Blik 1954/Liðskönnun

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1954



ctr



„Hana nú, þá er það síminn. Aldrei friður! — Halló, 511! halló!“
„Er það Gudda?“ er spurt við hinn endann.
„Já, það er hún, það er Gudda Gez,“ svara ég snúðugt.
„Sæl og blessuð, Gudda mín, við erum hérna tvær úr Gagnfræðaskólanum, hún Lóló og hún Tóta, þú kannast við okkur.“ Þær sögðu þetta svo undur blítt, blessaðar táturnar, að ég bráðnaði öll. — ,,Já, sælar og blessaðar, telpur mínar, hvað get ég gert fyrir ykkur?“ „Koma upp í Gagnfræðaskóla til okkar og framkvæma hina árlegu liðskönnun, þú skilur.“
„Því miður get ég ekki komið uppeftir sjálf að þessu sinni, ég er fárveik, en ég skal lána ykkur hann Gvend minn gallharð, hann hefur komið þarna fyrr. — Ha, hvað að mér gengur? Bansett gigtin ætlar að gera út af við mig,“ svaraði ég, „ég er einmitt að fara í blóðhreinsun til hans Einars. — Hvort hún er í lærunum? Og sussu nei og aftur nei. Hún er öll í innyflunum. Það brakar í mér allri innvortis. Ég hefi iðragigt á hæsta stigi. Ójá, það held ég nú, fluggigt hét það í gamla daga.“
Þær virtust verða himinlifandi að fá hann Gvend minn lánaðan. En hér var galli á gjöf Njarðar. Hann Gvendur er svo rækalli nærsýnn, að hann verður jafnan að nota sjónaukann sinn til þess svo sem eins og að draga hlutina nær sér. Og mér var það alveg ósárt, þó að hann kikkaði svolítið inn í hjartahólfin í meyjunum hans Þorsteins þarna í 3. bekk.
Nú er það vitanlegt öllum okkar mörgu góðu vinum og venzlamönnum, að Gvendur minn gallharður heldur sig hagyrðing og er það, þegar létt liggur í honum. Þess vegna hefur hann tjáð mér það, sem hann sá, að nokkru leyti í ljóðum. Satt að segja er hann ekki skrifandi sjálfur, og verð ég því að krota þetta niður fyrir hann.
Um leið og Gvendur skrapp út úr dyrunum í liðskönnunina, varð honum þessi vísa á tungu um sjálfan sig:

„Sorgum firrtur, sit og skrafa,
sífellt yrkjandi.
Alltaf þyrfti ég helzt að hafa
hjartastyrkjandi.“

Gvendur er alltaf dálítið feiminn og penpíulegur á mannamótum, þó að gallharður sé hann heima fyrir. Þess vegna er ég vön að gefa honum nokkra dropa af groggi, þegar hann fer á mannfundi, en nú skaut ég vissulega loku fyrir það.
Gvendur er þaullesinn í ættfræði og man aftur í fornaldir áa og ættliði.
Hér hefst frásögn hans um liðskönnunina.
Hrafn er maður nefndur. Hann er þybbinn vexti, rammur að afli og manna sjálegastur. Hann situr á skutstól í 3. bekk. Kominn er Hrafn í beinan karllegg af Búa inum digra Vésetasyni, þess er fóstraði Áslák Hólm skalla, er féll fyrir steðjageiri Vigfúsar Víga-Glúmssonar í Hjörungavogi, þar sem Búi inn digri leitaði að lokum botnsins. Hrafn er hinn fróðhugaði halur og inn skopsnjalli leikari skólans og meyjayndi 3. bekkjar. Hann hefur æft Atlas í landsprófsdeild, því að hann er þar einn með fjórum yngismeyjum.

„Og hvernig helzt það fer,
er hart að gizka á,
því allar ætla sér
þann yngismann að fá.
Ég heyri sagt þær hyggi að ástin dafni
helzt um of hjá þessum meyja Hrafni.
Þó verður aðeins ein,
sem öðlast þetta hnoss
og fær að faðma svein.
Ó, friður sé með oss!
En meðal hinna þriggja ungu svanna
mun heyrast óp og gnístran tanna.“

Við hlið Hrafns situr inn þolgóði og háttprúði höldaniðjungur Helgi frá Norðurgarði fyrir hraun ofan. Brosir hann sjaldan, en hlær aldrei. Hann hyggst bóndi verða, svo sem hann á kyn til. Helga þessum er lítt gefið um hið veika kyn. Brynjaður er hann fyrir hinum áleitnu Amorsörvum inna ásthneigðu meyja í bekknum. — Helgi er Austfirðingur að móðurætt, góðkynjaður í blandaðan legg frá Þorgerði silfru Þorvaldsdóttur ins háva í Fljótsdal austur.
Framanvert við Helga situr inn orðsnjalli og þrumuraddaði Ágúst, maður rammur að afli og forn í skapi. Ágúst er inn ráðsvinni herforingi skólans og stýrir fræknum her, er Málæðaher heitir. Þegar Ágúst talar fyrir her sínum, er röddin svo ógurleg, að Ævari sessunaut hans fellur hjarta í buxnaskálm niður. Er hann þó enginn bleyðiseimaþollur.
Ágúst er svo mikill ræðumaður, að

„Ræður hans minna á meistara Jón,
þann mælskunnar jöfur og kirkjunnar þjón.
Á Vestmanna-íslenzku eru þær fluttar
og ástsælar fyrir, hvað þær eru stuttar.“

Ágúst er kominn af Þorleifi beiskalda Þorleikssyni auðga Ormssyni Ragnheiðarsyni Arnórsdóttur Þorkelssonar kröflu Þorgrímssonar Kornsárgoða, er var dóttursonur Ingimundar gamla í Vatnsdal norður.
Svo sem greint var, situr Ævar hjá Ágústi inum þrumuraddaða og stálhugaða herforingja. Ævar er inn margráðugi og slyngi piparjunkupilsafeykir 3. bekkjar og ið mikla kvennagull, en meyjarskjarr er hann í meira lagi.
Ævar er dökkur á brún og brá svo sem verið hafa feður hans og forfeður í þrjátíu ættliði. Hann var snemmindis bráðgjör og er mikill á allan vöxt, sterkur og stæltur og stikar jafnan stórum. Um Ævar er þetta kveðið:

„Ævar á ég minnast má
og meyjum frá ég inni,
að vöxtinn á er allur sá
á við þrjá sér minni.“

Ævar er kynjaður vel, kominn af ætt Ölfusinga. Formóðir hans er Þórvör Þormóðsdóttir Skapta Óleifssonar breiðs Einarssonar Ölvissonar barnakarls.
Í barkarúmi bekkjarins situr inn eirhaddaði og inn geðspaki Ægir Austmann, karlkynjaður af Vestfjörðum, kominn þar af Úlfi inum skjálga Högnasyni hvíta Óblauðssyni Ótryggssyni Hjörleifssyni inum kvensama.
Í kvenlegg á Ægir ættir að rekja til eins ins merkasta höldakyns á Austfjörðum, niðjaður frá Þórdísi toddu, systur Víga-Bjarna Brodd-Helgasonar og föðursystur Skegg-Brodda föður Bjarna húslangs.
Höfuðið á Ægi er einstök reikningsvél, sem Lóló undrast mest. Hann kvað hafa tvær klukkur með sér í skólann til þess að tíminn líði fljótar í vissum kennslustundum.
Bros Ægis er svo blítt, að meyjarhjartað í Tótu hrærist jafnan við. Kveðið var um Ægi, er hann var hænsnahirðir.

„Ægir brosir breitt og stillt.
Brosið getur drósir villt.
Hans er lundin ljúf og trygg,
í lófunum þó hann hafi sigg.
Helzt ei gala hanarnir á kvöldin,
því hænurnar þá taka til sín völdin.“

Þá kannaði Gvendur allrækilega námsmeyjahópinn í 3. bekk. Hann kannaðist við þær flestar frá dansskemmtun einni, er hann villtist inn á í skólanum í vetur snemma. Þegar henni sleit, kvað hann við raust þessa vísu:

„Þar dönsuðu dýrðlegar meyjar
við dáðríka, skrautklædda sveina.
Ég undi mér yzt úti í horni,
sá eini, sem hafði ekki neina.“

Það er óhætt að fullyrða, að görnin í honum Gvendi hlakkaði, þegar hann nú átti þess kost að kynnast betur þessum dýrðlega meyjahóp.
Það eru ríkar hneigðir hjá Gvendi að rannsaka fyrst skutinn. Þess vegna hóf hann könnun sína á Hrafni inum horska á skutstóli. Á skutstóli þar situr einnig in hefðborna mær Lára, in maddömulega og in málsnjalla.
Lára þessi er svo léttlynd, að hún megnar að lina hálfar sorgir heimsbyggðarinnar með hugarhlýju sinni, a.m.k. linar hún til hlítar allar sorgir sinna námsþjökuðu bekkjarsystkina, svo að engar verða.
Lára er in orðspaka og ágæta námsmeyja, vitur og víðsýn, enda telur hún kyn sitt til inna vizkudrýgri Íslendinga, komin í beinan kvenlegg af Hallberu abbadís Þorsteinsdóttur og þeim inum kunnu Oddaverjum.
Við hlið innar vísu Láru situr in ráðsvinna og in brúnhaddaða Katrín af köppum komin, in lágværa og in hægláta mær. Hún er in málsparra og sætisgranna, er ann því, að Lára in málsnjalla mæli fyrir báðar og sitji stól beggja. Heyrzt hefur, að skólastjóri álykti Katrínu eiganda ins gleggsta kjarnahjarna í bekknum til allra stærðfræðilegra iðkana. Jafnframt er Katrín ið gullna hefðarfrúarefni. Er það talið með inum sjaldgæfu hlutum, að þessir tveir eiginleikar fari saman, nema mjög síður sé.
Ólafía heitir inn ráðmagnaði ristill í bekknum. Hún er in mittisgranna og mjóleggjaða menþöll og ættarmergur, in glaðlynda og vænsta meyja, krullinhár er hún og helzt til snögg í hreyfingum öllum. Hún hvarflar jafnan inum grábláu dreymandi brámánum sínum í austur suðaustur meðan á kennslu stendur.
Inar tölvísu hagskýrslur eru hennar hugaryndi. Þeim kynnist hún bezt í inum fróðlegu félagsfræðitímum, er skólastjóri bregður sér í föðurlandsbuxurnar. Við hlið innar krúsindúlluðu og innar miðmjóu meyjar situr Þórunn nokkur in mikilhæfa og in seiðmagnaða lofnardís, ættuð að austan, komin af Ásbirni loðinhöfða Ástríðarsyni Þorvaldsdóttur holbarka.
Þórunn er inn snjalli bókfærslufræðingur skólans. Í inum mjúklegu fimleikaæfingum er Þórunn einnig lárviðarhafi og in þokkasælasta þrúðurfalda.
Þegar Gvendur hafði rannsakað allítarlega þessa ina björtu baugalín, minntist hann margra inna mætu stunda, er hann sjálfur og Steinkell höfðu dvalið heima hjá henni ið fyrra ár og gerði hann þá inum unga listamanni upp orðið:

„Fæstir munu mér það lá,
mest þótt gríni sinni,
að bezt ég uni heima hjá
henni Tótu minni.“

Guðrún heitir skörungur mikill, og er hún in hógláta pilsaprýði bekkjarins. Hún er in sómakæra mær, hvar sem hún er og hvar sem hún fer. Hún er sem inn geislandi röðull, þegar geðið er glatt, en sé inum næmu kenndum hennar misboðið, „hrökkva af augunum neistaél“, og in fasta þrumurödd hennar svellur að heyrnartólum „telpnanna“. Guðrún er in hláturmilda húsmóðir bekkjarins og inn árvakri ármaður hans, þ.e. umsjónarmaður.
Þegar Gvendur inn gallharði leit í augu innar hógværu og fastlyndu húsmóður bekkjarins, hljóp þessi staka fram úr hugarfylgsnum hans:

„Ég í meyjarauga leit,
á augabragði sá, að
innst í hennar hjartareit
hreint var allt og fágað.“

Við ina hjartahlýju hlið Guðrúnar innar stjórnsömu situr in árrisula og rósfingraða morgungyðja skólans, hringjari hans og samvizka bekkjarins, Sigrún að nafni. Hefur hún glóbjart hár sem gull barið. In fagurlokkaða meyja og in Amorssvinna er kynjuð í beinan kvenlegg frá Þuríði dyllu. Um Sigrúnu er þetta kveðið:

„Undurfalleg, ung og rjóð,
af öllum fljóðum ber hún.
Dóttir Einars, ung og rjóð,
æskudyggðug er hún.“

Um Sigrúnu hefur skotinn kveðið þetta:

„Nú vil ég, Sigrún mín, sýna á því lit
að sanna, hvað þú ert mér góð;
í kvöldrökkursþögninni kaldur ég sit
og kveð um þig „Sigrúnar ljóð“.
Og ég er nú ríkari en ég var í gær,
því að ég á mér minningu nú,
hún er mér fögur og hún er mér kær,
því að hún er mín glóbjarta þú.“

Að lokum lét Gvendur í ljós þessar óskir frá eigin brjósti til þessa mannvænlega ungmennahóps:

„Óskum við þau ætíð verði
okkar þjóð til vegs og sóma.
Svo skulu allir þyrstir þamba
þeirra skál í kúarjóma.“

Allra síðast leyfi ég mér að tjá reynslu Gvendar míns gallharðs í ástalífinu og hjónabandinu með vísu, sem hann orti víst sjálfur fyrir nokkrum árum. Hún er svona:

Fiskiskeið um Ægisál
og ástagöngur kvenna
ætla skaltu engri sál
utan Guði að kenna.
Í Guðs friði.
Gudda Gez.