Víglundur Þór Þorsteinsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Víglundur Þór Þorsteinsson

Ætt og uppruni

Víglundur Þór Þorsteinsson læknir fæddist að Brekku 24. júlí 1934 og ólst upp í Eyjum.
Foreldrar hans voru Ingigerður Jóhannsdóttir húsfreyja og Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri og sparisjóðsstjóri m.m.

Æviferill

Á unglings- og menntaskólaárum stundaði Víglundur Þór á sumrum verkamannavinnu, síldveiðar og landbúnaðarstörf.
Hann lauk landsprófi við Gagnfræðaskólann vorið 1950, stúdentsprófi við Menntaskólann á Laugarvatni 1954. Íþróttakennaraprófi lauk hann við Íþróttakennaraskóla Íslands 1955.
Kennari var hann við Gagnfræðaskólann 1955-1956 og síðan þjálfari og íþróttakennari á sumrum 1955-1958.

Læknaprófi lauk hann í febr. 1964, bandaríska útlendingaprófinu í læknisfræði í marz 1964. Kandídatsár vann hann við sjúkrahús Vestmannaeyja (febr. 1964-júlí 1964), þar með staðgengill héraðslæknis, - og á sjúkrahúsum í Reykjavík. Var við sérfæðinám og störf í Bandaríkjunum. Bandaríska sérfræðingaprófinu lauk hann og mastersprófi (MSc) frá University of Minnesota.
Almennt lækningaleyfi á Íslandi hlaut hann 24. september 1965 og sérfræðingaleyfi 8. marz 1971.
Víglundur starfaði við Jósefsspítala í Hafnarfirði og um skeið við Landakotsspítala. Hann rak jafnframt læknastofu í Læknastöðinni í Glæsibæ í Rvk. og skurðlækningar kvenna í Handlæknastöðinni þar.
Hann sat í stjórn Félags íslenzkra kvensjúkdómalækna 1981-1985, í stjórn Námssjóðs lækna 1981-1986, í samninganefnd sérfræðinga innan Læknafélags Reykjavíkur 1985-1998. Einn af stofnendum Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ var hann 1983 og formaður stjórnar frá stofnun til 1989 og formaður stjórnar Læknastöðvarinnar í Glæsibæ 1985-1998.

Á efri árum hefur hann m.a. fengist við að innfæra á Heimaslóð.is ýmsan fróðleik um Eyjar og Eyjafólk, m.a. Blik, Sögu Vestmannaeyja, Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum, ritverk Árna Árnasonar símritara og hefur ritað allmargar æviskrár Eyjafólks á slóðina.

Maki

(15. janúar 1958): Fríða Jóhanna Daníelsdóttir, kennari, húsfreyja. Foreldrar hennar voru: Karítas Ásgeirsdóttir verkakona og húsfreyja á Ísafirði og í Hafnarfirði, f. á Eiði í Hestfirði 19. september 1906, d. 12. febrúar 1996 í Hafnarfirði, og Daníel Hörðdal Jóhannesson málarameistari á Ísafirði, í Reykjavík og Hafnarfirði, f. 16. janúar 1900 á Ísafirði, d. 17. ágúst 1996 í Hafnarfirði.

Börn

  • 1) Sigrún lífeindafræðingur, MBA rekstrarfræðingur, verkefnastjóri, f. 6. nóvember 1960 í Reykjavík.
  • 2) Þorsteinn Ingi vélaverkfræðingur, MSc iðnaðarverkfræðingur, f. 10. júní 1962 í Reykjavík, framkvæmdastjóri í Reykjavík.
  • 3) Víglundur Þór vélaverkfræðingur, MSc í flutningum og MSc í viðskiptum, f. 15. febrúar 1966 í Baltimore í Bandaríkjunum, sérfræðingur í Reykjavík.
  • 4) Ásgerður Edda viðskiptafræðingur, M.Acc. í reikningshaldi og endurskoðun, f. 8. október 1971 í Rochester í Minnesota í Bandaríkjunum, starfar í Reykjavík.

Heimildir

  • Læknatal á Íslandi. Reykjavík: 2000.