Blik 1978/Bréf til vinar míns og frænda, I. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda
Æviþættir og vangaveltur
(1. hluti)


Heill og sæll, frændi minn og vinur.
Ég vona og bið þess, að þessar línur mínar berist þér á góðri stundu, — berist þér heilbrigðum og reifum.
Sem fyrr þá veldur dýrtíðin því, að ég hefi orðið að fresta útgáfu þessa heftis af Bliki mínu um eins árs skeið sökum hinnar vaxandi dýrtíðar í landinu, því að ég hefi ávallt kosið fremur krókinn en kelduna.
Í einlægni sagt þá hefur mér alltaf verið stuðningur að ábendingum þínum og góðum orðum, og ég þykist hafa farið að óskum þínum um efni þessara bréfa minna á undanförnum árum.
Eftir nokkra íhugun hefi ég nú afráðið að fara að óskum þínum og skrá nokkur minni frá námsárum mínum í Noregi fyrir 50-60 árum. Á þessari rúmri hálfri öld hafa tímarnir breytzt alveg ótrúlega mikið til hagsbóta íslenzkum námsmönnum erlendis ekki síður en innan lands. Og kynslóðirnar hafa einnig tekið miklum breytingum á þessu tímaskeiði. Ein er breytingin sérstaklega áberandi, virðist mér. Hún er sú, að við vorum í ýmsu tilliti lengur ungmenni þá og æskufólk í hugsun og viðhorfum til lífsins og tilverunnar en nú á tímum. — Þá eru mér efst í huga ástamálin.
Ýmislegt veldur því, að vissar kenndir og jafnvel ástríður lifna nú fyrr og fá fyllri útrás en áður átti sér stað, svo sem djarfari kynlífsmyndir kvikmyndahúsanna, berorðari bókmenntir um þessi mál, aukin áfengisneyzla æskufólks, betri afkoma almennings, örari líkamsþroski æskulýðsins með bættum fjárhag þjóðarinnar í heild og svo loks notkun „pillunnar“ með því öryggi, sem hún veitir skynibornum, ungum stúlkum, sem kunna fótum sínum forráð.
Fyrir hálfri öld áttum við íslenzk ungmenni, sem dvöldum erlendis við nám, ekki kröfur á einn eða neinn til námslána eða styrktar, ef nánustu vandamenn voru ekki því vaxnir að hlaupa undir bagga með okkur fjárhagslega. Kröfur á aðra spilltu þá heldur ekki sálarlífi okkar eða innra manni. Aldrei átti ég t.d. kröfur á aðra, aðeins sjálfan mig, öll námsárin mín hér heima og í Noregi. Og ekki varð skroppið heim að sumrinu sökum fjárskorts, því að slík millilandaferð með skipi heim og heiman tók langan tíma. Það var tímatap og ferðirnar tvöfalt fjármunatap, — já, tilfinnanlegt tap hinum snauða. En vinnu fékk ég alltaf á sumrum í Noregi eftir getu og þörfum.
Þegar hugur minn tekur að dveljast þessi skólaár og dvöl mína í þessu fagra landi hjá norska frændfólkinu, verður mér ríkast í huga aðfangadagskvöldið 1923 og þau jól í heild. Þá dvaldist ég við nám í menntaskólanum í Volda á Suður-Mæri. Tvo vetur hafði ég þá stundað nám við Lýðháskólann í Voss og svo öðrum þræði við menntaskólann í kaupstaðnum (Vangen) síðari veturinn. Ég sá mér nú orðið tök á að ljúka norsku stúdentsprófi á stuttum tíma með atorku og ástundun, og svo fyrirgreiðslu velviljaðra norskra skólamanna.
Við tvo menntaskóla í Noregi voru þá sérstakar stúdentadeildir, þar sem aðvífandi ungmennum gafst kostur á að ljúka stúdentsprófi á einu ári. Þar varð hver og einn að eiga það alveg undir sjálfum sér, dugnaði sínum, ástundun og undirbúningi, hvort hann næði prófi eða yrði þar frá að hverfa próflaus.
Lars Eskeland, skólastjóri Lýðháskólans á Voss, sótti um skólavistina fyrir mig, en þá umsókn varð að senda norska menntamálaráðuneytinu. Og með nokkurri herkju tókst honum að fá námsleyfið handa mér. Aldrei höfðu þeir háu herrar veitt fyrr útlendingi þessi námsréttindi enda aldrei neinn erlendur þegn um þau sótt. Hér naut ég þess vissulega, að ég var Íslendingur.
Þegar rektor menntaskólans í Volda hafði borizt tilkynningin frá menntamálaráðuneytinu um skólavist til handa Íslendingnum, skrifaði hann Eskeland skólastjóra bréf. Þar tjáði rektor honum reynslu sína af þeim ungu mönnum, sem stundað höfðu nám á undanförnum árum í þessari sérlegu stúdentadeild og stritað þar látlaust við ofureflið og barizt við erfiðleikana. Mikið var á þá nemendur lagt, sagði rektor, enda hefðu þeir á undanförnum vetrum verið smámsaman að detta út úr deildinni á námstímanum, „som rotne tenner or kjeften“, eins og rektorinn orðaði það og ég las sjálfur í bréfi hans til Lars Eskelands. Skólastjóra þótti orðalagið helzt til gróft. Þó hló hann að því og brýndi mig. — Ekki var það álitlegt. Þó skyldi lagt á djúpið. —
Og svo var ég þá kominn norður í Volda á Suður-Mæri sumarið 1923 og námið hafið af fyllsta krafti og ötulleik.
Við þrír skólafélagar og bekkjarbræður leigðum okkur herbergi undir súð í allstóru íbúðarhúsi í námunda við höfnina í Volda. Þarna leigðum við okkur sína herbergiskytruna hver okkar, Andersen, Klette og ég, Íslendingurinn. Og við vorum innilega samrýmdir en misjafnlega kappsamir við námið, eins og gengur. Sá áhugaminnsti varð að sætta sig við það að fá ekki að sitja inni hjá okkur hinum og „prata“, þegar honum þóknaðist og letin og námsleiðinn sótti hann heim. Þá varð hann heldur að drepa tímann, þar sem minna var við hann að gera. En þetta spillti ekki sambúð okkar og vináttu.
Og nú voru þessir ágætu skólafélagar mínir horfnir heim til jólahaldsins með foreldrum sínum, systkinum og öðrum vinum og vandamönnum. Ég varð að una við hlutskipti mitt einn og afskiptur.
Ýmislegt steðjaði að, fannst mér. Ég var t.d. fjárvana og sá enga leið til að ljúka dvöl minni í skólanum, ljúka náminu á miðju næsta sumri nema að fá lán. Til vandamanna minna var vonlaust að leita í þeim efnum. Og engin voru þá námslánin veitt úr opinberum lánasjóðum. Fósturforeldrar mínir á sjötugsaldri voru snauðir og einskis megnugir fjárhagslega, eftir að eigur þeirra brunnu til kaldra kola, þegar íbúðarhúsið þeirra, Hóll í Norðfirði, brann til kaldra kola í janúarmánuði 1920. Þá var ég fjármaður á Stóruvöllum í Bárðardal. Ég hafði lokið búfræðinámi á Hvanneyri hjá Halldóri skólastjóra Vilhjálmssyni vorið 1919.
Og þegar hér var komið dvöl minni við menntaskólann, hafði ég skrifað Halldóri skólastjóra og beðið hann að lána mér átta hundruð krónur, sem áttu að endast mér fyrir brýnustu nauðsynjum fram yfir skólalok sumarið 1924. — Ég beið svars við því bréfi mínu milli vonar og ótta.
Sárust var mér þó hugsunin um fósturforeldra mína, sem höfðu þá misst einkason sinn fyrir rúmum mánuði.
Mér hafði þá fyrir skömmu borizt bréf frá þeim, þar sem þeir tjáðu mér þessa sorgarfrétt. Þá æsktu þeir þess jafnframt, að ég kæmi sem fyrst heim til þeirra. —Já, þessi sorgarfregn féll mér þyngst. Ég var eins og milli steins og sleggju. Alltaf höfðu þessi öldruðu hjón reynzt mér vel þau ellefu ár, sem ég dvaldist hjá þeim, þó að þau gætu ekki styrkt mig til náms nú sökum fátæktar.
Og einmanaleikinn og áhyggjurnar sóttu að sálarlífi mínu einmitt nú, þegar blessað jólaleyfið var gengið í garð og ég átti frjálsar stundir frá önnum og kröfum námsins.
Aðfangadagurinn leið eins og aðrir dagar, en langur var hann, fannst mér.
Ég afréð að ganga í kirkju og hlusta á aftansönginn. —
Aldrei fannst mér heimþráin og einmanaleikinn þjarma jafn eftirminnilega að hjartanu eins og þá stund, sem ég sat í kirkjunni og hlustaði á sálmasönginn. Og þó ... og þó ... Eitthvað varð það að lokum, sem létti mér þrautirnar.
Þegar ég kom heim í herbergiskytruna mína frá því að hlusta á aftansönginn, tók ég til að hita mér kaffisopa og smyrja mér brauðbita. Við skólafélagarnir þrír og margir fleiri í þessum menntaskóla lifðum að nokkru leyti á skrínukosti, eins og það fæði var kallað í gömlu verbúðunum okkar. Við keyptum okkur fastan miðdegisverð hjá konu, sem hafði það að atvinnu sinni að selja skólafólki fæði. Við greiddum fyrir miðdegisverðinn hálfa aðra krónu á dag eða fjörutíu og fimm krónur á mánuði.
Að lokinni „kvöldmáltíðinni“ á aðfangadagskvöldið hófst eintal sálarinnar við dularöflin sín. Þau samskipti stóðu fram á kvöldið.
Vitmaðurinn á Bessastöðum, Grímur Thomsen, kveður:

„Varðhaldsenglar voru gefnir í vöku mönnum bæði og svefni.“

Þú ræður því, hvort þú trúir honum, frændi minn góður. Hver frýr honum vits, sem þekkir kvæðin hans?
Niðurstaðan varð sú, að ég skyldi fara að vilja fósturforeldra minna og hverfa heim til þeirra að námi loknu. Ég ætlaði ekki að segja mig úr skólanum eða hætta námi nema fjárskortur ylli. En nú var ég líka orðinn sannfærður um það, að úr peningaleysinu rættist fyrir mér. —Já, ég var einhvernveginn alveg öruggur um það, hvernig svo sem ég öðlaðist þá öryggiskennd.
Einmanaleikinn var nú horfinn úr fylgsnum sálarlífsins. Ég var hinn hressasti. Nú fannst mér allt leika í lyndi fyrir mér eins og venjulega, og ég var strax farinn að hlakka til að takast á við erfiðleikana að jólatómstundunum loknum.
Ég afréð að skrifa heim daginn eftir, sjálfan jóladaginn, og gleðja gömlu hjónin með því að tjá þeim ákvörðun mína um heimkomuna næsta sumar. Það gæti orðið í júlímánuði.
Og vært svaf ég jólanóttina. Daginn eftir stóð ég við það heit mitt að skrifa heim.
Eitthvað var það í mér, sem hamlaði því, að ég ynni að náminu sjálfan jóladaginn. Fósturforeldrar mínir mundu telja það gróft helgibrot. Þetta var mér íhugunarefni, meðan ég neytti skrínukostsins á jóladagsmorguninn. —
Þarna var rauða hálfkistan mín hjá mér í herberginu. Hún var svo að segja aleigan mín með því, sem í henni var, bókum, bréfum og blöðum með greinum, sem ég vildi eiga og geyma, svo sem fréttagreinum um Ísland, sem þá voru sjaldgæfar í norskum blöðum. Aðrar eignir mínar frá bernsku- og æskuárunum hafði ég misst í húsbrunanum. Það voru helzt bækur, sem ég hafði safnað frá blautu barnsbeini.
Já, rauða hálfkistan mín, hún átti sér sína sögu, þó að hún væri mér ekki ljós. Líklega var hún orðin aldar gömul. Ég hafði a.m.k. orðið að láta í hana nýjan botn árið áður (1922). Sá gamli var svo slitinn og feyskinn, að hann datt bókstaflega úr kistunni eitt sinn, þegar ég lyfti henni, svo að allt hafurtaskið lá eftir á gólfinu. — Ég eignaðist þessa kistu, þegar ég var 10 ára. Þá var hún slegin mér á uppboði, sem haldið var á reytum gamals manns, sem enginn stóð að.
Ég strákurinn, stóð þarna við hliðina á honum fóstra mínum í útjaðri mannhringsins og hafði orð á því við hann, að mig langaði til að eignast kistuna. „Bjóddu þá í hana,“ sagði hann. Þá gerði ég það og hrópaði hátt tilboð mitt, því að hópur manna var þarna staddur á uppboðsþinginu. — Hreppstjórinn, hann Einar Jónsson á Ekru, leit til mín um leið og hann reiddi uppboðshamarinn. Hann sá, hvar ég stóð við hliðina á honum fóstra mínum. Þeir þekktust vel að góðu einu. „Fyrsta, annað og þriðja sinn,“ kallaði hreppstjórinn og hamarinn féll. Mér var slegin kistan. Auðvitað treysti uppboðshaldarinn á greiðslugetu fóstra míns og heiðarleik. Ekki var það sérlega líklegt, að ég ætti andvirði kistunnar í peningum, ég sjálfur, strákurinn, — einar átta krónur. — Ég var bæði glaður og hreykinn. Mér hafði verið sleginn hlutur á almennu uppboði. Hvílík upphefð. — Og nú hafði ég átt þessa kistu í tólf ár. Og hún fylgt mér ávallt, síðan ég fór fyrst að heiman. Það var haustið 1917, þegar ég hóf nám við Bændaskólann á Hvanneyri. Þarna dvaldist ég tvo vetur. Og sumrin tvö var ég í kaupavinnu í Einarsnesi og á Hvanneyri. Haustið 1919 rölti ég með öðrum ungum manni alla leið frá Hvanneyri norður og austur í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar var ég fjármaður veturinn 1919-1920 á Stóruvöllum hjá þeim merku hjónum Páli bónda og hreppstjóra Jónssyni og frú Sigríði Jónsdóttur frá Baldursheimi. Alltaf fylgdi litla kistan mín mér, þó að hún yrði stundum á eftir mér í áfangastað, því að hún ferðaðist sjóleiðina.
Var það nú ekki tilvalið að drepa tímann á sjálfan jóladaginn við það að glugga í gömul umslög og rifja þannig upp ljúf minni frá bernsku- og æskuárunum?
Þarna átti ég t.d. lokað uppslag nokkuð stórt með ýmsum blöðum og bréfum. Þarna fann ég nokkrar vísur á velktu blaði. Þeim hafði ég alveg gleymt. Þær hafði ég gert um það leytið, sem ég eignaðist kistuna. Reyndar voru þær rímaðar með stuðlum og höfuðstöfum. Ég undraðist. Hvergi hafði ég lært þá list. Aldrei hafði ég heyrt getið um þau einkenni á íslenzkum kveðskap á uppvaxtarárum mínum — rímeinkenni. Þau einkenni þóttu þá svo sjálfsögð í íslenzkri vísnagerð, að það tók því ekki að ræða um þau eða skilgreina fremur en það, að rétt skapaður maður væri með augu, nef og munn á réttum stað á andlitinu. Og vísur þessar viltu fá að heyra, frændi minn sæll. Vissulega skal ég láta það eftir þér. En fyrst verð ég að segja þér tildrög þess, að þær urðu til.
Fósturforeldrar mínir höfðu ræktað sér eilítinn túnblett fyrir ofan og neðan íbúðarhúsið sitt að Hóli, sem þau byggðu á Stekkjarnesinu í Norðfirði árið 1901. Túnbleðill þessi var í daglegu tali nefndur Hólstúnið eftir íbúðarhúsi þeirra hjóna. — Túnið veitti þeim aðstöðu til að hafa eina kú. Þegar hún stóð geld, þurftu þau að kaupa okkur mjólkurleka, þegar þannig stóð á fyrir okkur.
Vinafólk fósturforeldra minna bjó á einni Skálateigsjörðinni í Norðfjarðarhreppi. Það voru þau heiðurshjónin frú Guðrún Baldvinsdóttir og Þorleifur bóndi Þorleifsson. Frú Guðrún húsfreyja var svo innileg vinkona fóstru minnar, að hún lét aðra dóttur sína heita í höfuðið á henni, eins og það er orðað.
Og svo var þá Hólskýrin geld og ég skyldi skreppa inn að Skálateigi eftir mjólkurlögg. — Mér voru þessar ferðir hvimleiðar, — röltandi með mjólkurlegil eða flösku í poka á baki eða í sokk. — Víst bætti það úr skák, hversu þessi sæmdarhjón í Skálateigi tóku alltaf alúðlega á móti mér, gáfu mér kaffi og kökur eða skyr og rjóma til að seðja mig.
Þegar ég lagði af stað heim með pokaskussann á bakinu, var horfin úr mér mesta fýlan, svo að ég var bærilega sáttur við tilveruna og undi bara vel hlutskipti mínu.
Eitt sinn á leiðinni út að Nesi tók ég til að hnoða saman vísum. Og nú fann ég þær einmitt í gamla umslaginu í kistunni minni. Sá fundur olli því, að ég rifjaði upp þessi æskuminni, sem ég hefi nú skráð hér.

Og hér færðu svo kveðskapinn:
Þrátt mig biður þetta fólk,
þar af verð ég mæddur;
inn á sveit að sækja mjólk
sízt ég var til fæddur.


Í fýlu gjörði feta af stað,
fullur ólánspínu;
fjandanum hefur fundizt það
farið að geði sínu.


Kafaði ég í kotungshöll,
kyssti allar stoðir;
kát var ég þá kempan snjöll,
klappaði pallavoðir.


Flauelstungan falar snjöll
feita mjólk á kútinn.
Svo fyllti ég fæðuhöll
og færði tappa í stútinn.


Þegar ég hafði þakkað, kvatt,
og þegið mjólk á „kátinn“,
út að Nesi eg mér vatt
„egvelega“ státinn.

Mér fannst það bráðfyndið að nota færeyskt orð í upphafi síðustu ljóðlínunnar af því að ég átti marga færeyska góðkunningja á Nesi. Færeyingar lágu þar við hvert sumar og stunduðu fiskveiðar á sexrónum árabátum. Þeir voru okkur strákunum alúðlegir og við höfðum ánægju af samskiptunum við þá.
„Kátur“ fyrir kútur var þekktur framburður á bæ einum í útjaðarspaufum Skorrastaðarsóknar á þessum árum. Þar hét til dæmis Þjóðverji „hjóverji“ á vörum heimilisfólksins. Mál þess var sérlegt fyrirbrigði í íslenzku bændamáli.
Þegar ég tók að rifja upp þessi bernskuminni í leiðindum mínum og heimþrá þarna austan Atlantsálanna, undraðist ég mest, hversu hljóðstafirnir, stuðlarnir og höfuðstafirnir, stóðu rétt í vísunum. Aldrei hafði ég heyrt nefnda rímfræði eða heyrt skilgreiningu á rími íslenzks kveðskapar, ég, 10 ára.
Hvernig gerist þetta með íslenzku barni? Fjarri fer því, að þetta sé nokkurt einsdæmi. Það þekkjum við svo vel úr bókmenntasögu okkar. — Getur það átt sér stað, að ýmsir áunnir eiginleikar, sem varða ljóðagerð og rím, leynist með okkur Íslendingum, eiginleikar, sem lítið ber á með öðrum þjóðum? Getur það átt sér stað, að með okkur Íslendingum bærist gáfur, sem margra alda kveðskapur og bókmenntaiðja eða -skrif hafa mótað og meitlað, svo að þessir eiginleikar leynist eða geti leynzt innra með ómálga barninu? Já, jafnvel það.
Margir Íslendingar hafa iðulega gert vísu eða vísur á bernskuskeiði. Sumar þeirra hafa öðlazt langa lífdaga vegna þess m.a., að þær reyndust rétt rímaðar að íslenzkum hætti.
Ég veigra mér við að ræða þessi mál við svotitlaða sálfræðinga, því að ég missti einhvern veginn trú á vísindalegri þekkingu þeirra, þegar ég heyrði íslenzkan sálfræðing fullyrða, að ósannað væri, að það, sem íslenzkur almenningur kallar sál, — mannssál, — væri til. Aðeins hugarburður. Þá duttu mér allar dauðar lýs úr höfði, eins og þar stendur.
Ekki las ég kvæði á uppvaxtarárum mínum, svo að orð sé á hafandi. Og ekki voru rímur kveðnar á æskuheimili mínu. En á föstunni hvert ár las fóstri minn Passíusálmana fyrir hana fóstru mína, og ég hlustaði á. Þá var ég stundum vel vakandi og íhugull, sérstaklega, þegar þau tóku að ræða efni þeirra og endurtaka vissar ljóðlínur til nánari skilnings á efni og frásögn. Þá sungu þau iðuleg saman sálma, gömlu hjónin á Hóli, bæði Passíusálmana og önnur trúarljóð.
Í barnaskólanum á Nesi lásu kennararnir ljóð fyrir okkur börnin, sérstaklega skólastjórinn, Valdimar Long Sigmundsson. Eitthvað vorum við einnig látin læra af ljóðum, t.d. Gunnarshólma og Ísland farsældar frón, eftir Jónas. Þess minnist ég. Þá sungum við einnig eitthvað af ljóðum, börnin í barnaskólanum á Nesi í Norðfirði, á árunum 1910-1914.
Og svo fann ég þarna í kistunni minni tvö erindi, sem ég hafði sett saman á norsku bændamáli, — nýnorsku. Mér er enn í fersku minni, hvernig þau urðu til. Það gerðist fagran sunnudag sumarið 1922. Ég sat í herbergi mínu í bústað okkar starfsmannanna við lýðháskólabúið á Voss og las Snorre, en það er nafn Norðmanna á Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þá var drepið á dyr hjá mér. Framan við dyrnar stóð lítill drengur á að gizka 7-8 ára. Hann var að sjá hnugginn mjög. Hann æskti þess daufum rómi að fá að tala við Íslendinginn. Það var honum auðsótt mál. —
Drengurinn sagði mér sorgarsögu sína: Fyrir nokkrum vikum hafði hann misst hana mömmu sína. Síðan gat hann ekki á heilum sér tekið. Og tárin glóðu á augnahvörmunum, þegar hann sagði mér þetta. Faðir drengsins hafði nú sent hann til Íslendingsins, sem vann við lýðháskólabúið, til þess að biðja hann að yrkja saknaðarerindi drengnum til huggunar, því að „allir Íslendingar eru skáld“ hafði hann sagt drengnum sínum litla. Ég undraðist. Ég sá tárin glitra í augum barnsins og það mændi á mig. Ég varð að gera eitthvað fyrir það. Það var blátt áfram köllun mín og skylda. Drengurinn vildi bíða og ég hóf verkið það að setja saman saknaðarljóðin. Þetta urðu tvö erindi. Á þessu máli þurfti ég ekki að nota hljóðstafi, stuðla og höfuðstaf, en endarím varð ég að hafa í „skáldskapnum“. Og hérna læt ég þig fá þessi erindi mín, læt þau fljóta með. Þarna geymdi ég þau í kistuhandraðanum mínum. Þau voru horfin úr huga mér.

Å, du kjære mi mor!
som meg bar ved din barm,
og ditt elskfulle ord
tröyste meg i min harm,
stödt eg minnast må deg
kvar eg gjeng på min veg
um i gleda eller sorg.
Minnet um deg må vera for meg
ein skjold og ei borg.


Attmed vogga, der eg svav,
klang din kjæraste song,
og ditt brjost styrk meg gav
medan takk mang ein gong
steig frå deg til vår Far
for eg gjeven deg var
til ei gleda so stor.
Velsigne vår Guð deg alltid med sitt nådeord.

Þegar ég hafði lesið þessi tvö erindi mín fyrir blessaðan litla drenginn, fannst mér sorgartárin hans breytast í gleðitár. Bros bærði á sér um varir hans. Líklega hafði mér tekizt að hafa erindin nægilega barnaleg til þess að hann skildi þau og gæti tileinkað sér efni þeirra. Þá var markinu náð. — Mér fannst sjálfum mikið til um þessa stund, þar sem mér virtist hafa tekizt að létta þungri byrði af barnshjartanu, a.m.k. um stundarsakir. Þess vegna eru þessi tvö erindi mín mér alltaf kær. Þau náðu tilgangi sínum og hann var göfugur.
Og fleiri bréf átti ég þarna í kistuhandraðanum. — Þarna átti ég t.d. bréf að heiman frá elskunni minni. Hún var (og er) þrem árum yngri en ég. Auðvitað spyrðu: Voru þetta ástarbréf? — Eiginlega ekki. Og bréfin mín til hennar voru það heldur ekki. Aðeins hlýleg vinabréf okkar beggja. Þessi bréf til mín voru orðin æðimikið velkt. Ef til vill hefi ég verið búinn að handleika þau býsna oft og lesa þau. En nú var annað á oddinum hjá mér en að láta ástarþrána ná undirtökunum. Þá minntist ég þess, hvernig ástarvíman fór með hann Olav Stordalen, góðan kunningja minn og skólabróður á Voss. Hann missti þá allan áhuga á náminu. Námsviljinn blátt áfram koðnaði niður. — Nei, ég hafði engan tíma til að þrá á því sviði. Fjarri fór því. — En hvað svo kynni að gerast, þegar ég kæmi heim næsta sumar, það afréðu örlögin eða þá sjálfur himnafaðirinn. — Framtíðin leyndi því í skauti sínu eins og svo mörgu öðru. — Samt bauð mér í grun. — En nú þurfti ég að beita öllum vilja mínum og mætti að náminu. Annað kom ekki til greina. Allar aðrar hugsanir skyldu fjarlægðar.
Og svo læt ég útrætt um tómstundir jólanna í Volda fyrir 54 árum. Lesið var og námið stundað af öllum mætti daginn út og daginn inn eins og lífið lægi við.
Og svo komu skólafélagarnir mínir að heiman frá jólahaldinu og jólagleðskapnum. Þá urðu fagnaðarfundir. Og við hófum skólagönguna á ný.
En nú var breyting á orðin í deildinni okkar. Nú vorum við aðeins fjórtán eftir í bekknum. Seytján nemendur höfðu sagt sig úr skólanum, deildinni okkar, eða létu sig hverfa hljóðalaust. Seytján voru „tennurnar“ fallnar, „or kjeften“, eins og hið veraldlega vald vildi orða það. Piltar þessir höfðu fundið vanmátt sinn til þess að ljúka náminu og þreyta stúdentsprófið að sex mánuðum liðnum. Það svaraði ekki kostnaði og tíma að berjast lengur við það vonleysi. — Vonlausir um sigur. Vissir um fall. — Skyldi ég svo eiga það eftir að verða átjánda „tönnin“? — Ekki sökum getuleysis við námið, það fann ég, heldur sökum fjárskorts? Nei, sú hörmung gat ekki átt fyrir mér að liggja. Það vissi ég eftir eintalið. Ég trúði á lífið, máttarvöldin og tilveruna.
Mér verður jafnan hugsað til þessara fjárhagsvandræða minna, þegar ég hlusta á ræður íslenzkra námsmanna, sem þeir flytja í Útvarp 1. des. ár hvert. Vissulega finn ég til með þessu unga fólki, en ósköpin, sem á ganga, kröfurnar, stóryrðin, ádeilurnar, hrakyrðin, allt ber þetta vott um spillt sálarlíf. Þetta er útrás haturs og ofstopa.
Við íslenzkir námsmenn bæði hér heima og erlendis áttum fram á síðustu ár engar kröfur til hins opinbera okkur til styrktar til eins eða neins. Ekki spilltist sálarlíf okkar af þeim sökum.
Hin opinbera hjálp nú til íslenzkra námsmanna er ánægjuleg og drengileg og verður eflaust mörgum heilladrjúg. En ég óttast, að sú hjálp hafi í fyrstu ekki verið skipulögð af nægilegum hyggindum og forsjá. Við erum ekki þess eðlis, mannskepnurnar, að of mikið eftirlæti bæti sálarlífið okkar. Mikill vill alltaf meira, er orðtak, sem lýsir okkur flestum vel í sem fæstum orðum. Mig grunar, að öfgarnar og ósköpin, gífuryrðin og heimtufrekjan spretti af grunnhyggni og skammsýni vissra forystumanna okkar, sem ekki hafa reynzt nægilega forsjálir og skilningsríkir á mannlega gerð, þegar þessu námslánakerfi var komið í kring, þó að grundvallarhugsunin sanni okkur réttan skilning og velvilja þeirra.
Þegar þessi ósköp ganga á 1. desember ár hvert, finn ég til með þjóð minni. Þessi dagur er í sögu hennar merkur dagur og í rauninni annar þjóðhátíðardagur okkar.
Sumir segjast hafa orðið þess áskynja, að nokkur hópur þessa háskólafólks eyði síðari hluta þjóðhátíðardagsins eftir allt offorsið og allan óskapaganginn í Útvarpinu við mikla áfengisneyzlu í vissum Bakkusardíkjum borgarinnar. Þar kvað þetta fólk eyða drjúgum skildingi við víndrykkju og annan voða, þrátt fyrir skerðinguna á námslánunum.
- Veslings litla þjóðin mín, hvar ertu stödd?
Og jólin í Volda liðu í von og starfi. Eftir áramótin tók blessuð sólin að hækka á lofti, svo að um munaði. Jafnframt glæddust vonirnar og hugrenningarnar.

II. hluti