Blik 1961/Hjónin í Brekkhúsi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



Hjónin í Brekkhúsi
Sigurður bóndi Sveinbjarnarson og
Sigurbjörg Sigurðardóttir



Árið 1891, um vorið, flytjast þau til Vestmannaeyja frá Stóru-Hildisey í Landeyjum með son sinn Sigurjón tveggja ára. Sigurður var þá 26 ára (f. 25. júní 1865) og Sigurbjörg 28 ára, fædd 1863.

ctr

Hjónin í Brekkhúsi, Sigurður Sveinbjarnarson og
Sigurbjörg Sigurðardóttir, með Sigurjón son
sinn á milli sín, tveggja ára.
Myndin mun því tekin árið 1891.

Samkvæmt þá gildandi lögum um flutning fólks milli sveita á Íslandi urðu þau hjónin að sanna það, að þau ættu nægilegar eignir til þess að fá búsetu í Vestmannaeyjum. Vorið 1891, 9. maí, voru tveir gestir staddir að Hildisey, hreppstjórinn í Austurlandeyjum, M. Björnsson, og Sigurður Guðmundsson bóndi þar, til þess að skrá eignir þessara hjóna, sem hugðu á flutning til Vestmannaeyja. Eigur þeirra voru þessar og metnar sem hér segir:

Kr.
Reiðtygi 20,00
5 hestar reipi 5,00
11 ær á 9 kr. hver 99,00
10 gemlingar á 6 kr. hver 60,00
2 sauðir tveggja v. á 11 kr. 22,00
1 sauður þriggja vetra 13,00
Brún hryssa 6 vetra 54,00
Brúnn foli tveggja vetra 46,00
2 kistur 20,00
Innstæða í sparisjóðsbók 100,00
Frá Jóni Brandssyni,
Hallgeirsey
60,00
Eignir samtals kr. 499,00

Annað sérstakt mat fór fram á eignum þessum. Það breytti litlu um verð. Hver gemlingur var hækkaður í verði um eina krónu.
Hjónin Sigurður og Sigurbjörg settust að í tómthúsinu Fögruvöllum, þegar til Eyja kom, í mótbýli við hjónin Sigurð Vigfússon og Þorgerði Erlendsdóttur. Árið 1896 (15. febr.), eignuðust þau annað barn sitt. Það var stúlkubarn og skírt Guðbjörg Aðalheiður.
Árið 1905 (11. febr.), fá hjónin Sigurður og Sigurbjörg byggingu fyrir jörðinni Brekkhúsi, þegar hún féll úr ábúð eftir Guðlaug Sigurðsson, bónda þar frá 1894. En hann flutti til Ameríku.
Þessi hjón í Brekkhúsi fengu brátt almennings orð fyrir manngæzku og drengskap. Þess vegna sóttust ráðandi menn sveitarfélagsins eftir því að koma til þeirra í vist munaðarlausum börnum. Þar mun sóknarpresturinn, séra Oddgeir Guðmundsen að Ofanleiti, hafa ráðið mestu um, enda var honum það hugleikið, að munaðarlausu börnin í sveitarfélaginu mættu njóta sem beztrar umönnunar. Hann var þannig gerður maður. Margt bar þess vitni í fari hans. Sum árin dvöldust hjá hjónunum í Brekkhúsi ekki færri en 4 munaðarleysingjar, sem allir undu sér vel hjá þessum mætu hjónum. Sum þessara munaðarlausu barna dvöldust hjá þeim hjónum til þroskaaldurs, unnu þeim og virtu sem beztu foreldra. Alls ólu þau upp átta börn fyrir aðra, flest munaðarlaus.

Aðalheiður Sigurðardóttir, Brekkhúsi.
Sigurjón Sigurðsson, Brekkhúsi.

Sjálf eignuðust þau hjón tvö börn, Sigurjón, sem fæddur var 1889, og Aðalheiði, sem fædd var 1896.
Sigurjón Sigurðsson frá Brekkhúsi, eins og hann var oft nefndur, hóf formennsku hér í Eyjum um tvítugsaldur, var dugmikill maður, eins og hann átti kyn til, karlmenni að burðum og fengsæll formaður. Jafnframt var hann einn af slyngustu bjargveiðimönnum Eyjanna. Báðum þessum atvinnuvegum Eyjabúa, sjósókn og fuglaveiðum, kynntist Sigurjón á uppvaxtarárum sínum í Brekkhúsi. Hún er ein þeirra 8 jarða, sem á nytjar í Bjarnarey.
Sigurjón Sigurðsson rak hér fyrstur manna fisksölubúð í bænum. Nokkur síðustu ár ævinnar var hann yfirfiskimatsmaður hér, traustur og trúr. Hann var tvígiftur. Fyrri kona hans var Kristín Óladóttir Þorvarðarsonar*, hálfsystir dr. Páls Eggerts Ólasonar prófessors og sagnfræðings. Síðari kona Sigurjóns Sigurðssonar var Ingibjörg Högnadóttir frá Baldurshaga í Eyjum hreppstjóra Sigurðssonar og konu hans Mörtu Jónsdóttur.
Sigurjón Sigurðsson dó 1959.
Aðalheiður, dóttir þeirra hjóna í Brekkhúsi, giftist Árna Finnbogasyni bónda Björnssonar í Norðurgarði. Hún dó 30. jan. 1958.
Bæði þessi systkini frá Brekkhúsi þóttu jafnan minna á foreldra sína um manndóm og manngæzku, dugnað, hyggindi og elju. Hinir mennilegu heimilishættir hjónanna í Brekkhúsi fylgdu börnum þeirra í lífinu.
Eftir að hjónin Sigurður og Sigurbjörg settust að í Brekkhúsi, var hjá þeim faðir Sigurðar, Sveinbjörn Þorleifsson, nær sjötugur að aldri.
Sigurði Sveinbjarnarsyni er svo lýst af kunnugum: Hann var þrekmaður mikill og hraustur, duglegur með afbrigðum og fiskinn. Sláttumaður var hann einnig ágætur. Hann var dagfarsprúður maður, en snöggur, þegar því var að skipta, hreinlyndur drengskaparmaður. Búhöldur var hann ágætur, hygginn og iðjusamur og sérstaklega skilvís í öllum viðskiptum.
Sami maður lýsir Sigurbjörgu húsfreyju á þessa leið: Hún var dugnaðarhúsmóðir og tápmikil, þó að hún væri fremur smá vexti. Mildin og manngæzkan voru áberandi eiginleikar í fari hennar. Þeirra eiginleika nutu ekki sízt öll munaðarlausu börnin, sem þau hjón ólu upp.
Eitt af fósturbörnum þeirra hjóna hét Björgvin Pálsson. Þau hjón tóku hann í fóstur 16 vikna. Hann var bróðursonur Sigurbjargar. Foreldrar drengsins urðu fyrir mikilli ógæfu, svo að sárustu vandræði steðjuðu að heimili þeirra. Fór þá Sigurbjörg húsfreyja í Brekkhúsi sjálf með áraskipi upp í Landeyjasand til þess að sækja bróðurson sinn. Björgvin Pálsson náði þroskaaldri.
Hann giftist frá Brekkhúsi. Hann hrapaði til dauðs í Mykitakstó, (Miðdagstó, Mykjuteigstó) við austanverðan Herjólfsdal.
Sigurður bóndi Sveinbjarnarson dó 11. júní 1933, og Sigurbjörg kona hans 3. júní 1956, 92 ára gömul. Síðustu æviárin dvaldist hún hjá Aðalheiði dóttur sinni í Hvammi við Kirkjuveg og manni hennar, Árna Finnbogasyni.
Magnús Jónsson, skipstjóri og skáld í Sólvangi í Eyjum, orti erfiljóð eftir Sigurð Sveinbjarnarson. Það var sungið í Landakirkju við jarðarför hans:

Með styrkum vilja stóð hann,
og stefndi fram á leið,
svo ála lífsins óð hann,
að engri hættu kveið.
Frá árdag allt að kveldi
hann áfram sótti fast,
með von og viljans eldi,
ei virti heimsins last.
Þess orðstír lengi lifir,
sem lítið fæst um raun,
en hleypur upp og yfir
hvern ás og brunahraun.
Og það er hann, sem þjóðin
á þakkarskyldur við,
því greið er gengna slóðin
og gott hið rudda svið.
Þín mörgu árin minna
á mikið starf og þor.
þú vildir hraustur vinna
og veikra mýkja spor.
Og gleymzt það eigi getur,
hve glaður œtíð varst,
að sumar varmt og vetur
þú vor í huga barst.
Að berum sorg í sinni
veit sá, er skilur allt.
Nú okkar gamla inni
er ömurlegt og kalt.
Svo kveðjum við þig, kæri,
með kærstri ástarþökk.
Að fósturmoldin færi
þér frið, við biðjum klökk.
Húsið í Brekkhúsi, sem Sigurður byggði 1909.


Þegar þau hjón fluttu að Brekkhúsi, var þar gamall bær og lélegur. Íbúðarhús það, sem nú stendur á Brekkhússjörðinni, byggði Sigurður og þau hjón árið 1909. Húsið er timburhús á steinsteyptum kjallara, stærð þrjú herbergi og eldhús á hæð. Árið áður eða 1908 tók Sigurður að undirbúa byggingarframkvæmdirnar. Þegar hann átti tómstundir, lét hann drengina Sigurjón son sinn og Friðfinn fósturson sinn sækja smáhraunhellur og annað myljanlegt smágrjót út í hraunið nálægt bænum og bera það heim að bæ. Þar muldi bóndi grjót þetta með hamri og notaði síðan árið eftir í steypuna, þegar kjallarinn var steyptur. Meðan á byggingarframkvæmdum stóð sumarið 1909, bjó Brekkhússfjölskyldan í lambhúsi vestur á bæjartúninu, og var það tjaldað innan að einhverju leyti til að gera það vistlegra.
Árið 1908 rak stórt tré í Víkina, þar sem Brekkhús á aðild að reka. Tréð kom í hlut Sigurðar bónda Sveinbjarnarsonar. Það var sagað með stórviðarsög og fengust úr því gólfbitarnir í nýbygginguna. Þar eru þeir enn ófeysknir og traustir.

Ég, er þessi orð skrifa um hjónin í Brekkhúsi, Sigurð Sveinbjarnarson og Sigurbjörgu Sigurðardóttur, þekkti þau ekki persónulega og hafði engin kynni af þeim. En orðstír þeirra lifir í Eyjum og hann er svo tengdur manndómi og manngæzku, að mér fannst ég mega til með að kynna þessi hjón eilítið uppvaxandi kynslóð bæjarfélagsins, vekja athygli hennar á þeim. Einnig var það gamla myndin, sem ég fann af þeim, sem hvatti mig til að minnast þeirra.
Árni Árnason frá Grund hefur veitt mér þessa fræðslu um ætt Sigurbjargar húsfreyju í Brekkhúsi: Faðir hennar var Sigurður Gunnlaugsson bóndi að Litlu-Hildisey í Landeyjum, ættaður frá Efra-Hvoli.
Móðir Sigurbjargar var Ingibjörg, f. 1839 og d. í Norðurbúðarhjáleigu í A.-Landeyjum 1924. Ingibjörg var dóttir Árna bónda Pálssonar í Rimakoti og konu hans Ingveldar Ormsdóttur.
Systkini Ingibjargar voru m.a. Björg Árnadóttir á Gilsbakka, móðir Bjargar Sighvatsdóttur konu Erlendar N. Árnasonar frá Krossi í Landeyjum. — (Þau hjón bjuggu hér um áratugi á Gilsbakka við Vestmannabraut), — Árni bóndi Árnason á Vilborgarstöðum, faðir Árna eldra frá Grund hér föður Árna símritara í Ásgarði, — Guðbjörg húsfreyja á Vilborgarstöðum, kona Bergs Magnússonar, síðar Sæmundar Guðmundssonar¹).
¹ Leiðr.

Þ.Þ.V.