Ritverk Árna Árnasonar/Skúli Theódórsson

From Heimaslóð
(Redirected from Skúli Theódórsson)
Jump to navigation Jump to search
Skúli Theódórsson.

Skúli Theódórsson trésmiður fæddist 24. september 1925 og lést 7. janúar 2004.
Foreldrar hans voru Theódór Árnason vélsmiður, f. 10. apríl 1897, d. 6. ágúst 1972 og kona hans Þuríður Skúladóttir húsfreyja, f. 17. nóvember 1897, d. 28. mars 1979.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Skúli er ókvæntur (nóvember 1954).
Hann er hár maður vexti, fremur grannur, beinvaxinn og liðlega, langleitur í andliti og skarpleitur, ljós yfirlitum, en skolhærður. Skúli er dulur í skapi og fáskiptinn, en í sínum hóp léttur vel og kátur. Hann er mjög listgefinn, t.d. teiknari ágætur og smiður góður, sem er hans fasta iðja.
Skúli er afbragðs fjallamaður, göngu- og sigamaður, slyngur lundaveiðimaður í stöðugri framför, að sögn viðlegufélaga hans í Suðurey. Hann hefir víða um úteyjarnar farið og getið sér ágætan orðstír fyrir mikla fjallamennsku. Hann hefir sýnt bjargsig í Fiskhellanefi og þykir fagurlega fara í bandi. Má hiklaust telja Skúla til fræknustu bjargmanna Eyjanna um þessar mundir -1954-1957.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit

Skúli Theódórsson.
Skemmtiatriði úr Lundahófi.

Þá leyfum vér oss að afhjúpa mynd af lundakóngi Suðureyjar. Hann er sá eini af Suðureyingum, sem heldur upp á meydóminn (þ.e. ógiftur).
Hann er einfaldur, hinir orðnir tvöfaldir. Hann veiðir mest á svonefndum Drottningarstöðum. Þar skaut Gústi fyrstu drottningu sína.
Þar sitja menn svo tæpt, að það verður að ,,ræta” þá sjálfa, enda veiða þar engir nema hann og Suðureyjarprinsinn. Hann er svo frár í fjöllum vegna þess að hann er alltaf með sjálfum sér, en ekki öðrum.
Hinir miklu fjallagarpar Álseyjar treysta engum móti honum, nema fjallkóngi sínum, Ingimundi Bernharðssyni.
Bezt líkar honum, þegar verður, að kroppa á blánefjum niðrí fuglabyggð eða þegar þeir Siggi á Sælundi reka bolta niðrí bergi á svo örmjóum og lágum syllum, að þeir geta ekki pissað nema hjálpa hvor öðrum við það, sem ekki má nefna. Þá kastar hann ekki hendinni á móti að fá sér pípu hérna í kofa, sérdeilis ef kveikt hefur verið á prímusnum og brúsinn verið settur upp.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.
Skúli hefur heistrengt að lifa í hundrað ár eða liggja dauður ella.
Trúum vér hann standi við það heit, enda verkvaninn undir Gvendi Bö og lærisveini hans, Steina í Blátindi, en þeir hafa báðir séð í tvo heimana.
Einkunnarorð þessarar myndar eru:
Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, heldur líka á Suðureyjarvatni.
Aths./ Þetta flutt er afhjúpuð var stór teiknimynd af Skúla á Allsherjarlundahófi.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.