Blik 1978/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, VI. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

Framhald, (6. hluti, lok)



38. kafli


Tóbakstæki


(Í nefið skera nú er mál,
notum járn og tóbaksfjöl.
Tóbaksleysi er tóbakssál
takmarkalaus sálarkvöl. Þ.Þ.V.)

1285. Munntóbaksdósir, skrotóbaksdósir, merktar H.B. Þessar tóbaksdósir átti og notaði Halldór Brynjólfsson frá Gvendarhúsi, fóstursonur Jóns bónda og konu hans, frú Sesselju Jónsdóttur (Sjá Blik 1954). Steinunn Sveinbjarnardóttir, kaupkona í Hafnarfirði, sjúpdóttir Halldórs, gaf Byggðarsafninu dósirnar.
1286. Munntóbaksdósir gjörðar úr Cyprea-kuðungi, sem finnst í heitum höfum. Þetta er að vísu útlendur hlutur, en var eigi að síður notaður hér á landi um tugi ára. Benedikt Jörgensson, verkamaður, nú til heimilis á Dvalarheimili aldraðra hér í bæ, gaf Byggðarsafninu þennan sérkennilega grip, en faðir hans, Jörgen Benediktsson, átti dósirnar og notaði þær í sextíu ár.
1287. Munntóbaksdósir úr „ebonit“ með rós á loki. Í dósunum er munntóbaksbiti (skrotóbak). Eigandinn lézt snögglega og átti hann þá m.a. eftir að tyggja síðasta munntóbaksbitann sinn!
1288. Neftóbaksdósir, sporöskjulagaðar, sem eitt sinn voru merktar stöfunum H.S., en nú eru þeir máðir af dósunum. Þessar neftóbaksdósir átti Högni hreppstjóri Sigurðsson í Baldurshaga (nr. 5) við Vesturveg. Hann varð síðasti hreppstjórinn hér í bæ. Hann var faðir Ísleifs Högnasonar, kaupfélagsstjóra, og frú Ingibjargar Högnadóttur, sem gaf Byggðarsafninu dósirnar.
1289. Neftóbaksdósir úr silfri. Merktar: H.Jónsson 1913. Þessar neftóbaksdósir átti Helgi Jónsson trésmíðameistari í Steinum (nr. 8) við Urðaveg. Hann fæddist að Leirum undir Eyjafjöllum árið 1858, og lézt í Eyjum árið 1932. Gefendur: Hjónin frú Una Helgadóttir frá Steinum (nr. 8) við Urðaveg og Ólafur skipstjóri Ísleifsson frá Kirkjubæ.
1290. Neftóbaksdósir. Þær eru smíðaðar úr silfri og merktar stöfunum J.H. 25/10 1930. Þessar dósir átti Jón útgerðarmaður Hjálmarsson í Sætúni (nr. 10) við Bakkastíg. Dætur Jóns Hjálmarssonar, frú Fríður og frú Margrét frá Sætúni gáfu Byggðarsafninu dósirnar.
1291. Reykjarpípa. Hún er sögð „kínversk“ ópíumpípa, sem Jón Sighvatsson, bóksali í Jómsborg, átti. — Þegar hinn franski ræðismaður Frakka í Reykjavík, Brillouin, dvaldist hér í Eyjum á árunum 1913—1914 við þá ætlun sína að byggja fiskimjölsverksmiðju á Eiðinu, kynntist hann Jóni bóksala Sighvatssyni og konu hans, frú Karólínu Oddsdóttur, með því að ræðismaðurinn bjó hjá þeim í Jómsborg (nr. 9) við Víðisveg, meðan hann dvaldist í kauptúninu. Hann gaf Jóni bóksala þessa pípu að skilnaði. — Þorsteinn Jónsson (Johnson), bóksali í Eyjum, sonur hjónanna í Jómsborg, erfði pípuna eftir föður sinn og gaf hana Byggðarsafninu.
1292. Reykjarpípa með skrúfuöu loki, mjög óvenjuleg að gerð. Hún á sína sögu. Árni Árnason á Vilborgarstöðum, sem fórst með sex-æringnum Gauk árið 1874, fékk eitt sinn þessa pípu hjá frönskum sjómönnum um 1870 fyrir vettlinga, sem hann seldi þeim. Á vissum tímum árs stunduðu Fransmenn færaveiðar á miðunum í nánd við Vestmannaeyjar á fyrri öld og voru þá viðskipti Eyjasjómanna við þá ekki sjaldgæft fyrirbrigði.
Pípu þessa eignaðist Árni Árnason tómthúsmaður á Grund (nr. 31) við Kirkjuveg eftir föður sinn.
Árni símritari Árnason, sonur Árna á Grund, erfði pípuna eftir föður sinn, og gaf hana Byggðarsafninu.
1293. Tóbaksfjöl. Á þessum tóbaksfjölum, sem svo voru nefndar, var rjóltóbakið skorið smátt, svo að það varð tekið í nefið. Tóbaksfjöl þessi er merkt: V.J.
Hana átti Vigfús útgerðarmaður og formaður Jónsson í Holti (nr. 2) við Ásaveg, sonur Jóns bónda og líkkistusmiðs Vigfússonar í Túni og konu hans frú Guðrúnar Þórðardóttur (Sjá Blik 1958, bls. 13—31).
1294. Tóbaksfjöl. Tóbaksfjöl þessa átti og notaði Steindór Sæmundsson, bifreiðastjóri, Jóhannshúsi (nr. 4) við Vesturveg.
1295. Tóbaksfjöl. Þessa tóbaksfjöl átti Árni Jónsson, sem um árabil var vinnumaður í Laufási (nr. 5) við Austurveg hjá hinum kunnu hjónum þar, Þorsteini formanni og útgerðarmanni Jónssyni og frú Elínborgu Gísladóttur.
1296. Tóbaksbaukur, „lítill vexti“, smíðaður úr látúni. Baukinn átti og notaði um árabil Jón Ingimundarson, hákarlaformaður og útgerðarmaður í Mandal (nr. 18) við Njarðarstíg. Jón Stefánsson, Mandal, dóttursonur útgerðarmannsins, gaf Byggðarsafninu baukinn.
1297. Tóbaksbaukur silfurskreyttur; merktur: J.H. Bauk þennan átti Jónas bóndi Helgason í Nýjabæ, svili Jóns bónda Guðmundssonar í Suðurgarði og faðir frú Jóhönnu húsfr. í Nýjabæ, sem var kona Sigurðar sjómanns Þorsteinssonar þar.
1298. Tóbakspungur (tóbakskyllir). Hann er í rauninni eltur hrútspungur, sem almennt voru notaðir til þess að geyma í neftóbak. Eftir að tóbakið hafði verið skorið og látið af fjölinni í tóbakspunginn, var það elt, svo að neftóbakskornin smækkuðu við núninginn og „þófið“. Úr tóbakspungnum var tóbakið síðan sett í dósirnar eða baukinn. Þessi tóbakspungur er úr dánarbúi Jóns sladda Guðmundssonar, sem svo var kallaður. Hann hafði það að atvinnu sinni um tugi ára í kaupstaðnum að skera og selja tóbak. Hann bjó lengi í skúrskrifli, sem hét París og stóð á svæðinu sunnan við vélsmiðjuhús Völundar innan um bræðsluskúra Tangaverzlunarinnar, sem þar stóðu í hvirfingu á fyrri hluta aldarinnar.
1299. Tóbakspungur (tóbakskyllir). Hann átti Guðmundur Guðmundsson í Hrísnesi (nr. 12) við Skólaveg. Hann hafði það að atvinnu um langt árabil að skera rjól og selja.
1300. Tóbaksbaukur, merktur: J.G. og ársett 1929. Bauk þennan átti Jón bóndi og smiður Guðjónsson frá Oddstöðum, fóstursonur hjónanna í Þórlaugargerði, Jóns bónda og smiðs Péturssonar og frú Rósu Eyjólfsdóttur frá Kirkjubæ. — Frú Ingibjörg Jónsdóttir bónda Guðjónssonar í Þórlaugargerði gaf Byggðarsafninu baukinn.
1301. Tóbaksbaukur. Þetta er mjög gamall baukur smíðaður úr kýrhorni. Eitt sinn var hann fagurlega skorinn út. Enn má greina stafi á honum og annan útskurð. Sigurður smiður Sæmundsson á Hallormsstað (nr. 11) við Brekastíg gaf Byggðarsafninu baukinn.
1302. Tóbaksbaukur. Bauk þennan átti Stefán bóndi, útgerðarmaður og skipstjóri Guðlaugsson í Gerði.
1303. Tóbaksbaukur merktur M.Þ. Baukinn átti Magnús Þórðarson á Skansi, — eitt sinn kaupmaður í Eyjum („Magnús Th.“).
1304. Tóbaksbaukur úr tré.
1305. Tóbaksjárn, sem smíðað er úr sagarblaði.
1306. Tóbaksjárn, sem er nokkuð sérlegt að gerð eða lagi. Tóbaksjárn þetta átti og notaði um árabil Ingvar sjómaður Jónsson, sem kenndur var við Mandal (nr. 18) við Njarðarstíg.
1307. Tóbaksjárn. Það er óvenjulega stórt með renndum handföngum og látúnshólkum. Við vitum engin deili á því.
1308. Tóbaksjárn, sem smíðað er úr sagarblaði.
1309. Tóbakssigti. Þetta fyrrverandi mjólkursigti notaði Guðmundur tóbaksskurðarmaður Guðmundsson í Hrísnesi (nr. 12) við Skólaveg til þess að sigta neftóbakið eftir skurðinn á tóbaksfjölinni.
1310. Tóbaksfjöl með óskornu rjóltóbaki.
1311. Tóbaksjárn, sem er nokkuð sérlegt að lögun.
1312. Tóbakspungur frá Jóni sladda Guðmundssyni í París.
1313. Tóbakspungur. Einnig þennan tóbakspung átti Jón sladdi.
1314. Tóbakspungur. Hann átti Guðmundur í Hrísnesi.
1315. Tóbaksjárn. Íslenzk smíði úr sagarblaði.
1316. Tóbakssigti. Það átti og notaði Guðmundur í Hrísnesi.


39. kafli


Skartgripir og skrautmunir


1317. Brjóstnæla. Þessa brjóstnælu átti frú Evlalía Nikulásdóttir, húsfreyja í tómthúsinu Móhúsum, sem stóð á lendum Kirkjubæjajarðanna (Sjá greinina í Bliki 1969 um „Konuna, sem vann kærleiksverkið mikla“). Frú Evlalía Nikulásdóttir andaðist í Túni árið 1903. — Frú Fanney Ármannsdóttir frá Þórlaugargerði gaf Byggðarsafninu næluna.
1318. Brjóstnæla úr silfri. Brjóstnæla þessi fannst í moldarbarði í suðvestanverðri Hánni árið 1944. Hún fannst þar undir yfirborði jarðar, um 50 sentimetra. Halldór Magnússon frá Grundarbrekku (nr. 11) við Skólaveg, fyrrv. verkstjóri við Fiskimjölsverksmiðjuna h/f, fann næluna og gaf hana Byggðarsafninu.
1319. Hálsmen. Hinn 27. okt. 1903 lét hinn danski konungur Kristján IX. það boð út ganga með tilskipan, að Íslendingar skyldu breyta „Íslandsmerkinu“. Skyldi þá merkið verða „Hvítur fálki á bláum feldi“. Þá hafði flatti þorskurinn verið merki Íslands síðan árið 1593. Það merki hafði jafnan verið hneykslunarhella margra Íslendinga á áratugum sjálfstæðisbaráttunnar vegna þess, að orðið „þorskur“ hefur a.m.k. tvær merkingar í íslenzku máli.
Margir Íslendingar glöddust verulega við þessa tilskipan konungs árið 1903 og íslenzkar konur létu íslenzka gullsmiði búa sér til slifsisnælur til minningar um þessa breytingu á „Íslandsmerkinu“.
Þetta hálsmen er dæmi um þá gleði, sem ríkti með íslenzkum konum eftir breytinguna. Hálsmen þetta átti frú Soffía Andersdóttir skipstjóra Asmundsen í Stakkagerði og frú Ásdísar Jónsdóttur húsfreyju þar. Frú Soffía var kona Gísla kaupmanns Stefánssonar í Hlíðarhúsi (nr. 5 B) við Miðstræti.
Frú Soffía Elísabet Andersdóttir var fædd árið 1847. Hún lézt 1936, 89 ára gömul. Frú Soffía eignaðist þetta hálsmen fljótlega eftir að konungur gaf út tilskipanina um nýja Íslandsmerkið. Eftir daga frú Soffíu eignaðist dóttir hennar, frú Ásdís Gísladóttir Johnsen (kona Gísla J. Johnsen) hálsmenið. Dóttir þeirra hjóna, frú Soffía Gísladóttir Johnsen, sem gift var Ísleifi Árnasyni, prófessor, erfði hálsmenið eftir móður sína og gaf það Byggðarsafninu að 40 árum liðnum frá andláti móðurinnar.
1320. Brjóstnæla úr silfri, „Víra-virkisnæla“, eins og þær voru stundum kallaðar. Nokkru eftir að Gísli Lárusson, bóndasonurinn frá Búastöðum, lauk gullsmíðanámi í Reykjavík árið 1885, varð það að einskonar metnaðarmáli ýmissa eiginmanna í Eyjum að láta hann smíða slifsisnælu handa eiginkonunni. Þannig var þessu varið t.d. um Gísla bónda Eyjólfsson á Búastöðum. Að beiðni hans smíðaði Gísli gullsmiður þessa nælu handa Guðrúnu Magnúsdóttur, húsfr. á Búastöðum, eiginkonu Gísla bónda. — Frú Lovísa húsfreyja á Búastöðum, dóttir Búastaðahjónanna, gaf Byggðarsafninu næluna.
1321. Hálsfesti úr kvenhári. Þessa hálsfesti átti frú Sigríður Ólafsdóttir húsfr. í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum fyrsta fjórðung þessarar aldar. Hún var síðari kona Ólafs bónda Ólafssonar í Eyvindarholti (Sjá Blik 1971, bls. 147—158 (IÓ.) ). Hárið, sem festin er gjörð úr, var af höfði frú Guðnýjar Jónsdóttur, fyrri konu Ólafs bónda Ólafssonar. Þau bjuggu að Bakka í Landeyjum. — Frú Ingibjörg Ólafsdóttir, fyrrum húsfr. í Bólstaðarhlíð (nr. 39) við Heimagötu hér í kaupstaðnum (d. 1976 ), gaf Byggðarsafninu hárfestina, en hún var dóttir Eyvindarholtshjónanna, Ólafs bónda og frú Sigríðar Ólafsdóttur.
1322. Hálsfesti. Festin er gjörð úr kvenhári. Hálsmen þetta áttu hjónin á Gjábakka (nr. 10) við Bakkastíg, frú Sesselja Ingimundardóttir og Jón kaupmaður Einarsson frá Yzta-Skála undir Eyjafjöllum. Hann fluttist til Eyja árið 1897 og þau giftust árið eftir (1898).
1323. Sjalprjónn. Gísli Lárusson, gullsmiður í Stakkagerði, smíðaði þennan sjalprjón og gaf hann systur sinni, Jórunni Fríði, er hún fyllti 20 árin. Það var árið 1899. Síðar giftist hún Sturla Indriðasyni frá Vattarnesi. Dóttir þeirra hjóna var frú Lára Sturludóttir, kona Þorgeirs kaupmanns Frímannssonar. Hún gaf Byggðarsafninu sjalprjóninn til minningar um móður sína. — Sjalprjónar voru notaðir til þess að næla saman herðasjölin, sem notuð voru við íslenzka kvenbúninginn, peysufötin og upphlutinn.
1324. Sjalprjónn. Þennan sjalprjón átti síðast ungfrú Rósa Hjartardóttir í Þórlaugargerði. Foreldrar hennar voru bóndahjónin í Þórlaugargerði, Hjörtur Jónsson og kona hans frú Guðríður Helgadóttir frá Gerði. Hjörtur bóndi var sonur Jóns beykis Jónssonar prests Austmanns að Ofanleiti. — Hjörtur Jónsson beið bana, er hann hrapaði í Hellisey 23. ágúst 1883. Síðar giftist móðir Rósu Einari Sveinssyni, sem þá gerðist bóndi í Þórlaugargerði. Sonur þeirra var m.a. Hjörtur Einarsson, sjómaður á Geithálsi (nr. 2) við Herjólfsgötu.
Rósa Hjartardóttir heimasæta erfði sjalprjóninn eftir langömmu sína, frú Þórdísi Magnúsdóttur á Ofanleiti, konu séra Jóns Austmanns Jónssonar, sóknarprests.
1325. Skúfhólkur. Hann er prýddur víravirki. Þeir prýddu skotthúfur kvenna þeirra, sem gengu á íslenzkum búningum, peysufötum eða upphlut. Skúfhólk þennan átti ungfrú Rósa Hjartardóttir í Þórlaugargerði. Hann var erfðagripur hennar. (Sjá skýringu við fyrra númer). Tvö síðustu númerin bárust Byggðarsafninu frá Geithálsi (nr. 2) við Herjólfsgötu, eða nánar sagt: frá frú Katrínu Sveinbjarnardóttur, konu Hjartar Einarssonar, en hjá þeim hjónum dvaldist Rósa Hjartardóttir síðustu æviárin sín.
1326. Skúfhólkur úr silfri prýddur mynd af fálka o.fl. (Sjá skýringu við nr. 1319). Skúfhólk þennan átti frú Guðríður Helgadóttir húsfr. í Þórlaugargerði. Gísli Lárusson, gullsmiður í Stakkagerði, smíðaði hann árið 1904.
1327. Skúfhólkur úr silfri, sjöstrendur, prýddur blöðum. Frú Jenný Jakobsdóttir húsfr. að Nýlendu (nr. 42) við Vestmannabraut, var alin upp á Ásólfsstöðum í Þjórsárdal. Vinafólk hennar bjó á Ási í Holtum. Þaðan fékk hún eitt sinn sendan þennan skúfhólk. Þá var hún ung stúlka eða innan við tvítugt. Hún var fædd 1892. Þegar frú Jenný hafði átt skúfhólkinn hálfa öld, gaf hún hann Byggðarsafninu.
1328. Skúfhólkur. Frú Jenný Jakobsdóttir húsfr. að Nýlendu (sjá fyrra nr.) gaf Byggðarsafninu þennan skúfhólk. Amma hennar, eignaðist hann um miðja 19. öldina og gaf hann dótturdóttur sinni, Jennýju á Ásólfsstöðum, nokkru eftir aldamótin. Jenný notaði hann til ársins 1950. Þá gaf hún hann Byggðarsafninu.

Skrautskermar.
Þrjá svokallaða skrautskerma á Byggðarsafnið.
Þeir voru látnir standa á stofugólfi og þótti mikið skraut að þeim. Einnig voru þeir til nota. Þeir voru notaðir til að jafna hita í stofu, þegar kynnt var með kolaofni. Þessir skermar eru úr dánarbúi frú Sigríðar Árnadóttur Johnsen, sem var kunn húsmóðir og kaupkona í Frydendal í Eyjum, kona Jóhanns Jörgens Johnsen (d. 1893) og móðir hinna kunnu Johnsensbræðra, Gísla, Sigfúsar, Lárusar, Guðna og Árna. — Skermana gerði frúin á efri árum sínum eða á árunum 1920—1930. Frú Sigríður lézt árið 1930.
Frú Anna Johnsen, tengdadóttir frú Sigríðar Árnadóttur, seinni kona Gísla J. Johnsen, gaf Byggðarsafninu skermana.
1329.Skrautskermir. Þessi skermir er saumaður.
1330. Skrautskermir. Þessi skermir er ofinn.
1331. Skrautskermir. Þessi skermir er saumaður.
1332. Treyjuhnappur. Þessi sérlegi hnappur fannst í kálgarði á Búastöðum, þegar hann var pældur vor eitt um síðustu aldamót. Auðvitað er hann erlendur að uppruna og talinn mjög gamall.
1333. Svuntukrœkjur. Þær eru merktar stafnum E. Krækjur þessar átti frú Elín Halldórsdóttir húsfr. að Landagötu 16 hér í kaupstaðnum. Hún var kona Ágústs Sigfússonar fyrrv. útgerðarmanns og formanns í Vöðlavík í Suður-Múlasýslu. Frú Elín var frá Búðarhóli í Landeyjum, dóttir bóndahjónanna þar, Halldórs Guðmundssonar og frú Ingveldar húsfreyju Nikulásardóttur. — Frú Elín eignaðist svuntukrækjurnar nokkru eftir fermingu eða árið 1913 (F. 1898), en þá eignaðist hún fyrsta peysufatabúninginn sinn, eins og algengt var þá um ungar stúlkur í sveitum landsins á því tímaskeiði. Frú Elín gaf sjálf Byggðarsafninu krækjurnar.
1334. Frakkaskjöldur, merktur J.E. Frakkaskjöld þennan átti Jón kaupmaður Einarsson á Gjábakka (nr. 10) við Bakkastíg.
1335. Frakkaskjöldur, merktur J.H. Skjöld þennan átti Jón útgerðarmaður Hjálmarsson á Gjábakka (nr. 8) við Bakkastíg. Íbúðarhús þetta hét Sætún.
1336. Frakkaskjöldur, merktur J.J. Skjöldinn átti Jón útgerðarmaður Jónsson í Hlíð (nr. 4) við Skólaveg. Gefandi: Frú Ásta Jónsdóttir frá Hlíð.
1337. Kápuskjöldur, merktur Þ.S. Kápuskjöld þennan átti frú Þórunn Snorradóttir, húsfreyja í Hlíð (nr. 4) við Skólaveg, kona Jóns útgerðarmanns Jónssonar.
1338. Skúfhólkur. Þessum skúfhólk og tveim næstu númerum læt ég fylgja þessi sögulegu atriði, sem minna á merkan kafla í trúarlífi horfinna kynslóða í Vestmannaeyjum.
Árið 1869 flutti til Vestmannaeyja frá Laxnesi í Mosfellssveit 21 árs gamall piltur að nafni Einar Eiríksson. Hann hafði þá á undanförnum árum numið gullsmíði og lokið prófi í þeirri iðngrein. Einar gullsmiður var frá Lágu-Kotey í Meðallandi. Þar höfðu foreldrar hans búið nokkur ár áður en faðir hans lézt. Það var árið 1851. Foreldrar gullsmiðs þessa voru Eiríkur bóndi Runólfsson og Guðrún húsfr. Jónsdóttir. Við fráfall föðurins leystist heimilið upp. Eftir lát föðurins varð Einar litli tökubarn bóndahjónanna í Nýjabæ í Meðallandi, þar til hann var sendur vestur í Mosfellssveit.
Strax eftir að Einar hafði lokið gullsmíðanáminu, fluttist hann til Vestmannaeyja með móður sína. Á milli þeirra mæðginanna hafði ávallt verið einkar kært samband. Hann vildi styðja hana eftir mætti, en hún var þá sjötug að aldri.
Árið eftir að hann fluttist til Eyja kvæntist hann, og hét kona hans Guðrún Magnúsdóttir.
Ungu hjónin, Einar og Guðrún, fengu inni í ýmsum íbúðarkytrum í tómthúsunum í kauptúninu, svo sem Jónshúsi, Fagurlyst, Fögruvöllum, og svo bjuggu þau á Miðhúsum um þriggja ára skeið, en það var eitt af virðulegustu býlunum á Heimaey á fyrri öld.
Á áratugnum 1870—1880 áttu sér stað nokkur trúarleg umbrot í kauptúninu. Æ fleiri íbúar Eyjanna gerðust mormónar. Af þeim trúarskiptum spruttu nokkrar viðsjár milli sóknarprestsins séra Brynjólfs Jónssonar og annarra forgöngumanna Landakirkjusafnaðarins annars vegar og forustuliðs mormóna hins vegar.
Á þessum áratug eignuðust ungu hjónin, Einar gullsmiður og frú Guðrún Magnúsdóttir fimm börn og lifðu fjögur þeirra. Þessari stóru fjölskyldu gat heimilisfaðirinn ekki framfleytt með iðn sinni einvörðungu. Á vertíðum vann hann við framleiðslustörfin, réri til fiskjar og gerði að afla.
Sérstaklega voru það ungar stúlkur í kauptúninu og gjafvaxta meyjar, sem höfðu yndi af að eiga gull- og silfurmuni þá, sem Einar gullsmiður smíðaði.
Þá gengu líka eldri og yngri konur í byggðinni almennt í íslenzkum búningi, mest í peysufötum. En hvort sem þær gengu í þeim eða upphlut, þá notuðu þær skotthúfur og þurftu þess vegna að eiga skúfhólka, sem ýmist voru úr silfri eða skíru gulli eftir efnahag og öðrum ástæðum. Þessa hluti smíðaði ungi gullsmiðurinn í þó nokkrum mæli, svo og nælur og hringa.
Ungu hjónin tóku mormónatrú nokkru eftir að þau gengu í hjónaband.
Og svo tók að magnast mormónasöfnuðurinn í kauptúninu, svo að orð fór af. Og mormónarnir hófu að ræða sín á milli um flutning úr Eyjum og af landi burt. Stefnt var að því að flytja til Utah í Ameríku og sameinast þar trúarbræðrum og -systrum.
Sumarið 1880 fluttu 18 manns úr Vestmannaeyjakauptúni til Utah. Það var ekki lítil blóðtaka, þar sem aðeins bjuggu 558 manns í byggðinni. Í þessum hópi voru hjónin Einar gullsmiður og frú Guðrún Magnúsdóttir með fjögur börn sín 1—8 ára að aldri. — Í kauptúninu áttu þá margir smíðisgripi eftir gullsmiðinn unga, Einar Eiríksson, og hefur Byggðarsafnið eignazt nokkra þeirra.
Prestshjónin á Ofanleiti á árunum 1860—1884 voru séra Brynjólfur Jónsson og maddama Ragnheiður Jónsdóttir. Þau eignuðust stúlkubarn 1. júlí 1863. Meybarn þetta var skírt Rósa Jóhanna Sigríður. Þessa dóttur sína fermdi sóknarpresturinn faðir hennar haustið 1877. — Nokkru eftir ferminguna veiktist hún af sullaveiki. Eiginlegt sjúkrahús var þá ekkert til í kauptúninu á Heimaey. En frú Sigríður Árnadóttir Johnsen, húsfreyja og síðar kaupkona í Frydendal, tók iðulega til sín sjúklinga til hjúkrunar í samráði við héraðslækninn Þorstein Jónsson í Landlyst (nr. 43 B við Strandveg).
Vinir prestshjónanna á Ofanleiti gáfu prestsdótturinni gjafir, þegar hún var fermd. Mjög var það algengt, að fermingarstúlkur eignuðust þá þegar við fermingu fyrstu peysufötin, hinn almenna og hátíðlega þjóðbúning íslenzkra kvenna. Þá voru fermingargjafirnar æði oft skrautmunir til þjóðbúningsins eða hluti af honum, svo sem skúfhólkur, slifsi, svunta o.s.frv.
Þegar Rósa J.S. Brynjólfsdóttir prestsdóttir á Ofanleiti var fermd, gáfu vinir prestshjónanna henni þennan skúfhólk. Hann smíðaði Einar gullsmiður Eiríksson.
Rósa Jóhanna Brynjólfsdóttir andaðist 13. jan. 1880 á seytjánda aldursári. Hún andaðist í Frydendal. Aldrei var hirt um að koma skúfhólkinum til skila suður að Ofanleiti með öðru, sem prestsdóttirin hafði haft í fórum sínum meðan hún lá sjúklingur í Frydendal. Hann varð því innlyksa í Frydendal, enda hafði mormóni smíðað hann, hamrammur andstæðingur föðurins í trúarlegum átökum þá í kauptúninu.
Síðast lenti skúfhólkur þessi í erfðadóti, sem Sigfús M. Johnsen fékk eftir móður sína látna, og hann gaf síðast Byggðarsafninu skúfhólkinn, sem er með sérlegu lagi.
1339. Skúfhólkur. Þennan skúfhólk smíðaði á áttunda tug fyrri aldar Einar gullsmiður Eiríksson, kunnur mormóni í Eyjabyggð þá. (Sjá skýringu við fyrra númer). Þessi skúfhólkur leiðir til þess, að ég freistast hér til að segja eilitla sögu, sem varðar íslenzka þjóðlífið frá liðinni öld.
Veturinn 1873—1874 voru vinnuhjú á Oddstöðum hjá hjónunum Árna bónda Þórarinssyni og frú Steinunni Oddsdóttur húsfreyju Þuríður Sigurðardóttir, þá á fimmtugs aldri, og Magnús Kristjánsson frá Kekki í Stokkseyrarhreppi.
Vinnukona þessi var ekkja. Vinnuhjú þessi felldu hugi saman, þó að aldursmunur væri þarna nokkur. Þau voru bæði mormónatrúar. Og brátt tóku þau upp á þeirri ósvinnu að sofa saman. Þá kom til kasta Lofts Mormmónaprests í Eyjum, sem ekki leið svona „hneykslanlega sambúð“ samkvæmt helgri kenningu mormóna. Brátt létu þau þá mormónaprestinn vígja sig í heilagt hjónaband. En sóknarpresturinn á Ofanleiti, séra Brynjólfur Jónsson, gat ekki unað þessari yfirlýstu mormónablessun gagnvart hinni hneykslanlegu sambúð og lostafulla samlífi vinnuhjúanna á Oddstöðum. Þó neitaði hann að gifta þau þjóðkirkjulegri giftingu sökum vígslunnar, sem áður hafði átt sér stað. Hvað var nú til ráða, þar sem hjúin vildu ekki á nokkurn hátt skilja samvistir? Ekkert lá annað fyrir þeim en fangelsisvist samkvæmt íslenzkum lögum. Mál þetta varð sýslumaðurinn að láta sig varða, Daninn Aagard. — Samkvæmt 47. gr. hinnar íslenzku stjórnarskrár skyldi enginn missa af borgaralegum réttindum sakir trúar sinnar. Mál þetta kom því til kasta landshöfðingjans yfir Íslandi, sem skaut því til danskra stjórnarvalda. Seint og síðar meir gaf konungur út tilskipun um „borgaralegt hjónaband“ á Íslandi, sem sýslumenn og bæjarfógetar skyldu framkvæma. Hin nefndu vinnuhjú voru þannig gefin saman í svo kallað borgaralegt hjónaband, sem var hið fyrsta á Íslandi. Það átti sér stað í Vestmannaeyjum 30. marz 1876.
Hjónin á Oddstöðum, Árni bóndi og Steinunn húsfreyja, höfðu reynzt vinnuhjúunum sínum sérstaklega vel í þessum giftingarraunum þeirra, svo að Eyjafólk hafði orð á því. Til þess að sýna húsmóður sinni eilítinn þakklætisvott, gaf Þuríður vinnukona húsmóður sinni þennan skúfhólk, sem hún fékk trúbróður sinn, Einar gullsmið Eiríksson, til þess að smíða fyrir sig.
Svo sem ýmsum Eyjabúum er kunnugt, þá voru nefnd hjón á Oddstöðum foreldrar frú Önnu Sigríðar Árnadóttur Johnsen í Frydendal. Skúfhólkur þessi gekk í erfðir og hafnaði að lokum hér í Byggðarsafninu.
(Heimild: Íslenzkir sagnaþættir Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi o.fl.)
1340. Skúfhólkur. Sjá tvö fyrri númer.
1341. Skúfhólkur, erlend smíði enda með erlendum stimpli.
1342. Skúfhólkur, prýddur þríhyrndum laufum.
1343. Skúfhólkur með „víravirki“.
1344. Skúfhólkur. Stafirnir M.E. er grafið á skúfhólk þennan. Hann er vinnuhjúaverðlaun.
1345. Skúfhólkur, sem við vitum engin deili á.
1346. Ermahnappur með víravirki. Þetta er ermahnappur af skyrtu einokunarkaupmannsins Johan P.Th. Bryde. Hnappur þessi barst Byggðarsafninu úr dánarbúi faktorshjónanna við Garðsverzlun, Antons Bjarnasen og frú Sigríðar Guðmundsdóttur.
1347. Veggskjöldur, sem gerður var á sínum tíma til minningar um 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Hjónin Þórður Þórðarson, rakarameistari, og frú Theódóra Bjarnadóttir, sem lengi bjuggu í Eyjum, gáfu Byggðarsafninu skjöldinn.
1348. Hulstur, eldspýtnastokkshulstur, sem gert var og selt almenningi á sínum tíma til minningar um 50 ára afmæli kaupstaðarréttinda til handa Vestmannaeyjabyggð, en þau réttindi fengust með lögum frá alþingi 22. nóvember 1918. Fyrstu bæjarstjórnarkosningar í Vestmannaeyjum áttu sér stað í janúarmánuði 1919.
1349. Giftingarhringir hjónanna Sigfúsar M. Johnsen og frú Jarþrúðar Pétursdóttur sóknarprests að Kálfafellsstað Jónssonar. Þau giftust 12. júní 1915.
Sigfús M. Johnsen frá Frydendal í Vestmannaeyjum var lögfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla og skrifaðist þaðan út árið 1914. Hann var á þriðja tug ára fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í Reykjavík, en árið 1940 varð hann bæjarfógeti í fæðingarbyggð sinni, Vestmannaeyjum. Hann skrifaði merkar bækur, svo sem Sögu Vestmannaeyja í tveim bindum (Rvk. 1946), Herleiddu stúlkuna (Rvk. 1960), Uppi var Breki, svipmyndir úr Eyjum (Rvk. 1968) og Yfir fold og flæði (Rvk. 1972).
Frú Jarþrúður P. Johnsen starfaði mikið og farsællega að ýmsum félagsmálum í Vestmannaeyjakaupstað og gat sér góðan orðstír fyrir þau störf.
Hún andaðist 9. okt. 1969 og hann 9. jan. 1974.


40. kafli


Vélskipið Herjólfur


1350. Bjallan úr v/s Herjólfi. Vélskipið Herjólfur var smíðaður í Hollandi árið 1959 og kom til Vestmannaeyja fyrsta sinn 12. des. sama ár. Þá hóf hann ferðir milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur.
Þriðjudaginn 6. júlí 1976 sigldi hann út höfnina í Vestmannaeyjum í hinzta sinni. Þá hafði hann verið í ferðum í þágu Eyjafólks í sextán og hálft ár. Hann reyndist Eyjamönnum ávallt hið mikla happaskip.
Hinn nýi Herjólfur tók þá við hlutverki skipsins og hóf ferðir milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar 4. júlí 1976. Hann er smíðaður í Kristjánssandi í Noregi. Ráðandi mönnum í stjórn Skipaútgerðar ríkisins þótti við hæfi, að Byggðarsafn Vestmannaeyja geymdi bjöllu happaskipsins Herjólfs til minningar um hið veigamikla gildi hans fyrir atvinnulífið í kaupstaðnum og aukna menningu, sem fólst í bættum samgöngum við Eyjar, eftir að hann var keyptur til þess hlutverks.

Þ.Þ.V.

Til baka




ctr


Íbúðarhúsið á Miðhúsum, þar sem Hannes Jónsson, hafnsögumaður bjó.