Blik 1961/Þáttur nemenda, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961




ctr
(Fyrri hluti)


Skólaferðalagið 1960

Afráðið var, að við skyldum leggja af stað þriðjudaginn 31. maí, að loknu landsprófi með v/s Herjólfi. Öll vorum við mætt kl. 9 að kvöldi niðri við skip og var mikill gáski í mannskapnum og ferðahugur. Við söfnuðumst saman uppi á efra þilfari og vorum öll hin ánægðustu. Hugleiðingar um sjóveiki og þess kyns komust ekki að, enda pillutækni nútímans með í förum. —


MYNDIN TIL VINSTRI.
Frá skemmtiferðalagi nemenda 1960.
Niður til vinstri:
1. Kennararnir Valdimar og Páll.
2. Valdimar kennari annast matseld fyrir ferðahópinn.
3. Við Mývatn.
4. Námsmeyjar í sólbaði eftir sund í „iðrum jarðar“.
Niður til hægrí:
1. Skólasveinar í sólbaði með kennara eftir að hafa „siglt“ í iðrum jarðar.
2. Tvœr námsmeyjar tjá ferðasæluna með látbrögðum.
3. Höfundur ferðasögunnar.
4. Höfundur ferðasögunnar tekur sér „líkamlegt og andlegt bað“ ofan í jörðinni.


Hafði nú nokkuð gleymzt? Ójá, bæði skorti gítar og knött, því að þarna var á ferðinni söngelskt fólk og íþróttaáhugi almennur. En nú var úr vöndu að ráða, því að komið var að burtfarartíma skipsins. Tveir drengjanna þutu upp á bryggju og báðu tvo liðtæka bifreiðarstjóra að aka í skyndingu eftir þessum mikilvægu hlutum. Beðið var svo og vonað, að þeir næðu til skips í tæka tíð.
„Sleppa,“ heyrðist hrópað frá stjórnpalli. Síðan tók skipið að síga frá bryggjunni. Þá kom bifreiðin með gítarinn á flugferð niður bryggjuna. Skammt var enn milli skips og bryggju, og kastaði því bifreiðarstjórinn gítarnum til okkar yfir hinn djúpa „Atlantsál“ og við gripum fimlega. Mjög brátt fjarlægðist nú skipið bryggjuna, og við höfðum gefið upp alla von um knöttinn. Þá birtist allt í einu bifreiðin með hann. Á bryggjubrúninni snaraðist bifreiðarstjórinn, sem var gamall og þjálfaður fótboltamaður, út úr bifreiðinni og sparkaði knettinum af miklu afli í áttina til okkar. Fyrst héldum við, að knötturinn mundi fara yfir skipið, en allt í einu snarbeygði hann niður á við og lenti heilu og höldnu í kjöltunni á Ásu S., þar sem hún sat á lestarlúgunni. Síðan öslaði skipið út Leiðina milli hafnargarðanna og sem leið liggur fyrir Klett og Eiði. Með lotningu sáum við okkar ástkæra fósturland, Heimaey, hverfa í þokumistrið, sem lá yfir.
Hinir eiginlegu fararstjórar voru kennararnir Páll Steingrímsson og Valdimar Þ. Kristjánsson, þó að skólastjóri væri einnig með í förinni til Reykjavíkur. Kvaðst hann hafa sagt af sér fararstjórn, þegar hann hafði gengið úr skugga um, hve „einlitur og ágætur hópurinn var,“ svo að hans eigin orð séu hermd. Okkur nemendunum var nú ráðlagt að fara undir þiljur og leggja okkur. Því hlýddum við undir eins. Þó röbbuðu sumir saman í borðsal skipsins enn um stund.
Ferðin suður gekk vel, og í morgunsárið greindum við Reykjavík. Á bryggjunni beið langferðabifreiðin eftir okkur, og komum við strax föggum okkar fyrir í henni. Síðan var ekið að Hressingarskálanum og drukkið þar morgunkaffi. Afráðið hafði verið að ná til Akureyrar um kvöldið. Hafður var því hraði á.
Leið okkar lá fyrir botn Hvalfjarðar og hefur löngum verið talin leiðinleg. En hún var það ekki hjá okkur, því að gáski og gaman var í hávegum haft og mikið sungið og rabbað. Við námum staðar við hvalstöðina og horfðum á hvalskurð um sinn. Við drengirnir höfðum ánægju af, en stúlkunum fannst lyktin vond, fussuðu og sveiuðu og kvörtuðu sáran yfir þessari töf.
Næst var numið staðar hjá matsölustað einum eigi langt frá Hvalfjarðarströndinni. Kennurunum var þegar boðið inn til verzlunarstjórans og boðið þar upp á hangikjöt, rúgbrauð með íslenzku smjöri og rúllupylsu og vel heitu te. Við nemendurnir urðum hinsvegar að kaupa dýru verði hálfhart hveitibrauð, illa soðnar pylsur og volgt öl.
Við ókum framhjá Ferstiklu og Saurbæ og minntumst sálmaskáldsins fræga. Fornihvammur var fyrsti verulegi áfangastaðurinn, því að þar vissum við að beið okkar góð og heit máltíð. Skólastjóri hafði séð fyrir því. Máltíðin reyndist ágæt í alla staði. Og ekki spilltu matarlystinni hinar broshýru meyjar, sem þarna gengu um beina. Við drengirnir sendum þeim aftur okkar blíðustu bros og reyndum að gera skólasysturnar afbrýðisamar, sem einnig tókst. Þær pískruðu um það sín á milli, að við mættum ekki sjá snoturt kvenfólk! Þá yrðum við eins og bráðið smjör, sögðu þær. Ekki vildum við viðurkenna það, en brostum breitt yfir afbrýðisemi þeirra.
Áfram var ekið og haldið yfir Holtavörðuheiði, um Hrútafjörð, yfir Hrútafjarðarháls, um Víðidal og að Vatnsdal til Blönduóss. Þar þyrptumst við öll inn í brauðbúð og keyptum hina svokölluðu „manndrápsfæðu“, snúða og vínarbrauð. Áfram var ekið um Langadal, yfir Öxnadalsheiði og um Öxnadal, ,,Þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla,“ og Jónas Hallgrímsson er fæddur. Hraundrangann sáum við og ímynduðum okkur ástarstjörnuna hans þar bak við ský, en hitt vissum við jafnframt, að okkar voru á jörðu niðri, eftir því sem við drengirnir vissum bezt sjálfir. Við náðum til Akureyrar um kvöldið og fengum gistingu í Gagnfræðaskólabyggingunni, sem við áttum vísa, áður en við fórum að heiman.
Þegar við höfðum lokið við að koma okkur fyrir í skólabyggingunni, gengum við um höfuðstað Norðurlands og skoðuðum það markverðasta, sem fyrir augu bar.
Þarna hittum við skólafólk frá öðrum kaupstöðum og myndaðist fljótt kunnugleiki meðal margra. Seinna um kvöldið fórum við í danshús og vorum þar til klukkan hálf tólf. Þá öll upp í skóla í háttinn.
Valdimar kennari hafði þurft að heimsækja forstjóra ölgerðarinnar „Sana“. Forstjórinn sendi okkur af mikilli rausn 5 kassa af gosdrykkjum, sem við þágum með þökkum og hugsuðum hlýtt til hans og fyrirtækis hans í staðinn.
Áður en við skriðum í svefnpokana, sagði Páll kennari okkur draugasögu af mikilli tilfinningu og sannfæringu, að okkur virtist. Flestir voru fljótir að sofna eftir erfiði dagsins. En þrír okkar sofnuðu ekki strax, heldur vöktum, þar til allir aðrir í hópnum voru sofnaðir. Við ætluðum að fremja strákapör. Tvöföld rennihurð var á milli stráka og stúlknaherbergisins. Hana opnuðum við til hálfs. Þá drógum við Jóhann Runólfsson, þar sem hann lá steinsofandi í pokanum, inn til skólasystranna og lögðum hann við hliðina á Röggu. Síðan lokuðum við vandlega hurðinni. Síðan rannsökuðum við, hvort ekki allir svæfu og þá sér í lagi kennararnir. Jú, vissulega virtist svo vera. Þó þótti okkur grunsamlegt, að Valdimar hafði ekki tekið af sér gleraugun. Það mundi tákna lausan svefn! KL 7 um morguninn vöknuðu nokkrar af stúlkunum og sáu Jóa liggja þarna hrjótandi hjá þeim. Þær höfðust ekkert að heldur biðu þess að sjá, hvernig honum yrði við, er hann vaknaði. Nokkru seinna vaknaði Jói og reis upp við dogg. Þá sá hann í bakhlutann á Röggu, sem hann hélt vera Siffa Elíasson, því að við hlið hans hafði hann sofnað kvöldið áður. Hann vildi vekja hann og lamdi af alefli í hinn óæðri enda, sem við honum blasti. Ógurlegt öskur kvað við. Allir vöknuðu og héldu þar vera kominn drauginn, sem orkað hafði svo mjög á Pál kennara kvöldið áður. Nú opnuðust augu Jóa, hins græskulausa heiðursmanns, fyrir hrekkjum okkar, og kom hann hoppandi í poka sínum fram til okkar með hinum mesta angistarsvip. Að þessu öllu var mikið hlegið. Kl. 8 um morguninn fórum við öll í Sundlaug Akureyrar. Þar var mikið buslað og synt. Sundgarpar reyndust býsna margir í hópnum okkar.
Eftir sundið skoðuðum við hinn yndisfagra listigarð Akureyringa og dáðumst mjög að honum. Eitt óhapp bar við um þessar mundir: Einn af okkur drengjunum datt svo hastarlega á botninn, að rassinn fór úr buxunum. Stúlkurnar hlógu mjög að þessu og sögðu, að nú yrðum við að leita á þeirra náðir til þess að fá botninn bættan. Ekki vildum við fallast á það. Við fórum til klæðskera og keyptum bót á buxurnar. Síðan keyptum við Fixó-fatalím. Síðan var bótin límd á buxurnar á fagmannlegan hátt, að okkur fannst. En ýmsir drógu það samt í efa, þegar í ljós kom, að bótin sneri öfugt, ranghverfan út. Við létum slag standa og hugguðum okkur við það, að rifunni var lokað. Síðari hluta þessa dags var haldið austur að Mývatni. Á leiðinni höfðum við viðdvöl í Vaglaskógi og kveiktur þar varðeldur á skáta vísu.
Páll kennari er Ameríkufari sem kunnugt er. Þar hafði hann m.a. lært Indíánadans. Nú tók hann okkur öll í læri. Brátt dönsuðum við öll Indíánadansa af list, svo að sumir voru berir að ofan, er dansinum lauk.
Þarna í skóginum hituðum við okkur kakó. Var Valdimar kennari þar einskonar yfirkokkur og sýndi frábæra kunnáttu í eldamennskunni.
Ekki er ofsögum sagt af fegurð Mývatnssveitar. Hún hafði örvandi áhrif á glaðværð okkar og söng. Þarna höfðum við nokkrar víðigreinar með úr Vaglaskógi. Allt í einu uppgötvaði Ester, að víðirinn væri lúsugur. Hún varð gripin skelf ingu og svo þær allar, svo að allt ætlaði um koll að keyra. Kom sér þá vel háttsemi og rólyndi hins „sterka kyns.“
Stanzað var við Goðafoss og hann skoðaður vendilega. Þar fundu náttúrufræðingar ferðalagsins hrafnshreiður með þrem ungum í. Þá tjáði Siffi E. okkur, að latneska tegundarnafnið á hrafni væri Corvus. Alltaf er það munur að vera af lærða kyninu, hugsuðum við, en sögðum það auðvitað ekki, heldur dáðum drenginn fyrir minni og mennt.
Til Reykjahlíðar við Mývatn komum við um kvöldið og fengum þar gistingu. Þarna snæddum við lostætan Mývatnssilung.
Síðar um kvöldið komu þangað Laugvetningar á skólaferðalagi. Kynni tókust fljótt og var efnt til knattspyrnukeppni um kvöldið milli skólaliðanna. Með Laugvetningum kepptu tveir fullorðnir menn, kennarinn þeirra Þórður landsliðsmaður og knattspyrnukappi Þórðarson af Akranesi. Í okkar liði voru einnig Páll og Valdimar kennarar og fararstjórar. Okkur fannst heiður skólans okkar og Eyjanna væri í veði, svo að nú var annað tveggja fyrir okkur: að duga eða drepast. Eftir harðan leik og spennandi urðu úrslitin þau, að við bárum sigur úr býtum með fjórum mörkum gegn tveim. Enda hafði verið barizt af eldmóði. Kvennadeildir beggja skólanna voru á okkar bandi. Það fundum við glögglega. Enda er það vitað, að hún fylgir alltaf hinum sterkari, þeim sem sigrar.
Eftir kappleikinn var silungurinn etinn með góðri lyst, og höfðu stúlkurnar ekki síður lyst á honum en við drengirnir. Ég reyndi að koma tölu á silungana, sem þær hesthúsuðu Ása, Gréta, Ellý, Ragga og Ester, en fipaðist í talningunni áður en lauk.
Um kvöldið var svo kvöldvaka. Þá sungum við þjóðlög og Eyjalög og sögðum brandara. Að vanda var gengið snemma til náða og sofnað vært, eftir að hafa hlustað á hugnæmar og skemmtilegar ástar- og draugasögur Páls kennara.
Morguninn eftir var risið snemma úr rekkju (svefnpokum). Þá vísaði okkur leið að helztu sögu og merkisstöðum héraðsins Snæbjörn Pétursson, bóndi og kennari í Reynihlíð. Fyrst var ekið til Námaskarðs og þar skoðaðir brennisteinshverir. Þá söfnuðum við ýmiskonar litsteinum og glitsteinum fyrir Pál kennara og listamenn, og er grjót það nú orðið landfrægt. Því næst var ekið að Grjótagjá, en í henni er einhver merkilegasta sundlaug, sem um getur á norðurhveli jarðar. Sú laug er að öllu leyti náttúrusmíð. Hún er ,,ofan í jörðinni“ og í henni 40 stiga heitt hveravatn. Þarna fórum við bæði í líkamlegt og andlegt bað. Stúlkurnar gerðu bifreiðina að baðklefa sínum, en „sterka kynið“ notaðist við hraungjótu þarna í námunda. Í ljós kom, að stúlkurnar flutu í þessari laug eins og korktappar á vatni. Við „sigldum“ þeim því á milli okkar eins og skútunum okkar á Vilpu á bernskuárunum.
Eftir þessar ógleymanlegu sundiðkanir í iðrum jarðar var ekið til Dimmuborga. Öll urðum við stórhrifin af hinu tignarlega og stórbrotna landslagi þar. Sama hrifningin greip okkur, er við nokkru síðar stóðum á Höfða við Mývatn. Þar blasti við okkur hálendi, láglendi, skógur — og svo vatnið, spegilslétt og töfrandi. Endur kúrðu á hreiðrum, silungur vakti í vatninu, býflugur suðuðu við blóm og eyra. Yfir öllu bjó hin friðsæla og yndislega ró íslenzkrar náttúru.
Næsti áfangi var Laugaskóli í Reykjadal. Þar mötuðumst við. Þar hittum við Björk Pétursdóttur lögregluþjóns Stefánssonar. Ég held næstum, að þessi kvenskörungur hafi viknað er við kvöddum hana með Eyjalögum og ljóðum.
Við ókum til Akureyrar síðar um daginn og kepptum þar í körfuknattleik við Akureyringa. Þarna hugðumst við keppa við jafnaldra okkar. En reyndin varð önnur. Mótherjarnir voru menn um tvítugt, þaulreyndir og vel þjálfaðir. Ekki vildum við gefast upp og reyndum þrekið og þróttinn til hins ýtrasta. Ég fullyrði, að þetta er sá mesti hörkuleikur, sem ég hef tekið þátt í. Okkur fannst sem áður, að sómi skóla og Eyja væri háður úrslitunum. Þau urðu, að Akureyringar sigruðu okkur með því að hafa 2 stig yfir að leikslokum eða eina körfu. Eins og allt var í pottinn búið vorum við harðánægðir með þau úrslit. Að leik loknum var ekið af stað til Blönduóss um kvöldið. Þar mættum við Selfyssingum á skólaferðalagi. Þá efndum við til dansskemmtunar á Ósnum, og var þar dansað fram yfir lágnætti við gítarundirleik, orgelspil og söngva. Klukkan hálf eitt var skriðið í pokana. Morguninn eftir var flogið úr hreiðrinu, áður en nokkur Selfyssingur vaknaði.
Á Blönduósi yfirgáfu þær okkur Ása og Dóra, og kvöddum við þær með virktum og hlýjum árnaðaróskum. Við ókum því næst suður í Borgarnes og skoðuðum þar haug Skallagríms. Þaðan var svo ekið fyrir Hvalfjörð til Reykjavíkur.
Öll skildum við glöð og ánægð og þakklát fyrir þetta yndislega ferðalag. Svo samrýmdur var hópurinn, að til sárinda fannst að skilja eftir þessar dásamlegu samverustundir í skólaferðalaginu. Hin góðu minni um ferðalag þetta munu verða meira en stundarfyrirbrigði í hugskoti okkar. Þau munu skipa bekk með ógleymanlegustu endurminningum æskuáranna og ylja huga okkar síðar á lífsleiðinni.
Við þökkum skólastjóra okkar og kennurum fyrir undirbúning ferðalagsins. Þá þökkum við kærlega kennurum okkar, þeim Páli Steingrímssyni og Valdimar Þ. Kristjánssyni fyrir góða og örugga fararstjórn.

Árni B. Johnsen.


Glappaskotin koma manni í koll

Ég var í sveit í Austur-Landeyjum sumarið 1958. Bærinn, sem ég dvaldist á, heitir Oddakot. Hann stendur skammt frá Ljótarstaðavatni.
Frændi minn á líku reki og ég hafði smíðað fleka veturinn áður. Nú langaði hann til að reyna hann á vatninu. Sunnudag í blíðskaparveðri afréðum við að reyna flekann. Við fengum lánaða dráttarvélina á bænum til þess að létta flutninginn á flekanum að vatninu. Þegar á vatnsbakkann kom, settum við flekann á vatnið og tókum til við að róa fram með vatnsbakkanum. Allt í einu datt mér nokkuð í hug: „Eigum við að róa út í hólmann og skoða álftarhreiðrið, sem er þar?“
Frændi minn samþykkti það undir eins.
Ferðin út í hólmann gekk heldur seint, því að við þurftum að róa gegn strekkingsvindi. Þegar þangað kom, stukkum við í land eftirvæntingarfullir og hugbráðir og létum flekann eiga sig. Brýndum honum aðeins.
Þegar við höfðum lokið við að skoða álftarhreiðrið og hólmann, þar sem voru mörg hreiður smærri fugla, vildum við aftur til lands. En þegar til flekans skyldi gripið, sáum við okkur til skelfingar, að hann var á reki úti á miðju vatni. Við urðum felmtri slegnir og vissum ekki okkar rjúkandi ráð. Fangar á „Djöflaeyju“, svo hræddir, að við vorum við það að pissa í buxurnar.
Þarna í hólmanum urðum við að hýrast til kvölds. Þá sáum við, hvar maður nokkur fór ríðandi meðfram vatninu. Við þekktum hestinn og hrópuðum allt hvað af tók. Bóndi áttaði sig fljótlega, kom brátt auga á flekann, sem var við það að reka að strönd „meginlandsins“. Hann reyndi nú að róa flekanum út í hólmann til okkar, en ferðin gekk seint sökum mótvindsins. Loks „var þó landi náð“. Hann spurði okkur, hvers vegna við hefðum ekki bundið flekann? Okkur vafðist tunga um tönn. Áttum við að viðurkenna þá fíflsku okkar, að hafa ekki haft vit á að hafa með okkur band? Við þögðum, en bóndinn sá víst, hvað okkur leið og hver raunin var.
Þegar við loks komum heim, var skömmunum dembt yfir okkur fyrir það að vera svona lengi að heiman. Til þess að fullvissa sig um það, að við notuðum aldrei aftur flekann, var hann brotinn í eldinn. Eftir honum sáum við mikið.

Smári Þorsteinsson,
2. b.


Dularöfl eða hvað?

Það bar við veturinn 1959. Ég og vinkona mín vorum beðnar að sitja hjá börnum, því að foreldrarnir fóru út þetta kvöld, sem verður mér ávallt minnistætt. — Hjónin fóru út frá okkur kl. tæplega hálf tíu. Börnin þrjú voru sofnuð. Klukkan var orðin tæplega 1 um nóttina. Þá fórum við fram í eldhús til þess að fá okkur eitthvað í gogginn. Við vorum báðar orðnar dauðsyfjaðar og áttum von á hjónunum heim á hverri stundu. Eldhúsborðið stóð upp við vegg. Stór og langur gangur er hins vegar við vegginn. Hann er inn af útidyrunum. Fatahengi var á veggnum í ganginum. Við sátum við eldhúsborðið og ræddum saman. Allt í einu heyrum við opnaðar útidyr hússins og gengið inn ganginn. Vinkona mín segir við mig: „Loksins eru þau komin. Mikið er ég fegin.“ Við heyrðum þrjár raddir, tvær kvenmannsraddir og eina karlmannsrödd. Ég hafði orð á því við vinkonu mína, að einhver sé með hjónunum. Við heyrðum, að farið var úr kápum og herðatré voru tekin niður af henginu. Síðan heyrðum við þau hengd upp aftur. Við gátum ekki greint orðaskil gegnum vegginn, enda þótt við heyrðum greinilega, að fólkið talaði saman. Svo fjarlægjast raddirnar og loks deyja þær út eins og í fjarska. Við biðum stundarkorn og hugðum fólkið koma inn á hverri stundu. Allt var hljótt, og enginn kom. Þá tók okkur að leiðast biðin og afréðum að ganga fram í ganginn. Við opnuðum eldhúshurðina hægt og rólega og bjuggumst við að sjá fólkið fyrir framan dyrnar. En viti menn: Við sáum engan mann.
Mig brestur orð að lýsa undrun okkar, þegar enginn maður reyndist vera í ganginum. Nokkru síðar komu hjónin heim og höfðu einskis orðið vör.
Þetta er sönn saga, þótt hún sé næsta ótrúleg.

Gerður Sigurðardóttir,
4. b.


Margar eru mér ráðgáturnar

Það er svo ótal ótal margt, sem er manni ráðgáta. Þær ráðgátur æskumannsins verða sennilega aldrei leystar að fullu, a.m.k. ekki í þessum heimi.
Hérna set ég fram nokkrar spurningar, sem vaknað hafa í hug mér með vaxandi þroska: Hvernig varð þessi heimur til? Hvernig varð andrúmsloftið til ? Hver gat skapað það, sem var ekki neitt, neitt, áður en jörðin skapaðist? Hvernig er dauðinn? Erum við einhverjar verur eftir dauðann, sem hrærumst í öðrum heimi? Er huldufólk til? Og sé það til, hvers konar fólk er það þá? Hvaða ljósadýrð var það, sem bróðir minn sá eitt sinn uppi á Heimakletti? Hverjar eru þessar verur, sem fólk verður vart við, en sér þó ekki? Hvernig má það vera, að sumt fólk sé skyggnt? Hvers vegna dreymir mann? Fer þá andinn úr líkamanum og lifir allt, sem mann dreymir? Er til líf á hinum hnöttum himingeimsins? Erum við ef til vill einhverjar ófreskjur í augum eða vitund annarra hnattabúa?
Vitanlegt og sannanlegt er það, að einhvern tíma hefur jörðin verið mjög ófullkomin. Hafa þau Adam og Eva verið til? Hvernig stendur á því, að maður getur allt í einu fyllzt ótta við það, sem maður sér ekki og veit ekki, en skynjar þó eitthvað óhreint í kringum sig? Þó að slíkar og þvílíkar spurningar sæki að mér í tuga tali, finnst mér ávallt þyngst á metunum spurningin um uppruna okkar mannanna. Endurfæðumst við ef til vill? Höfum við kannski lifað í fornöld (á Steinöld) og fæðumst síðan öðru hvoru á alda fresti? Þessi spurning vaknar oft með mér, þegar ég er að lesa einhverjar fornaldarsögur. Þá finnst mér eins og efnið allt sé mér svo vel kunnugt, mannlífið þá með siðum og umhverfi.
Ein af elztu ráðgátunum mínum er draumur, sem mig dreymdi, þegar ég var 7 ára. Hann stendur mér æ ljós í minni. Ég þóttist líta inn um einn búðargluggann í Verzluninni Drífandi. Allt í einu breytist allt svið þarna inni. Ég sá inn í gamaldags en hreinlega vistarveru, sem mér fannst vera líkust baðstofu. Hún var löng og mjó og þrjú trérúm undir hvorri súð. Ég sá tvo menn sitja á sitt hvoru rúmi gegnt mér. Annar dró að sér athygli mína meir en hinn. Sá var með mikið svart hár, sem nam við öxl. Hann hafði einnig mikið og þykkt yfirvararskegg, sem mér þótti hylja töluverðan hluta niðurandlitsins. Ég sá, að hann var skarpeygður og brúnaþungur. Ég sá þó í augu hans. Búningur hans fannst mér eitthvað undarlegur, þó að hann sé mér óljós. Þó man ég, að hann vakti athygli mína, því að hann var mjög frábrugðinn nútímaklæðnaði. Mennirnir sátu við drykkju. Drykkjarílátin drógu einnig að sér athygli mína. Ekki gat ég betur séð, en að þau væru nautshorn. Sá með svarta hárið og mikla skeggið svalg stórum og drakk af áfergju.
Enga glugga sá ég á vistarverunni, og þótti mér ekkert við það að athuga. Gólfið var mjög dökkt, og hélt ég helzt, að skugga bæri svona á. Mér kemur í hug, að það hafi verið moldargólf. Fyrir ofan hverja rekkju var hilla. Á hverri þeirra var einhver krús, sem ég held að hafi verið matarílát, en ekki askur.
Hinn svarthærði og brúnaþungi tók nú krúsina niður af sinni hillu og leit í hana. Þá brá fyrir svip vonbrigða í andliti hans. Allt í einu var sem hann tæki eftir mér. Hann leit þá beint í augu mér. Við það varð ég svo hrædd, að ég hrökklaðist frá og vaknaði. Mér finnst eins og ég hafi getað lesið út úr svipnum: Hvaða leyfi hefur þú til þess að skyggnast inn í líf mitt?
Þessi draumur er mér því meiri ráðgáta, þegar ég hugleiði, að ég hafði ekki minnstu hugmynd um sökum bernsku, að slík húsakynni hefðu nokkru sinni verið til á landi voru.

Sigríður Sigurjónsdóttir,
4. b.


Mér ráðgáta

Einu sinni sem oftar var ég í sveit að sumrinu. Þá gerðist atburður sá, er mig langar að greina hér frá. Þetta sumar hafði ég verið ráðinn snúningastelpa austur í Mýrdal. Sumri tók að halla og það var komin sláturtíð.
Kvöld eitt í öndverðum september var ég ásamt húsmóður minni og dóttur hennar að koma heim frá Vík í Mýrdal. Við höfðum sláturafurðir meðferðis. Þegar við höfðum gengið frá þeim, hurfum við til baðstofu, en þetta var gamall bær með járnklæddum húsgöflum, sem sneru fram að hlaðinu. Húsfreyja tilreiddi kvöldverð. Þegar við vorum öll setzt til borðs, voru barin þrjú þung högg á járnklædda húsgaflinn, þar sem við sátum. Mér var sagt að ganga til dyra og ljúka upp fyrir komumanni. Þar sem þetta var í sláturtíðinni, hélt heimilisfólkið, að þetta væri gestur að biðjast gistingar, því að þá var venju fremur gestkvæmt á þessum bæ.
Ég fór til dyra og leit út, en sá engan. Gekk ég þá út á dyrapallinn og leit fram með húshliðinni. Þar var heldur engan að sjá. Ég tjáði þá heimilisfólki, að enginn væri úti. Fólkið undraðist og ræddi um það sín á milli, hvaða högg þetta hefðu getað verið. Þar sem ekki var nú barið að dyrum aftur að sinni, héldum við flest, að þetta hefði hlotið að vera hugarburður.
Svo gengum við öll til hvílu, enda þreytt eftir erfiði dagsins. Og líður nú fram yfir miðnætti. Þá vakna allir af værum svefni við það, að barin eru þrjú þung högg á útidyr og þau mun þyngri en í fyrra sinnið. Snarast bóndi þá fram úr rekkju sinni, klæðist brókum og yfirhöfn og fer með gusti miklum til dyra. Honum dvelst nokkra stund úti. Þegar hann kemur aftur inn, segist hann hafa gengið allt í kringum bæinn og engan séð. Ekki hafði hann fyrr lagzt út af aftur, en höggin dundu enn á ný á útidyr og nú þyngri en nokkru sinni fyrr. En nú bærði enginn á sér í baðstofunni til að opna. Svo leið þá þessi eftirminnilega nótt.
Um morguninn kom maður af næsta bæ og sagði okkur þau tíðindi, að húsbóndi sinn hefði orðið bráðkvaddur um nóttina. Allt fólkið þóttist nú vita, hvernig á höggunum stóð, því að þeir höfðu verið hinir beztu vinir, húsbóndi minn og bráðkvaddi bóndinn.

Oddný Ögmundsdóttir,
4. b.


Já, hrútur, já hrútur,
hefði ég vitað það ...

Þegar ég var sendur í sveit í fyrsta sinni, þá flaug ég upp að Hellu á Rangárvöllum. Þaðan fór ég svo með áætlunarbifreið að Torfastöðum í Fljótshlíð.
Þennan dag var indælt veður, og voru margir bændur í Hlíðinni að smala til rúnings. Þegar ég hafði heilsað fólkinu, sem heima var á Torfastöðum, og nært mig dálítið, skipti ég um föt og arkaði síðan bíspertur í réttirnar. Þegar ég kom þangað, var búið að reka í almenninginn og tekið til að rýja. Ég vildi reyna að gera eitthvert gagn og bjóst til að byrja að draga rollur að rúningsfólkinu. Fyrst lærði ég að þekkja markið svo að ég gæti fundið Torfastaðakindurnar í réttinni. Ég fann strax nokkrar. Svo fann ég eina með sver og mikil horn. Hana vildi ég umfram allt leiða til rúnings. Hún var svo stór og fönguleg. Ég setti hana í klofið á mér til þess að geta betur ráðið við að leiða hana. Ég hafði ekki fyrr komið skankanum yfir hálsinn á henni, en hún tók á rás með mig. Ég gat litla viðspyrnu veitt, því að fæturnir námu tæpast við jörðina. Þannig hljóp hún með mig aftur og fram um hið auða svæði í réttinni. Allir fóru að skellihlæja, sem von var. Loks komst ég ,,af baki“ og var harla sneypulegur. Þá var mér sagt, að þetta væri hrútur og ekkert barnameðfæri. „Já, hrútur, já, hrútur,“ hugsaði ég. Hefði ég vitað það fyrr, hefði ég aldrei árætt að snerta hana, því að einhvern veginn hafði ég fengið það á meðvitundina, að hrútar væru hræðilegar skepnur.

Bjarni Bjarnason,
2. b.

seinni hluti