfingafundur undir sveitar- og deildarmálfundina.
Allir flokkar bera heiti, t.d. Fálkar eða Þrestir, Liljur eða Valkyrjur. Skátarnir semja ritgerðir um flokksnafnið og hlúa að því á allan hátt.
Útistörfin eru margbrotin. B. Powell kenndi skátunum, er hann tók með sér á Brownsea-eyjuna, hin margvíslegu störf og opnaði augu þeirra fyrir móður náttúru. Hann sagði þeim frá ferðum sínum, meðan hann starfaði sem njósnari, og hrifust drengirnir af hreysti hans og leikni og af þekkingu hans á náttúrunni. Hann sagði þeim frá því, er hann rakti spor dýranna og kynntist lifnaðarháttum þeirra. Drengirnir kynntust líka af eigin raun náttúrunni og dýrunum og komust brátt að raun um, að meira kenndi náttúran en næmið. Þeir kynntust því, að útilífið væri skemmtilegasti þáttur skátalífsins. Þeir unglingar, sem lifa í samfélagi við fugla og dýr merkurinnar, þeir, sem læra að matreiða, að kveikja og kæfa eld, reisa tjöld eða smáskýli við læki eða sjó, úti á heiðmörkinni eða í byggð, eru raunverulega að búa sig undir fullorðinsárin. Slíku lífi fylgir hollusta og lærdómur. Þeir, sem lifa þessu lífi, verða hamingjusamari en þeir, er verja frístundunum á rykugum strætunum, eða innan múrsteinsveggjanna, þar sem sólin nær ekki til þess að skína. Við brennandi bálið sungu þeir hina fögru söngva, sögðu sögur og hlustuðu á snarkið í eldinum.
Þannig var það í fyrstu skátaútilegunni á Brownsea-eyjunni og þannig er það 43 árum seinna í útilegum í Elliðaey eða Lyngfellisdal, í Stafnesi eða við Hraunprýði. Þannig er það í öllum skátaútilegum, hvort heldur þær eru á Ítalíu eða Indlandi, á Frakklandi eða norður á gamla Fróni. Tilgangurinn er allsstaðar sá sami, að þroska og þjálfa unglinginn, að búa hann undir fullorðins árin.


1951 b 47 A.jpgSkátafélagið „Faxi“ eignaðist þennan fagra skála 1. marz 1942. Kaupverðið var þrjú þúsund krónur. Sumarið 1942 og 1943 var unnið að því að endurbyggja skálann. Margar samtaka hendur unnu í frístundum sínum við að „prýða hraunið“. Skátarnir urðu þarna brautryðjendur á sviði múrhúðunar. Nafngjafi „Hraunprýðis“ er Jes A. Gíslason, félagsráðsforingi „Faxa“.Eitt sinn skáti — ávallt skáti.Þannig varð skátahreyfingin til, og þannig er lítil mynd af henni.
En hvað situr eftir, þegar leiknum lýkur?
Það er erfitt að gera sér fulla grein fyrir því, vegna þess að leikirnir eru raunverulega stór þáttur í lífi þeirra, er þá stunda. Sá, sem hefur lært að matreiða, er ekki einungis búinn að afla sér þekkingar á því sviði, eða auka öryggi sitt, heldur hefur hann einnig aukið öryggi annarra. Dæmin eru nærtæk. Takmark allra æskumanna er að eignast heimili og er það ekki lítið öryggi fyrir heimilið, að heimilisfaðirinn geti annazt matreiðslu, verði húsmóðirin veik. Þetta hljóta allir að sjá. Ég hefi oft veitt því athygli, að skátar standa betur að vígi, en aðrir á þessu sviði og tel ég það æskuleikjunum að þakka. Skátar hafa einnig oft orðið matsveinar á vélbátunum okkar og ekki er óalgengt, að leitað sé til skátanna, séu þeir nærstaddir, veikist matsveinninn. Slíkir atburðir tala sínu þögla máli.
Sá, sem hefur sofið í tjaldi og fengið að reyna frumbyggjalífið, á betra með að mæta erfiðleikum og sætta sig við þá, en sá, er aldrei hefur sofið annarsstaðar en undir dúnsæng í upphituðu herbergi.
Skemmtilegasti leikur skátanna er að fara með heimilið á bakinu eitthvað út í náttúruna, slá tjaldi við lítinn læk eða í hraungjótu, viða að spreki í eld til þess að orna sér við og elda fæðuna, skríða síðan í svefnpokann og sofna við lækjarniðinn eða snarkið í brennandi bálinu. Slíkir atburðir falla aldrei í gleymsku, þeir herða hvern vöðva og þjálfa, þroska og gefa þann þrótt, er æskan þarfnast. Einn er sá hlutur, er skátinn stendur vörð við. Það er íslenki fáninn, helgasta tákn íslenzku þjóðarinnar. Hver skáti lærir að elska og virða þann dýrgrip, og finnur nauðsyn þess, að allir sameinist undir honum í einingu og bræðralagi. Hver sá íslenzkur æskumaður er gerist skáti, vígist við íslenzka fánann. Hann stendur við hlið foringja síns, heldur í fald fánans og fer með skátaheitið sitt:

Ég lofa, að gera það, sem í mínu valdi stendur til þess:
Að gera skyldu mína við Guð og ættjörðina.
Að hjálpa öðrum.
Að halda skátalögin.

Þetta er hátíðleg stund í lífi skátans, stund, sem aldrei gleymist. Skátinn finnur, að hann getur orðið þjóðfélagi sínu þarfur, og hann finnur líka, að tekið er tillit til hans, að honum er treyst.

1951 b 43 A.jpgMyndirnar eru teknar suður í Lyngfellisdal, í félagsútilegu, er farin var í ágúst 1950.
Þátttakendur voru um 50 skátar. Á laugardagskvöldið var glatt á hjalla, mikið sungið og sagt við varðeldinn. Sunnudagsmorguninn var farið í göngu suður í Stórhöfða. Eftir hádegið unnu 10 stúlkur skátaheitið. Dvalið var í dalnum lengi dags við leiki og íþróttir. Á s.l. ári voru farnar 13 útilegur, ýmist í Hraunprýði eða út á Heimaey, ein í Elliðaey.

1951 b 44 A.jpg


Það er orðinn fastur liður í starfi Skátafélagsins „Faxa“ að fara einu sinni á ári í Elliðaeyjarútilegu. Farið er um lundatímann og njótum við ávallt hlýju og hjálpsemi veiðimannanna. S.l. sumar var farið laugardag og dvalið til sunnudagskvölds. Ekki fórum við á mis við hjálpsemi manna. Guðlaugur Halldórsson, skipstjóri, flutti okkur á hinu myndarlega skipi sínu og Oddsstaðabrœðurnir tóku á móti okkur og greiddu götu okkar í Eynni. Ég vil nota tækifærið og færa þessum aðiljum, svo og öllum þeim, er hafa rétt okkur hjálparhönd við að láta þennan draum rætast, innilegustu þakkir félagsins. Án hjálpar yrði skammt farið. Hittumst heil, við varðeldinn, sumarkvöldið 1951. Myndirnar að ofan eru teknar í Elliðaey s.l. sumar og sýna landtökuna.
Höfuðmarkmið skátahreyfingarinnar tel ég vera þessi:

Að gera æskumanninn sjálfstæðan.
Að veita honum tækifæri á að kynnast náttúrunni í frístundum sínum og gefa honum kost á að læra hin daglegu störf í leikformi.
Að undirbúa æskumanninn undir fullorðinsárin.
Þess vegna tel ég, að skátahreyfingin eigi erindi til allra æskumanna og kvenna, og að hún sé stór akur, er æskan dvelur á í frístundum sínum og sáir því, er hún vill uppskera og þarfnast á fullorðinsárunum. Sá, sem eitt sinn dvelur á þessum skátaakri og sáir frækorni sínu, hann sér frækornið dafna að verða að stóru vizkutré. Á þessum akri á hann æskuminningar sínar og að stóru vizkutré leitar hann, er í nauðir dregur. Því sá, sem eitt sinn gerist skáti hann mun ávallt verða skáti.

Ó.Þ.S.