Blik 1963/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 4. kafli, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


IV. kafli, 1903-1914
(3. hluti)


1. Ég er sakaður um það að hafa bannað skólabörnum í fyrra að lesa náttúrufræði undir próf í 4. bekk, námsgrein, sem kærandi kenndi. Kvað hann prófdómara, Kristinn Benediktsson, hafa sagt frá þessu eftir einhverjum skólabörnum, og Ágúst kennari Árnason þóttist einnig hafa heyrt þetta.
Áður en ég fer frekar út í þetta atriði, lýsi ég þetta svívirðilegustu lygi, og er ég reiðubúinn til að synja fyrir þessa sök með eiði. Og hafi það verið sérstaklega þetta atriði, sem felldi mig í augum skólanefndarinnar, þá hefði hún fyrst þurft að hafa óræka vissu fyrir, að þetta væri satt, en þá vissu getur hún aldrei eignazt af þeim einföldu ástæðum, að ég hefi aldrei látið mér detta neitt slíkt í hug.
Mér skildist nefndin leggja mikið upp úr því, að mörgum börnum hefði borið saman um þetta. Næstum daglega rekum við kennarar okkur á það, að börnin segja óhikað margt, sem er ýmist með öllu ósatt, eða þá eitthvað úr lagi fært, sumpart af misskilningi og sumpart af rangri eftirtekt. Hversu oft hefi ég til dæmis rekið mig á það, að svo og svo mörgum börnum ber saman um, að lexía þeirra í einhverri grein hafi átt að ná á þessa blaðsíðu, og svo og svo mörgum ber aftur saman um, að hún hafi átt að ná út á hina blaðsíðuna. Stundum er hvorugt satt, stundum annað af tvennu, en aldrei hvort tveggja. Það er alls ekki svo að skilja, að börn geri þetta í illum tilgangi að jafnaði, heldur af því, að þau hafa ekki sett á sig, hvað sagt er, nema að nokkru leyti, og svo fylla þau upp í eyðuna með eigin ímyndunarafli sínu. Fullorðnum verður þetta stundum á líka, og vísa ég til bókarinnar „Hugur og heimur“ eftir dr. Guðmund Finnbogason í þessu tilliti.
Við þetta skal ég svo bæta spánýju dæmi einmitt af þeim börnum, sem í fyrra voru í 4. bekk en nú í 5. — Út af ástæðum, sem ég kem seinna að, prófaði ég með prófdómara séra Oddgeiri Guðmundssyni 5. bekkjar nemendur í reikningi, sem kærandi kenndi. Eitt dæmanna, sem börnin fengu, var að reikna út flatarmál hrings. En er börnunum virtist óhægt að hitta á rétta aðferð, tóku þau til að segja hvert af öðru, að þetta dæmi gætu þau ekki reiknað, því að þau hefðu aldrei fengið tilsögn í að reikna hringflöt. Þetta staðhæfði fjöldinn af börnunum í áheyrn mína og prestsins, þangað til formúlan fyrir útreikningnum datt upp úr einum drengnum allt í einu, og könnuðust þá þegar flest öll við hana og ósönnuðu á svipstund allt, sem þau voru nýbúin að fullyrða. Hér er presturinn vitni mitt. Þetta eru nú sömu börnin, sem eiga að hafa sagt það um mig, að ég hefði bannað þeim að lesa undir próf. — Liggur ekki nær að halda, að þau hafi slegið þessu fyrir af því að þau hafa fundið sig veik í þessari námsgrein, án þess að þau gætu gert sér þess grein, hvílíkar afleiðingar sá fyrirsláttur gæti haft, — ef þau þá nokkurn tíma hafa sagt það.
Skólanefnd, sem ætlar sér að dæma mann frá starfi sínu og kasta honum atvinnulausum út á hjarnið fyrir sakir á slíkum grundvelli sem þessum, hún er ekki vandlát að gögnum.
Þá er á það að líta, hvaða hag ég hefði getað haft að því að banna lestur í einni námsgrein undir próf. Mér hefur alltaf fundizt minn eiginn heiður mjög kominn undir því, að prófin færu vel, jafnt í þeim greinum, sem aðrir kenndu, eins og í mínum. Og undarlegt er það, hefði ég gert þetta kæranda til meins, að ég skyldi aldrei í hálfyrði minnast á það við skólanefndina né nokkurn annan, að börnin hefðu staðið sig slælega í þessari grein.
Enn fremur er það mjög undarlegt, að hvorki kærandi né prófdómari skyldu kæra yfir þessu undir eins, þá hefði þó verið hægast að gera mig sannan að sök, ef ég hefði verið sekur á annað borð.
2. Ég er sakaður um að hafa slett mér fram í að hafa prófað 5. bekkjar-nemendur í reikningi, sem kærandi kenndi, og rekið svo á eftir börnunum, að þau hefðu ekki fengið að ljúka við dæmin.
Síðara atriðið getur prófdómarinn, séra Oddgeir Guðmundsson, borið um. Við ætluðum börnunum engan ákveðinn tíma, heldur biðum eftir þeim miklu lengur en venjulegt er og hjálpuðum þeim og leiðbeindum, eins og frekast er leyfilegt á fullnaðarprófi. Eða öllu réttara sagt: af því að kennarinn var ekki við sjálfur, þá vildum við láta okkur farast svo vel við hann og nemendur hans, sem samrýmanlegt var við tilgang fullnaðarprófs. Að dæmin hafi verið þung og í skakkri röð, eins og kærandi gaf í skyn, getur verið álitamál, en við álitum dæmin liðleg og röð þeirra óaðfinnanlega.
Að ég hafi slett mér fram í að prófa í reikningnum, er ósatt, því að kærandi bað mig um það sjálfur vegna þess að hann var veikur, þegar að þessari námsgrein kom. Þetta hefur kærandi lýst lygi, en það stendur jafnóhrakið fyrir því. Ég er reiðubúinn til að sanna framburð minn með eiði.
Þá er ein sökin sú, að ég hafi hrúgað saman svo mörgum námsgreinum, sem kærandi átti að prófa í, á einn dag, í þeim tilgangi að gera börnin þreytt um of svo að prófið yrði lélegra. Þessu hef ég að nokkru svarað hér á undan. En því skal við bætt, að Íslandssaga, sem kærandi kenndi í 5. bekk, var geymd til síðasta prófdagsins, svo að námsgreinar urðu fleiri þann dag en ætlað var, einmitt af því að kærandi var veikur fyrstu dagana af prófinu. Þetta geta prófdómendur borið um.
4. Þá á ég að hafa einveldi í skólanum, og það svo að ég jafnvel setji prófdómarana niður, þar sem mér sýnist. — Hér sem annars staðar skýtur kærandi fram hjá markinu, því að prófdómarar hafa árlega falið mér að búa út próftöflur allar, og hefðu þeir sennilega ekki gert það ár eftir ár, ef þeim hefði þótt tilhögunin mjög aðfinnsluverð, nema kærandinn vilji gera úr þeim þær veraldarrolur, sem hver geti gert við sem honum líkar. —
Í hverju einveldi mitt sé að öðru leyti fólgið, hefur kærandi látið ósagt, enda hefur varla svo lítilfjörlegt atvik komið fyrir í skólanum, að ég hafi ekki borið það undir kennarana.
Ég gæti talið ýmislegt upp, sem ég hef framkvæmt í samráði við kennarana. Bókasafni fyrir skólann kom ég upp í samráði við kennarana.
Foreldrafundi hef ég haldið í samráði við kennarana. Tvisvar hef ég útbýtt verðlaunum handa siðprúðustu nemendum skólans, sumpart af mínu eigin fé, í bæði skiptin í samráði við kennarana. Rannsókn á barnareykingum hóf ég í samráði við kennarana.
Hvað hef ég þá ekki gert í samráði við kennarana, sem nokkru máli skiptir? Hver treystir sér til að svara því? Það er ekkert annað en rótarleg illkvittni móti betri vitund að ófrægja mig fyrir einveldi í skólanum.
5. Sú var ein sökin, að ég hefði hleypt dreng inn í skólann móti vilja kennaranna og móti samþykki skólanefndar. — Um samþykki skólanefndar er nú það að segja, eins og hún veit, að ég amaðist sjálfur við að taka dreng þennan í skólann, og féllst hún á, að honum yrði neitað um inntöku. Húsbóndi drengsins lagði mjög að mér, er á leið skólaárið, að taka hann í skólann, var hræddur um, að hann kæmist ekki fram yfir, ef hann færi á mis við kennslu. — Ég bar þetta undir kennarana, en þeir mæltu móti, og varð því ekkert af að taka drenginn í það sinn. Er þetta sízt til að styðja áburðinn um einveldi mitt.
Nokkru eftir nýjár kom umræddur drengur heim til mín og bað mig í guðanna bænum að taka sig og lofaði bót og betrun. Ég sagðist ekkert geta sagt honum um það, fyrr en ég hefði talað við kennarana. Daginn eftir nefndi ég það við þá, og gáfu þeir þá samþykki sitt til, að drengurinn yrði tekinn, enda var þá ekki nema mánuður eftir af kennslutíma til prófs. — Að drengurinn hafi spillt skólanum mikið þennan mánaðartíma, eru ýkjur, haganlegar eftir ástæðum til að gera þann þátt, sem ég átti í inntöku hans, svartari, en lítið verður bjartara yfir hinum 2/3 hlutum þessa verks fyrir það. — Ef rétt er álitið, hefði verið rangt að leyfa ekki drengnum að sýna, hvort hann gat bætt sig eða ekki, og þýðir ekkert að skírskota til þess, að hann hafði oft lofað bótum áður, en eigi efnt, því að þetta var í fyrsta sinn, sem skólanum hafði verið lokað fyrir honum svo að segja allt skólaárið, og í síðasta sinn, sem hann átti þess kost að efna heit sín við skólann, þar sem til stóð, að hann tæki fullnaðarpróf og yrði fermdur í vor. Því að ekki skal ég ætla það, að skólanefndin hafi ætlað að skjóta honum undan prófi, þó að hún sé nú ekki reyndar alsaklaus í þeim efnum.
6. Þá er ég sakaður um að hafa lagt of mikið kapp á skemmtanir handa börnunum, og sjálfsagt er álitið, að þær séu miður hollar, þar sem ég á að hafa keypt son minn til að sitja heima, að minnsta kosti í eitt skipti.
Til skemmtana fyrir börnin hef ég oftast efnt einu sinni eða tvisvar á hverjum vetri í 10 ár, og hefur enginn um vandað. Meira að segja hefur skólanefndin, eða einhverjir úr henni oft verið við þær riðnir, og ósjaldan hefur formaður nefndarinnar lánað leikfimihúsið til þessara skemmtana, t.d. tvisvar í vetur. Í bæði skiptin stóð svo á, að stórar danssamkomur voru sömu kvöld í Templarahúsinu, og vissi ég fyrir víst, að margt af skólabörnunum mundi verða þar alla nóttina. Þótti mér því nær að efna til sérstakrar skemmtunar fyrir þau gegn lágum inngangseyri, sem þau áttu að njóta sjálf á einhvern hátt, heldur en að þau létu aura sína þangað, er þau sáu ekkert af þeim framar.
Fyrir þeim aurum, sem inn komu, hef ég gert skilagrein. Voru þeir notaðir sumpart til verðlauna handa börnunum, og sumpart hafa þeir verið lagðir til skólabókasafnsins. Að þær skemmtanir séu varhugaverðari, sem kennararnir sjálfir eru með í, heldur en aðrar, nær engri átt. Og aldrei hafa þær verið látnar standa lengur en til miðnættis, þar sem aðrar skemmtanir standa oft alla nóttina, og fæst enginn um, þótt börn sæki þær. Að sonur minn hafi ekki verið á annarri þessarar skemmtunar, sem er um rætt, eru ósannindi, og hef ég hrakið það áður með því að vísa til vitna, er hljóta að hafa séð hann þar. — Þessi ákæra er svo vitlaus og naglaleg, að engu frekara tali tekur.
7. Mér er gefið það að sök, að ég hafi sent skólabörn til formanns skólanefndarinnar til þess að kæra kæranda fyrir meðferð á einu skólabarninu. — Um þetta atriði hef ég áður sent skólanefndinni sannorða skýrslu og vísa ég til hennar. Hvort skólanefndin hefur lagt trúnað á hana eða ekki, er mér ókunnugt, því að hún hefur ekki orðað það við mig. Hitt hefur verið gert á bak við mig, að leita upplýsinga hjá sama drengnum, sem nefndinni hefur ekki þótt skólahæfur, eins og það væri einna öruggasti staðurinn til þess að fá orð mín óbjöguð frá.
8. Þá gaf kærandi það í skyn, að ég hefði ekkert tækifæri látið ónotað til að veita sér árásir. — Hvers vegna notaði ég þá ekki tækifærin, sem getið er um hér að ofan? Hvers vegna dró ég fjöður yfir atferli kæranda í bréfi mínu til skólanefndar? Hvers vegna reyndi ég að gera sem minnst úr því, þegar hann í reiði sinni brenndi höfuðfat eins skólabarnsins hér um árið? Hvers vegna hef ég aldrei leitt skólanefndina að því, þegar allt hefur verið í uppnámi í bekknum hans? Er þetta af sérlegri ástríðu til að setjast að kæranda?
Allt, sem hann hefur um þetta sagt, er tilhæfulaus illgirnisuppspuni, ef til vill sprottinn af því, að hann vissi til þess, að ég var ekki ánægður með það, hvernig honum tókst að láta börnin hlýða sér í kennslutímum.
Nefndin veit þetta sjálf. Þess vegna réði hún annan leikfimikennara í stað kæranda, að hann gat enga stjórn haft á nemendum sínum. Nefndin man það víst ofur vel, hvernig kærandi reyndi í fyrra að kenna mér um það, að leikfimikennsla hans fór öll í mola. En það sýndi sig í vetur, þegar annar leikfimikennari kom, að það var ekki mín sök, heldur kæranda sjálfs.
Það lítur út fyrir, að þetta hafi hleypt í kæranda brennandi hatri til mín, og er nefndin varla svo sljóskyggn, að hún sjái það ekki skína gegnum vef hans. Það er ekki ósennilegt, að hann hafi ímyndað sér, að sínir dagar væru taldir við skólann og hefur honum þótt leitt að leita ekki allra bragða til að draga annan ofan í saurinn með sér.
Að endingu vildi ég spyrja nefndina, hvað illt hún hafi heyrt mig bera kæranda, hve mikið ég hafi að því gert, að bera henni sögur um hann og rægja hann við hana? Hún veit, að ég hef ekkert af þessu gert. Þar á móti hefur kærandi ekki talið sig of góðan til að skaða mig á mjög undirferlislegan hátt.
9. Kærandi gaf mér það að sök, að ég hefði ekkert skipt mér af hirðingu vanhússins. Um þetta atriði get ég verið stuttorður, því að það er engum kunnugra en nefndinni sjálfri, hve mikið ég hef látið það til mín taka. Síðast í vetur skrifaði ég nefndinni bréf um þetta mál, og vona ég, að það beri nægilega af mér þessa sök.
10. Þá er það ein höfuðsyndin, að ég hafi ekki haft neinn til umsjónar í bekkjunum til að rétta kennurunum krít og áhöld og opna glugga. Ég veit ekki til að það sé boðið, hvorki í fræðslulögunum né reglugerð skólans að hafa þennan umsjónarmann. Hins vegar má sjálfsagt hver kennari sem vill hafa hann, og er furða, að kærandi skyldi ekki skipa sér einhvern, fyrst hann álítur saknæmt að hann vanti. En að staðið hafi á því að opna glugga eða því um líkt er ekki hægt að segja með sanni, því að með því hef ég sjálfur haft nákvæmt eftirlit, og eins því, að láta börnin fara út í frítímum, þegar veður hefur leyft.
11. Ein sakargiftin var sú, að ég hefði brotið fræðslulögin daglega, og brotin voru fólgin í því, að þvottavatn og handklæði vantaði í skólann. Fyrst er nú það, að fræðslulögin skipa ekkert fyrir um þetta, og svo er varla hægt að telja mér það til skuldar, þó að skólanum sé svo háttað, að ekki mun vera gott að koma þvottaskálum fyrir sökum þrengsla. Þó vil ég ekki halda því fram, að það væri ógerningur, en skólanefndin veit þá eins vel eins og ég, hve þægilegt það getur verið að hafa þvottavatn við hendina. Ég man nú satt að segja ekki betur en ég hafi nefnt þetta við nefndina, en hefur orðið í undandrætti, bæði hjá mér og nefndinni að færa það í lag. Virðist þetta harla smásmugulegt sakarefni.

Þegar nefndin íhugar með gaumgæfni allar þessar sakargiftir, hlýtur hún að sjá, að þær eru tíndar til af svo miklum vanmætti til að sakfella mig, að ekki ein einasta gefur henni minnsta tilefni til að ætla að svifta mig starfi mínu, sem ég var orðinn svo elskur að, og það því síður, sem nefndin hefur aldrei í öll þessi 10 ár fundið ástæðu til að veita mér áminningu fyrir nokkurn skapaðan hlut. Miklu fremur hefur mér fundizt hún bera talsvert traust til mín, og ég þykist hafa reynt að gera mig þess trausts maklegan að mörgu leyti. Ef nefndinni hefði þótt eitthvað sérstaklega athyglisvert, þá átti hún að vera svo veglynd að benda mér á það og finna að því, og ef ég hefði þá ekki látið skipast, var ástæða til að fara að hugsa um hörðustu refsinguna, sem hún á ráð á, að svifta mig bjargræðisvegi mínum.
Sé svo, að nefndinni finnist það í alvöru, að ég hafi eitthvað til saka unnið, þá má hún vita, að allt þetta, sem nú hefur fyrir komið, svo undarlega og óvænt, gæti verið mér sæmileg viðvörun í framtíðinni, og ég þykist mega fullyrða, að ég skyldi ekki bregðast nefndinni í því að bæta allt það, sem í mínu valdi stendur að bæta, ef ég aðeins veit vilja hennar. Bregðist ég trausti nefndarinnar, þá getur hún alltaf komið fram harðari aðferð, þegar hún vill.
Ef leitað væri til allra foreldra hér í Eyjum, sem börn hafa átt í skólanum, þá er ég viss um, að þeir verða ekki margir, sem óska þess, að ég hætti að vinna í skólanum. Þvert á móti veit ég fyrir víst, að þeir verða langt um fleiri, sem óskuðu, að ég ynni þar lengur. Ég get ekki talið þá alla upp, sem árlega hafa sýnt mér þakklátsemi fyrir það, hvernig mér hefur tekizt, þrátt fyrir ýmsa örðugleika, að innræta börnunum hlýðni í skólanum, og þó hef ég aldrei þurft að nota til þess hendurnar, eins og sumum hættir við.
Um kennslu mína ætla ég ekki að fjölyrða, því að ég þori að segja, að nefndin ann mér sannmælis um það, að mér hefur tekizt sæmilega vel að auðga börnin að þekkingu í þeim greinum, sem ég hef kennt, og verð ég þó að segja, að ég hef engan veginn valið mér þær léttustu.
Ég skal leyfa mér að benda nefndinni á þetta ársprófs vottorð prófdómara Jes A. Gíslasonar. Aldrei hefur með eins sterkum orðum verið lýst yfir ávexti og góðum árangri af kennslunni eins og nú. Hvernig getur nefndin ímyndað sér, að skólinn hafi liðið mjög mikið af brestum mínum með þeim árangri, sem af kennslunni hefur orðið? — Nei, sem betur fer er allt, sem mér er um kennt ýkt svo úr hófi fram eða bláber ósannindi, að það dylst engum sjáandi manni, sem ekki lætur annað hafa áhrif á sig en tilfinninguna fyrir réttlæti og sanngirni, að þessu er þyrlað upp í einhverjum ósegjanlega illum tilgangi.
Ég vona, að heiðraðri skólanefnd sé það ekkert áhugamál að vinna nokkurt ranglætisverk, og þess vegna fel ég henni mál mitt til frekari íhugunar og vona, að hún leiði það svo vel til lykta, að henni verði sómi að.
Ég vænti svars nefndarinnar alls ekki hið bráðasta, heldur við tækifæri, er hún hefur til hlítar áttað sig á því, sem ég hef mér til varnar fært.

Virðingarfyllst,
Sólheimum, 11. apríl 1914.
Steinn Sigurðsson.

Jafnframt varnarskjali þessu sendi Steinn skólastjóri skólanefndinni vottorð þriggja kennara, sem með honum höfðu starfað árum saman og undir stjórn hans við skólann, þ.e. Högna Sigurðssonar í Vatnsdal, Sigurjóns Högnasonar frá Baldurshaga og Eiríks Hjálmarssonar frá Vegamótum.
Högni segir: „Samvinna vor kennaranna var jafnan góð, jafnvel þó að skoðanamunur ætti sér stað stundum. Bar nefndur yfirkennari (þ.e. Steinn Sigurðsson) því jafnan undir oss meðkennara sína flest það, sem hann áleit að gjöra þyrfti og rækja í þann og þann svipinn, og var því svo framfylgt, er allir höfðu á það fallizt. Ráðríki beitti hann mig aldrei, og hafði ég algjörlega óbundnar hendur í kennsluaðferð og öðru allar kennslustundir mínar. Starfi sínu var hann trúr, stundvís og reglubundin með nægan þekkingarforða.“
Eiríkur Hjálmarsson, sem verið hafði samstarfsmaður Steins Sigurðssonar í 10 ár, taldi sig í einu og öllu samþykkan og sammála Högna Sigurðssyni um samstarf við Stein Sigurðsson, reglusemi, trúmennsku og stundvísi.
Sigurjón Högnason lýsir yfir því í vottorði sínu, að þau þrjú ár, sem hann var kennari við barnaskóla Vestmannaeyja hafi samvinna við Stein Sigurðsson skólastjóra verið hin bezta og virtist honum hann styðja að heill og framförum skólans af fremsta megni, og fyrirmælum fræðslulaganna fylgt óaðfinnanlega. Sérstaklega minnist Sigurjón þess, að skólastjóri gekk ríkt eftir, að hafðir væru opnir gluggar bæði í kennslustundum og milli þeirra. Einnig að börnin færu út í frímínútunum. Þá vandaði hann einnig um, ef þvotti á skólanum var ábótavant.
Steinn skólastjóri skrifaði nú fræðslumálastjóra og mæltist til þess, að hann hlutaðist til um það, að sættir gætu náðst í máli þessu og hann gæti haldið áfram að vinna að heill skólans og gengi æskulýðsins í Eyjum.
Fræðslumálastjóri, Jón Þórarinsson, brást vel við þessari málaleitun Steins skólastjóra, því að hann bar traust til hans og hafði aldrei kynnzt öðru en trúmennsku hans og skyldurækni og hinni beztu starfshæfni í vandasömu starfi. Fræðslumálastjóri skrifaði þess vegna skólanefndinni bréf varðandi þetta mál allt til þess að reyna að hindra þá rangsleitni, sem var á döfinni og hvetja skólanefndarmennina til sanngirnis og réttlætis.
Hér birti ég orðrétt bréf fræðslumálastjóra.

„Fræðslumálastjórinn.
Reykjavík, 30. apríl 1914.

Steinn Sigurðsson, skólastjóri, hefur sent mér erindi út af ágreiningi, sem orðið hefur milli hans og eins kennara við barnaskólann í Vestmannaeyjum, þar sem hann tjáir mér, að hann hafi tekið aftur uppsögn sína til skólanefndarinnar og beiðist þess, að ég á einhvern hátt styðji að því, að hann fái að halda stöðu sinni við skólann með sátt og samkomulagi við skólanefndina.
Það er erfitt fyrir mig að hafa nokkur afskipti af þessu máli, þar sem það er vitanlega á valdi skólanefndarinnar að segja kennurum skólans upp stöðunni, eins og hún hefur ein að lögum vald til að ráða þá til starfans. En þar sem nefndin hefur svo óbundnar hendur um þetta, veit ég, að hún muni finna til þeirrar ábyrgðar, sem þar af leiðandi hvílir á henni, og því sýna kennurunum alla mannúð og sanngirni, svo sem sameinanlegt er við hag skólans.
Vitanlega vildi ég á engan hátt stuðla til þess, að nokkur ráðstöfun yrði gerð út af missætti þeirri, sem hér hefur því miður orðið, en þar sem mér er ekki annað kunnugt, en að Steinn Sigurðsson hafi ávallt viljað stunda starf sitt vel og haft hag skólans fyrir augum og látið sér annt um andlegan þroska, siðferði og menningu barnanna, þá þætti mér vel fara á því að sátt gæti komizt á milli hans og nefndarinnar.
Ég vænti því þess, að skólanefndin íhugi vandlega þetta mál frá öllum hliðum og vil mega treysta því, að hún að því búnu taki þá ákvörðun, sem hún er sannfærð um, að sé skólanum fyrir beztu, — að ógleymdri allri þeirri sanngirni og réttlæti, sem ég veit að hún finnur sér skylt að sýna skólastjóranum. Ég þarf ekki að verja mig fyrir þeim skilningi nefndarinnar í þessu bréfi, að ég beri ekki fullt traust til réttlætis hennar og sanngirni. Ég geri ekki ráð fyrir honum.

Virðingarfyllst,
Jón Þórarinsson.

Til skólanefndar barnaskólans í Vestmannaeyjum.“

Þetta bréf fræðslumálastjóra hunzuðu skólanefndarmennirnir svo gjörsamlega, að þeim fannst ekki taka því að ræða það á fundi. Því var sem sé aldrei anzað heldur stungið undir stól.
Allt kom fyrir ekki. Forustumenn fræðslumála í Eyjum voru samtaka um, að Steinn skólastjóri skyldi víkja og valdi þeirra varð hann að lúta. Kennarinn, sem öllu þessu olli og átti samstöðu skólanefndar fluttist burt úr Eyjum og gerðist bóndi. Ekki er mér kunnugt, að hann gæfi sig að kennslu eftir þetta. Atvikin höfðu aflað honum sjálfsþekkingar, svo að hann var nokkru betri eftir í þeim efnum.
Eftir að Steinn Sigurðsson hafði þannig fengið sín málagjöld hjá forustuliði fræðslumálanna í Vestmannaeyjum fyrir mikið og gott áhugastarf til gæfu og gengis æskulýðnum þar, fluttist hann til Reykjavíkur og gerðist þar bankamaður. Síðar fluttist hann til Hafnarfjarðar og settist þar að. Hann stundaði þaðan kennslustörf í Garðahreppi og þótti afbragðs kennari eins og jafnan áður. Einnig hafði hann mikla heimakennslu á hendi í Hafnarfjarðarkaupstað.
Þessi staðreynd varðandi meðferðina á Steini Sigurðssyni, skólastjóra, hafði m.a. þau áhrif, að ekki leið á löngu, þar til sjálft ríkið tók í sínar hendur valdið að svifta skólastjóra og kennara störfum, svo að þeir voru ekki lengur háðir duttlungum og sjónarmiðum skólanefndarmanna, misjafnlega vel gerðra og hæfra til starfans.

Tekjur barnaskólans:

1901-1902 1908-1909 1911-1912 1912-1913 1913-1914
1. Styrkur úr landssjóði kr. 242,00 430,00 550,00 475,00 500,00
2. Húsaleiga kr. 30,00 .. .. .. 42,50
3. Framlag sveitarsjóðs kr 337,25 2.003,06 2.162,88 2.268,45 2.352,69
Tekjur alls kr. 609,25 2.433,06 2.712,88 2.743,95 2.895,19

Gjöld barnaskólans:

1901-1902 1908-1909 1911-1912 1912-1913 1913-1914
1. Viðhald og áhöld kr. 28,75 349,56 173,87 135,06 244,12
2. Eldiviður kr. 30,50 85,50 167,00 183,61 205,87
3. Laun kennara kr. 430,00 1.810,00 2.076,00 2.100,00 2.219,00
4. Hirðing skólans kr. 30,00 98,00 130,24 160,28 151,20
5. Afborgun til landssjóðs kr. 90,00 90,00 90,00 90,00 ..
6. Brunabótagjald kr. .. .. 75,00 75,00 75,00
Gjöld alls kr. 609,25 2.433,06 2.712,88 2.743,95 2.895,19

Skólaárið 1911—1912 voru árslaun kennaranna sem hér segir:

1911-1912
kr.
1908-09
kr.
Steinn Sigurðsson, skólastjóri 800,00 600,00
Ágúst Árnason 450,00 450,00
Magnús Kristjánsson 450,00 400,00
Eiríkur Hjálmarsson 350,00 360,00
Söngkennsla 26,00 22,00
Árslaun kennara 1911-1912 kr. 2.076,00

Nemendafjöldi:

Árið
1902
Árið
1903
Árið
1904
Fullnaðarprófsnemendur 19 17 21
Yngri deildir 20 21 18
Skólaslit 28. febrúar

Vorið 1904 voru 97 börn í Vestmannaeyjum á aldrinuni 7—14 ára. Þar af nutu aðeins 39 börn kennslu í barnaskólanum sökum rúmleysis.
Árið 1908-1909 voru 4 bekkjardeildir í barnaskólanum:

Í 1. bekk 19 nemendur
Í 2. bekk 20 nemendur
Í 3. bekk 26 nemendur
Í 4. bekk 25 nemendur
Alls 90 nemendur
í skólanum

Þá var nemendum 2. bekkjar kenndur söngur 1 st. í viku og fimleikar 2 st. í viku. Alls var þar 27 stunda kennsla á viku. Fyrsta-bekkjar nemendur fengu þá 18 stunda kennslu á viku. Skólinn hófst sem jafnan áður 1. sept. og stóð til febrúarloka.
Skólaárið 1911-1912 gengu 116 börn í barnaskólann. Þeim var skipt í 5 deildír. Þrjár deildir störfuðu þar fyrri hluta dagsins og tvær síðari hlutann. Þær síðari voru kallaðar síðdegisskólinn. Veturinn 1912 luku 32 börn fullnaðarprófi við skólann. Skólinn var talinn starfa í 26 vikur. Húsrými var í allra þrengsta lagi.
Árið eftir (1912-1913) gengu 115 börn í skólann. Þeim var skipt í 5 deildir. Í elztu deild (14 ára nemendur) voru 24 börn. Árið 1913—1914, síðasta starfsár Steins Sigurðssonar, skólastjóra, við barnaskóla Vestmannaeyja, voru nemendurnir alls 109, þar af 5 nemendur yngri en 10 ára. Skólinn starfaði í 5 deildum og skiptust nemendur í þær eins og hér segir:

1. bekkur 30 nemendur
2. bekkur 30 nemendur
3. bekkur 25 nemendur
4. bekkur 24 nemendur
5. bekkur 24 nemendur,
sem luku
fullnaðarprófi
í lok skólaársins
Skóla slitið
28. febrúar

Árið 1913 var lán það, sem Vestmannaeyjahreppur fékk úr landssjóði árið 1884 til skólahúsbyggingar, kr. 1.500,00, greitt að fullu.


Eilítill eftirmáli.


Enn muna eldri menn í Vestmannaeyjum, þegar Steinn Sigurðsson var sviftur skólastjóra- og kennarastöðu við barnaskólann þar án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Enn vaknar þessi spurning: Hver var ástæðan? Hvergi er hennar getið með einum staf eða fleiri í fundargjörðum skólanefndar. Hvernig gat skólanefndin einhuga framið slíkt gerræði, svo að ekki sé sterkara að orði komizt, fengizt til að fremja það? Ég hef þrásinnis spurt fyrrverandi nemendur Steins Sigurðssonar, skólastjóra. Þeim vefst tunga um tönn. Þeim verður svarafátt. Enginn veit hina eiginlegu ástæðu, — aðeins það eitt, að Steinn Sigurðsson var hinn mætasti kennari og stjórnandi, sem hafði starfið allt leikandi í hendi sér.
Eitt svar tók snemma að vakna hjá mér, er ég fór að kynnast þessu máli, kynnast heimildum, — hugleiða andann í sveitarfélagi Eyjabúa fyrir hálfum fjórða áratug, hugleiða áhrif vissra manna þar á menn og málefni.
Svarið hefur ávallt leitað á. Það er þetta:
Árið 1910 rótfestist í Vestmannaeyjum með innflytjendum þangað viss tegund óþurftarafls mengað mannhatri, peningafíkn, valdagræðgi og andúð á allri fræðslustarfsemi, sem afl þetta taldi sér óhallkvæma eða jafnvel stórhættulega.
Þetta óþurftarafl náði brátt í skjóli auðs og atvinnurekstrar hinum ótrúlegustu tökum og tanga(r)haldi á mönnum og málefnum í byggðarlaginu. Það barðist til valda í félagssamtökum og atvinnulífi. Aðalfundum Ísfélags Vestmannaeyja varð stundum að fresta sökum skrílsæðis og hávaða í „sendisveinum“ þess og uppvaxandi þjónum. Það gróf undan formanni þess og stjórn.
Þetta óþurftarafl stóð að því að svifta Stein Sigurðsson stöðu sinni. Það flæmdi einnig Björn H. Jónsson, skólastjóra barnaskólans, úr bænum 6 árum síðar (1920). Fleiri afbragðs skólamenn í Eyjum fóru sömu leiðina. Þeim varð ekki viðvært. Sumir voru sveltir burt úr sveitarfélaginu.
En forsjónin hefur aldrei sleppt hendi sinni af þessu byggðarlagi, þótt hún hafi stundum þurft á langlundargeði sínu að halda vegna þess. Hún hefur ávallt ætlað því annað og meira hlutskipti en að liggja undir martröð.
Í fyllingu tímans sendi hún því hófinn, sem sló, og jaxlinn, sem beit. Þá ærðist óþurftaraflið og efndi til ats, sem stóð á þriðja áratug.
Loks tók að draga úr því máttinn eins og kraftur dregst úr draug, sem verður að hýrast í námunda við sívaxandi ljósmagn í mannheimum, aukna fræðslu og vizku, þverrandi hindurvitni og heimsku.
Sökum persónulegrar reynslu fullyrði ég, að þessum þætti öllum í sögu fræðslumála þjóðarinnar væri forustumönnum í skólamálum hennar á hverjum tíma hollt að kynnast.

Þ.Þ.V.

Til baka