Blik 1978/Spaug og spé

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Spaug og spé


I
„Ég hannaði tíu börn“


Mikil ánægja getur það verið tveim Eyjaskeggjum að hittast á förnum vegi, þegar svo ber undir. Þá eiga þeir oft ýmislegt órætt sín á milli, og ekki sízt, ef langur tími líður á milli samfunda.
Þannig var þetta með okkur Halkion Hallsson, þennan aldraða, innfædda Eyjaskeggja, þegar við hittumst á s.l. sumri. Við höfðum þá ekki sézt í nálega hálfa öld.
Á sínum tíma kynntumst við í aðgerð hjá merkum útgerðarmanni hér í kaupstaðnum á vertíð 1928. Hann var þá ógiftur og ólofaður að hann tjáði okkur samstarfsmönnunum. Bezti náungi virtist mér hann vera, en einhverjir sögðu hann ekki stíga í vitið og fótaskortur varð honum stundum á tungunni, eins og það var kallað þá hjá okkur aðgerðarkörlunum. Þetta heyrði ég sjálfur, en lét það fyrir mitt leyti land og leið.
Halkion Hallsson átti það til að vera nokkuð drjúgur með sig og var á stundum ekki lítið hégómagjarn. Helzt bar á þessu, þegar hann vildi vekja athygli á vinnuafköstum sínum. Þau voru mikil, það var satt. Hann reyndist bráðduglegur verkmaður.
Hann var ungur eins og ég, þegar við kynntumst fyrst í Eyjum, og yngri en ég. Og nú bar fundum okkar aftur saman eftir öll þessi ár í rútu á Hellisheiði. „Hefurðu átt heima í Reykjavík öll þessi ár?“ spurði ég. „Ójá, það held ég nú,“ sagði hann, „þjónað þar háttsettum mönnum og farnazt vel,“ bætti hann við eftir andartak, og drýgindin leyndu sér ekki í röddinni.
„Áttu konu og börn?“ spurði ég. „Ég var kvæntur, en nú er ég ekkjumaður,“ sagði hann, „en börn á ég.“ Nú varð nokkurt hlé á samtali okkar, því að umferð var mikil og ég skyggndist um og athugaði gerð bifreiðanna, sem mættu okkur.
„Eignuðust þið mörg börn?“ spurði ég. „Ég hannaði tíu börn, eins og maður plar segja á nútíðarmáli í höfuðborginni, og eru fimm af þeim á lífi. Þá var sko engin pillan til að pukrast með, svo að maður lét kylfu ráða kasti í þeim efnum og athöfnum, enda auðvitað til þess ætlazt af sjálfri forsjóninni. Hennar lög eru auðvitað enn í gildi, hvað sem tiktúrum okkar mannanna líður og uppáfyndingum. Þar á sko engin „manúering“ við, get ég sagt þér, Þorsteinn minn.“
„Nei, nei, — það er nú svo.“ Ég fór undan í flæmingi. Þetta efni vildi ég ekki skeggræða við hann, sízt í fjölmenni, þar sem mörg eyru voru opin. Ég vék því út í aðra sálma.
„Hvar býrðu í höfuðborginni?“ spurði ég. „Á heimiii hinna öldruðu, sem dregur nafn af norskum sægörpum, sem höfðu byr, hvert sem þeir vildu sigla.“ „Nú já,“ með þessu svari vildi hann auðheyrilega kynna mér, hversu hann væri lesinn í Heimskringlu. Ætlaðist hann til, að ég væri jafn nær? Og yfirbragðið allt varð býsna drýgindalegt. Hann virtist bíða svars. „Dveljast margir aldnir Eyjaskeggjar þar?“ spurði ég. „Þar hvar?“ spurði hann og hreykti sér í sætinu. „Á Hrafnistu?“ — Bið varð á svarinu. „Onei, ekki margir, en merkir menn, það verð ég að segja, menn, sem eiga sér gullvæga sögu frá dvöl sinni í Vestmannaeyjum, frá athöfnum sínum þar til sjós og lands.“ — Þetta fannst mér vel mælt.
Svo ræddum við um karla og konur, sem dvalizt höfðu á undanförnum árum á Hrafnistu, bæði úr Eyjum og víða að á landinu. Sumir voru orðnir svo utanveltu, að þeir mundu naumast sitt eigið nafn. Það fannst mér ólíklegt með öllu. Það hlutu að vera miklar ýkjur. Sumt voru aldaðir útgerðarmenn, sagði hann, sem tapað höfðu árlega einhverjum ósköpum, svo að þeir gátu byggt sér skrauthýsi og ferðast jafnframt til útlanda árlega með konu og börn.“ Já, það er vægast sagt ömurlegt fyrir svona menn að bíða andlátsstundarinnar á elliheimili,“ sagði hann og breytti um svip. — Ég óskaði ekki eftir að ræða við hann skattsvik samborgaranna og fjármálabrellur. Hann vissi sem sé deili á ýmsu í byggðarlaginu okkar, sem ég kærði mig ekki um að ræða eða rifja upp þarna í rútunni. Ég fór því á ný út í aðra sálma.

II
„Þeir tóku úr honum allt draslið ...“


„Hvað veiztu yngstan dvalargest á þessu landskunna elliheimili?“ spurði ég.
„Jú, það er hann Nikki Gíslason,“ sagði hann, „hann er bara 48 ára.“
Hvernig stendur á því, að svo ungur maður fær að vera þarna í vist innan um ykkur öldungana?“ spurði ég. „Það er nú saga að segja frá því,“ sagði þessi kímni Eyjaskeggi og dró annað auga í pung. Svo lét hann dæluna ganga.
„Nikki hafði fengið skít í tönn,“ sagði hann, „og læknir borið það við að draga tönnina úr honum. En viti menn: Þá sat tannkrónan óvart laus á rótinni. Hér þurfti því meiri aðgerða við. — Þegar svo tannlæknirinn fór að bauka við að ná tannbrotunum úr tannholdinu, skar hann Nikka þvers og kruss um tanngarða og kjálka, svo að hann var sjúklingur eftir. Batinn kom seint, svo að hann var fluttur „á elliheimilið okkar.“ Eftir fárra vikna dvöl þar, fékk hann einhverja slæmsku í meltingarfærin og önnur tæki innvortis. Þá gerðu læknarnir sér lítið fyrir og tóku úr honum allt draslið.“
„Hvað ertu að segja, maður, tóku þeir úr honum öll innyflin?“
„Þeir tóku úr honum allt draslið, segi ég,“ endurtók Eyjaskegginn alvarlegur á svip, svo að hvergi vottaði fyrir kímni eða nokkurri glettni.
Við hlustuðum mörg á þessa sögu hans. Sumir hlógu hátt, aðrir brostu og á þriðja hópinn runnu tvær grímur. Hinn alvarlegi svipur sögumannsins olli því —, einfeldnislegur í aðra röndina, en svo sem eins og allt vitandi sannast og réttast í hina.
„Nú, nú, hvað svo,“ sagði ég og vildi ákafur fá að heyra meira. En sögumaður fór sér að engu óðslega. Hann vildi auðsjáanlega láta okkur bíða eftir afleiðingunum dálítinn tíma, til þess að auka spennuna. —
„Þú sagðir, að Nikki væri vistmaður á heimilinu. Hvernig getur hann verið það innyflalaus?“, spurði ég og hláturinn hafði gripið mig svo ákaft, að ég tárfelldi.
„Já, það er nú það,“ sagði Eyjaskegginn og var enn grafalvarlegur. „Þeir settu sem sé meginið af draslinu í hann aftur, þegar þeir höfðu skafið og hreinsað, eins og sláturgerðarkona á haustdegi.“ — Nú brast hláturinn á fyrir alvöru. ALLIR veltust um af hlátri. Þó held ég að enginn hafi grátið af hlátri nema ég. En Eyjaskeggjanum stökk ekki bros fremur en sanntrúuðum biblíuprédikara, sem heyrir frásagnir sköpunarsögunnar dregnar í efa.
„Hvernig heilsaðist Nikka svo eftir alla þessa allsherjarhreinsun?“ spurðum við. „Hvernig honum heilsaðist,“ endurtók hann alvarlegur sem alltaf fyrr, „nú ekki öðruvísi en svo, að hann er heilsuhælis- eða elliheimilismatur, það sem hann á eftir ævinnar.“


III
„Mikið hefði ég orðið ástfanginn af þér, ef ...“


Eftir að fjöllin hér á Heimaey voru girt af fjárheldri girðingu, afréðu bændur í Eyjum að leggja beitarskatt á hverja kind, sem þar gekk til beitar.
Bóndahjón í Eyjum áttu eina á, sem gekk í ónefndu fjalli innan einnar girðingarinnar. Þau áttu þá að greiða beitargjaldið fyrir kindina, og það voru þrjár krónur.
Bóndakonan hafði tögl og hagldir á heimilinu og þá einnig um öll útgjöld og reikningshaldið í búskapnum. Hún neitaði alltaf að greiða þennan beitarskatt og hafði gert það í nokkur ár. Þess í stað hellti hún óskaplegum skammaryrðum yfir hrygginn á forustumönnum bændasamtakanna í Vestmannaeyjum og kallaði þá fjárplógsmenn og öðrum illum nöfnum. Sérstaklega fékk gjaldkeri Búnaðarfélags Vestmannaeyja að kenna á kellu, orðgnótt hennar og skammaryrðum, þegar hann dirfðist að heimsækja hana og óska greiðslunnar.
Nú gjörðist það, að Hannes bóndi var kjörinn í stjórn bændasamtakanna og gerður að gjaldkera Búnaðarfélags Vestmannaeyja. Bar honum þá að innheimta beitartollinn hjá frúnni á Kirkjubæ.
Hannes bóndi tók að hugsa þessi mál. Hann vissi glögglega, hvað fyrrverandi gjaldkerar höfðu átt í miklu stríði við hina harðlyndu húsmóður á gömlu prestsseturstorfunni. Bóndi hugðist beita hana sálfræðilegum töfrabrögðum.
Dag nokkurn lagði Hannes bóndi leið sína austur á Kirkjubæ til að innheimta beitargjaldið. Húsmóðirin var ein heima, þegar hún bauð bónda í eldhúsið til sín.
Fyrst ræddu þau gamla daga, enda höfðu þau bæði búið lengi í Eyjum, þegar þetta átti sér stað. Húsmóðirin var hin glaðasta og lék á als oddi.
Loks áræddi bóndi að bera upp erindi sitt og kvaðst kominn til að innheimta nokkurra ára beitartoll fyrir þessa einu rollu. — Þá snerisi frúin úr ham sínum og hellti óbóta skömmum yfir Hannes bónda og alla hina fjárplógsmennina í stjóm bændasamtakanna í byggðarlaginu. Þegar svarkurinn hafði talað um stund og hellt úr skálum reiði sinnar hinum grófustu skammaryrðum tungunnar, sagði Hannes bóndi ofur blítt og ísmeygilega: „Mikið hefði ég orðið ástfanginn af þér, Lauga mín, ef við hefðum kynnzt, þegar við vorum ung.“ Við þessi orð bóndans roðnaði bóndakonan eilítið og bros færðist yfir andlitið. Hún sagði ekkert, — ekki eitt einasta orð. Hún stóð hugsi um stund, svo var sem hún ljómaði af gleði og ánægju. Síðan skundaði hún inn í stofuna úr eldhúsinu, kom að vörmu spori með peninga og greiddi beitartollinn að fullu.
Þetta er sönn saga úr Eyjum, en ég hefi breytt nafni frúarinnar.

Þ.Þ.V.