Blik 1956/Jón í Gvendarhúsi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1956Jón í Gvendarhúsi


„Gamli Jón í Gvendarhúsi
gekk þar fyrstur inn.“

Svo segir í kímnibrag Magnúsar Stefánssonar (Arnar Arnarsonar) (leiðr.), þeim, er hann orti, þegar æskulýðssamtökin hér í Eyjum byggðu sundskálann sunnan á Eiðinu undir Litlu-Löngu.
Þennan brag fluttu Eyjasjómenn með sér austur á land á fyrstu árum aldarinnar, er þeir voru þar við sjóróðra á sumrum. Þá lærðum við strákarnir hann og sungum hann stundum hástöfum við beitningu eða í aðgerðinni. Ekki flaug þá að mér sú hugsun, að ég síðar á lífsleiðinni ætti eftir að sjá og kynnast sumum þeim mönnum, sem í brag þessum eru nefndir. Aldrei kynntist ég þó nema af afspurn Jóni bónda Jónssyni í Gvendarhúsi. Hann hafði legið í gröf sinni rúm 8 ár, er ég fluttist hingað til Eyja.
Jón bóndi í Gvendarhúsi var á ýmsan hátt sérkennilegur sonur sinnar tíðar. Hann var vel greindur og námfús, glettinn og kerskinn við „yfirmenn“ og valdhafa, góður bóndi á gamla vísu og vel efnaður eftir því sem þá gerðist, enda ötull við búskap sinn, sparneytinn, samhaldssamur og nýtinn. Hann unni ættjörð sinni, ól með sér beiskju vegna örlaga hennar og hataði Dani.
Jón bóndi var sýslunefndarmaður Eyjabúa um skeið og talinn fyrirmaður þeirra að ýmsu leyti sökum góðrar greindar, bjargálna búskapar og festu í skapgerð.
Jón bóndi var fæddur 30. okt. 1833. Hann var einkasonur Jóns bónda Símonarsonar í Gvendarhúsi, óskilgetinn. Áður en Jón Símonarson fluttist hingað út til Eyja og gerðist bóndi í Gvendarhúsi, var hann vinnumaður á Kirkjulandi í Landeyjum. Þar var þá einnig vinnuhjú Guðríður Þórarinsdóttir. Þau eignuðust þar saman þennan son, Jón bónda yngri í Gvendarhúsi.
Ekki er enn ljóst af gömlum skjölum, hvenær Jón Símonarson flytur hingað til Eyja, en vissa er fyrir því, að árið 1837 er hann bóndi í Gvendarhúsi. Var þá Jón yngri fjögurra ára gamall, og ólst þar upp með föður sínum.
Kona Jóns Símonarsonar bónda og stjúpa Jóns yngra var Þuríður Erasmusdóttir.
Séra Jón Austmann og Abel sýslumaður töldu Jón bónda Símonarson einn af helztu fyrirmönnum Eyjanna og einn bezta bónda þar í sinni tíð.
Jón bóndi Jónsson kvæntist Sesselju Jónsdóttur bónda Gíslasonar í Túni hér í Eyjum. Kona Jóns Gíslasonar og móðir Sesselju var Margrét Jónsdóttir frá Núpi undir Eyjafjöllum.
Margrét Jónsdóttir missti mann sinn, Jón Gíslason, vorið 1847. Hann drukknaði 2. dag hvítasunnu í hákarlalegu með Morten Eriksen.
Síðar giftist Margrét Jóni Hannessyni í Nýja-Kastala hér. Sonur þeirra var Hannes hafnsögumaður, formaður og bóndi að Miðhúsum. Þau voru þannig hálfsystkin, Sesselja kona Jóns í Gvendarhúsi og Hannes Jónsson lóðs.
Ekki áttu þau börn saman, Jón og Sesselja. Hinsvegar ólu þau upp nokkur börn, svo sem Jónínu Bjarnadóttur Þorsteinssonar húsmanns í Gvendarhúsi og konu hans, Sigríðar.
Halldór blindi Brynjólfsson var kornbarn, er Brynjólfur formaður faðir hans drukknaði frá stórum barnahópi. Þá tóku þau Sesselja og Jón til sín Halldór litla og ólu hann upp sem sitt barn. Þá ólst einnig upp hjá þeim Björgvin Jónsson frá Vilborgarstöðum þar til hann dó 12 eða 13 ára gamall. Hann var bróðir Lofts bónda á Vilborgarstöðum og þeirra systkina.
Jón bóndi Jónsson í Gvendarhúsi andaðist 13. júní 1919.
Heimild: Á.Á. símritari o.fl.

ctr

Jón bóndi Jónsson í Gvendarhúsi. — Myndin er tekin af
málverki, er Bjarni Björnsson leikari gjörði.
Það er eign Byggðarsafns Vestmannaeyja.


Ýmsar sagnir um Jón bónda í Gvendarhúsi

Margir menn af eldri kynslóðinni í Eyjum kunna ýmsar sagnir frá viðskiptum Jóns bónda við samferðamenn sína. Hann gat verið hnyttinn í orðum og meinlegur í tilsvörum.
Við látum hér fjúka nokkrar af sögum þessum.
Eitt sinn sem oftar kom Jón bóndi inn í Edinborgarbúðina, sem var eign Gísla J. Johnsens kaupmanns. Svo bar við, að kaupmaður sjálfur var í búðinni. Hann tók Jóni bónda með hinni mestu alúð, bauð honum inn fyrir búðarborðið og vildi sýna honum ýmsar vörur í búðinni.
Þetta fágæta tækifæri jók á forvitni Jóns bónda, svo að hann gerðist alláleitinn um að handleika vörur í hillum, opna skúffur og gægjast í þær, svo að kaupmanni fór að þykja nóg um.
„Já, og hvað er svo í þessari skúffu, Gísli minn?“ spurði Jón bóndi og bar sig til að opna hana. „Það er forvitni,“ sagði kaupmaðurinn. Fannst nú Jóni bónda, að mesta alúðin væri horfin úr röddinni. „Oh, þá hefur mér skjátlast,“ sagði bóndi, „ég, sem hélt, að það væri ágirnd.“ — Þar með lauk þessum vinsamlegu viðskiptum.

Rökfærsla Jóns bónda:

„Danir éta mikinn rúg
Rúgur er svínamatur.

Oh, Danir eru svín. Það hafa þeir alltaf sýnt í viðskiptum sínum við Íslendinga og Grænlendinga.“

Gísli Engilbertsson verzlunarstjóri Tangaverzlunar, hafði byggingu fyrir jörðinni Vestasta-Hlaðbæ á Vilborgarstöðum. Gísli leyfði Jóni Kristjánssyni sjómanni að byggja sér íbúðarhús á spildu úr jörðinni. Það var þar, sem Laufás stendur nú. Jón Kristjánsson byggði íbúðarhúsið úr timbri árið 1902 og kallaði það Laufás. Það var 14 álnir á lengd og 12 álnir á breidd, ein hæð og kjallari. Jón Krisjánsson flutti til Ameríku og seldi þá Þorsteini Jónssyni fyrrv. skipstjóra Laufás. Það var árið 1905. Í húsi þessu bjuggu þau hjón, Þorsteinn og frú Elínborg, í 7 ár. Þá byggðu þau Laufás, sem enn stendur þar.
Jóni bónda í Gvendarhúsi var lítið um Jón sjómann Kristjánsson, þann, sem byggði fyrri Laufás. Eitt sinn í austan veðri hafði salernið við gamla Laufás, en það var sérstætt útisalerni, fokið um og lá á hliðinni, er Jón bóndi í Gvendarhúsi átti leið fram hjá húsinu. Á þeim tíma lá Jón í Laufási veikur. Jón í Gvendarhúsi tók menn nú tali og hafði fréttir að segja. „Bágt er ástandið í Laufási.“ Menn gerðust forvitnir. Hvað gat hafa borið við þar? „Oh, þeir liggja þar tveir, kamarinn og hann Jón Kristjánsson,“ sagði Jón bóndi.
Um Jón þennan Kristjánsson kvað Jón bóndi í Gvendarhúsi, þá er Laufás var byggður:

„Reist er Jóni höllin há
hér á stöðli kúa.
Sentist hingað Seli frá,
saddur á að búa.“

Einu sinni sem oftar var Jón í Gvendarhúsi staddur inni í búð Gísla J. Johnsens. Brynjúlfur Sigfússon organisti var þar einnig staddur. Jón bóndi hafði hönd á mörgu, sem hann sá, eins og fyrri daginn. „Láttu þetta vera,“ sagði Brynjúlfur organisti, „þú ert óhreinn á höndunum.“ „Þær þóttu ekki óhreinar, þegar ég greiddi þér atkvæði til þess að vera organisti,“ læddi Jón út úr sér.
Einn af þeim, sem naut fósturs hjá þeim hjónum í Gvendarhúsi, Jóni og Sesselju, var Eyjólfur Jónsson, sem síðan bjó lengi á Eystri-Vesturhúsum.
Um Eyjólf kvað Jón bóndi:

Trú má vera talin,
tryggðavinurinn.
Verkstjóra valinn
varla slíkan finn.
Þótt ástir hafi á yngismey,
víst hann aflar vel úr sjó,
vænn er Eyfagrey.

Samtíðarmaður um margra ára skeið og nágranni Jóns bónda í Gvendarhúsi var séra Oddgeir Guðmundssen prestur að Ofanleiti. Þegar Jón bóndi og prestur áttu tal saman, lét Jón sem hann hataði enga menn innilegar en alla presta og fór um þá óþvegnum orðum til þess að stríða séra Oddgeiri. Jón bóndi vildi aldrei viðurkenna fyrir presti, að hann væri kristinn maður. Þó var það vitað öllum Eyjabúum, að hann tók alltaf ofan hatt sinn á vissum stað, þegar hann átti leið fram hjá Landakirkju og töldu menn hann gera það af hræsnislausri lotningu fyrir kirkjunni og sannri guðstrú. En sagt er, að hann hafi jafnan litið í kring um sig, áður en hann tók ofan til þess að vera öruggur um að presturinn sæi ekki til sín.
Séra Oddgeir hafði venjulega 4—5 kýr í fjósi. Eitt sinn frétti Jón, að bezta mjólkurkýr prestsins væri sjúk, og var hún þá nýborin. Jón reyndi að fylgjast með líðan kýrinnar og hélt uppi nánum fyrirspurnum um það, hvort henni færi batnandi. Fréttir hann síðan, að þessi kostagripur sé dauður. Úaði bóndi þá sárt og lengi og segir: „Uhúhú, það gat hvergi komið betur niður, því að hann er launamaður.“
Eitt sinn varð Jóni bónda það á að reka handlegginn í stefnið á skipinu Gideon, er hann gekk framhjá því í Hrófunum. Þá varð honum að orði: „Fyrirgefðu, Gideon minn, ekki ætlaði ég að meiða þig.“
Staðreyndin mun oft og tíðum hafa verið sú, að í undirmeðvitund sumra gamalla manna var hið aldraða fiskiskip einskonar lifandi vera, sem þeir ræddu við með sjálfum sér, báru virðingu fyrir og mátu eins og góðan samborgara, enda átti Jón bóndi hlut í skipi þessu.

Séra Stefán Helgason Thordersen var hér prestur frá 1885—1889. Hann hafði verið óreglusamur á háskólaárum sínum í Kaupmannahöfn og aldrei lokið embættisprófi. Séra Stefán og Jón bóndi í Gvendarhúsi voru mestu mátar og nágrannar. Séra Stefán var hvers manns hugljúfi og gestrisinn.
Prestur bauð oft beztu kunningjum sínum í afmælisveizlu sína og þar með Jóni bónda í Gvendarhúsi. Eitt sinn sagði séra Stefán, er setið var undir borðum: „Þér kunnið ekki svo mikið sem að éta, Jón.“ Jón bóndi svaraði: ,,Oh, það er satt, en það er dýrt fyrir fátæka bændur að senda syni sína til Kaupmannahafnar til að læra að éta, og út yfir tekur þó, ef þeir ná svo ekki matarprófinu.“
Séra Stefán dó að Ofanleiti 3. apríl 1889.
Þegar Jón í Gvendarhúsi sagði seinni tíma mönnum frá séra Stefáni, var það á þessa lund: ,,Oh, hann var tignarlegur maður fyrir drottins altari. Röddin fögur, svipurinn hreinn og framburðurinn ljúfmannlegur. Og svona var að sækja hann heim. Þá var fjörið og kátínan, og svo velgjörðirnar fram úr hófi.“