Klauf

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Klauf er stórgrýtt fjara neðan við Breiðabakka norðan við Vík og Stórhöfða.

Úr Klaufinni var áður fyrr útræði Ofanbyggjara og höfðu þeir skip sín þar. Sést enn móta fyrir boltum og kengjum, sem notaðir voru til að festa skipin niður, í klöppunum nyrst í Klaufinni. Sjósókn var, ásamt búskap, snar þáttur í lífi Ofanbyggjara á fyrri hluta 20. aldar en eftir miðja öldina lagðist þetta útræði alveg af.

Jarðfræði

Í Klauf er góð opna í jarðlögin þar sem sést undir hraunið úr Helgafelli í lagskipt móberg frá Sæfjalli. Móbergið er hörðnuð, misgróf gosaska sem varð til við gos sem að mörgu leyti hefur verið líkt Surtseyjargosinu (1963-1967). Víða má sjá för eftir bombur í móberginu þar sem lögin hafa raskast eða svignað undan bombunum. Þetta sést bæði í sniðinu undir hrauninu og þar sem sést ofan á móbergið í fjörunni fyrir neðan sniðið. Bomburnar eru flestar brot úr berggrunninum undir Vestmannaeyjum og setinu þar ofan á. Best er að skoða bomburnar sjálfar í Kinninni þar sem mikill fjöldi þeirra hefur veðrast úr móberginu og eru þær stærstu rúmlega 1 metri í þvermál.