Blik 1956/Spaug og fleira

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1956Spaug
og fleira


Móðir Nonna litla hafði eignazt tvíbura, og faðirinn réð sér ekki fyrir monti. Hann sagði við Nonna: „Heyrðu, karlinn, ég er viss um, að kennarinn gefur þér frí á morgun, ef þú segir honum frá þessu.“
Þegar Nonni kom heim um kvöldið, var hann heldur en ekki upp með sér: „Ég fer ekkert í skólann á morgun.“
„Þú hefur þá sagt kennaranum frá litlu bræðrum þínum?“ sagði faðirinn.
„Nei, nei, ég sagði bara frá öðrum í dag. Hinn geymi ég til næstu viku.“

Huguðustu menn í heimi eru bleyðurnar, sem ekki þurfa að láta nafns síns getið.

Siggi gamli í Grófinni sá ekki sólina fyrir ást á dóttur sinni. Þannig sagði hann frá kostum hennar: „Hún Gunna mín hefur snúið í kringum sig fleiri karlmönnum en vindihurðin á Hótel Borg.“

Kona ein, sem var byrgisvörður í stóru leiguhúsi í New York, furðaði sig á því, hve margir íbúanna höfðu gæludýr á heimilum sínum. Ein konan hafði apa, önnur hvíta rottu og sú þriðja hafði hana í búri. Dag nokkurn var hún að tala um þetta við eina frúna í húsinu: „Og konan, sem býr á hæðinni fyrir ofan yður, hefur hana í búri,“ sagði hún. Varla hafði hún sleppt orðinu, fyrr en frúin hneig niður, eins og hún hefði verið skotin.
Þegar hún raknaði úr yfirliðinu, bað hún afsökunar. „Það hefur aldrei liðið yfir mig fyrr,“ sagði hún, en í sex mánuði hefi ég gengið til dýrasta taugalæknisins í borginni, af því að mér hefur alltaf fundizt ég heyra hanagal á hverri nóttu.“

Dóra litla fór inn í Hressingarskálann með mömmu sinni. „Hvað vilt þú fá að drekka, Dóra mín?“ spurði mamma hennar. „Ég vil fá þetta, sem er eins og náladofi á bragðið.“

Kanínuhjón voru á flótta undan tveim refum og skutust inn í holu í feysknum tréstofni. Refirnir settust við opið, sýnilega undir það búnir að bíða lengi.
„Hvað eigum við að gera?“ spurði kanínumamma.
„Ég sé ekki annað ráð,“ sagði kanínupabbi, en að við reynum að fjölga kyninu, svo að við getum orðið fleiri en þeir.“

Þetta er haft eftir brezka rithöfundinum Bernhard Shaw:
Skynsamur maður lagar sig eftir umhverfinu. Óskynsamur maður streitist við að laga umhverfið eftir sér. Þess vegna eru allar framfarir óskynsama manninum að þakka.

„Hefur hann nokkru sinni minnzt á hjónaband?“ spyr vinkonan.
„Aðeins óbeint,“ anzaði heimasætan. „Hann sagði, að eina ástæðan til þess, að hann reykti aldrei pípu, væri sú, að hann gæti ekki hugsað sér að gefa konuefninu sínu tóbakskoss.“

Nebúkadnesar Zakaríasson átti skammt eftir ólifað. Sent var eftir prestinum til þess að þjónusta hann, veita honum síðasta sakramentið. Nebbi gamli hafði ekki verið tíður kirkjugestur um dagana og þótti heldur mikið heimsbarn.
Prestur sagði við Nebba gamla:
„Þú hefur með líferni þínu bakað mér marga raunastund um ævina. Ég veit þó, að þú ert góður maður inn við beinið. Nú nálgast dauðinn. Ertu þá viðbúinn að veita guði móttöku og afneita kölska?“
Nebbi gamli var hugsi um stund, en sagði síðan:
,,Prestur minn góður, mér er mikil gleði að því að veita guði móttöku, en eins og stendur,“ bætti hann við kímileitur, „tel ég skynsamlegast að móðga engan.“

Frank fyrirlesari kemst svo að orði: „Eitt af því óþægilegasta, sem hent getur mig í ræðustól er það, þegar áheyrendur mínir taka til að líta oft á úrið sitt. Hefur þetta nokkurntíma hent þig, Jón?“ spurði Frank hinn kunna fyrirlesara. ,,Já, en það vekur mér engin óþægindi. Öðru máli gegnir, þegar áheyrendur mínir taka til að hrista úrin sín. Þá er ég fljótur að slá botn í ræðuna.“

Kona nokkur var að senda biblíuna til bróður síns í fjarlægri borg. Jóhann póstafgreiðslumaður skoðaði hinn þunga böggul í krók og kring og spurði síðan hvort nokkuð brothætt væri í bögglinum.
„Ekki nema hin tíu boðorð,“ svaraði konan samstundis.

Hagnýt þekking

Ungur maður, sem hafði áhuga á vísindum, lét skrá sig þátttakanda í sumarnámskeiði í líffræðilegum vísindum við háskóla. Á námskeiðinu var stúlka, sem hann varð þegar ástfanginn af. En sá var ljóður á, að hún var svo umsetin aðdáendum, að hann komst aldrei almennilega í færi við hana. Sumarið leið og námskeiðinu lauk, áður en hann fengi uppfyllingu drauma sinna. Hann vissi þó heimilisfang og símanúmer stúlkunnar. Fagran dag um haustið tók hann í sig kjark, hringdi til hennar og bauð henni í hressingarskálann. — Stúlkan þáði boðið. Seinna komu svo bíóferðir, dans og blóm.
Leit nú svo út, að allt þetta væri á góðum vegi, en þó fannst piltinum sem hann vissi raunar lítið um hug stúlkunnar til hans. Einu sinni sátu þau saman í sófanum heima hjá henni. Hann hafði hug á að biðja hennar, en var í vandræðum með sjálfan sig. Hryggbrotið fannst honum mundi verða sér óbærilegt. Ekkert vissi hann, hvað hann átti að segja, og ekki, hvað hann átti að gera. Hún var svo dásamlega falleg, fannst honum. Ekkert varð ráðið af svip hennar eða augum, hvaða tilfinningar hún ól til hans. Allt í einu kom pilturinn auga á slagæðina á hálsi stúlkunnar. Hann taldi með sjálfum sér slögin og sá fljótt, að þau voru tíðari en eðlilegt var fyrir stúlku, sem situr áreynslulaust í stól. Hann skildi nú strax, hvers kyns var. Greip hana í faðm sér, og þar með var ísinn brotinn. Svo var vísindalegri þekkingu hans fyrir að þakka.

Ung kona hafði lesið um það í tízkublaði, hve mikilvægt það væri, að konurnar litu vel og snyrtilega út, þegar eiginmennirnir kæmu heim frá vinnu á kvöldin, og konan játaði svona með sjálfri sér, að hún tæki sneiðina til sín.
Hún segir svo frá:
„Þegar maður hefur tvo stálpaða stráka á heimilinu og fjögurra herbergja íbúð til að hirða hjálparlaust, auk þess alla þvotta sjálf, þá er ef til vill ekki við öðru að búast en maður sé stundum dálítið slæptur og þreytulegur, þegar eiginmaðurinn kemur heim að loknu erfiði dagsins. Ég ákvað á stundinni að taka til minna ráða. Ég byrjaði á að laga kvöldmatinn hálftíma fyrr en venjulega. Þeim hálftíma, er ég þannig fékk til umráða, varði ég til þess að snurfusa mig og gera mig eins aðlaðandi og ég gat.
Angandi af bezta ilmvatni mínu sveif ég léttum skerfum út í anddyrið, þegar ég heyrði manninn minn rjála við snerilinn á útidyrahurðinni.
„Ah, en sá blessaður ilmur,“ sagði hann um leið og hann opnaði dyrnar.
„Þekkirðu hvað það er?“ spurði ég eftirvæntingarfull.
„Hakkað buff,“ sagði hann og tók mig fagnandi í fang sér.


Þakkir


Við, sem stöndum að útgáfu ársritsins, þökkum hjartanlega öllum þeim, sem lagt hafa og leggja sitt til útgáfu þess.
Við þökkum þeim, sem skrifað hafa í ritið samkv. ósk okkar, veitt okkur fræðslu um eitt og annað, sem við höfum hug á að geyma, svo að ekki gleymdist, og við þökkum þeim sem styrkja útgáfu þess með auglýsingum. Án velvildar þeirra og góðs skilnings á gildi útgáfustarfsins væri okkur um megn að gefa ritið út.

Stjórn Málfundafélagsins.
Ritnefndin.
Skólastjóri.