Blik 1959/Fjarskyggni

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1959KARL H. BJARNASON, Arnarhvoli:


FjarskyggniHaustið 1917 keypti Gísli J. Johnsen, kaupm. í Vestmannaeyjum, prentsmiðju Þorkels Þ. Clements í Reykjavík og flutti hana til Vestmannaeyja. Var það fyrsta prentsmiðja, sem þangað kom.
Þá var það, að ég var fenginn til að fara til Eyja og setja hana þar niður, svo að blaðaútgáfa gæti hafizt þar um haustið. Fór ég þangað í október og setti niður prentsmiðjuna og prentaði tvö fyrstu blöðin af „Skeggja“, en það nafn hlaut blaðið. Gísli J. Johnsen gekkst fyrir því. Hafði hann ráðið Pál Bjarnason, kennara frá Stokkseyri, ritstjóra blaðsins. Prentari var Kristján Guðjónsson.
Ég var öllum ókunnugur í Eyjum. Útvegaði Johnsen mér fæði hjá Birni H. Jónssyni, skólstjóra, sem bjó í barnaskólanum. Páll hélt þar og til. Borðuðum við allir saman og var oft glatt á hjalla.
Ég svaf vestur í bæ hjá verzlunarmanni Johnsens og hafði þar lítið herbergi uppi á lofti. Þá var siður að slökkva rafljósin klukkan hálf tólf, nema ef barnsfæðing stóð yfir einhversstaðar í bænum, þá loguðu ljós alla nóttina.
Ég háttaði vanalega um tíuleytið og las í bók, þar til ljós voru slökkt, og sofnaði þá vanalega skjótt, þreyttur af að bjástra við vélina og samsetning hennar.
Þennan tíma, sem ég var í Eyjum, var oftast vestan hroði og því lítið hægt að sjá sig um úti. Þá var það kvöld eitt, síðast í október (líklega 27.), að hroða stormur var á. Fór ég með fyrra móti að hátta, hafði náð mér í góða bók og las síðan, eins og vant var, þar til ljós voru slökkt. Hugðist ég fara að sofa, en aldrei þessu vant, vildi svefninn ekki koma; einhver óróleiki sótti að mér og mér leið ekki vel. Fann ég þó ekki til neins lasleika, reyndi að liggja kyrr og starði út í myrkrið. Allt í einu var sem mynd birtist á veggnum eða ég sæi gegnum Heimaklett. Sá ég þá hrakta sjómenn vera að klöngrast upp í fjöru þar. Báru sumir félaga sína á bakinu upp frá sjónum. Ekkert skip sá ég þó. Svo hvarf sýnin jafn skyndilega og hún kom. Sýnin stóð aðeins örfáar sekúndur, en þó svo skýr, sem fast hjá væri. Ég fór að hugsa frekar um þessa sýn og reyndi að einbeita huganum og vita, hvort ég gæti orðið meira vís. En það varð árangurslaust.

Þegar ég var unglingur, voru allmikil brögð að fjarskyggni hjá mér. Kom það einnig fyrir, að mér tókst að framkalla sýnir, einkum væri ég þreyttur eða svefnlítill, en örsjaldan þó. Hafði ekkert á þessu borið um margra ára skeið. Ég var litla stund að jafna mig eftir þetta, en svo kom svefninn og svaf ég til morguns.
Eins og vant var, fór ég upp í Skóla til að borða. Sagði ég þá þeim Birni skólastjóra og Páli frá þessu og varð nokkurt tal um og ekki með öllu græskulaust. Stormur var nokkur um daginn, en þó fær sjór. Um hádegisbilið sást brezkur togari koma inn á ytri höfn. Fór sá mikinn og blés ákaflega. Var sýnilegt, að hann vildi hafa tal af mönnum í landi og eitthvað væri að. Gísli J. Johnsen mannaði þá bát og hélt síðan út til togarans. Þegar allir voru komnir upp í togarann, hélt hann þegar út aftur með bátinn aftan í og voru innan skamms horfnir út fyrir. Johnsen mun þá hafa verið brezkur konsúll í Vestmannaeyjum. Mjög varð mönnum tíðrætt um þetta og var margs til getið, meðan beðið var fregna. Leið nú og beið og þótti mörgum biðin löng. Í rökkurbyrjun sást aftur til togarans. Kom hann inn á ytri höfn og lagðist þar. Sást þá úr landi, að báturinn, sem togarinn hafði haft á eftir, var nú dreginn fram með síðunni og fylltist hann þegar af fólki og hélt síðan rakleitt til lands og var knálega róið inn úr sundinu og síðan upp að bryggju. Var þá kominn þangað múgur og margmenni til að taka á móti komumönnum og fá fréttirnar sem fyrst. Sögðu nú bátverjar frá á þessa leið:
Daginn áður hafði togarinn verið að veiðum á miðum úti í veðri miklu og stórsjó og misst þá bát sinn. Fóru þeir þá síðdegis að draga sig í átt til Eyja og um morguninn í birtingu fóru þeir grunnt inn með að vestanverðu og sáu þá, að skipsstrand hafði orðið vestan undir Heimakletti. Urðu þeir og varir skipbrotsmanna undir klettinum, en gátu ekkert að gert vegna bátleysis og tóku það ráð að gera vart við sig í landi og leita hjálpar. Þegar þeir svo komu aftur með hjálp úr landi, tókst að bjarga öllum skipbrotsmönnum, enda var þá veður tekið að lægja og sjólítið orðið og rösklega gengið að björguninni. Gleymt hef ég nú, hve margir þeir voru, sem á skipinu voru. Minnir mig, að timburskipið væri danskt og héti Ester. Mennirnir voru all aðþrengdir, er þeim var bjargað, en hresstust fljótt við góðar móttökur og nákvæma aðhlynningu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós, að björgun mannanna úr skipinu hafði farið fram nákvæmlega á sama tíma og sýnin hafði borið fyrir mig um nóttina.
Nokkru síðar skrifaði ég upp frásögn þessa eftir ósk Páls sál. Bjarnasonar, sem þá var orðinn skólastjóri í Eyjum, og sendi honum ásamt fleiru, sem hann fékk hjá mér. Má vera, að það handrit hafi verið nokkru fyllra en þetta, þar sem þetta er skrifað svo löngu síðar og eftir minni, en aðalatriðin hafa í engu brenglazt.

Ritað í nóvember 1948.
K.H.B.,
Arnarhváli


Nokkur söguleg atriði.
Strand dönsku skútunnar
ESTER.

Einn af velunnurum Bliks í Reykjavík hefir sent ritinu hina markverðu grein „Fjarskyggni“, sem birtist hér í ritinu að þessu sinni. Hann hafði átt hana í fórum sínum s.1. 10 ár.
Í Bliki 1958 reit Hrefna Óskarsdóttir, sonardóttir Gísla Magnússonar, útgerðarmanns, frásögn um siglingu afa síns á vélbáti frá Danmörku til Vestmannaeyja haustið 1917. Í frásögn þessari er minnzt á dönsku skútuna Ester, sem strandaði hér við Eyjar um haustið, eins og skýrt er frá í greininni „Fjarskyggni“. Höfundur þeirrar greinar var lengi dyravörður við stjórnarráð landsins að Arnarhvoli.
Skútan Ester strandaði á Faxaskeri. Á árabátnum, sem fór út í togarann, og getið er um í greininni „Fjarskyggni“ voru m.a. Gísli J. Johnsen sjálfur og Vigfús Jónsson útgerðarmaður frá Holti við Ásaveg. Þegar árabáturinn kom að Faxaskeri, var þar viðsjárvert vegna brims.
Eftir að leitað hafði verið lags nokkra stund, var lagt að skerinu og hlupu þeir upp á það saman Vigfús og Gísli og tókst stökkið vel, þótt votir yrðu. Þarna á Skerinu dvaldist skipshöfnin, en skipið hafði lent upp í vik á norðvestanverðu skerinu og brotnað þar brátt í spón, en mennirnir bjargazt upp á skerið.
Togarinn, sem um er rætt, var gæzluskip Englendinga hér fyrir Suðurströndinni á fyrri stríðsárunum.
Varð hann strandsins var utan af Ál og gerði Eyjabúum viðvart.

Prentsmiðja Gísla J. Johnsen.
Greinin „Fjarskyggni“ hefir, að ýmsu leyti sögulegt gildi. Hún greinir frá málum og mönnum, sem á sínum tíma mörkuðu hér spor í líf og menningu Eyjabúa. Ég óska að bæta hér við nokkrum sögulegum atriðum.
Jón Þorláksson, síðar ráðherra, útvegaði Gísla J. Johnsen prentsmiðjuna.
Þetta var gamla Vísisprentsmiðjan, áður Östlunds. Kaupverð hennar var 7.000,00 krónur. Voru það miklir peningar á þeim tímum. Ósennilegt er það, að jafn hygginn og glöggur fjármálamaður og Gísli J. Johnsen er, hafi séð þess nokkur tök, að slík prentsmiðja hér í Eyjum gæti nokkru sinni skilað arði, heldur mun áhugi hans á framfara- og menningarmálum Eyjanna einvörðungu hafa valdið því, að hann keypti prentsmiðjuna.
Gísli J. Johnsen réðist þegar í það að gefa út vikublað, sem nefnt var Skeggi. Jón Þorláksson útvegaði Gísla J. Johnsen einnig ritstjórann að blaðinu. Það var Páll Bjarnason, kennari frá Stokkseyri, síðar skólstjóri barnaskólans í Eyjum.
Fyrsti prentari hjá Gísla J. Johnsen var höfundur greinarinnar „Fjarskyggni“, Karl H. Bjarnason, sem setti prentsmiðjuna saman. Brátt tók prentari að nafni Kristján Guðjónsson við starfinu. Annaðist hann prentarastörf hér frá 1917 til 1920.
Prentsmiðjan var handsnúin og drifhjól hennar var knappir tveir metrar í þvermál. Aldraðir Eyjabúar hafa tjáð mér, að Jóhann í Hlíðarhúsi (Jói á Hól) hafi þá verið verkamaður við verzl. og útgerð Gísla J. Johnsen og var hann ávallt kallaður til að snúa hjólinu eða vélinni, þegar Skeggi hafði verið settur og skyldi prentast.
Prentsmiðja þessi er nú eign Byggðarsafns Vestmannaeyja og einn af dýrmætustu hlutum þess.

Þ.Þ.V.