Blik 1969/Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja


Svo hefur löngum verið ályktað, að föst búseta hafi ekki átt sér stað í Vestmannaeyjum eða á Heimaey fyrr en við lok Landnámsaldar eða um 930. Aðalástæðurnar fyrir því, hve seint föst búseta verður í Eyjum, voru án efa vatnsskorturinn þar annars vegar og einangrunin hins vegar. Aðeins á einum stað, svo að notað yrði, safnaðist lindarvatn fyrir á yfirborði Heimaeyjar. Það var „Lindin í Dalnum“, þ.e. tjörnin í Herjólfsdal, Daltjörnin. Hér er vissulega ekki um neina venjulega uppsprettu að ræða, þar sem vatnið vætlar fram eða sprettur upp úr iðrum jarðar. Í Daltjörninni er að langmestu leyti rigningarvatn, sem sigið hefur niður í jarðveginn í hlíðunum umhverfis tjörnina og seytlar síðan fram í móbergsskálina, sem myndar tjarnarbotninn.
Til þess að auka þetta framsig vatnsins í jarðveginum hafa Eyjabændur einhverntíma á miðöldum unnið eitt allra elzta mannvirkið, sem hér hefur fundizt í Vestmannaeyjum: Vatnsrennuna eða vatnsrásina, sem fannst í jörðu vestan Daltjarnarinnar fyrir allmörgum árum. Vatnsrennan sú jók aðstreymi regnvatnsins í Daltjörnina, enda er munni hennar við vesturbrúnina eða vesturbakkann.Samningur undirritaðir. Frá vinstri: 1. Magnús H. Magnússon, bœjarstjóri, 2. Í hvarfi við bœjarstjóra situr Garðar Sigurðsson, bœjarfulltúi, 3. Gísli Gíslason, bœjarráðsmaður, 4. Sigurgeir Kristjánsson, forseti bœjarstjórnar, 5. Guðlaugur Gíslason, bœjarfulltrúi, 6. Daninn Feter Mörch, umboðsmaður Nordiska Kabel- og Traadfabriker um öll Norðurlönd, 7. Daninn Poul Rasmussen, útflutningsstjóri verksmiðjanna.
Vestmannaeyingarnir eru nefndarmenn, sem bœjarstjórn Vestmannaeyja kaus til að annast samningsgjörð fyrir hönd bæjarsjóðs.
Sigurgeir Jónasson tók myndirnar.Annað vatnsból átti Eyjafólk frá fornum og horfnum tíðum, Vilpu á Vilborgarstöðum. Yfirborð jarðvegsins þar hallar að móbergsskál þeirri á þrjá vegu. Þannig rennur rigningarvatnið í Vilpu ýmist eftir yfirborði jarðvegsins, túnunum umhverfis hana, eða úr efstu jarðlögunum. Til þess að hreinsa þetta vatn að töluverðu leyti, hindra að regnvatnið af túnunum mengað áburði rynni viðstöðulaust í skálina, var frá fornu fari hlaðinn breiður torfgarður umhverfis Vilpu. Gegnum hann síaðist vatnið. Hann var hreinsitækið, sem skildi mestu óhreinindin úr yfirborðsvatninu. Þetta regnvatn notuðu síðan Austurbyggjarar á Heimaey öldum saman bæði handa búpeningi og fólki.
Elztu þjóðsögur eða sagnir, sem lifað hafa í Eyjum, eru tengdar vatni og vatnsskorti, svo sem sagan um sölu Herjólfs bónda á neyzluvatninu í Herjólfsdal, vatninu úr „Lindinni í Dalnum”, og svo sagan um trébollann, sem átti að hafa sannað samband eða göng neðanjarðar milli vatnsbóls í Dölum og Dalnum.
Fátt olli Eyjafólki meiri erfiðleikum um aldir en vatnsskorturinn og fátt stóð fremur menningarlífi fólksins þar fyrir þrifum en skorturinn sá.
Frá fornu fari var vatnssókn í Lindina í Dalnum fastur liður í daglegri önn fólksins, sérstaklega á vorin og sumrin, er minna var um úrkomuna.
Eyjafólk bar vatnið úr Dalnum í fötum, tréfötum, í höndunum og notaði trégrind til þess að létta sér burðinn. Ekki hefi ég séð þess getið, að fólkið hafi notað vatnsbera eða ok um axlir til þess að létta sér hinn langa og tíða vatnsburð. Títt var það einnig með bændafólkinu að flytja vatnið á klakk, láta hesta bera það til bæja.
Þegar handvagnar komu til sögunnar í Eyjum (1894 og næstu ár) urðu tök á að aka vatninu á þeim. Var þá rudd vegarmynd í Dalinn, troðningarnir breikkaðir og jafnaðir með rekum. Síðar fluttist hestkerran til Eyja og varð öðrum þræði atvinnutæki vissra manna þar. Þá léttist vatnssóknin.
Vegurinn í Herjólfsdal var sérstaklega lagfærður, eftir að Ísfélag Vestmannaeyja var stofnað og íshús byggt (1902), því að þá var aflað íss til þess af tjörninni í Dalnum. þegar svo bar undir og það bar við, að hana lagði. Vatnssóknarfólk naut góðs af vegi þeim.
Í gömlum skrifum um Vestmannaeyjar er getið vatnsskortsins og erfiðleika þeirra, sem vatnsskorturinn olli Eyjafólki öðru hvoru allt árið.
Séra Gizzur Pétursson, sem var prestur að Ofanleiti 1687—1713, getur um vatnssókn á hestum í Herjólfsdal. Hann skrifaði: „Þar er ætíð nóglegt vatn, og er þangað á hestum sótt alls staðar úr byggð, þá vatn þrýtur heima við bæi í langþerrum. Í lind þá, er ofan yfir er byggt og fram kemur so sem úr nokkrum göngum, af mönnum hlaðin með hellum ofan yfir og vallgróinni jörðu. Enginn þykist vita, hversu löng þessi göng eru eður hvert þau liggja eða hvað langt, þar þau hafa aldrei rannsökuð eða lagfærð verið, nema sjaldan fremst við lindina.” Enn fremur skrifar prestur: „Tveir brunnar eru í skriðuhólnum í Herjólfsdal, þar bærinn hefur staðið (samkvæmt gömlum sögnum), og kemur vatnið þar rétt út úr grjótinu. Þar þvo konur léreft sín.”
Séra Jón J. Austmann, sem sat sóknarprestur á Ofanleiti á árunum 1827—1858, skrifaði um vatnssókn fólks í Herjólfsdal: „Hingað er á sumrum af mörgum Eyjabúum vatn sótt á hestum langan veg, og allar kýr eyjarinnar á þeim tíma þangað reknar einu sinni á hverjum degi.”
Enginn hygg ég viti með vissu, hvenær Eyjamenn grófu fyrsta vatnsbrunninn inni á Botnsflötunum vestur undir Langabergi norðan vert við Hána.
Elztu heimildir um þá vatnsbrunna munu vera skrif Jóns Eiríkssonar í Sager til Journal 1787, en sýslumaður þessi var búsettur í Eyjum 1786-1797. Þessa brunna kallar sýslumaður Andrésarbrunna og segir gott vatn í þeim.
Svo er víst, að á síðast liðinni öld sótti Eyjafólk vatn í brunn á Flötum vestur undir Langabergi. Þar áttu konur einnig hlóðir og þvoðu þar þvott sinn og ull sína. Elztu menn hér muna eftir opnum brunni þarna á flötunum. Grafin var gryfja 1—2 metra djúp. Í hana seytlaði vatn úr hinum hallandi jarðlögum vestan við brunnholu þessa milli bergsins og brunnsins. Síðar eða nálægt aldamótunum var brunnur þessi lagfærður og hlaðinn innan með hraungrýti, sem hélt að sandinum. Jafnframt var sett timburloft á brunn þennan og það lagt sléttu járni til þess að verja það fúa og sliti.
Svipaða brunnholu þessari hafði danski kaupmaðurinn látið gera austur við Austurbúðarbygginguna og safnaði í hana vatni af verzlunarhúsinu. Hann fékk senda járndælu frá Danmörku á brunnlokið og dældi þannig vatninu upp úr brunninum. Þessar dælur kölluðu Eyjamenn pósta. Ekki leið á löngu, þar til Eyjamenn komu fyrir slíkri dælu á brunn sinn vestur á sandflötunum nálægt Langabergi. Eftir það festist nafnið Póstflatir við sandflatir þessar og brunnurinn þarna hlaut nafnið Gamli pósturinn á Póstflötunum til aðgreiningar frá Nýja póstinum, sem gerður hafði verið síðar á svæðinu, þar sem Vinnslustöðin var byggð. Þar var þá líka brunnur með þaki yfir og hlaðnar steintröppur að vatnsborðinu.
Lítil tök hafði Eyjafólk á því að safna vatni af íbúðarkofum sínum, meðan ekki þekktust önnur þök en torfþökin. Sumir bændur grófu dældir í tún sín, þar sem hallaði að og náðu þar nokkru yfirjarðarvatni í rigningartíð. Svo var það t.d. hjá prestinum á Ofanleiti.
Þörf Eyjafólks á því að geta safnað regnvatni af þökum sínum varð þess valdandi, að timburþök lögð tjörupappa gerðust fyrr almennari í Eyjum en líklega víðast hvar annars staðar á landinu. Af þeim þökum voru tök á að handsama regnvatnið með trérennum í tunnur.
Öll söfnun regnvatns til neyzlu og allra heimilisnota varð Eyjafólki auðveldari, eftir að bárujárnsþökin ruddu sér til rúms. Þó hefur ávallt neyzluvatnsskorturinn valdið mörgu Eyjaheimilinu erfiðleikum vissan tíma úr árinu, t.d. þegar ekki kemur dropi úr lofti mánuðum saman. Það ber við á vorin og sumrin og ekki sjaldan.
Þá hefur fiskiðnaður Eyjabúa ekki farið varhluta af þessum erfiðleikum. Þó að sjóveita þeirra hafi um árabil bætt þar mjög úr skák um allan þrifnað og þvott í aðgerðar- og frystihúsum, þá verður ís ekki framleiddur úr sjó.
Með frábærum dugnaði og hyggjuviti hafa frystihúsaeigendur hér eða stjórnendur fiskiðnaðarins sigrazt á vatnsskortinum fram til þessa, þó að alltaf færu þeir erfiðleikar vaxandi ár frá ári með vaxandi framleiðslu og kröfum.
Vitaskuld létti það vatnssóknina í Lindina í Dalnum og vatnsbólin á Póstflötunum, þegar vélknúnar vatnsdælur komu til sögunnar og vatninu svo ekið í bæinn í þar til gerðum geymum á vöruflutningabifreiðum.
Árið 1968 mun jafnan hér eftir verða talið merkisár í sögu Vestmannaeyja. Á því herrans ári var lögð vatnsslanga til Eyja frá suðurströnd landsins. Síðan streymir uppsprettuvatn til Vestmannaeyja úr lind í 210 metra hæð í landi Syðstu-Merkur undir Eyjafjöllum. Þessi slanga var lögð til Eyja 17.—18. júlí 1968.
Hinn 20. s.m. hélt bæjarstjórn kaupstaðarins fjölmenna fagnaðarveizlu í Samkomuhúsi Vestmannaeyja og minntist þannig þessa merka atburðar og áfanga í sögu byggðarlagsins og Eyjabúa í heild. Með rafkapli frá Sogsvirkjuninni og vatnsleiðslu þessari, hefur tekizt að skjóta styrkum stoðum undir margbreytilegan iðnað í bænum, þá stundir líða, þó að segja megi með sanni, að vatn og rafmagn sé þar ekki allt, sem þarf, þá á sér þar engin framþróun stað án þess.


Úr ræðu bæjarstjóra


Í veizlu þessari flutti bæjarstjórinn okkar, Magnús H. Magnússon, ræðu, þar sem hann rakti í fáum dráttum hina sögulegu þróun þessa mikla velferðarmáls að náðu marki, og óska ég að birta hér nokkra kafla úr ræðu hans ýmist beint eða óbeint til geymslu seinni tíma kynslóðum.
Bæjarstjóri sagði um leit Eyjabúa að nægilegu neyzluvatni: „Á seinustu árum hefur margt verið gert í þeim tilgangi að reyna að finna viðhlítandi lausn á vandanum. Víða var borað niður að sjávarmáli til að freista að ná í vatn úr svokölluðu „vatnspokum“, sem myndast vegna þess, að það tekur vatn, sem sígur niður í jarðveginn, nokkurn tíma að blandast sjónum vegna minni eðlisþyngdar vatnsins. Að vísu hefur vatn fundizt á þennan hátt, en strax og tekið var að dæla úr holunum að nokkru ráði, kom upp sjór.
Árið 1964 var svo reynt að bora djúpt eftir vatni niður í dýpri bergmyndanir undir Eyjum. Taldar voru nokkrar líkur á, að vatn fyndist þar í millilögum basaltlaga. Í tæplega 900 metra dýpi fannst nokkurt vatn eða 0,75 sekúndulítrar af 60 stiga heitu vatni. Efnagreining benti til þess, að hér væri um vatn að ræða, sem blandað væri sjó að helmingi. Isotopagreining benti þó til þess, að hér væri um að ræða vatn, sem á einhvern hátt hefði tekið í sig salt. Borað var allt niður á 1565 metra dýpi án frekari árangurs.
Jarðsig á Vestmannaeyjasvæðinu virðast valda því, að áðurnefnd millilög standast ekki lengur á við sömu millilög uppi á landi.
Þessi tilraun okkar kostaði milli 6 og 7 milljónir króna, en þar af greiddi ríkissjóður helminginn.
Geta má þess, að jarðhitadeild raforkumálastjórnarinnar hefur verið beðin að auka vatnsmagnið í þessari holu með sömu aðferðum og beztu raun gáfu við Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Þó að vatnið verði ekki neyzluhæft, mætti nota það í sundhöll þá, sem fyrirhugað er að byggja, — sérstaklega ef auka mætti rennslið.
Eina tilraunin til vatnsöflunar, sem nokkurn árangur hefur borið, er söfnun vatns undan fjallshlíðum, þ.e. vatns, sem sígur niður hlíðarnar og síast í sandlög við fjallsræturnar. Þessi vatnsöflun er þó á engan hátt fullnægjandi, hvorki að magni til né gæðum. Segja má þó, að hún hafi forðað algjöru neyðarástandi.


Vinnsla vatns úr sjó
Fylgzt hefur verið með þróun mála varðandi vinnslu vatns úr sjó. Miklar framfarir hafa orðið í þeim efnum síðustu árin, en vinnslan er enn þá mjög dýr, nema þegar vatnsmagnið, sem framleiða á, er orðið það mikið, að hagkvæmt er að nota kjarnorku við vinnsluna. Það er þó naumast fyrr en þegar framleiða á vatn handa hálfrar milljón manna borg.

Vatnsleiðslan lögð frá Markarfljótsbrú suður á Krosssand.


Leiðsla frá landi
Þegar séð varð, að engar af framantöldum leiðum til vatnsöflunar reyndust færar eða hagkvæmar, var farið að kanna þann möguleika að leiða vatn frá meginlandinu út í Eyjar. Menn voru þó lengstum mjög hræddir við þess konar framkvæmdir vegna hættu á eyðileggingu leiðslunnar af völdum strauma, sjávargangs og ekki sízt af völdum veiðar- og legufæra skipa, enda voru menn í fyrstu með allt aðrar og veikbyggðari leiðslur í huga en þá, sem nú hefur verið lögð. Ýmsar gerðir af neðansjávarleiðslum voru athugaðar hjá framleiðendum víðsvegar um heim. Þær hafa yfirleitt reynzt of dýrar að okkar dómi og í flestum tilvikum ekki nægilega traustar við okkar aðstæður.
Niðurstaðan af öllum þessum athugunum varð sú, að 16. ágúst s.l. (1967) voru eftir mikinn undirbúning endanlega undirritaðir samningar við hið vel þekkta danska fyrirtæki Nordiske Kabel- og Traadfabriker í Kaupmannahöfn, en það fyrirtæki hafði frá byrjun sýnt mikinn áhuga á málinu ...
Samið var um framleiðslu og útlögn fyrstu neðansjávarleiðslunnar í júní til ágúst í ár (1968), og hefur fyllilega verið staðið við það frá verksmiðjunnar hendi. Samtímis var samið um framleiðslu og útlögn annarrar leiðslu árið 1970, þó með ýmsum fyrirvörum frá okkar hendi ...

Dœlustöð.
Á þessu ári er ætlunin að reisa hús fyrir dælustöð á Krosssandi. Sjálf dælustöðin á svo að taka til starfa að sumri (1969).
Stöðin verður algjörlega sjálfvirk og stjórnað héðan úr Vestmannaeyjum með radiósambandi.
Fyrri leiðslan getur flutt 500 smálestir af vatni á dag án dælingar ... Þegar dælustöðin tekur til starfa, vex flutningsgetan upp í 850 smálestir á dag.

Lögnin í landi.
Vatnið er tekið úr lind í 210 metra hæð í landi Syðstu-Merkur undir Eyjafjöllum. Byggt er yfir lindina, svo að útilokað er, að yfirborðsvatn eða óhreinindi komist í vatnið.
Vatnið er svo leitt í 250 mm víðum (að þvermáli) asbestpípum 22,5 km. vegalengd til sjávar...

Dreifikerfið.
S.l. ár (1967) var unnið að dreifikerfi fyrir rúmlega 1/3 hluta bæjarins, og áætlað er að ljúka dreifikerfinu á þessu og næsta ári (1969).
Fljótlega verður byrjað á 5000 smálesta miðlunargeymi í 55 metra hæð yfir sjó og 250 smálesta geymi enn hærra fyrir efri byggðina.

Kostnaður. Heildarkostnaður er áætlaður 127 milljónir króna. (Miðað við gengi íslenzku krónunnar 20. júlí 1968). Kostnaður skiptist þannig:

Lögn uppi á landi kr. 15 millj.
Dælustöð á Krosssandi kr. 14 millj.
Tvær neðansjávarleiðslur kr. 66 millj.
Stofnæð í Vestmannaeyjum kr. 2 millj.
Vatnsmiðlunargeymar kr. 8 millj.
Dreifikerfið kr. 22 millj.

Framangreindar upphæðir eru miðaðar við 35% toll af neðansjávarleiðslum.
Af framantöldu má sjá, hve hér er um gífurlegt átak að ræða. Kostnaðurinn verður liðlega 25 þúsundir króna á hvert mannsbarn í bænum. Þetta jafngildir því, að Reykvíkingar réðust í fyrirtæki, sem kostaði tvo milljarða króna ...

Vatnsskattur. Stofngjöld verða 7,5% af fasteignamati húseigna og innheimtast á þrem árum ... Fastur árlegur vatnsskattur verður 2,5% af fasteignamati húsa. Síðan verður allt vatn selt eftir mæli, kr. 5,00 hver smálest ...
Þegar ráðist er í jafn stóra framkvæmd og hér um ræðir fyrir ekki stærra bæjarfélag, gefur það auga leið, að til margra þarf að leita um fyrirgreiðslu og stuðning, enda hafa hér margir að unnið.
Ég þakka alþingi og ríkisstjórn fyrir veittan stuðning, en einkum þó Ingólfi ráðherra, sem ávallt hefur verið boðinn og búinn til þess að leggja sitt þunga lóð á vogarskálina, þegar á hefur þurft að halda. Ég þakka Brunabótafélagi Íslands, Lánasjóði sveitarfélaga, Útvegsbanka Íslands og Sparisjóði Vestmannaeyja fyrir veittan fjárhagslegan stuðning. Þá vil ég þakka Efnahagsstofnuninni og forstjóra hennar margvíslega aðstoð og fyrirgreiðslu.

Mynd þessi er tekin á bryggjunni, þar sem kapalskipið liggur. Slöngustaflann ber við auga.
Mennirnir frá vinstri: Jón Sigurðsson, hafnsögumaður, Þórhallur Jónsson, verkfrœðingur, Bergsteinn Jónasson, hafnarvörður, Ármann Eyjólfsson, skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, og Bjarni Eyjólfsson, yfirverkstjóri bœjarins.
Allir hafa þessir menn sínu hlutverki að gegna í bœjarfélaginu og hafa lagt gjörva hönd á allan undirbúning vatnsleiðslunnar.
Austur-Landeyjahreppur hefur gerzt meðeigandi að vatnsveitunni frá Syðstu-Mörk niður á Krosssand og greiðir 1/30 af andvirði hennar. Á myndinni til vinstri er bœjarstjórinn að taka á móti oddvitahjónum Austur-Landeyjahrepps, er þau komu til Eyja til þess að sitja „vatnsveizluna“ 20. júlí 1968. Oddvitahjónin eru Erlendur Árnason, bóndi á Skíðbakka, og frú Guðbjörg Jónasdóttir frá Hólmahjáleigu.


Ég þakka þeim mörgu, sem að sjálfum framkvæmdunum hafa unnið. Ég nefni fyrst Þórhall Jónsson, verkfræðing, sem borið hefur hitann og þungann af öllum undirbúningi og yfirstjórn framkvæmda, ásamt aðstoð og ráðleggingum við allar samningsgerðir og efnispantanir. Ég þakka bæjarverkfræðingi, verkstjórum bæjarins og öllum þeim mörgu starfsmönnum bæjarins, sem unnið hafa vel og mikið að vatnsveituframkvæmdunum, oft við erfiðar aðstæður.
Þá vil ég sérstaklega þakka starfsmönnum Vestmannaeyjahafnar, svo og köfurum og kranamanni, fyrir mikla vinnu á undanförnum vikum við að grafa og sprengja rennu fyrir vatnsleiðsluna inn um hafnarmynnið. Þetta starf átti að hefja upp úr miðjum maí, en fyrstu 5—6 vikurnar var aðeins hægt að vinna einn dag í viku að jafnaði sökum slæmra veðurskilyrða. Satt að segja voru margir orðnir hræddir um, að rennan yrði ekki tilbúin í tæka tíð ... Síðustu 4 vikurnar hafa veðurskilyrði verið góð og þá hafa líka hendur verið látnar standa fram úr ermum. Að verkinu var unnið fram á síðasta dag. Og það var ekki fyrr en útlagningarskipið var lagt af stað til Eyja frá Suðurströndinni, að verkstjóri hafnarinnar gat tilkynnt mér, að verkinu væri lokið. Það voru sannarlega góðar fréttir ...
Þá vil ég þakka þeim mörgu stofnunum og fyrirtækjum, sem ávallt hafa verið tilbúin að veita aðstoð. Ég nefni vitamálastjórnina, vegamálastjórnina, Vélsmiðjuna Klett í Hafnarfirði og Vinnuheimilið að Reykjalundi. Þessi upptalning er síður en svo tæmandi, því að margir hafa að unnið.
Síðast en ekki sízt þakka ég stjórnendum og starfsmönnum Nordiske Kabel- og Traadfabriker fyrir þeirra ómetanlega þátt í velheppnaðri lausn málsins. Sérstaklega vil ég þakka þeim fyrir mikla samvinnulipurð og mikinn áhuga fyrir því að leysa mál þetta á sem hagkvæmastan hátt fyrir kaupstaðinn ...“

Þetta var nokkur hluti ræðu þeirrar, er bæjarstjórinn okkar, Magnús H. Magnússon, flutti í „vatnsveizlunni“ 20. júlí 1968, sama daginn og vatnið frá Syðstu-Mörk undan Eyjafjöllum tók að streyma til kaupstaðarins um leiðsluna miklu. Markmið Bliks með því að birta tölur um kostnað o.fl. samkv. áætlun er gert með tilliti til þess að birta síðar hinn raunverulega kostnað við allar þessar mikilvægu framkvæmdir. Tölur staðreyndanna bornar saman við áœtlanirnar eru bæði forvitnilegar og fræðandi og veita eflaust glöggum lesanda hugmynd um þá stórbreytilegu tíma, sem við nú lifum á, fallvalta tíma um gæfu og gengi krónunnar íslenzku eins og einstaklingsins og þjóðarinnar í heild. Við skulum vona hið bezta og gera okkar bezta. Meira verður naumast af okkur krafizt. Allt annað er ekki á okkar valdi í þessum efnum.
Bæjarstjórinn skrifaði um Vatnsveitu Vestmannaeyja í 1. hefti Sveitarstjórnarmála 1968, og er meginefni þeirrar greinar hið sama og hér er birt.
Í umræddri fagnaðarveizlu bæjarstjórnarinnar flutti Þórhallur Jónsson, verkfræðingur, ávarp. Þar veitti hann m.a. fræðslu um gerð vatnsslöngunnar og margt fleira, sem fróðlegt er að vita um þetta mikilvæga fyrirtæki kaupstaðarins. Verkfræðingurinn sagði m.a.:
„Leiðslur, sem þessi, eru gerðar með kjarna úr polyethylene til þéttingar, sem síðan er vafinn með stálþynnum, sem taka upp álag frá þrýstingi vatnsins. Síðan eru ýmis millilög, þar sem þétt er vafið með stinnum stálvírum. Stálvírarnir draga úr teygju slöngunnar og verja innri lög fyrir höggum og sliti. Yzt er svo ryðvörn ...
Neðansjávarleiðslan, sem nú hefur verið lögð, er þannig gjörð: Innst er 11,4 mm þykk pípa eða slanga úr hörðu polyethylene, að innanmáli 102 mm. Um þá slöngu er vafið 3 léreftsböndum. Síðan koma 2 lög af ryðvörðu stáli (nr. 42) 0,7 mm þykku. Utan um það 2 lög af ryðvörðu stáli 1,2 mm þykku. Báðir eru stálvafningar þessir vafðir með hægri skrúfulínu. Næst kemur ryðvarnarlag og einangrun. Þá er einfalt léreftsband. Svo 2 lög af P.V.C. límbandi, síðan eitt lag af léreftsbandi og asfalteruðum striga. Næsta lag er samsett af 68,6 mm þykkum galvaníseruðum stálvírum, sem vafðir eru með vinstri skrúfulínu.
Ytra þvermál leiðslunnar er 157 mm ...

Viðbúnaður á Krosssandi til þess að taka á móti vatnsslönguendanum og draga hann upp á sandinn. Stangirnar með merkinu eru miðunar- og lagnarmerki.
Dráttarbáturinn Frigga dregur „kapalskipið“ til Eyja frá Krosssandi
aðfaranótt 18. júlí 1968.
Slönguendanum fleytt til lands á tunnum frá afturenda skipsins Henry P. Lading.
Síðan dregur ýta hann nægilega langt upp á sandinn.

Áætlað var að leggja leiðsluna 19. —20. þ.m. Kabalskipið Henry P. Lading var hlaðið með 14,1 km af leiðslunni. Eftir að hún hafði verið þrýstiloftsprófuð, lagði dráttarbáturinn Frigga af stað frá Kaupmannahöfn með H.P. Lading í togi. Það var 2. júlí. Veðurblíða flýtti förinni til Vestmannaeyja um tvo daga. Að loknum undirbúningi í Vestmannaeyjum og í landi, var ákveðið að hefja lögnina hinn 17. júlí, þar sem veðurútlit fór versnandi. Byrjað var að draga leiðsluna í land fljótandi á tunnum kl. 5 e.h. Því verki varð lokið á 1 1/2 klukkutíma. Klukkan 9 um kvöldið var „kabalskipið“ dregið á stað til Eyja og lagðist að bryggju í Eyjum kl. 3 eftir miðnætti aðfaranótt 18. júlí. Útlögnin tókst með afbrigðum vel. Lengd leiðslunnar reyndist verða 12,9 km. Það sannar okkur, hversu lögnin tókst vel.
Áður en lagður var rafstrengur milli lands og Eyja, var botninn meðfram honum vandlega kannaður. Fengið var góðfúslega leyfi raforkumálastjórnarinnar og stjórnar Landhelgisgæzlunnar til þess að notfæra okkur allan þann fróðleik, sem þeir höfðu aflað. Að athuguðu máli og nánari rannsókn var ákveðið að fylgja rafstrengnum að mestu með um 100 metra fjarlægð. Þessi fjarlægð var afráðin með tilliti til þess að gera þarf ráð fyrir 2 köplum og 3 vatnsleiðslum á þessari leið, en óhreinn botn er til beggja handa. Út frá Suðurströndinni er þó fyrst í stað meiri fjarlægð milli raflagnarinnar og vatnsleiðslunnar. Við landtak var vikið frá kaplinum og vatnsleiðslan lögð inn hafnarmynnið, þar sem þar var auðveldara að leggja hana. Skammt utan við Hafnarmynnið þurfti að sprengja skurð gegnum móhellu og grjóturð neðansjávar, um 550 metra langan. Verk þetta var unnið með krana á fleka, sem fenginn var á leigu hjá hafnarmálastjórn. Verk þetta gekk illa í fyrstu vegna slæmra veðurskilyrða, en vel seinustu vikur, og því lauk sömu nótt og leiðslan var lögð ...
Þessar sprengingar reyndu mjög á þolrif Vestmannaeyinga, þar sem talsverður jarðskjálfti fylgdi hverri sprengingu. En flestir tóku þessu með stakri þolinmæði, enda engin leið að vinna þetta verk öðruvísi.
Vil ég sérstaklega þakka Einari Stefánssyni, forstöðumanni áhaldahúss Hafnarmálastjórnar, fyrir góðar ráðleggingar við tilhögun verksins og lipurð við útvegun tækja og manna. Einnig vil ég þakka hinum ágætu köfurum, Guðmundi Guðjónssyni og Samúel Andréssyni, fyrir mikla hagsýni og dugnað í sínum verkum, svo og hinum lipra kranastjóra Gunnari Andréssyni. Beztu þakkir kann ég einnig Bergsteini Jónassyni, hafnarverði, sem með sínum vel þekkta dugnaði sá um allan undirbúning í landi, Sigurði Kristinssyni, sem stjórnaði verki á flekanum, Einari J. Gíslasyni, sem stjórnaði sanddæluskipinu Vestmannaey, og svo öllum starfsmönnum hafnarinnar og öðrum, sem unnu sín störf við erfiðar aðstæður með sérstökum dugnaði.
Ég vil þakka öllum verkfræðingum og stjórnendum N.K.T. fyrir sérstakan áhuga og lipurð við könnun og framleiðslu leiðslunnar og einstæðan dugnað og nákvæmni við lagningu hennar, sem unnin var í samvinnu af starfsmönnum N.K.T. og Switzers.
Hávarði Sigurðssyni og starfsmönnum hans kann ég beztu þakkir fyrir þeirra hlut í landtöku á Landeyjasandi, Einari Sv. Jóhannessyni og áhöfn Lóðsins fyrir góða aðstoð við útlögn, Bjarna Eyjólfssyni og Kristni Sigurðssyni og verkstjórum og starfsmönnum þeirra fyrir öll undirbúningsstörf þeirra hér í kaupstaðnum.”
Þannig fórust Þórhalli Jónssyni, verkfræðingi orð. Þar sem hluti af ræðu hans er ekki birtur orðrétt hér, er efnið túlkað til styttingar.

              —————————

Mér verður blíðviðrisnóttin aðfaranótt 18. júlí 1968, lengi minnisstæð. Mörgum fleirum í Eyjum en mér mun þá ekki hafa orðið svefnsamt fram undir óttuskeiðið. Hvernig mundi takast að leggja hina dýru og afdrifaríku vatnsleiðslu út til Eyja? Fjöldi manna íslenzkra sem erlendra vann hér að af frábærum dugnaði og afburða verkhyggni. Og verkið hófst á degi þeim, sem um aldaskeið hefur verið talinn mesti óhamingjudagur í allri sögu Vestmannaeyja. Það er mánaðardagurinn 17. júlí, er ræningjarnir frá Algier rændu Eyjarnar, skutu fólk og brenndu inni, rændu fólki og rupluðu eignum og brenndu sóknarkirkjuna til ösku. Það átti sér stað 17. júlí 1627 eða fyrir réttu 341 ári.
En nú var öldin önnur. Nú fannst mér gæfan brosa við okkur öllum í Eyjum, einmitt þennan dag. Allt lék í lyndi, og allt tókst giftusamlega.
Vissulega eru ástæður til að óska hinum ráðandi mönnum okkar og Eyjabúum í heild til hamingju með þann merka áfanga, sem þegar hefur náðst um framkvæmdir allar í þessu mikilvæga máli okkar, vatnsveitumálinu.
Mér fannst 17. júlí s.l. sumar, að gæfusólin skini yfir þessu bæjarfélagi okkar og forustumennirnir ættu allt traust okkar skilið fyrir giftusamlegar framkvæmdir. Við vitum, að fjárhagur til þessara risavöxnu framkvæmda er erfiður. Við vitum líka, að Eyjabúar eru dugmikið fólk og þrautseigt, sem lætur ekki bugast undir giftusamlegri stjórn, þó að brött brekka sé í fangið og hinn þrítugi hamar illkleifur. Slíka hamra hafa Eyjamenn áður klifið bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ekki hef ég trú á því, að þeim hafi aftur farið í þeim efnum.
Sprengd rás eða renna fyrir vatnsleiðsluna utan við hafnarmynnið.

ctr

Endi Vatnsslöngunnar dreginn upp á Skansinn
í Eyjum gegnt nyrðri hafnargarðinum,
Hörgeyrargarðinum.