Blik 1952/Kappa- og hetjutal

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1952Kappa- og hetjutal


Frá því greinir í gömlum annálum við árið 1952, að þá gerðust miklir atburðir á Íslandi.
Þá fundust eyjar fyrir landi, er Vestmannaeyjar heita. Þar er Breiðablik. Þar er skóli. Þá kom farandi kona úr ríki Dana og hugðist gera skelk í Eyjum. Þá urðu Eyverjar hræddir og hófu endurreisn virkja og víggarða á Skansinum. Hugðu menn hana draga mundu Súlnasker til Danmerkur og auka þar við, því að Danmörk er lítil, síðan hún missti Ísland. En er menn frágu, að Danan færi með friði, þá hugðu menn óþarft að endurreisa vígi á Skansinum.
Breiðablik er staða beztur á landi hér, og stendur á víðum velli, er Tún heitir. Þar skín ljós, er lýsir allar Eyjar. Það er menntaljós. Þar heitir Gagnfræðaskóli.
Nú sem Dana kom nær Breiðabliki, þá barst henni ákafur klukkusláttur og svo fagur, að hún kvaðst þvílíkan aldrei heyrt hafa. Þar hringdi Guðjón klukkari, en fylking mikil fór út og norður fyrir hús. Staðnæmdist fylkingin hjá holu einni eða gröf, er járnhlemmur einn hvíldi yfir. Lyftu nú þrír berserkir hlemmnum og létu þar niður í eitthvað, er hún sá eigi, hvað var. En það frétti hún síðar, að þá hefði jarðaðar verið kennslustundir. Eru þær hringdar út með vegsemd mikilli á Guðjón-legan hátt. Þá gekk þar fram Ólafur. Hann er frá Ofanleiti. Hann leit mjög ofan og harmaði mjög. Kastar hann nú rekum og mælir, hrærður í huga: „Drottinn blessi dönskuna. Far vel og haf þökk fyrir unaðsstundir liðinna alda.“ Þótti Dönu útför dönskunnar virðuleg ger og með hinum mesta sóma. Svo frétti hún um aðrar kennslustundir, að þær voru dysjaðar með viðhöfn í jarðfalli því, er norðan er undir húsinu. Var jafnan grátur mikill og tannagnístran, er kennslustundir voru kvaddar hinstu kveðju. Að lokinni greftran hóf liðið upp söng mikinn og skrúðgekk inn í Breiðablik. Hófst nú undirbúningur undir greftrun annarra stunda, er skyldi vera að liðnum 40 mínútum og umfram 5. Greip þá Dana færið og hóf liðskönnun. Kom hún í sal einn mikinn, er 3. bekkur kallast. Sá hún, er fylkingin seig inn og hneig í sæti. Sýndist henni undur mikið, er svo fjölmennt lið rýmdist í svo víðum sal. Þá kvað hún „Liðið er fagurt og frítt, og fannhvít er taflan af tölum, hendurnar hvítar sem skyr, hárið er ljóst eða jarpt.“
Það þótti Dönu furðulegt, er liðið var svo fjölmennt. Þar voru níu. Fremstar fóru hamhleypur, en utar frá setum fóru Valkyrjur. Því heita þær Valkyrjur, að þær kyrja kórsöng einn válegan, er kennslustund fellur í valinn.
Fyrstur hamhleypna er Bjarni. Hann skrýðist ham, er Úlpa heitir. Bítur hana hvorki algebra né danska. Bjarni vinnur að uppgötvunum, er koma skulu í stað þeirra, er vísindamenn hafa gert. Hefur hann smíðað nýja vog, er vega skal vind og vatn og betri er en loftvog. Er nú vindur 8 eða 9 kíló í Eyjum, er áður var mældur í stigum. Honum til vinstri handar er Ólafur, er hyggst verða skerprestur. Ætla menn að hann mundi heilla Elínu, sem er ein af Valkyrjum, í skerið til sín. Er hann langur og ljós á húð og hár, króknefjaður og upphafið í framan. Guðjón er „þriðji maðurinn“. Hann er klukkari og gætir klukku á armi sér og slær kólfi í annarri, er hímir föl og framúrleg úti í horni sem ljóðlist. Heyrist klukk hans vítt of veröld alla.
Hann er foringi málskrafsmanna, enda segir hann aldrei orð, utan já og nei, á málþingum. Síðastur er Björn. Hann er 1/4 kappanna í bekknum. Hann hefur reykháfinn að baki sér og þykir betra en ekki. Hann kann orð Kára: „Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi.“ Því þótti honum reykháfurinn betri en nafni hans í Mörk eða Ketill skrækur, er hann stóð að baki Skugga-Sveins. Hann er þeirrar náttúru, að öll kaun græðast, er hann snertir. Hann er læknir góður. Hann þrammar um gólf á rosabullum úr ríki Leifs heppna, þrunginn móði sem Þór forðum.
Elín sú, er áður var nefnd, ber höfuð og hár yfir allar aðrar Valkyrjur. Hún er ljós á brún og brá. Hún er sögð spræk og síbrosandi, en kyrrlát sem ráðsett prestsfrú. Við hlið hennar sitja systur tvær, er bíta fast frá sér. Þær eru prúðar og hvers manns hugljúfi. Kristín er á móti formúlum og hyggst lesa stærðfræði formúlulaust. Hún fer aldrei „lengur“ en hún gengur. Hildur er broshýr og síróleg, en fer á fjörurnar, er slær í bardaga. Dynja þá „Plönturnar“ á þeim, sem fyrir eru, er hún færist í aukana.
Tvær eru meyjar, er næst sitja aftan við berserkina á fremsta bekk. Þótti þeim tryggara að hafa stuðning í bakið, þegar þeir gata. Reyna meyjar eftir mætti að fylla í „götin“ með hvíslingum. Þær eru betri en Ketill, Björn og reykháfurinn til samans.
Önnur meyja heitir Edda. Hún er allra sveina augnayndi. Hún syngur jafnan við sauma mansöng um horfinn ástvin.

„Til Vesturheims hönd mín bendir
og hugurinn kallar sár:
Komdu, æ, bíddu og klipptu
úr kollinum mínum ár.“

Halldóra rekur lestina. Hún er rauðhærð. Hún mænir löngunaraugum til flugvéla. Hún er bekkjaprýði. Glóir á hár hennar og er hún svo sem viti, er sést aldrei þegar hann á að sjást. Einkum gefur karlkyn henni hýrt auga, enda er hún bekkjarins dýrasti kvenkostur.
Er hér var komið sögu, skyldi hefjast dysjun á ný. Tóku nú menn að skrýðast og Valkyrjur hófu leit að tóninum, er þær höfðu týnt í liðskönnuninni. Kvað nú við klukknahljómur, er heyrðist upp á Blátind. Nú varð Dana hrædd og brá sér til „Sjöstjörnunnar“. Fór hún á haf út, að hljómurinn tryllti hana ekki. Renndi hún færi við Einidrang og fékk eina blágómu. Að svo búnu hélt hún til Reykjavíkur, fegin frelsinu.
Hér er handritið máð og ólæsilegt. Og lúkum vér svo annálsbroti þessu. „Drottinn minn gefi dauðum ró, en hinum líkn er lifa.“
Ritnefnd þessa rits skipa:
Bjarni Björnsson III. b.,
Elín Guðfinnsdóttir III. b.,
Aðalsteinn Brynjúlfsson II. b.,
Jóh. Sigfússon II. b.,
Páll Einarsson II. b.,
Guðbjörg Pálsdóttir II. b.,
Ágúst Hreggviðsson I. b.,
Ólafía Ásmundsdóttir I. bekk.
Ábyrgðarm. Sigurður Finnsson.
Stjórn Málfundafélags Gagnfræðaskólans skipa:
Guðjón Ólafsson form.,
Hildur Jónsdóttir, ritari,
Jóhann Sigfússon, féhirðir.
Prentsmiðjan Eyrún h.f.