Blik 1969/Úr sögu sjávarútvegsins, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Úr sögu sjávarútvegsins


VII. Íslenzkar skipasmíðar


Ýmislegt þurfti til, svo að hinn nýi atvinnuvegur, sjávarútvegurinn, yrði rekinn að gagni. Engin þjóð getur stundað fiskveiðar eða sjávarútveg nema hún eigi nægilegan bátaflota eða skipastól til þess að stunda veiðarnar. Á 14. og 15. öldinni fóru því bátasmíðar hér á landi mjög í vöxt. Þær voru einskonar fylgifiskur sjávarútvegsins, afleiðingar, þar sem hann var orsökin. Jafnframt voru þær hyrningarsteinn þessa atvinnuvegar í vissum skilningi.
Þegar báta- og skipasmíðarnar hófust af brýnni þörf, kom í ljós, að býsna mikill fjöldi sveitamanna var gæddur hagleik í ríkum mæli, þó að smátt hefði til þessa á þá hæfileika reynt í búhokrinu og bændadeilunum á undanförnum öldum. Þar olli mestu um viðar- og járnskorturinn í landinu.
Það var töluvert annað og allt stærra í sniðum að smíða bát eða skip en meisa, orf, hrífur, kistla eða kistur, og jafnvel þó að ekki gleymist stoðir í bæjum og refti og burðarviðir. Hin vandasama sáasmíði var naumast til að bera saman við vandaða smíði fiskibáta.
En hér kom í ljós, að Íslendingum voru miklar hagleiksgáfur gefnar, ef á reyndi, svo að þeim varð engin skotaskuld úr því að smíða sér fleyturnar, ef gott efni var fáanlegt til smíðanna.
Við bátasmíðar urðu það þó brátt vissir menn, sem sköruðu fram úr og urðu fljótt víðkunnir að hagleik sínum, sérlegri glöggskyggni og skörpum skilningi á gerð og lögun, sniði og efni fiskibáta, svo að þeir reyndust góðar fleytur í sjó að leggja og færu vel undir seglum, því að alltaf þurfti á þau að treysta öðrum þræði.
Þannig var þessu varið t.d. um ýmsa bændur í lágsveitum Suðurlandsins eða strandhéruðunum, svo sem í Landeyjum, undir Eyjafjöllum og svo alla leiðina austur í Suðursveit.
Frá því á miðöldum mun sú lenzka hafa verið ríkjandi í Vestmannaeyjum t.d. að fá vertíðarskip sín hin stærri smíðuð hjá vissum bændum í Landeyjum eða undir Eyjafjöllum, — bændum, sem kunnir voru að snilld sinni í skipasmíðum. Og skipin lofuðu meistarana; gerðu smiðina fræga engu síður en einstaklingurinn garðinn sinn. Skipum sumra smiða fylgdi sérstök happasæld, fiskisæld og velfarnaður. Það var engin tilviljun. Það skildu sjómenn og vissu. Hér olli miklu um lag skipsins og viðarval, snið þess og hlutföll.
En hvernig fékkst efnið í skipið eða fiskibátinn, fyrst íslenzku skógarnir voru því ekki vaxnir að leggja til kjörvið eða kjarnaviði, sem fullnægt gætu kröfum hinna vandlátu skipasmíðameistara?
Að sjálfsögðu hafa menn notazt mikið við valinn rekavið. Ekki er heldur ólíklegt, að erlendu skreiðarkaupendurnir hafi flutt með sér til landsins valinn skipavið til skreiðarframleiðenda sinna, — viðskiptavinanna, sem seldu þeim hina arðvænlegu framleiðslu útvegs síns. Tekst, þá tveir vilja, stendur þar.
Gildar heimildir eru fyrir því, að danska konungsvaldið sjálft eða einokunarkaupmennirnir, er þeir ráku sjávarútveginn í Vestmannaeyjum í einveldi sínu og harðveldi, höfðu í þjónustu sinni fasta smiði íslenzka. Smiðir þessir voru á vissum tímum kallaðir kóngssmiðir. Þeir smíðuðu skip fyrir útgerð kóngsins og gerðu við báta hans, byggðu hús á vegum kóngsins o.s.frv. Kunnastur kóngssmiður hér í Eyjum frá 18. öld var Guðmundur Eyjólfsson bóndi í Þórlaugargerði, sá er byggði Landakirkju fyrir kónginn á árunum 1774–1778. (Einn smíðisgripur hans er geymdur í Byggðarsafni Vestmannaeyja.) Annars lá „tröllatrú“ lengi í landi á vissum skipasmiðum, sem reyndust byggja happadrýgri skip og farsælli en flestir eða allir aðrir. Langar mig í því sambandi til dæmis að nefna feðgana á Ljótarstöðum í Landeyjum, og þó sérstaklega Þorkel bónda Jónsson, sem byggði þrjú frægustu vertíðarskip Eyjamanna á síðustu öld, Trú, Ísak og Gideon. Öll voru skip þessi byggð á Ljótarstöðum í Landeyjum á fjórða tug aldarinnar, Ísak a.m.k. 1836. Bitafjölin úr honum, sem geymd er í Byggðarsafninu, ber vitni um þetta ártal. Kunnáttan til smíðanna og skilningurinn og vitið, sem til þess þurfti að smíða svo ágætar fleytur, hlýtur að hafa verið arfur frá eldri kynslóð eða kynslóðum, þar sem smíðar þessar hafa verið stundaðar mann fram af manni öldum saman og reynslan og kunnáttan gengið í arf kynslóð fram af kynslóð, svo sem þekkt er með frændum okkar Norðmönnum t.d.

Eins og ég hef drepið á áður í greinarkorni þessu, var eitt af einkennum á upphafi sjávarútvegsaldarinnar tilfærsla fólksins, flutningur þess úr sveitum að sjávarsíðunni og búseta þess þar. Þá mynduðust þorpin, sjávarþorpin við firði og víkur, eins og áður greinir. Undantekningin var suðurströnd landsins, sandströndin langa og viðsjárverða öllum sjósækjendum.
Fólksflutningarnir úr sveitunum ollu þurrð á vinnufólki þar, svo að margir bændur sáu sitt óvænna í þeim efnum. En allt leitar síns jafnvægis. Og það gerðist einnig hér, þó að vitað sé, að búskapur á sumum afskekktum jarðarkotum lagðist niður við flutning vinnuhjúa og búsetu í sjávarþorpunum.
En nú birtist líka svo að segja nýtt fyrirbrigði í þjóðfélaginu íslenzka: Hópar farandsfólks og flækinga um sveitir landsins, þegar afli brást í sjávarþorpunum og fólkið tók að skorta lífsbjörgina. Þá leitaði það aftur út í sveitirnir, nauðleitarfólk á ásjá bænda og búhyggni, þar sem festan og farsældin um afkomuna var ríkjandi þrátt fyrir allt.
Sandströndin langa og hafnlausa olli því, að engin sjávarþorp mynduðust þar. Sjósókn bænda og búkarla þeirra í sveitunum sunnan lands frá Þjórsárósum austur í Hornafjörð urðu mestmegnis hjáverk frá búskaparstörfum, matvælaöflun til heimilis á vissum tímum ársins, nema þegar legið var við í Vestmannaeyjum á vetrarvertíðum og framleidd skreið til vöruskipta og útflutnings. Þeirrar aðstöðu nutu fyrst og fremst bændur úr nálægustu sveitunum. Í sama tilgangi lá einnig fjöldi búkarla og fátækari bænda við á vertíðum í sjávarþorpunum eða verstöðvunum suðvestanlands til að afla matfanga handa fjölskyldum sínum og búþegnum. Þannig var þetta um hundruð ára frá upphafi sjávarútvegstímabilsins. Öll er þessi saga hin markverðasta, en hún er óljós frá fyrstu öldunum og myrkri hulin sökum skorts á heimildum, þar til líður fram á 19. öldina og fram um aldamótin. Mikil líkindi eru þó til þess, að þeir hættir og siðir, sem ríkjandi voru í sjósókn og sjávarútvegi á síðustu öld hafi átt langar rætur að rekja eða aftur til upphafs sjávarútvegsaldar fyrir og um 1400.
Ekki gat hjá því farið, að sjósókn frá hinni hættulegu sandströnd Suður-Íslands biði hættunum og slysunum heim. Mörg átakanleg sjóslys áttu sér þar stað. Ekkert mátti þar út af bera um veður og breytingu á sjó til hins verra, svo að ekki væri stórhætta yfirvofandi.
Annálar okkar greina lítið og ekkert frá sjóslysum við Suðurströndina, fyrr en líður fram á 17. öldina. Þess vegna er allt mistri eða myrkri hulið um sjóslys þar fram að þeim tíma eða tvær fyrstu aldir sjávarútvegstímabilsins.
Eðlilegt er að álykta, að sjóslysin við sandströndina miklu og hafnlausu hafi ekki verið ótíðari áður en annálaritararnir tóku að skrá fréttir eða sagnir um þau. En þá hafa mörg þeirra verið gleymd og vitneskjan um þau horfin inn í myrkur sögunnar.
Þó lifði sögnin um sjóslysið mikla við Hálsahöfn í Suðursveit (1573), og kem ég að því og útveginum þar síðar í hugleiðingum þessum.


VIII. Miklar voru þær mannfórnir á 17. og 18. öld


Hér fyrir framan hef ég látið í ljós sögulegar hugleiðingar mínar um upphaf sjávarútvegsins íslenzka, þegar hann varð sjálfstæður atvinnuvegur verbyggja og þorpsbúa víðsvegar við hinar vogskornu strendur landsins. Allt er það tímabil meira og minna hulið myrkri sögunnar sökum skorts á heimildum. Þannig er þessu einnig varið um fiskveiðar eða sjósókn.
Nú langar mig til þess að fjalla um frásagnir annálanna um slysfarir við Vestmannaeyjar og suðurströnd landsins frá Landeyjasandi austur í Hálsahöfn í Suðursveit.
Annálar greina helzt aldrei frá öðrum viðburðum í Vestmannaeyjum eða Suðursveitum landsins en slysförum og aflabrögðum. Og þó eru allar þessar frásagnir þeirra hrafl eitt. Það er vel skiljanlegt. Einangrun þessara héraða var meiri en víðast hvar annars staðar á landinu og fáar sveitir fátækari af annálariturum en Suðurlandssveitirnar og Vestmannaeyjar.
Fyrsta slysaár, sem annálar okkar geta um eða ég hef fundið þar, er árið 1629. Þá hafði hið mikla kapp í sjósókninni staðið í 200 ár eða vel það. Geta má þess nærri, að oft hafa átt sér hryllileg sjóslys við sunnanvert landið á fyrstu tveim öldum sjávarútvegstímabilsins, þó að þeirra sé hvergi getið.
Árið 1629. Þetta ár fórust tvö opin skip frá Vestmannaeyjum og með þeim 25 menn. Ekki verður ráðið af fréttaflutningi annálsins, hvort hér er um viðleguskipshafnir að ræða eða búsetta Eyjasjómenn. En vitað er, að um aldir, þegar líða tekur fram á 17. öldina, höfðu bændur og búþegnar þeirra úr sveitum Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu legið við í Eyjum á vertíðum lengri eða skemmri tíma við fiskveiðar, líklega oftast í torfkofum eða hraungrýtiskróm, sem skipshafnirnar byggðu sér þar og dyttuðu að árlega.
Þó var ávallt æðimikill útvegur rekinn frá hafnlausri Suðurströndinni, Landeyja-, Eyjafjalla- og Mýrdalssöndum, stundum frá Ingólfshöfða, og svo þar lengst í austri, Hálsahöfn í Suðursveit og síðar frá Bjarnahraunssandi nokkru vestar.
Árið 1632. Veturinn 1632, 30. jan., var fjölda skipa ýtt úr vör undir Eyjafjöllum og svo austur og vestur með allri Suðurströndinni, að ætla má, því að veður var kyrrt og sjór stilltur þennan morgun og kveikilegt um að litast suður um hafið frá ströndinni. Miklar líkur voru því til, að færafiskur væri genginn á miðin eða upp að söndunum, og með því að þrengjast tók í búi víða, var afráðið að nota daginn vel og afla matfanga.
Ekki færri en 14 skipum var ýtt úr vör þennan morgun undir Eyjafjöllunum einum. Út af fyrir sig sannar þessi skipafjöldi, hversu útgerð bænda í lágsveitum Suðurlandsins var mikil og þátttakan almenn í fiskveiðunum. Ætla má, að á þessum Eyjafjallaskipum einum hafi verið meira en hálft annað hundrað manna. Og sjósóknin þennan dag hefði ekki orðið í frásögu færð fremur en sjósóknin alla hina daga vertíðarinnar, ef ekki hefði skyndilega brostið á aftaka veður með brimi og boðaföllum, svo að Fjallaskipin að minnsta kosti urðu að leita lendingar í einu lífhöfninni við sunnan vert landið, voginum í Vestmannaeyjum. Þrettán af Eyjafjallaskipunum lentu í Eyjum þennan dag, en eitt skipið fórst á leið til Eyja. Þar drukknuðu 14 menn.
Árið 1636. Afdrif „Odds á Hánni“. Oddur Pétursson, formaður í Vestmannaeyjum, flúði upp á , þegar Tyrkir rændu Eyjarnar sumarið 1627. Þar skýldi hann sér, svo að ræningjarnir fundu hann ekki. Eftir þetta var Oddur formaður Pétursson alltaf kenndur við Hána og kallaður Oddur á Hánni.
Árið 1636 eða 9 árum eftir Tyrkjaránið fórust þrjú skip við Vestmannaeyjar, segir í annál. „Á þeim voru 45 menn og drukknuðu allir,“ stendur þar. Svo heldur frásögnin áfram: „Formenn voru á tveimur Oddur Pétursson og Bjarni Valdason. Þeir voru báðir gamlir menn, Oddur og Bjarni, og höfðu frelsazt frá Tyrkjum, þegar þeir rændu Eyjarnar. Oddur var af norskri ætt, frómur maður. Pétur List hét faðir hans, gamall formaður fyrri þar í Eyjunum fyrir því skipi, er Björninn hét.“ — Og enn stendur skrifað í annálnum:
„Oddur hafði frelsazt úr sjávarházka fyrir tveimur árum fyrir sérlegt guðs almætti. Hann dreif þá frá Eyjunum austur fyrir Mýrdal í stormi og brimi; kom þar undir há björg. Nú hafði þessi Oddur alltaf sérlega lukku haft í sjóferðum og aflabrögðum, og var þá ólendandi í öllum lendingum, og enginn kunni vita, að undir þeim björgum hefði nokkurn tíma skipi lent verið fyrir holurð og stórgrýti í fjörunni. En þá þetta skip bar þar að, var þar í það sinn kominn sléttur sandur, svo að þeir gátu lent og upp sett skipið, en hamrana fyrir ofan komust mennirnir upp, þó naumlega, því að þeir í Vestmannaeyjum eru vanir hamragöngum.
Nú sem þessir menn voru svo úr sjávarháska leystir, þá tók sjórinn þeirra skip og braut í spón, og allur sandur fór í burt þaðan; — eftir opin urð sem áður var. Eftir það áfall hafði Oddur aftekið formennsku lengur að reyna, hvað hann ekki hélt, heldur enti sitt hlaup, sem áður segir.“
Þannig segir annállinn frá Oddi Péturssyni formanni, síðustu formannsárum hans. Frásögnin er athyglisverð og trúin á giftu hans og góðar fylgjur, heillavættir, hefur verið sterk, og það hreint ekki að ástæðulausu.
Vera skipsins. Setbergsannáll greinir frá dulrænum atburði, sem átti sér stað í Vestmannaeyjum kvöldið fyrir slysadaginn, er Oddur formaður Pétursson fórst á skipi sínu Birninum, sem faðir hans hafði átt og verið formaður á, Pétur bóndi List og formaður í Stakkagerði.
Skipin Björninn og Stjarnan stóðu saman í Hrófunum. Nokkrir menn stóðu þar saman í Hrófunum nærri skipunum. Þá heyra þeir tal, þar skipin stóðu: „Nú eigum við að skilja á morgun.“ — Í annálum segir: „Þeim brá við þetta tal, en vissu þó fyrir víst, að enginn maður var við skipin, en fóru þó samt það að aðgæta, og fannst þar enginn maður. Mönnum þótti þetta undarlegt. — Gengu síðan til hvílu. Leið svo nóttin, en um morguninn, þegar fólk kom til sjóar og hverjir til sinna skipa, sáu menn, að af áðurnefndum skipum hrundi niður sem vatn, eins og úrkoma verið hafði, þar þó var heiðríkt loft. Síðan voru skipin fram sett, og veitti þeim mönnum mjög treglega annað þeirra skipa fram að setja, sem á þvi róa áttu, svo að hrikkti eða brakaði víðast í því, þá menn gátu því á rás komið, en hin skipin gengu eftir venju. Þetta sama skip forgekk (þ.e. fórst) þann sama dag með öllum mönnum.“ Þannig segir annállinn frá þessu.
Við skulum ekki láta það fara fram hjá okkur, að mennirnir þykjast sjá skipin gráta skilnaðinn. Af þeim „hrundi niður vatn,“ stendur þar.
Fram til síðustu tíma trúðu menn því hér á landi, að minnsta kosti gamlir sjómenn, að opnu skipin, sem komin voru til ára sinna, hefðu „sál“ eða persónu, veru, sem var þess valdandi, að sjómennirnir báru sérlega virðingu fyrir þeim, ekki sízt, ef þau hefðu reynzt happafleytur. Í frásögn þessari skapar trúin á skipsveruna þeim mál, þau ræðast við og þau gráta skilnaðinn. Þau vita feigðina fyrir og skilnaðarstundina.
Í þessu sambandi langar mig til að minna á sönnu söguna af Jóni gamla bónda í Gvendarhúsi, sem átti hlut í happaskipinu Gideon og réri á því margar vertíðir með Hannesi Jónssyni formanni á Miðhúsum. Aldraði bóndinn og sjómaðurinn rak olnbogann af vangá í stefni skipsins. Þá sagði hann eins og ósjálfrátt: „Fyrirgefðu, Gideon minn, ekki ætlaði ég að meiða þig.“
Árið 1637. Þetta ár fórst áttæringur í Vestmannaeyjum og 14 menn drukknuðu af honum.
Árið 1647. Það bar við í marzmánuði þetta ár, að skip rak á hvolfi upp að klöppum nálægt Grindavík. Við björgun þess kom í ljós, að það hafði kollsiglt, með því að siglutré höfðu verið reist, stög strengd og segl þanin. Við athugun vitnaðist síðar, að skipið var úr Vestmannaeyjum. Þetta var áttæringur, og með honum fórust 14 menn, sem var hin venjulega tala skipshafnar þá á áttæringi.
Árið 1653. Þegar leið fram á vorið eða nær vertíðarlokum 1653, barst sú frétt um sveitir, að tvö skip hefðu farizt í Vestmannaeyjum einhvern tíma á vertíðinni. Annað þeirra var teinæringur (tíæringur). Á þeim voru venjulega 16—18 menn.
Ætla má, að þarna hafi farizt 30—32 menn, þó er þess ekki getið, hversu mannmargar skipshafnirnar voru. Ekki er þess heldur getið, hvort skipin voru Eyjaskip eða skipuð mönnum úr strandsveitum Suðurlandsins.
Árið 1656. Þetta ár fórst skip í Vestmannaeyjum. Af því drukknuðu 12 menn, en tveim var bjargað. Eftir fjölda skipshafnarmanna má álykta, að skip þetta hafi verið áttæringur.
Árið 1673. „Skiptapi í Vestmannaeyjum, drukknuðu 6 menn.“ Þetta er óbreytt og óaukið orðalag annálsins. Svo orðknappir eru þeir venjulega og lausir við alla mærð.
Árið 1678. Þetta ár greina annálar frá sjóslysi við Landeyjasand. Þá drukknuðu 14 menn við Sandinn af tveim skipum þeirra Landeyinga. Af þessari tölu má draga þá ályktun, að tveim skipum hafi borizt á í lendingunni og hafi helmingur hvorrar skipshafnar bjargazt. Þriðju skipshöfninni úr Landeyjum þetta ár bjargaði ensk fiskiskúta, er sigldi með Suðurströndinni.
Árið 1681. Þrem árum síðar eða nánar til tekið 26. marz 1681 átti sér stað hryllilegt sjóslys við Eyjasand. Það kostaði 28 Landeyinga og Rangvellinga lífið.
Um morguninn var stillt veður og sjór hægur. Þetta var laugardaginn fyrir pálmasunnudag. Bændur og búalið í Landeyjum og á Rangárvöllum ýttu úr vör til þess að afla fiskmetis til páska, því að dymbilvikan fór í hönd með helgidögum, svo að alls ekki varð þá til fiskjar róið, hversu sem veðurblíðan laðaði og hvalagöngur með ströndinni og sjófuglinn við Sandinn gæfu til kynna fiskikveikju, svo að lifnaði aflavon. Ef til vill hefur verið farið að þrengjast í búi hjá mörgum bændanna. Það var svo algengt, þegar á veturinn leið á þeim árum einokunar og undirokunar.
Skyndilega brá veðri. Gerði þá austan rok svo snögglega, að fæst Landeyjaskipin náðu heimalendingu sinni. Tíu þeirra náðu klaklaust upp að Eiðinu í Vestmannaeyjum. Þar voru margar hendur framréttar til hjálpar, þegar lent var. Vinir og frændur úr Landeyjunum og af Rangárvöllunum voru auðvitað aufúsugestir Eyjaskeggja þá eins og ætíð fyrr og síðar, þó að hjálp í nauðum væri auðvitað öllum jafnfúslega veitt og af alúð.
Þrjú Landeyjaskipanna voru stödd svo vestarlega, þegar veðrið skall á, að þau náðu ekki til Eyja móti veðrinu. Þau urðu því að láta undan síga. Eitt þeirra lenti í Herdísarvík heilu og höldnu. Annað hugðist lenda í Þorlákshöfn, þó að enginn af skipshöfninni þekkti deili á lendingu þar. Skipið steytti á skeri og fórst þar. Tólf mannanna drukknuðu en einn komst lífs af. Sumir segja það hafi verið formaðurinn.
Til þriðja skipsins spurðist aldrei framar. Það mun hafa farizt í hafi. Á því voru 16 menn. Þannig drukknuðu 28 menn í veðri þessu við suðurströnd landsins. Flestir voru það bændur úr Landeyjum og af Rangárvöllum.
Árið 1685. Þá komum við að slysaárinu óskaplega, árinu 1685. Það mun mesta slysaár í útgerðarsögu alls Suðurlandsins, frá Vikarskeiði í vestri austur að Hornafjarðarósi, og eru Vestmannaeyjar þá taldar þar með.
Þetta ár fórust 4 teinæringar við Vestmannaeyjar og drukknuðu þá 50 eða 53 menn. (Annálum ber ekki saman). Það er í frásögur fært, að 26 árar rak á fjörur Eyjafjalla úr skipum þessum. Þau virðast því hafa farizt í suðvestan- eða útsynningsveðri, enda hafa þau veður oftast reynzt hættulegust sjómönnum við sunnan vert landið og búið þeim oftar grand en önnur veður þar.
Í sama veðri fórst einnig skip við Landeyjasand. Þannig munu 60—70 menn hafa drukknað í veðri þessu.
Árið 1697. Þetta ár fórst Eyjafjallaskip og annað úr Mýrdalnum. Láta mun nærri, að með báðum skipum þessum hafi farizt 28—30 menn. Mér vitanlega er hvergi sagt frekar frá slysi þessu. Svo knappir og þöglir eru annálaritararnir.
Árið 1699. Þetta ár fórst bátur eða skip frá Vestmannaeyjum. Þar drukknuðu 7 menn. Tala þessi bendir til þess, að hér hafi ekki verið um vertíðarskip að ræða, heldur jul eða sumarbát (vorbát), nema allt að helmingur skipshafnar vertíðarskips hafi bjargast. Allt er þetta hulið mistri sögunnar.
Árið 1704. Þetta ár getur um skiptapa í Vestmannaeyjum. Fjórir menn drukknuðu.
Árið 1722. Á miðri vertíð þennan vetur eða nánar greint 19. marz fórst einn af teinæringum konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum. Þar má gera ráð fyrir, að 18 menn hafi farizt, þó að þess sé ekki getið í annálnum.
Árið 1729. Þetta vor varð slys við Landeyjasand. Sexæring barst á í lendingu við Sandinn með þeim afleiðingum, að 10 menn drukknuðu en 4 mönnum varð bjargað.
Árið 1734. Haustið 1733 höfðu nokkrir Fljótshlíðingar afráðið að róa saman á næstu vertíð úti í Vestmannaeyjum á báti Brynjólfs bónda Þórðarsonar á Hlíðarenda.
Bátur þessi var sexæringur.
Þeir óskuðu að geta hafið róðra strax eftir áramótin. Þess vegna arkaði skipshöfnin frá heimilum sínum niður í Landeyjar á jólaföstu til þess að vera viðbúnir að taka fyrsta leiði út í Eyjar, þegar það gæfist.
Vikur liðu og aldrei gaf til Eyja frá Landeyjasandi.
Loks eftir áramótin eða nánar greint 10. janúar, sem var fyrsti sunnudagur eftir þrettánda (1734) fannst Fljótshlíðingunum tiltækilegt að ýta úr vör og skunda til Eyja. Sjór var hægur og veður kyrrt, enda þótt veðurútlitið væri ekki einsýnt. Leiðin var heldur ekki löng yfir „álinn“, yfir sundið milli lands og Eyja! — Ekki færri en 16 menn stigu upp í sexæringinn hans Brynjólfs bónda þennan morgun til þess að fljóta með í verið eða nokkrir umfram skipshöfnina.
Á miðri leið yfir sundið eða svo hvessti svo snögglega, að ekki varð við neitt ráðið. Bátinn hrakti undan veðrinu vestur með landinu, því að veðurofsinn var af austri eða suðaustri. Tveir dagar liðu. Þá rak bátinn á fjörur Þorlákshafnar.
Árið 1739. Fimm árum síðar eða 1739 vitum við með vissu, að skiptapi átti sér stað undir Eyjafjöllum, að líkindum í lendingu. Ekki er vitað, hve margir misstu þar lífið, en gera má ráð fyrir, að öll skipshöfnin hafi farizt, 12—15 menn.
Árið 1749. Enn líða 10 ár. Þá verða tvö slys við ströndina. Annar skiptapinn varð undir Eyjafjöllum, en hinn við Landeyjasandinn.
Landeyjaskipið var að koma úr Vestmannaeyjum, annaðhvort úr verzlunarferð eða að lokinni viðlegu þar á vetrarvertíð. Um það þegja annálarnir vendilega.
Árið 1751. Haustið 1751 var stórskipi ýtt úr vör einhvers staðar á sandströndinni löngu á sunnan verðu landinu. Sennilegast hefur það verið undir Eyjafjöllum eða í Mýrdalnum. Á skipinu voru 18 menn á leið í verið, á leið til Vestmannaeyja, til þess að róa þar á komandi vertíð. Við ályktum eftir mannafjöldanum, að þetta hafi verið teinæringur. Þetta skip fórst á leiðinni til Eyja með öllum, sem á því voru.
Árið 1752. Árið eftir, eða 1752, greina annálar frá því, að það ár hafi 8 skiptapar átt sér stað „fyrir sunnan“, flest smáskip. „Eitt þessara skipa var þó teinæringur, sem var að koma úr Vestmannaeyjum. Á honum voru 18 menn. Ekki er þess getið, hvort skip þetta var að fara „til landsins“ úr verzlunarferð eða frá viðlegu á vertíð.
Árið 1757. Vetrarvertíðin 1757 var ein allra mesta slysavertíð, sem menn vita dæmi til í Vestmannaeyjum. Þann vetur drukknuðu 40 menn við Eyjar. Það svarar til þriggja skipshafna.
Um sumarið stunduðu Landeyingar sjóinn og öfluðu dável. Þá gerðist það 21. júlí, að áttæringur úr Landeyjum fórst með allri áhöfn, 14 mönnum. Slysinu olli snögg veðrabrigði, sem hinum glöggsýnustu „veðurvitringum“ í Landeyjum tókst ekki að sjá fyrir. Eins og væng væri veifað, skall á landsynningsveður óskaplegt með brimróti. Það varð skipshöfninni að grandi í brimlendingunni við Landeyjasand.

III. hluti

Til baka