Blik 1952/Ferðaþættir frá Noregi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1952Ferðaþættir frá NoregiÞorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri hefir ásamt frú sinni dvalið í Noregi í vetur og sendi hann þaðan Bliki grein þessa og greinina um Lýðháskólann í Voss.

Ég lít á úrið mitt.
Nei, konan mín, hvað hugsum við? Við gleymum tímanum. Erum að verða of sein. Ég rýk upp af stólnum og snarast í ferðajakkann.
„Grasið er komið, og allt í d...,“ sagði bóndinn. Hann hafði gleymt að undirbúa sláttinn, lagfæra amboð o.fl.. „Já, en hér er allt undirbúið,“ sagði Inga, og svo tókum við til yfirhafnanna.
Ferðinni er heitið til Bergens þaðan til Stortveit og síðan vestur til hafs, á gamlan sögustað norður á Strílalandi.
Ég á að flytja fyrirlestur um land og þjóð á kennarafundi á Stortveit, þar sem mættir eru fjölmargir barnaskólakennarar í Fanahéraði. Sama er erindið til ungmennafélagsins á Strílalandi. Við höfðum með okkur kvikmynd af landi og þjóð. Hana sýni ég á báðum stöðunum.
Já, við höfðum næstum gleymt tímanum yfir „Júvíkingunum“ hans Ólavs Duun, ritinu, sem margir bókmenntafræðingar töldu vert Nobelsverðlauna á sínum tíma. Það er undraverður töfraþulur í frásögn sinni, þessi Duun. Ég var að lesa 1. bindið og var gagntekinn af Anders gamla og brennandi forvitinn; vildi vita sem fyrst, hvaða endi ástarórarnir og ástarlífið fengi þarna í bókinni. — Ójá, svona gutlar hún í mér ennþá, blessuð ástin! Stundum er Adam lengi hjá Evu sinni í Paradís!
Inga les 2. bindið. Alltaf er kvenfólkið jafnfljótt að komast til enda í bókum, sem fjalla um ástir!
Olav Duun skrifar bækur sínar á þrænzku, Þrándheimsmállýzku. Þar úir og grúir af orðstofnum, sem við þekkjum Íslendingar, enda þótt margar orðmyndirnar komi okkur annars skringilega fyrir sjónir: a þýðir hún; hi þýðir hefur; æ = ég; e = er o.s.frv. En þetta eru hlutir, sem nemast fljótt. — Stíllinn er stuttur, knappur og heillandi.
Eftir 10 mínútna göngu eða þar um bil erum við á járnbrautarstöðinni á Voss. Farmiðar keyptir, stígum inn í lestina, af stað.
Stynjandi og hvæsandi lullar eimreiðin veginn sinn, herðir á sér og hefir náð afráðnum hraða eftir örskamma stund.
Við virðum fyrir okkur fólkið í lestarvagninum. — Líklega er meginið af þessu bændafólk, hugsa ég, hraustlegt, vinnulegt og býður af sér góðan þokka. Gæti allt verið Íslendingar, sami er blærinn og svipað er skinnið. En hvað um sinnið? Það vitum við af kynnum, sögn og sögu.
Nokkrar konur, eldri og yngri, nota tímann og prjóna, meðan á ferðinni stendur. En karlmennirnir, hvað gera þeir? Hafa þeir ekki einnig verk milli handa? — Nei, enginn, — ekki fremur en ég. — Sama er sinnið í Súdan og Grímsnesinu, dettur mér í hug, eða er það ekki á þá lund, sem Tómas skáld orðaði það í kvæðinu sínu?
Enginn reykir í þeim lestarvagni, sem við erum í, því að þar stendur skírum stöfum á nýnorsku: ,,Inkje röykjarar“. Þannig vagn veljum við okkur af gildum ástæðum.
Norðmenn eru ræðnir menn, fullir af krafti og lífi. Mörg setning heyrist smellin og fyndin, og svo er hlegið og skeggrætt.
Einn farþeginn býr yfir sjóði af fyndni og frásögnum. Hann er líka óspar á þær.
Eitthvert bitrasta vopn norsku þjóðarinnar í baráttunni við norsku og þýzku nazistana á hernámsárunum var háðið og spottið. Það sveið og skar eins og salt og pipar í nazistakvikuna annarsvegar, en í næði, ól og herti baráttukjark þjóðarinnar hinsvegar.
Hérna eru nokkur sýnishorn af sögunum, sem hann sagði okkur:
Drengur sat dag nokkurn á bryggju í nánd við Bergen og dorgaði. Þýzk bifreið full af hermönnum þaut framhjá. Af einhverjum ástæðum missti bifreiðarstjórinn vald á bifreiðinni svo að hún ók í sjóinn rétt við hliðina á drengnum. Tíu eða tólf Þjóðverjar busluðu í sjónum, og eins margir sukku, svo að loftbólur brustu í skyggndum sjávarfletinum í stefnu frá bryggjunni. Drengurinn sat rólegur, hreyfði hvorki legg né lið. Þá var æpt. Æðisgenginn Þjóðverji hrópaði og spurði, hvernig á því stæði, að hann bæri það ekki við að bjarga neinum. — ,,Bjarga?“ sagði drengurinn. „Ég, sem hélt, að þið væruð að leggja af stað til Englands?“ —
— Á dansskemmtun bauð Þjóðverji upp ungri stúlku og bað hana að dansa við sig. — „Nei, þökk,“ sagði hún ákveðin. „Er það af því að ég er Þjóðverji?“
„Nei, það er af því að ég er norsk,“ svaraði stúlkan. - -
— Þýzkur liðsforingi kærði það fyrir norskum lögreglustjóra, að norskir drengir spottuðu stúlkur, sem gengju með þýzkum hermönnum. „Þetta bitnar einnig á þýzkum liðsforingjafrúm, sem hér dvelja. Þær verða fyrir samskonar aðkasti,“ sagði liðsforinginn.
„Jæja,“ sagði lögreglustjórinn, „á ég að trúa því, að þýzkar liðsforingjafrúr þekkist ekki frá norskum götustelpum?“
— Á geðveikrahæli var von á einum allra æðsta valdamanni norsku nazistanna í heimsókn. Sjúklingunum var stillt upp í raðir, og þeir fengu skipun um að rétta hendina upp og fram á nazista vísu og hrópa: „Heil og sæl“. (Norska nazistakveðjan).
Svo var gjört, sem boðið var, þar til kom að síðasta manninnum. Hann heilsaði ekki. —
„Af hverju heilsið þér ekki?“ spurði nazistaforinginn. „Ég, — nei, ég er ekki vitfirringur,“ sagði maðurinn; „ég er gæzlumaður hérna á hælinu.“ —
— Þrænzkur klæðskeri sat og gerði við einkennisbúning af þýzkum liðsforingja. Þegar hann sá járnkrossinn á jakkanum, sagði hann: „Áður fyrr hengdu menn ræningjann á krossinn, en nú er krossinn hengdur á ræningjann.“ — — Norskur smábóndi, sem átti 50 hænur, fékk hótunarbréf frá þýzku yfirvöldunum í Noregi með skipun um að afhenda egg. Tveim vikum síðar barst yfirvöldunum svohljóðandi svar:
„Bréf yðar, dags. 22. f.m. var samstundis og það barst mér opnað í hænsnahúsinu og lesið í heyranda hljóði. — Þar sem hænurnar tóku ekki aftur til að verpa þrátt fyrir bréfið og 10 daga frest, hefi ég látið taka þær allar af lífi sökum mótþróa við þýzk yfirvöld.“
Þannig lét samferðamaðurinn dæluna ganga, þar til hann hvarf úr lestinni í nágrenni Bergens. Ég saknaði hans, svo hjartanlega hafði hann skemmt okkur með frásagnarlist sinni og komið út á mér gleðitárunum.
Á járnbrautarstöðinni í Bergen keyptum við okkur hressingu. Þar gengur maður sjálfur um beina, aflar sér matarins og áhaldanna í matsölu stöðvarinnar og ber á borð. Hressingin er líka ódýr. Við fáum hvort okkar tvo kaffibolla, rjómaköku og væna brauðsneið með kjöti. Fyrir þetta greiðum við alls þrjár krónur eða sem svarar kr. 6,86 íslenzkum. Lætur það ekki nærri að vera helmingur þess verðs, er við mundum þurfa að greiða á matsölu heima fyrir sama eða svipað matarmagn?
— Nú var tíminn orðinn naumur. Eftir hálftíma eða þar um bil skyldum við mæta á kennarafundinum. Við pöntuðum bifreið og ókum af stað.
Allt gekk þetta eins og í sögu segir. Eftir skamma stund mættum við á fundinum og fengum innilegar móttökur. Hér var vinhlýtt og skemmtilegt að vera. Ég sagði kennurunum m.a. frá Eyjum, atvinnulífinu þar, atorku fólksins og skólastarfi.
Þegar við kvöddum, tjáðu þeir okkur, að þeir óskuðu sér Íslandsferðar svo fljótt sem því yrði við komið.
Að fundi loknum var rokið til að panta gistingu í borginni. Barnaskólastjóri tók að sér að hringja í skrifstofur gistihúsanna og fala herbergi handa íslenzku hjónunum. — Nei, — og aftur nei. — og ennþá kom nei. Öllum herbergjum ráðstafað. Loks fengnm við fyrirheit um herbergi í trúboðshóteli. —
„Prýðilegt,“ hugsaði ég og var í þeim sjöunda. — En einhvernveginn fann ég það á mér, að konan mín var ekki alls kostar ánægð. Við fengum okkur bifreið og ókum aftur til borgarinnar. Hvað amaði að konunni minni? Það skyldi ég nú grafast fyrir á leiðinni. Svo ræddum við saman í bifreiðinni í trausti þess, að bifreiðarstjórinn skyldi ekki móðurmálið okkar.
Konan minnti mig á íslenzku hjónin, sem voru gestkomandi í Osló. Ójá, ég hafði í svipinn gleymt þeirri sögu. Nú skildi ég allt. — Sagan er á þessa leið:
Íslenzk hjón beiddust gistingar í trúboðsgistihúsi í höfuðborg Noregs. Allt var í lagi með það. Nóg húsrúm. „Gerið svo vel, að lofa okkur að líta á vegabréfin!“ Í ljós kom þar að maðurinn var skráður sonur pabba síns og konan dóttir síns ástkæra föður, samkvæmt íslenzkum þjóðarsið og venjum. — Nei, þakka ykkur fyrir, konan ber ekki nafn mannsins síns, það sönnuðu vegabréfin, hún hlaut því að vera, — já, hvað? ... hjákonan hans eða eitthvað þvílíkt! Og engum ber auðvitað að veita slíku fólki hjartarúm eða húsrúm! — Hjónunum hafði verið úthýst.
Ég sel ekki söguna dýrari en ég keypti hana. Hitt veit ég, að trúboðar eiga sína hatursmenn og andstæðinga eins og svo margir aðrir, sem ala með sér göfugar hugsjónir og berjast fyrir því að þær rætist í þessum andlega týrukrók, sem við yfirleitt lifum í.
Mér hló hugur í brjósti og mig þyrsti í ævintýri. Þá skyldi verða sungið og kveðið og það skyldi verða saga til næsta bæjar, ef dregið yrði í efa, að konan mín væri mín eftir öll hjónabandsárin, aldarfjórðung.
Mér hitnaði í hamsi. Enginn sannur Íslendingur breytir þjóðarsið um nafn sitt og konu sinnar, þó að hann ferðist erlendis. Það er mér metnaðarmál, að halda þjóðerni mínu á loft og reyna að vera sannur Íslendingur erlendis.
Já, Íslendingar — Íslendingar skulum við vera í öllu því, sem þjóð okkar og landi má til sæmdar verða, svo sem tök eru á. Erlendis eigum við að vera á verði eins og allsstaðar um þjóðerni okkar og þjóðarsæmd.
Oft er þjóðin okkar dæmd erlendis eftir kynnum af einum einasta landa, eða dregnar af honum ályktanir um menningu þjóðarinnar og mannkosti. Íslendingar viljum við öll vera, en það er ekki alltaf því miður, sem við eigum manndáð í okkur til að vera sannir Íslendingar erlendis og þjóðhollir þegnar okkar ástkæra ættlands. — Ég rankaði við mér um leið og bifreiðin nam staðar.
Við greiddum fyrir aksturinn og gengum inn í gistihúsið.
Í skrifstofunni hittum við roskinn kvenmann, sem virtist bera með sér svip mikillar lífsreynslu og taminnar skapgerðar.
Hvað skyldi hún nú gera, þessi? Sú held ég að rasi nú ekki um ráð fram um að halda uppi merki siðgæðis og sóma þessa mikla gistihúss. Þessar hugsanir m.ö.f1. þutu um „þræði heilans“ hjá mér.
Augnaráð blessaðrar konunnar var fremur kalt og rannsakandi, eða það fannst mér.
Fyrst var það skýrslugerð um „nafn og númer“ og síðan — vegabréfin!
Nú gildir það! Örlagastundin var komin. Gisting eða útilega?
Hún skoðaði vegabréfin okkar í krók og kring. Síðan spurði hún nokkurra ópersónulegra spurninga varðandi þau. Svo leit hún á okkur eins og hún vildi reyna að sjá það út úr andlitunum, hvort við myndum vera eitthvert ævintýrafólk! Ég brosti blítt og breitt og reyndi að þýða kuldann þarna hinum megin við gatið í veggnum. Hvað gat ég annað gert? — —
„Gerið svo vel, hér er lykillinn að herbergi nr. 8 á næstu hæð,“ sagði blessuð manneskjan og þá fannst mér bregða fyrir eilítilli hugarhlýju í öðrum augnakróknum hennar. Meira af því tagi gagnvart giftum manni gat líklega talizt syndsamlegt! Ég sætti mig vel við það. — „Kærar þakkir,“ sagði ég. — Við vorum hólpin á okkar vísu, hjónin. —
Ekki man ég vel, hvað klukkan var um kvöldið, þegar hér er komið sögu. En nú langaði okkur í kaffisopa eða einhverja aðra hressingu og enn var umgangur í húsinu. Við tókum því til að leita að matsalnum og fundum hann á næstu hæð. Þar hittum við stillilega og góðlega stúlku og spurðum, hvort ekki væri of seint að beiðast matar. Hún kvað það ekki vera.
Við langt borð í matsalnum sat einn maður og snæddi. Þar var okkur vísað til borðs, og fengum við margs kyns góðgæti að eta. Sú máltíð kostaði alls 5 krónur.
Í ljós kom, að gesturinn við borðið var trúboði, og hafði hann fyrir fáum mínútum lokið trúboðssamkomu í borginni. Mér fannst sem sólarglampi færi um andlit hans, er hann heyrði, að við værum Íslendingar. Hann hafði einmitt unnið heima á Íslandi á sínum duggarabandsárum, en var nú hniginn að aldri. Og hvar hafði hann svo dvalið á Íslandi?
,,Í Mjóafirði, á hvalastöðinni hans Ellefsens, fyrir meir en 40 árum.“
Ég tjáði trúboðanum, að það vildi nú þannig til, að við værum bæði fædd Mjófirðingar, og hún alin þar upp að öllu leyti en ég að nokkru.
Hann varð undrandi. Nú var það eins og hann ætti okkur. Þessi aldurhnigni maður, sem bar góðmennið með sér. Hann taldi sér þetta ennþá nýja sönnun fyrir því, hve vegir Guðs væru órannsakanlegir, og hve vegamót hans kæmu okkur skammsýnum mönnum oft á óvart. „Helzt til mikið,“ hugsaði ég, „sælir eru ...“
„Jæja, frá Mjóafirði, þar sem ég naut yndislegra og friðsælla kvöldstunda milli hárra og brattra fjalla sumarið, sem ég dvaldi þar við hvalveiðarnar,“ sagði hann um leið og við buðum honum góðar nætur.
Mér fannst sem augu hans yrðu fjarskygn og um hugarfylgsnin svifu unaðslegar endurminningar, ef til vill um stundir ásta og yndis, — svo hreinar, að hann hefði aldrei þurft að biðja Guð sinn að fyrirgefa sér nokkurn hlut í því sambandi, áður en hann „frelsaðist“ og tók til við trúboðsstarfið. Naumast gat hann annars minnzt þeirra með þvílíkri hugarhlýju og innileik, þó að vitað sé, að „endurminningin merlar æ í mánasilfri hvað, sem var, yfir hið liðna bregður blæ blikandi fjarlægðar,“ eins og eitt skáldið okkar kveður.

—o—

Klukkan rúmlega tvö næsta dag skyldi farþegabáturinn leggja af stað frá Bergen norður að ströndum Strílalands.
Nú reið á að nota tímann vel og dvelja á fiskveiðasafninu í borginni, þar til við stigum á skipsfjöl.
Þetta gerðum við.
Fyrir þrem vikum höfðum við dvalið í Lýðháskólanum í Fana í góðu yfirlæti um hálfsmánaðarskeið. Við heimsóttum þá Bergen næstum daglega. Ég kynnti mér þá framhaldsskóla borgarinnar o.fl. í því sambandi, en það er önnur saga, sem ekki verður skráð hér. Þá eyddum við einnig mörgum stundum á Bergens Museum, safninu heimsfræga, — og svo fiskveiðasafninu. Nú vildi ég skrifa hjá mér ýmsar tölur og rissa upp línurit varðandi lífið í sjónum o.fl., sem ég svo taldi mig geta notað síðar við kennslu í skólanum heima. Þetta gerði ég. Síðan gengum við til skips.
Frá Bergen ganga fjöldamargir farþegabátar vestur, norður og suður til eyja og nesja í næstu og fjærstu grennd við borgina. Öll eru skip þessi byggð til þessara nota og flest ný eða nýleg, byggð eftir styrjöldina. Þau eru grunnskreið og hraðskreið. Þeim er ætlað að snúast milli eyja, hólma og skerja þarna vestur í skerjagarðinum. Yfirbyggingin er mikil, nær milli borða, og næstum milli stafna. Henni er jafnan aðeins skipt í tvo sali fyrir farþegana til að dvelja í. Þar eru góð sæti eins og í strætisvögnum heima eða langferðabifreiðum. Þegar blítt er veður og stillt, geta farþegar setið í skjólsætum á þaki farþegarúmsins og notið þar útsýnis. Byggingarlag þessara skipa og gerð öll samrýmist langri reynslu Norðmanna um farþegaflutninga á þessum slóðum.
Með einu skipinu tökum við okkur far norður á strendur Strílalands. Áður fyrr var orðið „Stríli“ svipaðrar merkingar og „útnesjamaður“ heima og litið á menningu þeirra alla og búnaðarháttu eins og „útnesjamennsku“. Hið „fína“ verzlunarfólk Bergensborgar fann þá mikið til sín. Það leit niður á bændur og búalið, sjómenn og annað sístritandi fólk með sigg í lófum í hinni hörðu lífsbaráttu á nesjum og eyjum í nágrenni borgarinnar.
En góð þótti samt framleiðsla þessara nágranna til að græða á of fjár í milliliðaprangi og kaupmangarastandi allskonar.
Hér hefur orðið breyting á. Nú bera borgarbúar virðingu fyrir þessum nágrönnum sínum, er reynzt hafa kjarnafólk, sem stendur ekki að baki öðrum í sannri menningu og atorku. Lífsbaráttan er oft ærið hörð þarna vestur við ólgandi hafið, þar sem úrkoma, vindar og annars veðrátta öll er svipuð og heima í Eyjum, og úrkoma þó öllu meiri. Atvinnuhættir á marga lund einnig svipaðir.
Fyrst liggur leiðin út voginn, sem er elzti hluti hafnarinnar. Á hægri hönd er Bryggjan (þýzka bryggjan) og meðfram henni standa enn nokkur verzlunarhús frá tímum Hansastaðakaupmannanna og snúa gafli að bryggju og höfn. Utar með Voginum er Hákonarhöllin sem Hákon konungur Hákonarson hinn gamli lét byggja. Hann lét skreyta veggi hallarinnar listaverkum og málverkum, er greindu frá merkum atburðum í sögu norsku konungsættarinnar. Ég kom í Hákonarhöllina fyrir 30 árum og skoðaði hana þá rækilega. Ég undraðist stórlega allt, sem ég sá þar, þó að sturlungaöldin heima yrði mér ríkust í huga. Konungsnafnið leiddi hugann heim.
Síðan 20. apríl 1944, er sprengingin mikla varð á Voginum og enn er í minnum manna, er Hákonarhöllin útveggirnir einir. Brann þá af henni þakið og annað, sem brunnið gat. Viðgerðin bíður betri tíma, því að Norðmenn hafa haft öðrum hnöppum að hneppa og annars staðar brýnni þörf og meir aðkallandi fyrir fjármagn sitt og framtak í viðreisnarlífi þjóðarinnar, en að gera við og endurbæta gamla minjagripi. Þeir verða að bíða betri tíma og þola það.
Ólafur konungur kyrri stofnaði Björgvinjarkaupstað við Voginn, svo sem Snorri greinir frá í Heimskringlu. Ár af ári og öld af öld óx Björgvinjarkaupstaður og var á miðöldum og síðar mesta eða ein allra mesta verzlunarborg á Norðurlöndum. Bergen var verzlunarmiðstöð Vestur og Norður-Noregs og hafði mikil viðskipti og verzlunarvöld heima á gamla Fróni, á Grænlandi, Færeyjum, Orkneyjum og jafnvel á Skotlandi og Englandi.
Bergen er nú menningarmiðstöð Vestur-Noregs með söfnum sínum, háskóla, menntaskólum, verzlunarskólum, framhaldsskólum og iðnaðarskólum. Ennþá eru verzlun, siglingar og sjávarútvegur helztu atvinnuvegirnir, og svo iðnaður. Framhaldsskólarnir, sem taka við af barnaskólum borgarinnar, eru sniðnir eftir þörfum atvinnulífsins í borginni.
Þegar út úr Voginum kemur, tekur Bergensfjörðurinn við, eða „Byfjorden“, eins og hann er nú kallaður manna á milli. Síðan er haldið norður sund milli Eyja, skerja og hólma. Nokkur skógartré eru þarna á víð og dreif og ekki þroskamikil, sýnist okkur við samanburð annarsstaðar hér í Vestur-Noregi. Samfelldur skógur sést enginn. Margir Norðmenn hyggja nú til skógræktar á eyjum þessum, og síðar sáum við þar vaxtar- og þroskavænleg furutré og önnur barrtré.
Sundin eru víða djúp, þó að þau séu þröng, og aðdýpi mikið. Bryggjur eru víða stuttar, en þær eru mjög víða. Að þeim renna farþegabátarnir, hleypa fólki á land og taka fólk. Tæpast er taug skotið á land um festarstólpa, því að viðstaða er svo að segja engin á hverjum stað, en viðkomustaðirnir margir. Í sambandi við komu bátsins á fjölmennustu staðina eru fastar áætlunarferðir bifreiða, sem flytja fólk um grenndina eða nærliggjandi lendur. Stundvísi öll í ferðum þessum virtist okkur til fyrirmyndar, og ferðaáætluninni fylgt svo nákvæmlega, að tæpast skeikaði mínútu stundum.
Eftir tveggja tíma ferðalag náðum við „fyrirheitna landinu.“
Formaður ungmennafélagsins tók á móti okkur og fylgdi okkur að húsi því, er við skyldum gista í, en skemmtunin skyldi verða um kvöldið. Ekkert gistihús var á staðnum og gistum við því hjá einstaklingi.
Húsfreyja tók innilega á móti okkur og leiddi í stofu. Hér bjó auðsjáanlega velmegandi fólk og myndarlegt. Húsið, húsgögn og umgengni bar þess vitni, virtist okkur.
Hlýtt var í stofunni. Við heitan ofninn kúrði köttur á lágu hægindi. Aldrei höfðum við séð jafn stóran kött. Hann lét sig gestina engu skipta, teygði úr sér og svaf.
Við erum í borðstofunni. Það leynir sér ekki, að húsið er plankahús, eins og flest öll íbúðarhús til sjávar og sveita í Noregi. Veggirnir eru úr 7 cm þykkum og 22 cm breiðum plönkum, tvínótuðum. Þeir eru lagðir tjörupappa að utan og síðan borðum, sem eru sköruð, ekki ólíkt baðstofusúð hjá okkur heima. En að innan eru plankaveggirnir berir, en auðvitað heflaðir, oft eða oftast ómálaðir. Þykir það þjóðlegt og fallegt, — og ódýrast verður það. „Þú ferð víst ekki að skemma svona fallega stofuveggi með því að klína á þá málningu,“ heyrði ég einu sinni Norðmann segja við annan, sem nýlega hafði byggt sér íbúðarhús.
Nú þykjumst við heyra, að húsbóndinn sé kominn inn í eldhús, kátur karl, sem leikur við hvern sinn fingur og hlær mikið. Síðan opnar hann stofudyrnar. Halló, hverskonar fólk ertu annars búinn að fá í húsið, kona?“ segir hann um leið og hann snarast inn úr dyrunum. Hún brosir. „Íslendingar, verið þið hjartanlega velkomin til okkar, það var þó ánægjulegt að fá að hýsa svo nákomna ættingja eða frændur í dag.“ Þetta er þéttvaxinn náungi, lifandi og léttur í tali og töktum.
„Nei, lítið á köttinn,“ segir hann, ,,sá á rólega og hlýlega daga. — Við segjum stundum hérna í Noregi, að ævi heimiliskattarins beri heimilisfriðnum og heimilishamingjunni vitni.“ Svo hló hann til konu sinnar. Hún brosti til hans. Augnaráðið leyndi því ekki, fannst mér, að ennþá voru þessi hjón meira en „kunningjar“ í hjónabandinu, þó að aldur barnanna vitnaði um langt samlíf, enda hjónin af léttasta skeiði. Á þessu heimili var friðsælt að vera. Þarna leið okkur vel.
Áður en skemmtunin hófst hjá ungmennafélaginu um kvöldið, hafði ég komizt að því, að þessi glaðværi húsbóndi var frömuður í margskonar menningarmálum sveitarinnar, en starf hans var smíðakennsla við ungmennaskólann þar. Jafnframt rak hann húsgagnaverksmiðju.
Hann beitti sér nú fyrir byggingu heilsuverndarstöðvar með sturtuböðum og kerlaugum handa almenningi, svo og gufubaðstofu. Í fleiri félagsmálum var hann forystumaður og áhuginn logaði og brann.
Eftir að „Íslandsþættinum“ var lokið á skemmtuninni, vorum við beðin að bera innilegar vina- og frændakveðjur heim til allra Íslendinga og þá alveg sérstaklega til æskulýðsins heima. Það gerum við hér með, svo langt sem það nær.

Þ.Þ.V.