Blik 1954/Skátafélag Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1954



ctr


ODDGEIR KRISTJÁNSSON:


Minningar frá Skátafélagi Vestmannaeyja
1925- 1926
Oddgeir Kristjánsson.

Sumarið 1925 komu til Vestmannaeyja tveir ungir menn frá Reykjavík og stofnsettu Skátafélag. Piltar þessir hétu Ólafur Þorvarðsson og Erling Tulinius. Dvöldu þeir í Eyjum um hálfsmánaðartíma og önnuðust kennslu hinna væntanlegu flokksforingja.

Jóhann Þ. Jósefsson, alþingismaður, var kosinn félagsformaður, Óskar Sigurðsson endurskoðandi, sveitarforingi.
Flokksforingjar voru kosnir: Harald St. Björnsson, fyrir flokkinn „Hauka“, Ólafur Björnsson fyrir „Birni“, Axel Halldórsson fyrir flokkinn „Erni“ og síðar bættist fjórði flokkurinn við og nefndist „Þrestir“, og var Oddgeir Kristjánsson flokksforingi.
Félagið var nefnt „Skátafélag Vestmannaeyja“.
„Kvenskátafélag Vestmannaeyja“ var og stofnað um leið og var ungfrú Jakobína Ásmundsdóttir frá Fagurlyst sveitarforingi.
Æfingar voru stundaðar af kappi bæði úti og inni, var mikill áhugi ríkjandi hjá félagsmönnum.
Gönguæfingar fóru aðallega fram inni á Póstflötum.
Þegar Ólafur og Erling fóru héðan, var þeim haldið samsæti í „Gúttó“. Var það mjög skemmtilegt. Tóku þátt í því kvenskátar og Skátafélag Vestmannaeyja. Þar var margt til skemmtunar og minnist ég sérstaklega eins þáttar, en það var svokölluð „skrallmúsík“. Hún var framleidd með einum trompet, trumbu, potthlemmum, skólpfötu og þvottabretti. Hljóðfæraleikararnir munu hafa verið þeir Oddgeir Kristjánsson, Harald St. Björnsson, Sigurður Scheving, Óskar Gíslason og Ólafur Björnsson. Þótti þetta áhrifamikil tónlist .
Þetta sama sumar hófust útilegur og var hin fyrsta farin í Steinsstaðaheiði. Kalt var heldur um nóttina, því að norðanátt var allhörð, en veður mildaðist, er á daginn leið.
Harald St. Björnsson annaðist matreiðslu í þessari fyrstu útilegu og fórst vel úr hendi.
Margir í hinu nýja skátafélagi voru meðlimir í Lúðrasveit Vestmannaeyja. Voru þeir með lúðra sína í útilegunni og voru þeir óspart þeyttir.
Heldur var útileguútbúnaður lélegur í þessari fyrstu útilegu, en það lagaðist brátt, og fljótlega var farið í fleiri. Helzt var dvalið í Lyngfellisdal, Háubúrum á Sæfelli, í Steinsstaðaheiðinni og í Herjólfsdal. Voru útilegurnar skemmtilegar og hressandi.
Um haustið var haldin skemmtun í „Gúttó“ og var hún hin ánægjulegasta.
Næsta sumar, 1926, var starfsemi skátafélaganna í miklum blóma. Það sama sumar fóru fimm piltar úr skátafélaginu í ferðalag til Þórsmerkur og Reykjavíkur.
Frá þeirri ferð vildi ég nú gjarnan skýra, eftir því sem minni hrekkur til.
Í byrjun túnasláttar var mikið um ferðir frá Vestmannaeyjum að Landeyjasandi með kaupafólk. Einnig sóttu Vestmannaeyingar mikið íþróttamót Fljótshlíðinga og Landeyinga, en þau voru haldin einhvern fyrstu daga júlímánaðar, annað árið á Kanastaðabökkum, en hitt á Lambey, sem er eyja úti í Þverá, skammt fyrir neðan prestssetrið Breiðabólsstað í Fljótshlíð.
Þegar undirbúningurinn að ferðinni hófst, var gert ráð fyrir, að tíu skátar færu í ferðalagið, en þeir urðu aðeins fimm, er til kom, en það voru: Harald St. Björnsson, Karl Kristmanns, Óskar Gíslason, Sigurður Scheving og Oddgeir Kristjánsson. Voru þessir piltar á svipuðum aldri, 14 til 15 ára. Harald var fararstjóri. Sigurður var ráðinn matsveinn og til að annast matvælakaup öll. Ég man það, að lítið var um svefn aðfaranótt laugardagsins, sem ferðin var afráðin. Tilhlökkunin var mikil.
Svo rann hinn langþráði dagur upp bjartur og fagur, sjórinn vatnsdauður og stafalogn. Dásamlegt ferðaveður.
Við vorum sannarlega í góðu skapi, er við lögðum af stað frá Eyjum. Engin sjóveiki gerði vart við sig á leiðinni að Hallgeirseyjarsandi, en þangað var farið vegna íþróttamóts, sem var daginn eftir á Kanastaðabökkum. Lendingin við „Sandinn“ gekk að óskum, og mátti segja, að varla vöknaði neinn í fæturna. Er það sjaldgæft við suðurstönd Íslands, sem liggur opin mót úthafi.
Röltum við með dót okkar að grænni flöt við Affallsós og slógum upp tjaldi. Dvöldum þar í góðu yfirlæti til næsta morguns.
Héldum við fyrst heim að Hallgeirsey, til þess að reyna að fá hest undir stærstu pinklana.
Þá bjó í Hallgeirsey Guðlaugur bóndi í Vesturbænum, en í Austurbænum bjó Guðjón Jónsson. Í Hallgeirseyjarhjáleigu var þá Kaupfélag Hallgeirseyjar og var Guðbrandur Magnússon kaupfélagsstjóri, síðar forstjóri Áfengisverzlunar ríkisins.
Þegar við höfðum fengið hestinn í Hallgeirsey, komum við í búð kaupfélagsins til að kaupa ýmislegt smávegis. Þegar við höfðum lokið erindi okkar þar og bjuggumst til að halda af stað, bauð Guðbrandur okkur að borða með sér morgunverð. Var það boð svo freistandi, að við stóðumst ekki mátið og þáðum það þakksamlega. Guðbrandur var hinn kátasti og lék við hvern sinn fingur, sagði sögur og söng með okkur. Annarrar eins gestrisni hef ég óvíða notið og er mér alltaf hlýtt til Guðbrands síðan. Þegar við höfðum lokið við að snæða, fylgdi Guðbrandur okkur af stað og kvaddi okkur með góðum ráðleggingum. Þökkuðum við honum hjartanlega, og óskuðum honum alls góðs.
Sólin skein í heiði, og fljótlega fórum við að svitna, þótt Gráni gamli (en svo hét hesturinn) bæri nú aðalfarangurinn. Tíndum við af okkur það, sem við gátum við okkur losað og varð þá gangan léttari.
Brátt fóru Landeyingar að þeysa fram hjá okkur á leiðinni upp að Kanastaðabökkum. Gáfu margir sig á tal við okkur og mátti heyra á þeim, að undarlegur þótti þeim búningur okkar. Skátabúninginn sáu þeir þarna í fyrsta skipti. Leizt þeim við nánari athugun ekki svo illa á fötin og höfðu orð á að hattarnir okkar myndu góðir við heyvinnu, þá sól væri hæst á lofti. Stuttbuxurnar vöktu aftur á móti minni hrifningu og blái klúturinn. Skátahnífarnir þarfaþing. Undruðust ferðamennirnir, að við skyldum vera gangandi og hentu óspart gaman að Grána okkar og spurðu, hvar í ósköpunum við hefðum getað grafið upp þvílíka húðarbykkju. Sögðum við til um það og þótti óvirðulega talað um Grána gamla. Töldum við hann duga, og væri hann mesta þægðarskepna. Mesta kátínu vakti það meðal félaga minna, þegar ung heimasæta bauðst til að hafa mig fyrir framan sig upp að Kanastaðabökkum. Var ég fljótur að neita boðinu og varð stór móðgaður. Stríddu strákarnir mér óspart með þessu.
Loks komumst við á áfangastað og vorum mjög þreyttir, enda óvanir svo langri göngu. Tjölduðum við í skyndi skammt frá hátíðarsvæðinu, hituðum okkur kakósopa og snyrtum okkur eftir föngum.
Voru nú allir í sólskinsskapi og var haldið að skemmtanasvæðinu.
Séra Jón Skagan, prestur að Bergþórshvoli, flutti þarna ræðu og kirkjukór hans annaðist söng. Glímu sýndu piltar úr Fljótshlíð og Landeyjum. Magnús Guðmundsson frá Hólmum í Landeyjum vann glæsilegan sigur. Varð okkur starsýnt á Magnús, en hann er með hæstu mönnum og þrekinn að sama skapi. Þarna hittum við marga Eyjamenn og meðal þeirra Ragnar Benediktsson, og ákvað hann að slást í för með okkur inn að Þórsmörk.
Á íþróttamótinu hitti ég bróður minn Óskar, sem er elztur okkar systkina og ólst upp í Ormskoti í Fljótshlíð hjá móðursystur minni. Ákvað ég að fara með honum og heilsa upp á skyldfólk mitt, en hitta félaga mína kvöldið eftir í Fljótsdal, innsta bænum í Fljótshlíðinni, en þaðan er stutt inn á Þórsmörk. Fórum við um kl. 7 að tjaldi okkar til að undirbúa kvöldmatinn, áður en ég legði af stað upp í Hlíð.
Þegar við komum að tjaldi okkar, lá við tjaldskörina dauðadrukkinn maður og hjá honum tóm fIaska, sem við bárum fljótlega kennsl á. Höfðum við haft með okkur þriggja pela flösku fulla af brennsluspritti til að kveikja á prímusnum. Hafði gesturinn sýnilega gert sig heimakominn í tjaldi okkar og drukkið allt úr flöskunni. Gengum við fljótt úr skugga um, að annað var ekki hreyft af dóti okkar. Tókum við manninn og færðum hann dálítið frá tjaldinu, en hann brá ekki blundi og létum við hann eiga sig og leyfðum honum að sofa úr sér vímuna.
Lagði ég að loknum kveldverði af stað upp í Fljótshlíð. Var hestur minn viljugur og gekk ferðin vel að Ormskoti. Dvaldi ég þar til hádegis næsta dag í góðu yfirlæti, en hélt svo af stað inn að Fljótsdal til móts við félaga mína.
Hest fékk ég ágætan í Ormskoti til Þórsmerkurfararinnar. Hét sá Gauti og var þýðgengur mjög, vatnahestur góður. Vorum við gamlir kunningjar, en ég hafði verið í Ormskoti nokkur sumur áður en þessi ferð var farin.
Lét ég Gauta rölta í hægðum sínum eftir þjóðveginum inn að Fljótsdal, því að ekkert lá á. Gafst mér gott tóm til að virða fyrir mér bæina í Fljótshlíðinni og rifja upp nöfn þeirra.
Í Fljótsdal dvaldi ég til kvölds, en þá komu félagar mínir, ásamt Ragnari og Jóni pósti frá Tjörnum, sem hafði fylgt þeim upp yfir Þverá.
Jón Úlfarsson í Fljótsdal gerðist leiðsögumaður okkar inn að Þórsmörk og gekk ferðin þangað greiðlega, því að lítið var í Markarfljóti þennan dag.
Slógum við tjaldi okkar upp í Húsadal við lítinn læk og var þá komið að miðnætti.
Hvílík kyrrð og friður, þvílík dásamleg fegurð í faðmi hinna hrjóstugu jökla. Engin orð fá lýst þeim tilfinningum, sem brutust um í sál minni þessa unaðsfögru júlínótt.
Það var farið seint að sofa og sofið lengi fram eftir. Enginn okkar skátanna hafði fyrr séð skóg. Við teyguðum að okkur heilnæmt fjallaloftið, þrungið angandi bjarkarilmi.
Næsta dag var farið að skoða sig um Mörkina, en seinnihluta dagsins hvíldum við okkur og sleiktum sólskinið, því að alltaf var sama veðurblíðan.
Dvöldum við á Þórsmörk í þrjá sólarhringa og skoðuðum alla fegurstu staðina þar og gengum á Valahnjúk og Rjúpnafell.
Á kvöldin sátum við við varðeldinn, sungum og sögðum sögur og fórum í leiki. Liðu dagarnir fyrr en varði og á fjórða degi kom Jón með hestana að sækja okkur. Ferðin yfir árnar gekk ágætlega og kvöddum við Jón í Fljótsdal, en þar stigum við í bifreið og lögðum af stað til Reykjavíkur. Komið var við í Múlakoti og þáðar þar góðgerðir og skoðaður blómagarður Guðbjargar húsfreyju. Fannst okkur mikið til um fegurð hans.
Við Garðsauka í Hvolshreppi var bifreiðin stöðvuð og okkur sagt, að ekki yrði ekið lengra þann daginn. Bjuggumst við þá til að slá upp tjaldi okkar, en bifreiðarstjórinn sagði okkur, að B.S.R. ætti þarna ágætan skúr, sem væri með smáeldhúsi og kojum. Væri okkur heimilt að dvelja þar um nóttina, en næsta morgun myndi annar bifreiðarstjóri aka okkur til Reykjavíkur.
Þegar við höfðum komið okkur sæmilega fyrir í skúrnum, fórum við að malla kvöldmat. Lá vel á okkur.
Kvöldinu eyddum við með allskonar leikjum, söng og sögum.
Um miðja nótt hrukkum við upp við það, að maður ruddist inn á okkur og kallaði. „Hver fjandinn, fullt af fólki hér.“ Var þar kominn bifreiðarstjórinn, sem átti að aka okkur til Reykjavíkur. Hét sá Bergur og var gleðimaður mikill og síðar landfrægur bifreiðarstjóri. Var hitað kakó handa Bergi og átti síðan að leggjast til svefns, en það gekk illa. Allir voru tilbúnir í hverskonar strákapör. Hafði hin smitandi kæti bifreiðarstjórans slík áhrif á okkur.
Loksins var sofnað og sváfum við víst flestir draumlaust til kl. 8 næsta morgun, er bifreiðarstjórinn vakti okkur og kvað mál til að fara að tygja sig af stað. Eftir skamma stund var lagt af stað. Voru nú komnir þrír farþegar í viðbót, en það voru ungir Reykvíkingar á heimleið úr sumarleyfi.
Bifreiðin var níu manna Fiatbifreið, með blæjum, en þær sjást nú eigi lengur hér á landi.
Brátt hófst söngur mikill í bifreiðinni og voru hinir nýju samferðamenn ágætir raddmenn.
Þarna heyrði ég í fyrsta skipti „Einn var að smíða ausutetur“ og lærðum við það skjótt. Íslenzk alþýða var þá ekki farin að syngja lög Stephens Foster, sem síðan hafa átt helzt til miklum vinsældum að fagna og þokað burtu miklu betri og upprunalegri tónlist. En það er nú önnur saga.
Þegar til Reykjavíkur kom, fórum við á fund Axels Tuliniusar, skátahöfðingja Íslands, og sátum þar góða veizlu. Sjaldan hefi ég hitt jafn lífsglaðan gamlan mann.
Dvöldumst við hjá honum til kvölds, en tjölduðum þá fyrir ofan Sundlaugar og fór sæmilega um okkur um nóttina.
Daginn eftir héldum við heim með e/s Botníu í ágætu veðri.
Það stóð heima, mig vantaði fimm krónur fyrir fargjaldinu heim, en ég lagði af stað að heiman með fimmtíu krónur. Einn félaga minna hljóp undir baggann með mér og greiddi fargjaldið, svo að þær áhyggjur voru úr sögunni.
Það var nú þá, en hvað þyrfti margar fimmtíu krónur nú, árið 1953, til þess að fara í slíkt ferðalag?
Ég læt ykkur eftir að svara því.

O.K.