Blik 1978/Þrír ættliðir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Þrír ættliðir.


Þáttur eiginkonunnar
í uppbyggingu vélbátaútvegsins
í Vestmannaeyjum


Hér er minnzt hinnar mikilvægu hlutdeildar, sem húsmæður áttu á sínum tíma í atvinnurekstri og uppbyggingu vélbátaútvegsins í Vestmannaeyjum.
Um árabil hefi ég átt í fórum mínum greinarkorn um „hjónin í Bólstaðarhlíð“, eins og þau voru svo oft nefnd á manndómsárum sínum í Vestmannaeyjakaupstað, frú Ingibjörg Ólafsdóttir frá Eyvindarholti undir Eyjafjöllum og Björn Bjarnason, vélstjóri og útgerðarmaður frá Hlaðbæ í Vestmannaeyjum. Gildar ástæður hafa valdið því, að dregizt hefur úr hömlu fyrir mér að birta þessa grein í Bliki.
Þessi hjón voru athafnasöm og upprennandi, þegar við hjónin fluttumst til Eyja haustið 1927. Þá tókum við á leigu hjá þeim íbúð í húsi þeirra Bólstaðarhlíð (nr. 39) við Heimagötu. Þessi myndarhjón voru þá að mörgu leyti fulltrúar margra ungra og miðaldra hjóna í kaupstaðnum. Þau lögðu svo að segja nótt við dag í starfi til þess að skapa sér og sínum lífvænlega afkomu og byggja um leið upp atvinnuveg, sem átti sér þá fá ár að baki. Þar á ég við vélbátaútveginn. Sá atvinnuvegur dafnaði ört í kauptúninu og svo í kaupstaðnum (eftir 1918) og stóð brátt í miklum blóma. En miklar fórnir og mikið vinnuálag kostaði sú uppbygging öll, og ekki aðeins útgerðarmanninn. Ekki fór eiginkonan og húsmóðirin varhluta af stritinu, vinnuálaginu og áhyggjunum. Hún stjórnaði hinu fjölmenna heimili þeirra hjóna, sem ráku sinn hluta útgerðarinnar. Vertíðarfólkið, sjómennirnir og fiskvinnslufólkið, bjó heima hjá útgerðarmönnunum. Í annað hús var ekki að venda í þeim efnum. Þar varð að sjá því fyrir daglegu fæði, þjónustu allri og umhirðu. Og lítið var um heimilistækin þá, sem létt gátu heimilisstörfin, svo sem þvottavélar, uppþvottavélar, frystikistur og kæliskápa o.s.frv. Þau áhöld þekktust naumast eða alls ekki fyrstu 3-4 áratugina, eftir að vélbátaútvegurinn hófst. Handaflið kom þar ávallt til, seinvirkt og þreytandi.
Fyrst óska ég að rekja hér að nokkru æviþráð afa og ömmu Björns Bjarnasonar. Öldruðu hjónin eru að vissu leyti venjulegir fulltrúar bændakynslóðanna, sem ráku búskap á landi okkar um langan aldur við þröngan kost og lítil efni, en óbilandi trú á landið sitt þrátt fyrir allt baslið, trú á framtíð þess og íslenzku þjóðarinnar. — Þegar ellin færðist yfir og starfskraftarnir fóru þverrandi, var ekkert til, sem tryggði þeim afkomuna og mannsæmileg ellikjör, ef börnin reyndust ekki vaxin því að hlaupa undir bagga. Væru þau ekki til, var í flest skjól fokið, þegar starfskraftarnir voru þrotnir.
Þá rek ég hér að nokkru æviþráð foreldra Björns Bjarnasonar. Í mínum huga eru þeir fulltrúar þeirrar kynslóðar, sem ruddi brautir með nýrri tækni til eflingar efnalegu sjálfstæði þjóðarinnar, og svo um leið stjórnmálalegu sjálfstæði hennar. Þau fylktu liði með fjölmennum brautryðjendahópi í Vestmannaeyjum á fyrstu áratugum vélbátaútvegsins. Af litlum efnum, en óbilandi kjarki og dugnaði, miklu hyggjuviti og mikilli bjartsýni og trú á land og þjóð, áttu þau sinn hlut í því að leggja grundvöllinn að vélbátaútvegi landsmanna.
Oft hefi ég lesið vel sögð orð um dugnað og hyggjuvit þeirra karla, sem beittu hug og hönd til uppbyggingar vélbátaútveginum í Vestmannaeyjum á fyrstu áratugum hans. Hins vegar hefur minna farið fyrir skrifum um hinn mikilvæga þátt kvenna í þeim stórstígu framförum, allri þeirri nýsköpun og uppbyggingu, fjárhag allra landsmanna til eflingar og aukinnar menningar um byggð og ból, bæi og þorp.
Þótt flestar húsmæðurnar hefðu að vísu einhverja hjálp við heimilisstörfin á hinum fjölmennu heimilum útvegsbændanna, eins og það var orðað, þá var vinnuálag eiginkonunnar, húsmóðurinnar og móðurinnar býsna oft alveg gífurlegt, meðan vertíð stóð yfir. Hver vinnudagur var langur og erilsamur. Það annríki allt reyndi mjög á taugar og líkamsþrek, ekki sízt, ef hjónin áttu börn, sem oftast var, — eitt, tvö eða fleiri, — og ef til vill barn í vöggu árlega.
Já, þetta getur verið löng og margorð frásögn, því að efnið er í heild kafli úr atvinnusögu heillar þjóðar. En hér verður saga þessi klippt og skorin. Hins vegar er það innileg ósk mín, að mér mætti takast að leiða glöggan lesanda til skilnings á þessum þætti konunnar í atvinnusögu þjóðarinnar.

II. hluti