Blik 1961/Gjafir færðar Gagnfræðaskólanum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



Gjafir færðar Gagnfræðaskólanum


1. Silfurbrama. Þorgeir Jóelsson, skipstjóri, frá Fögruvöllum í Eyjum gaf skólanum silfurbrama, sem skólinn hefur látið setja upp og ganga frá til varanlegrar geymslu.

ctr


Þessi fiskur veiddist í net 11. apríl 1960 suðaustur af Bjarnarey á 125 metra dýpi. Hann veiddist á Von 2 Ve 113.
Við rannsókn náttúrufræðinga kom í ljós, að fiskur þessi er af Guðlaxaættinni og heitir á norsku sylvbramsa og dönsku sölvbrasen og á latínu Pterycombus brama. Ingimar Óskarsson, náttúrufræðingur, hefur gefið honum nafnið silfurbrama. Fiskur þessi er 46 cm langur, 25 cm hár og 7,3 cm á þykkt, þar sem hann er þykkastur, um kjálkabörðin.
Eftir því sem segir í þýzkri fiskifræði munu innan við 20 fiskar þessarar tegundar hafa fundizt í Norður-Atlantshafi, svo að sögur fari af. Bjarni Sæmundsson getur ekki fisks þessa í bók sinni um fiskana.
Þorgeir Jóelsson, skipstjóri á Von, gaf Gagnfræðaskólanum fiskinn, og hefur skólinn látið setja hann upp, svo sem myndin sýnir.
Við þökkum skipstjóranum velvildina og hugulsemina.
2. Svarthveðnir. Svo heitir fiskur, dökkur á lit. Hann er í eigu Gagnfræðaskólans Hann veiddist í net hér við Eyjar 2. maí 1959 á v/b Jötni. Skipstjóri var Ragnar Eyjólfsson í Laugardal hér, og kunnum við honum beztu þakkir fyrir gjöfina.
Svarthveðnir er fátíður fiskur hér við land Sá hinn fyrsti, er sögur fara af, veiddist á þýzkan togara 2. okt. 1948. Alls hafa 5 fiskar þessarar tegundar veiðzt áður hér við land svo kunnugt sé. Sá 5. veiddist 17. júní 1954. Þessi fiskur okkar er því 6. fiskurinn og sá fyrsti, sem veiðist í net. Hinir veiddust allir í botnvörpu.
3. Svínsungi. Á s.l. ári færði Eiríkur Sigurðsson frá Hruna Gagnfræðaskólanum svínsunga í formalíni. Þessi gjöf er ágætt kennslutæki, sem við höfum mikið gagn af. Við þökkum Eiríki vinsemd þessa og hugulsemi.
4. Lárus Long, málari, gaf skólanum uppsettan fugl óþekktan.
Á undanförnum árum hafa nemendur skólans gefið honum marga góða gripi í náttúrugripasafn hans, svo sem skeljar, kuðunga og m.fl. því líkt. Þær gjafir eru allar ómetanlegar og sérstaklega mikilvægar til fróðleiks um dýralíf í sjónum hér við Eyjar. Síðar munum við reyna að safna saman í heild dálitlum fróðleik um það, sem við, er í skeldýrsklúbbnum vinnum, þykjumst hafa uppgötvað varðandi líf og útbreiðslu sælindýra hér við Eyjar.
5. Bræðurnir Hermann og Arnar Einarssynir, Helgafellsbraut 6, gáfu skólanum Landnámabók, útgáfu Helgafells, í tilefni 30 ára afmælis skólans á s.l. hausti.
Fyrir hönd Gagnfræðaskólans þakka ég alúðlega þessar góðu gjafir og velvild og hlýhug til stofnunarinnar og menningar Eyjanna.

Þ.Þ.V.