Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Síðasta mótornámskeið Fiskifélagsins í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Síðasta mótornámskeið Fiskifélagsins í Vestmannaeyjum


Jón Einarsson.

Jón Einarsson, fyrrverandi skólastjóri Vélskólans hefur sent Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja eftirfarandi grein til birtingar og eru honum færðar beztu þakkir fyrir allt gamalt og gott.

Það var af afleiðingum fótbrots, að ég upphaflega tengdist vélakennslu, og fór að kenna við Mótornámskeið Fiskifélagsins. Eftir tveggja vetra kennslu í Reykjavík var ég svo sendur tíl Vestmannaeyja, til að halda eitt slíkt námskeið þar, sem varð það síðasta í röðinni af mótornámskeiðum þeirrar stofnunar úti á landi. Mótornámskeiðin voru eftir það sameinuð Vélskóla Íslands, og féll það einnig í minn hlut að hefja starf Vélskólans þar.
En oft hefur mér verið ofarlega í huga námskeiðið „mitt" í Eyjum, etv. vegna þess að ég hafði ánægju af því, og er það minnisstætt vegna þess að ég var byrjandi á þessu sviði, og erfiðleikar voru margir á vegi mínum. Seinna varð ég þess raunar vísari, að mínir erfiðleikar voru raunar smámunir hjá því sem fyrirrennarar mínir urðu að láta sig hafa.

Það var veturinn 1964-5, Surtur gjósandi kominn á annað ár, saklaust og skemmtilegt gos í alla staði. Reyndar var það Syrtlingur svokallaður sem um þær mundir sá um skemmtunina, og oft heyrði ég á Eyjaskeggjum að hann hefði nú alltaf verið heldur daufur, þú hefðir átt að sjá þegar „sá gamli" byrjaði, sögðu þeir við mig.
Nema hvað, eldgos var í gangi þegar ég kom þar fyrst, síðan kom nokkura ára hlé, en eftirmaður minn hafði ekki marga mánuði starfað þegar „rauður loginn brann" Vestmeyingum í annað sinn, og í það skiptið ekki bara til skemmtunar. Umboðsmaður Fiskifélagsins í Ve. var þá sá frægi útgerðarmaður, Ársæll Sveinsson. Hann átti að taka á móti umsóknum nemenda, og undirbúa námskeiðið í alla staði. Mér var sagt á skrifstofu Mótornámskeiðanna í Rvk., að allt væri til reiðu í Vestmannaeyjum, nægur nemendafjöldi (lágmark 12), húsnæði og vélakostur.
Allt reyndist þetta rétt, en þó lá við að ég snéri við í dyrunum þegar ég sá vélasalinn og vélakostinn. Ekki vantaði að húsnæðið var stórt, gamla rafstöðin var að gólffleti l00 ferm., þe. sú elsta, nýju viðbyggingarnar ekki meðreiknaðar, og 8m undir loft. (Seinna varð ég ákaflega hrifinn af þessu húsi, þegar ég hafði átt nokkurn þátt í að hressa upp á það, og skrifaði einhverskonar langloku í eitt af Eyjablöðunum um húsið og skólann. Ég er nú að mestu leyti búinn að gleyma þeirri grein, en vinur minn, Gunnar Sigurmundsson kom henni á prent.)

Gamla rafstöðin, hús Vélskólans í Vestmannaeyjum, eins og hún leit út fyrir gos.

Það, sem sagt lá við að ég snéri við í dyrunum. Ljós var á einum 3-4 lOOw perum, og ég gat ógreinilega greint ryð- og ruslahauga á víð og dreif um þetta stóra gímald. Og lái mér hver sem vill, að í huga minn komu öll ljót orð, þau sömu sem við byrjum að læra svona 3-5 ára gamlir, og bætum svo við með aldrinum. Og svo fór ég að skoða. Ryðhaugarnir tóku á sig nokkurnveginn þekkjanlega mynd mótora, 3-syl. Alfa, og 6-syl. Buda-Lanova. Auk þess gamall 1-syl. Tuxham-mótor. Vinnuborð, um hálfur fermetri að stærð, og á því skrúfstykki sem ég þekkti strax, sú gerð er um 70 ára gömul.
Enn ein vél var þar inni, sem ég bar ekki strax kennsl á. Það var 1-syl. Güldner mótor, smíðaður 1915. Ekki man ég eftir hvort ég gerði mér grein fyrir því strax eða seinna, að þarna var hvorki meir né minna en fyrsta dísilvélin sem keypt var til Íslands.
Seinna átti ég þó eftir að kynnast þessari vél talsvert betur, bæði meðan ég reyndi að gera henni allt til góða sem ég gat, og seinna, í gosinu, lá við að hún dræpi mig þegar ég ásamt öðrum var að reyna að bjarga henni undan hrauninu, síðar flutningi hennar til Reykjavíkur, tilraunum til að verja hana skemmdum þar, síðan sjá um endurflutning hennar til Ve, og síðast en ekki síst, að sjá hana í annað sinn sem ryðhrúgu utan við dyr Vélskólans.
Þessi vél var talin 50 hestöfl, framleiddi að jafnaði 35kw/110v jafnstraum, með reimdrifnum rafala. Reimin var slétt, 12" breið, kasthjól mótorsins var 90-110 sn/mín. Seinna vissi ég að kasthjólið eitt var 2,65 tonn að þyngd, en allur mótorinn 10,3 tonn. Ekki mundi ég leggja til að þessi gerð yrði sett í trillur núna.
Þarna voru einnig uppistandandi leifar af gamalli og fallegri rafmagnstöflu, gerðri úr hvítum og svartrákóttum marmara. Hún hafði þó, af næstum ótrúlega skammsýnum mönnum, verið brotin niður, og brotin lágu í hrúgu úti í horni. Þessi sjón sárnaði mér hvað mest, en þó ennþá meira síðar, þegar mér var borið á brýn að hafa látið brjóta töfluna. En ég gat sannfært Garðar rafveitustjóra um að ódæðið var framið áður en ég kom í húsið.
Sem sagt, þarna stóð ég í dyrum, og horfði á dimmt gímald, sem eitt sinn var stolt Vestmannaeyinga, vel hirt og rekin stofnun, og mér lá við að láta hugfallast. Þarna átti ég nú að kenna ungum mönnum að umgangast nýjar og góðar vélar. Mönnum sem áttu að gæta hjarta- og æðakerfis í veikum fleytum, á stórviðrasvæði N-Atlandshafs, undir stjórn harðsæknustu fiskimanna norðurhjarans. Var ekki betra að hypja sig heim strax?
Ég man að þegar ég slökkti og lokaði, var hugurinn í hálfgerðu uppnámi. Svo rölti ég vestur eftir Strandveginum. Einhvern varð ég að finna til að tala við. Eftir 5 mín. var ég kominn vestur að Vélsm. Magna. Þar uppi á lofti sat bekkjarbróðir minn úr Vélskólanum, og til hans leitaði ég í von um að hressilegt skap hans og „húmor" gæti bent mér á leið. Það brást heldur ekki. Elli lét ekki fyrst í stað sinni frægu kímnigáfu lausan tauminn, heldur fullvissaði hann mig um sína aðstoð, leiddi mér fyrir sjónir mikilvægi þess að ég léti ekki hugfallast, og fór vel völdum, kannski nokkuð grófum orðum um það, hvers væri vænst af mér. Og ef til vill voru svo tekin fram glös og kókakóla og eitthvað fleira sem ég man ekki lengur.
Það fór því svo, að nokkrum dögum seinna opnaði ég gömlu rafstöðina fyrir 19 strákum kl. 8 að morgni, og reyndi ekki að draga úr því að hér yrði að fara fram mikil vinna áður en nokkur vél færi í gang. Nú man ég ekki betur en að eftir nokkra daga færu nemendur mínir að ganga þar um hús með „eigendasvip" á andliti, og víst er um það, að fljótt skipti um andrúmsloft í gömlu rafstöðinni, hún eins og lifnaði við, og tók á móti þessum nýju vélamönnum með þeirri kurteisi og virðingu sem tilheyrði fyrsta fimmtungi aldarinnar, og nú er dauð af sósíalisma og jafnrétti, ásamt öðrum góðum hlutum.
Loftpressa úr báti fannst hjá Sigurði Óskarssyni. Ég tengdi hana sjálfur, án nokkurra tilkynninga. Enda var rafkerfið í gömlu rafstöðinni allt annað en tilkynningahæft. Strákana lét ég leggja þrýstloftsrör frá pressunni að loftkútnum sem Garðar rafveitustjóri lánaði okkur, og þaðan til vélanna. Sá búnaður hygg ég að hafi verið sá fyrsti sem hefði staðist Lloyds-skoðun í húsinu.

Og þessi urðu endalok rafstöðvarinnar. Myndin tekin daginn eftir að Guldnernum var bjargað út.

Vatnsgeymir, sem tók næstum tonn, var þarna inni. Hvorki var þar að finna rennandi sjó eða vatn, svo vatnsgeymirinn okkar var látinn gilda fyrir Atlantshafið. Seinna komum við upp ferskvatnsgeymi.
Tuxham-mótorinn gamli sem við fundum þarna inni, varð fyrsti mótorinn sem við settum í gang. Það skeði á laugardegi. Næsta gangsetning okkar var ákveðin næsta laugardag, og þá var það Alfa-mótorinn sem átti að fara í gang. Eftir nokkurt umtal um hlutina, t.d. hvort við ættum að gangsetja fyrst, og skoða svo stimplana, eða hitt, að skoða fyrst og gangsetja svo, varð ég að skera úr málinu. Ég kvað uppúr um að gangsetja fyrst, og skoða á eftir, öllum létti við úrskurðinn, nema mér. Enda lét ég vélina ekki ganga nema 3-5 mín, og þá taka upp stimpla og blása út smurgöng, sem reyndust öll opin, en aftur á móti voru allir hringir á stimplunum fastir. Vélsm. Magni lánaði okkur „klukku" til að mæla slit á mótornum, og nokkuð hróðugur gat ég sýnt ungum nemendum vél, sem orðin var of mikið slitin.

Gömlu Guldner-vélinni bjargað á síðustu stundu.

Vélsm. Völundur kom nú inn í bækur okkar í fyrsta, en ekki síðasta sinn. Þeir buðu okkur að þrýstiprófa strokklokin, og strákarnir sáu það og urðu reynslunni ríkari. Mig minnir að þeir hafi jafnvel borið strokklokin á handbörum vestur í Völund.
Meðan slagurinn við gömlu Alfa-ryðhrúguna stóð yfir, var líka hugsað um Buda-Lanova vélina, fjórgengis ameríska vél, hraðgenga. Hún var 6-syl, með sambyggðri CAV-eldsneytisdælu. Byggð fyrir rafmagnsgangsetningu, eins og bílmótor. Fyrir löngu síðan var allt sem viðkom gangsetningu vélarinnar horfið, en fyrirrennari minn og góður kollegi hafði „mixað" maskínuna svo, að 220 volta, einfasa rafmótor kom í stað rafgeymis. Stjörnurofi kom því í stað venjulegra hluta á bílamótor. Þetta varð ég allt að útskýra fyrir nemendunum, og hygg ég að þeir hafa lært gott af.
Á þessari vél var aftur á móti mjög auðvelt að breyta olíutímastillingu, og var það óspart notað.
Eins og gefur að skilja, var ég mjög reynslulítill í kennsluefnum á þessum árum, og lítillegar leiðbeiningar fékk ég með mér, og svo reyndi ég stundum á kvöldin eftir að ég kom til Vestmannaeyja, að sannreyna ýmis afbrigði sem ég, kennslunar vegna, hafði áhuga fyrir. Ég reyndi að finna frávik frá eðlilegum gangi véla, og var stundum á kvöldin við þessháttar tilraunir í vélasalnum. Ég var, sem sagt að reyna að framkalla bilanir í vélum, sem hægt var að nota sem kennsluefni.
Fljótlega sá ég að nemendur mínir vissu þetta, og fóru að njósna um mig á kvöldin. Aldrei gerði ég þó neinar varúðarráðstafanir, heldur lét það spyrjast að ég hefði séð fölt andlit á glugga.
Þegar ég hafði orð á þessu, skorti ekki svör hjá mínum mönnum. Þeir sögðu mér að í Ve. væru dulræn fyrirbrigði næstum sjálfsagðir og daglegir hlutir. Og í kjölfarið fylgdu drauga- og atburðasögur, sem ég þekkti flestallar, en þó nokkrar voru beint upp úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Svona sögum hafði ég gaman af, og eyddi oft dýrmætum tíma til að hlýða á þær.
Ég reykti stundum vindla um þetta leyti, (lærði það af dönskum hérna um árið), og á einhvern dularfullan hátt fóru strákarnir að taka þennan ósið upp eftir mér. Og svo kom að varla liðu 20 mín. milli þess að einhver þeirra tækji upp vindlaöskju, og þá var alltaf sest niður og kveikt í. Það liðu nokkrir dagar þangað til ég „fattaði þetta". Og þá samdi ég „falsbréf” þess efnis, að ekki skyldi reykt í vélarrúmi. Raunar var þetta ekki að öllu leyti falsað, því Bátábyrgðarfélagið, hafði 30 árum áður samþykkt næstum einróma að ekki skyldi reykt í vélarrúmum.
Eftir þetta ákvað ég af eigin ílöngun og náttúru hvenær úr skyldi ganga og kveikja í eitrinu. Ekki lét ég þó frá mér fara neinar skrifaðar reglur um slíkt, en fljótlega komst sú skipan á, að ég einn skyldi ráða reykingatímum. Þó kom það oft fyrir, að ef of langt leið milli reykingatíma, að mér barst indælis vindlalykt og liðu þá aldrei margar mínútur þar til ég kunngerði „smoke time".
Yfirleitt var aldrei á þetta minnst, og ég varð var við að hljóðlega var slökkt í sígarettu eða vindli hjá þeim sem óþolimóðir voru. Og í lokahófinu minntist einn nemendanna á þetta, í mjög skemmtilegri ræðu sem hann hélt.
Eins og Ársæll hafði lofað var allt til reiðu varðandi kennsluna. Bóklega kennslan fór fram í matsal Útgerðarfyrirtækis Ársæls, og er raunar ein af bestu kennslustofum sem ég minnist. Etv. er það líka af því að nemendurnir voru góðir. Síðar hef ég etv. haft jafngóða eða betri hópa, en þessir voru þeir fyrstu sem á mínum snærum voru eingöngu, svo verið getur að minningin um þá sé mér kærari en um marga aðra og góða hópa.
Ársæll var, eins og fyrr er sagt, umboðsmaður Fiskifélagsins í Ve. Ég varð þess fljótt var, að hann lét sér mjög annt um námskeiðshaldið allt, og fátt var það sem hann ekki gat gert til að greiða úr vandræðum okkar, og þá ekki síður synir hans, sem ég líka minnist með ánægju. Ég heyrði það sagt um Ársæl, að þegar mótornámskeið var á döfinni, hafi hann jafnan tilkynnt Fiskifélaginu, að nemendafjöldi væri nægilegur, (lágmark 12 að mig minnir) þótt umsókni næðu þeirri tölu hvergi nærri. En þegar nálgaðist námskeiðsbyrjun, fór hann á stúfana og hitti að máli stráka, sem honum fannst líklegir, og sagði við þá sem svo:„Ég er búinn að gera ráð fyrir þér á mótornámskeiðið". Og ef strákarnir voru með eitthvað múður, hafði hann ótal rök fram að færa, sem oftast enduðu með því að viðkomandi var sestur á skólabekkinn áður en hann vissi af. Kannski er þarna komin ein af mörgum ástæðum fyrir því, að mótoristarnir í Vestmannaeyjum hafa þótt standa vel fyrir sínu.
Fleiri ágætismönnum kynntist ég í Eyjum, og það svo of langt yrði að telja. En ekki get ég stillt mig um að minnast tveggja.
Helgi Ben. var mér alltaf góður haukur í horni. Í húsum sínum átti hann líka ýmsa hluti í sambandi við vélar, og mér komu í góðar þarfir, og aldrei man ég eftir að hann rukkaði mig um borgun eða önnur skil, geri þó ráð fyrir að ég hafi verið sæmilega heiðarlegur í þeim efnum.
Sighvati Bjarnasyni kynntist ég samt best allra þessara manna, en þó seinna en hinum, en þar átti ég líka traustum vini og ráðgjafa að mæta, þegar fram liðu stundir.
Og í raun og veru endaði þetta námskeið vel, þótt mér þætti í byrjun margir hlutir vafasamir. Aldrei var t.d. felld niður kennsla í vélarsalnum, þótt upphitun væri með lélegasta móti, og fyrir kom að hitastig þar mældist -6 gr. að morgni, þegar hefja átti kennslu. Það var útaf fyrir sig merkileg reynsla, og við lærðum allir af því góða lexíu, vélar voru daglega „gerðar frostklárar" og umræður um lofthita í sambandi við þjöppunarhitastig fengu svolítið nánari merkingu en sjá má í kennslubókum. Hjálpartæki við gangsetningu voru rædd og prófuð, smurolíuþykkt athuguð við mismunandi hitastig.
Og í síðustu kennslustund okkar sagði ég strákunum að ég þyrfti að bregða mér frá eins og í klukkutíma, og þeir mættu á meðan útbúa eins margar „bilanir" og þeir vildu á Alpha-mótornum, sem mér yrði síðan ætlað að finna. Þeir svikust ekki um það, drengirnir. Mig minnir að níu galla fyndi ég strax, en sá tíundi vafðist fyrir mér, og auðvitað sá einfaldasti. Vélin fór nefnilega ekki í gang, af því þeir höfðu þurrkað út og fært á heppilegan stað krítarstrikið á svinghjólinu, sem við höfðum allan veturinn notað fyrir startmerki!
Prófið stóðust síðan allir með mestu prýði, og með þessum línum sendi ég bestu kveðjur til þeirra allra, og þá um leið allra þeirra Vestmannaeyinga, lífs og liðinna, sem gerðu mér 5 vetra dvöl þar hina ánægjulegustu.

Mótornámskeið Fiskifélags Íslands