Blik 1963/Fiskiróður

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963



ÁGÚST ÁRNASON, KENNARI:


FISKIRÓÐUR


(Þessa frásögn, sem hér fer á eftir, skrifaði Ágúst kennari Árnason nokkrum árum áður en hann lézt. Haustið 1897 réðst Ágúst heimiliskennari að Þorvaldseyri til Þorvaldar Björnssonar bónda þar. Kennsluna mun hann hafa innt af hendi fram í þorralok 1898. Þá gerðist heimiliskennarinn formaður á einu af áraskipum Þorvaldar bónda og reri út frá Eyjafjallasandi.)

Lesendur góðir!
Mig langar til að kalla ykkur í einn róður út frá Eyjafjallasandi. Eigi hirði ég um að hafa hann neitt sérstæðan eða hættulegan, heldur eins og þeir voru algengastir í sæmilegum sjó og veðri. En sá kostur verður við hann, að ég mun hvorki hrekja ykkur né þreyta eða tefla á tvær hættur, því að við getum mæta vel „setið kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast,“ eins og þar stendur.
Sjóferð sú, er hér verður greint frá, er farin undir Austur-Eyjafjöllum fyrir um það bil 65 árum.
Skipseigandinn og útgerðarmaðurinn er Þorvaldur Björnsson bóndi á Þorvaldseyri, — einhver nafnkunnasti stórbóndi landsins í þá daga. Oft var honum jafnað til Sigurjóns á Laxamýri eða Andrésar á Hvítárvöllum.
Skipið er sexæringur „áttróinn“, þ.e. með barkaróðri. Skipshöfnin er 12—14 manns. — Þorvaldur bóndi hafði fengið heimiliskennara sinn, sem þá var um tvítugt, — en nokkuð vanur sjómennsku við „Sandana“ til þess að taka að sér formennsku á skipinu. Hann hafði nú hug á að reyna skip og háseta, — og svo sjálfan sig. — Í samráði við einn yngsta hásetann afréð hann, eins og þá var stundum gert, að „heita á“ fátæka ekkju eina í nágrenninu að gefa henni vel „í soðið“ af óskiptum afla, ef komizt yrði á sjó fyrir næstu helgi og einhver afli fengist.
Það er komið fram á Góu.
Grimmdarhörkur hafa gengið undanfarnar vikur, viðsjárverð skörð komin í heyin hjá mörgum bóndanum og þá ekki síður í matarforða heimilanna, svo að margur horfir svipdapur og hyggjuþungur til framtíðarinnar. — Tvo undanfarna daga hafði verið suðvestan rok, útsynningur, með éljagangi og stórbrimi, — svo miklu, að „rann yfir“, þ.e. flæddi upp yfir „kambinn“ á fjörunni, upp í gljá. —Það var almenn trú í þá daga, að sjór yrði orðinn fær innan fjögurra nátta eftir svo mikið aftakabrim. Þetta mun oft hafa reynzt rétt, því að veðurátta gengur oft til norðurs upp úr slíkum veðurhroða.
Þetta fór líka svo að þessu sinni, því að veður gekk til norðanáttar með hörkufrosti. Snjór huldi allt og sjó tók að lægja.

ctr

Myndin er af 8-æringnum Olgu VE 22.
Eigendur voru: Gísli Lárusson í Stakkagerði og Guðjón Þorvaldsson, sem byggði
Stakkahlíð nyrzt við túnjaðar Stakkagerðis. Það er gamla húsið
Lyfjabúðar Vestmannaeyja nr. 24 við Vestmannabraut.
Halldór Brynjólfsson átti myndina og gaf hana Steingrími Magnússyni, nú búsettum
í Reykjavík. Steingrímur gaf hana síðan Byggðarsafni Vestmannaeyja.
Olgu smíðaði Jakob Fœreyingur árið 1903.

Formaðurinn gerði því hásetum sínum að ná sambandi hver við annan og mæta í aftureldingu næsta morgun þar, sem skipið hvolfdi. Það var enn þá uppi á „grösum“, en þó fremur stutt frá sjó, eins og víðast er undir Austurfjöllunum. Þeir ætluðu svo að taka það með sér, þar sem færi til að setja skipið til sjávar, var gott. — Öllum hásetunum varð að gera aðvart, af því að þetta var fyrsti róðurinn, útdráttarróðurinn. Annars átti hver þeirra að sjá um sjálfan sig og koma til skips í tæka tíð, þegar róðrarlegt var. Það gerðu þeir, svo að furðu sjaldan varð að baga.
Kvöldið áður voru tekin til fargögn þau, sem ekki voru hjá skipinu, svo og veiðarfæri og skinnklæði, svo að allt væri tilbúið fyrir nóttina. Síðan var þetta dregið á sleða til skips og sjávar.
Þegar risið var úr rekkju, kom í ljós, að sama veður hafði haldizt. Þá hafði lygnt vindinn, en frostið helzt, og heiður var himinn og stjörnubjart. Flestir hásetarnir mættu nokkurn veginn samtímis og nær allir gangandi, því að rifahjarn var yfir allt.
Öllum var hlýtt eftir gönguna, margur var þó heldur þunnleitur. Fljótséð var, að það var erfiðið en ekki ístran, sem hélt þeim heitum. Meiri hluti hásetanna voru aldraðir, þreytulegir bændur, og með þeim fáir, frísklegir unglingar. Sameiginlegt einkenni þeirra langflestra var auðsjáanlega það mark, sem hungurvofan hafði sett á þá. Hún hafði strokið þeim um kinnar og kjálka undanfarnar vikur, nema heimamönnum Þorvaldar bónda á Eyri.
Við nánari kynni fékk ég og fulla vissu fyrir því, sem mér reyndar kom ekki á óvart, að langflestir höfðu farið að heiman matarlausir þennan ískalda vetrarmorgun, — orðið að láta sér nægja mjólkurbolla í hæsta lagi, — alls ekki kaffi eða brauðbita. Slík „luxusvara“ var ærið fátíð um þetta leyti árs.
En hvað um það. Nú var ekki vonlaust um nýjan fisk og lifraða hausa næsta dag, ef lánið væri með og hendur látnar standa fram úr ermum. Var því með fullum krafti tekið til að moka skipið upp úr snjónum, þar sem það hvolfdi, snúa því upp og hreinsa það. Gekk það fljótt og greiðlega.
Formaðurinn, sem sjálfur var með þeim yngstu og óvanur formennsku, leit svo til hásetanna, að vissast væri að hafa alla „kristilega“ aðferð og venjur við starfið. Raðaði hann nú fyrst hverjum þar til verka, sem honum þótti líklegast, að hann væri bezt hæfur og undi bezt hlutverki sínu. Að sumu leyti fór formaður þar að óskum mannanna sjálfra eða tillögum þeirra, sem bezt þekktu hvern um sig.
Sumt af farviðunum var látið upp í skipið. Hitt skyldi „vöktunarmaðurinn“ koma með á sleðanum.
Þegar allt var tilbúið, kallaði formaðurinn: „Nú skulum við allir standa að í drottins nafni.“ Tóku þá allir á því, sem til var. Brunaði skipið þá léttilega af stað, svo að hlaupið var með það fram á „Kamb“ á örstuttum tíma, — þó með nokkrum smáhvíldum, enda var færi gott, — snjór og ís yfir öllu.
Þegar fram á Kambinn kom, var tæplega „lagljóst“. Þótti það jafnan góðs viti, er setningur gekk svo greiðlega.
Þegar hér var komið, sást, að sjór var orðinn „slarkfær“, skipaði formaður því að „bera fram“ þá þegar, þ.e. bera öll fargögn niður að flæðarmáli. Þar næst var sett fram og „látið liggja“. — Þá lá næst fyrir að skinnklæðast. En heldur voru þau hörð og óþjál í gaddinum. Var því reynt að bleyta þau og mýkja í flæðarmálinu til þess að komast í þau, en naumast hefði verið hægt að kalla þetta liðlegan fimleikabúning. Margur var krímóttur í framan eftir að hafa troðizt þannig í sótreykta skinnstakkana. En hvað um það, — enginn fáraðist yfir því, að annað ráð var ekki tiltækilegt til þess að geta haft not af þeim. Annars skinnklæddu menn sig að jafnaði heima og riðu í þeim í „sand“. En sökum þess að í þetta sinn átti að „draga fram“ um leið og gangfæri var gott, varð því ekki við komið.
Næst lá þá fyrir að „hafa rétt“, síðan „að ára“ og „setja nær“ og bíða svo eftir „lagi“, því að ekki var sjór svo dauður, að hjá því yrði komizt, enda var það sjaldgæft.
Til verka var skipað á þann hátt, að tveir áttu að „styðja fram“, sex „að leggja út“ og fjórir „að ýta“, — samtals tólf manns. Færri varð naumast komizt af með á þess konar skipi. — Nokkra stund var „stutt“, og einu sinni skipaði formaður „að setja á hæl“, þ.e.: draga sig undan vondu ólagi. En strax á eftir bauð hann: „Nær aftur“, þegar ólagið var um garð gengið. Þá var ekki laust við, að kurr heyrðist um það, að helzt til djarft mundi eiga að tefla.
Formaðurinn þóttist sjá, að sjór væri að ganga til bötnunar, þó að lítt væri vanur formennsku. Hann óskaði með sjálfum sér, að ekki þyrfti lengi „að styðja“, því að það dró allajafnan úr mönnum kjarkinn og hrakti þá, en það fannst honum varla gustuk, ef hjá yrði komizt, ekki betur en flestir þeirra virtust undir það búnir.
Rétt á eftir þóttist hann sjá, að nú eða aldrei væri tækifærið. Rekur hann þá rokna högg með hnefanum í kappann og hrópar: „Takið þið nú allir á því.“ Þá skjóta allir sér á svipstundu skáhallt undir skipið, — lyfta því og mjaka af stað með hrópum og köllum hver að öðrum: „Tökum á því, — áfram, — áfram, — betur, — betur.“
Brátt lyftir sjórinn því að framan. Róðrarmennirnir flýta sér upp í hver af öðrum, „leggja út“ og berja lífróður, — en skutmennirnir ýta á eftir af öllum kröftum. — Formaðurinn ýtir lengst, því að hann er aftastur. Hann „botnar“ því lengst.
Eftir örstutta stund er skipið flotið og allir komnir upp í. Þá er róðurinn hægður. Bitamaðurinn dregur inn bandið, sem lá upp í fjöruna aftur af skipinu til vonar og vara, ef upp skyldi slá. Formaðurinn setur stýrið fyrir. — Þá tekur hann ofan höfuðfatið og segir: „Nú skulum við allir biðja góðan guð að vera með okkur.“ Allir gera hið sama og lesa í hljóði „Sjóferðamannsbænina“, en hann „blessunarorðin“ upphátt á eftir og gerir krossmark með hægri hendinni fram yfir skipið.
Síðan eru hvíldir þeir, sem úr landi reru, og haldið áfram út á svo sem 15—18 faðma dýpt. — Þegar þar var komið stakk formaður upp á því „að renna“ og vita, hvort „sá guli væri heima“. Það var þegar gert.
Vindur var orðinn lítill, svo að ekki þurfti nema tvo til þess að andæfa.
Ekki leið á löngu þar til „vart“ fór að verða. Urðu þeir framámaðurinn og formaðurinn samtímis og fyrstir til að sýna skipshöfninni sinn stórþorskinn hvor, sprettharðan og spriklandi. Síðan kom hver af öðrum um allt skipið. — Mér er minnistætt, hversu skyndilega glaðnaði þá yfir skipshöfninni. Deyfðin og áhyggjusvipurinn virtist þurrkast burt í einni svipan.
Líklega hefur fiskurinn verið í „hnöppum“ eða „neistum“, því að hann tregaðist eða „tók af“, þegar búið var að „sitja“ dálítinn tíma á sama stað. Þá var „haft uppi“ og „kippt“ eða „akað“ dálítinn spöl grynnra eða dýpra til austurs eða vesturs. Gekk svo allan daginn.
Andófsmenn voru alltaf hvíldir, þegar kippt var. Sú skylda hvíldi á þeim auk andófsins að halda nokkurn veginn tölunni á drættinum og geta sagt til hve mikið væri komið í hlut á hverjum tíma. Enn fremur áttu þeir að eggja færamennina og hvetja með loforðum um verðlaun, „setja undir“ fallegar stúlkur handa þeim sérstaklega, sem fullgerði hlutinn, „ræki í“ eða byrjaði á nýjum, „tæki upp undir“ o.s.frv.
Þannig leið dagur að kvöldi með meinlausu glensi og gamanyrðum, — og reytingsdrætti. Og þó að ekki tækist að fá fullfermi, fór „útdrátturinn“ að þykja góður hjá óvaningi, — því að alltaf hlaut formaðurinn, — verðskuldað eða óverðskuldað — sinn hluta af heiðrinum eða vansæmdinni.
Sjálfsagt er í þessu sambandi að geta þess, þó að ekki bendi það beinlínis á heitan náunganskærleika, að það dró ekkert úr ánægjunni, þó að við sæjum, að þeim, sem síðar komust á flot, gengi sízt betur en okkur.
Þó lítið eitt yrði vart enn þá, var nú ekki um annað gera en fara „að hanka uppi“ og halda til lands, því að ekki var eigandi undir öðru en að geta lent í lagljósu, enda voru allir hinir farnir að draga sig nær og sumir lentir. Var nú róið inn á „legu“. Aflinn var það mikill, að sjálfsagt þótti að „seila út“. Fiskurinn var þá þræddur upp á þar til gerða kaðalspotta með beinnál á öðrum endanum en trétyppi á hinum, og var það kallað seilubotn. Á hverja seil voru settir 50 fiskar. Seilunum var öllum fleygt í sjóinn jafnóðum og svo hnýttar við sterka kaðallykkju, sem kölluð var „forhlaupari“. Í hann var svo aftur festur „stjórinn“, 50—60 faðma langur kaðall, liðlegur, eða þá aðeins sterkt færi, sem undið var upp á hnykil og látið rekjast sjálft út úr austurrúminu í landróðrinum.
Dálítið „hlið“ var þar, sem lenda átti, en talsverður straumur á „legunni“ upp í vestur „eyrina“, grunnboða, sem varð að hafa gætur á og vakandi auga. Þess vegna varð með öruggu andófi að halda skipinu á réttum stað, meðan seilað var.
Nú var ekki annað eftir en „að lenda“, enda mátti það varla seinna vera vegna birtunnar. Var þá næst að skipa fyrir verkum til þess. Annar framámaðurinn skyldi fara upp með „kollubandið“; hinn skyldi standa „utan undir“ með tveimur skutmönnunum og sex róa í land. Þá voru ekki eftir nema formaðurinn á sínum stað og einn gamall maður, sem hafa skyldi eftirlit með stjórafærinu. Annar andófsmaður átti að fara með „hnútubandið“ undan ári.
Nú var allt tilbúið og ekki annað eftir en að færa sig sem grynnst að óhætt var og fá „lagið“.
Eftir örlitla stund kallar formaðurinn snöggt: „Róið þið“. Allir taka undir og róa, hver sem betur getur. — Þykk alda ríður undir afturenda skipsins og formaður kallar enn: „Vel með þessum“. Aldan tekur skipið með sér og fellur freyðandi framundan því um leið og hún kastar því á réttum kili beint upp í fjöruna. „Bandamaðurinn“ hleypur þegar fyrir borð og upp með bandið um leið og sjórinn fellur. „Utanundirmennirnir“ hlaupa fyrir borð stjórnborðsmegin og leggja skipið á hliðina um leið og næsti sjór slær því flötu að sandinum. Róðrarmennirnir leggja upp árarnar og formaðurinn kippir af stýrinu. Sá, sem gæta átti „stjórans“, fer með leifarnar af hnyklinum upp í fjöruna. Síðan tekur hann þegar til að draga seilarnar með gætni í land. Hann gætir þess, að láta öldurnar bera þær að mestu leyti að landi. Að öðrum kosti gæti allt slitnað og tapazt. Þar með er lokið sjálfri lendingunni. Allt hefur gengið klakklaust.
Það næsta er að draga aftan undan sjó upp í „skiptifjöru“. Síðan er skipið sett og því hvolft og frá því gengið að öllu leyti.
Þegar því er lokið, er „vöktunarmaðurinn“ kominn með hesta handa öllum. Var þá gengið að því að skipta aflanum. En áður en það var gert bar formaðurinn það undir hásetana, hvort þeir væru samþykkir því, að staðið væri við áheit það, er hann hafði gert. Allir töldu það sjálfsagt. Í hlut munu hafa komið 20—25 fiskar, og voru allir ánægðir með dagsverkið, þó að langt væri orðið (18-20 tímar). Ekki töldu menn eftir sér að ganga heim eftir erfiði dagsins, því að hestarnir voru látnir bera aflann.
Morguninn eftir var enn komið í „sand“, áður en lagljóst var. En þá var kominn kaldi við austur og því auðsætt, að sjóveður væri brátt á þrotum. Samt var hvolft upp skipinu, það sett fram og róið, því að brimlaust var. En vindur fór vaxandi með birtingunni og sjór „dró í sig“, svo að setan varð stutt og afli tregur, — líklega 6—8 í hlut. Fyrir hádegi var kominn austan stormur og slydda. Þar með „tók frá“ um tíma.
Til fróðleiks og gamans skal þess að lokum getið, að það var ekki ófyrirsynju af formanninum að taka tillit til siðvenju og trúarsiða við sjóferðirnar, enda ekkert nema fagurt við það í sjálfu sér, væri það gert í einlægni og hræsnislaust.
Einum eða tveim árum síðar en umræddur róður átti sér stað setti Þorvaldur bóndi á Þorvaldseyri annan ungan mann, alls ekki óálitlegan, fyrir sama skipið.
Þegar það þá skyldi sett fram í fyrsta sinn, kallaði ungi formaðurinn þannig: „Farið þið nú af stað með helvítis dallinn.“ Þá gekk svo fram af hásetunum, að þeir gengu allir frá með tölu og kváðust ekki snerta á skipinu með slíkum forráðamanni. Eigandinn varð að beygja sig og útvega annan formann. Hinn fyrri fékk ekki svo mikið sem að vera háseti á skipinu.
Líklega er þetta eitt af allra fyrstu verkföllunum hér á landi, þótt lítið sé. Mig furðar næstum á einurð og einbeittni gömlu „karlanna“ minna, því að ekki var útvegsbóndinn að Þorvaldseyri neitt lamb að leika sér við í þá daga. En tímarnir breytast og mennirnir með. Hugarfarsbreytingar þjóðarinnar síðan eru stórvægilegar, einnig í trúarlegum efnum.