Ritverk Árna Árnasonar/Snorri Þórðarson (Steini)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Snorri Þórðarson.

Kynning

Snorri Þórðarson í Steini, útvegsbóndi, fæddist 16. mars 1881 í Steig í Mýrdal og lést 16. desember 1924, drukknaði við Eiðið á leið út í e.s. Gullfoss.
Faðir hans var Þórður bóndi í Steig, f. 15. mars 1850 á Brekkum í Mýrdal, d. 29. júlí 1882 í Steig, Þórðarson bónda á Brekkum, f. 6. janúar 1798 á Brekkum, d. 26. maí 1862 þar, Ólafssonar bónda á Brekkum, f. 1759, d. 19. febrúar 1823 „í útveri suður í Leiru“, Guðmundssonar, og barnsmóður Ólafs, Ingveldar vinnukonu, f. 1763 á Brekkum, Árnadóttur.
Móðir Þórðar í Steig og síðari kona Þórðar Ólafssonar var Ragnhildur húsfreyja, f. 1809 í Holti í Álftaveri, d. 26. apríl 1892 á Brekkum, Gísladóttir bónda í Holti, f. 1768, d. 22. júní 1811, Jónssonar, og konu Gísla, Ingibjargar húsfreyju, f. 1766, d. 23. júní 1811, Vigfúsdóttur.

Móðir Snorra í Steini og kona Þórðar í Steig var Þuríður húsfreyja, f. 25. júlí 1851, d. 11. ágúst 1944 hjá Þórunni dóttur sinni á Setbergi í Eyjum, Ólafsdóttir bónda, síðast í Steig, f. 1812 á Flögu í Skaftártungu, d. 20. mars 1871, drukknaði í Dyrhólahöfn, Þorlákssonar bónda á Ytri-Sólheimum, f. 17. febrúar 1776 á Herjólfsstöðum í Álftaveri, d. 23. september 1839 á Ljótarstöðum í Skaftártungu, Jónssonar, og konu Þorláks, Elínar húsfreyju, f. 1771 í Ytri-Ásum í Skaftártungu, d. 21. september 1844, Loftsdóttur.
Móðir Þuríðar Ólafsdóttur og kona Ólafs Þorlákssonar var Halldóra húsfreyja, f. 15. september 1825 á Búlandi í Skaftártungu, d. 12. október 1917 á Hnausum í Meðallandi, Jónsdóttir bónda á Búlandi, f. 1787 á Búlandi, d. 13. mars 1875, Björnssonar, og konu Jóns Björnssonar, Oddnýjar húsfreyju, f. 2. september 1791 á Þverá á Síðu, d. 6. ágúst 1843 á Búlandi, Runólfsdóttur.

Snorri var 8 ára niðursetningur á Loftsölum í Mýrdal 1890. Hann fluttist til Eyja árið 1899.
1901 var hann vinnumaður í Dölum. Við manntal 1910 var hann „Fuglari“ og leigjandi á Hlíðarenda.
Við manntal 1920 var hann í Steini, kvæntur bátaútgerðarmaður með Þorgerði.

Systkini Snorra í Eyjum voru:
1. Guðmundur Þórðarson vélstjóri, útgerðarmaður á Akri, f. 10. maí 1878, drukknaði við Eiðið 16. desember 1924.
2. Þórunn Þórðardóttir húsfreyja á Vesturvegi 23, (Setbergi), f. 9. desember 1880, d. 19. maí 1980, kona Unnsteins Sigurðssonar skipasmiðs.

Kona Snorra Þórðarsonar í Steini var Þorgerður Jónsdóttir húsfreyja í Steini, f. 15. nóvember 1880 í Vestra-Fíflholti í Landeyjum, d. 19. júní 1939.
Börn Snorra og Þorgerðar í Steini:
1. Þuríður, f. 3. maí 1913, d. 20. september 2003.
2. Aðalheiður Margrét, f. 29. október 1914.
3. Aðalsteinn Rútur, f. 26. apríl 1918, d. 18. ágúst 2001.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Snorri var lágur að vexti, tæplega meðalmaður, en vel þrekinn og allsterklegur á velli, var áður léttleikamaður mikill, snar og þéttur í átökum og fylginn sér hvívetna. Hann var dagfarsgóður maður, stilltur og gætinn, frekar til baka gagnvart almenningi og virkaði daufur í skapgerð og ómannblendinn, en í félagsskap var hann skemmtilegur og viðræðugóður, en orðvar.
Snorri var allsleipur veiðimaður, en veiddi þó ávallt upp á hægri hönd, gat ekki veitt upp á hina. Sat hann því oft öfugur og virkaði það einkennilega til að sjá. Staði bjó hann nokkra fyrir sig, liggur þar háfurinn beint niður frá honum. Hann var frakkur í fjöllum og alls óhræddur, en fór þó allvarlega þó hratt færi.
Hann var töluvert við veiðar alls konar og þótti góður veiðimaður. Hin síðustu árin veiddi hann í Heimakletti, en var þó að fara í úteyjar. Hann var annars sjómaður og stundaði þess utan hvers konar landvinnu og t.d. mikið við skipaafgreiðslurnar og lést við þau störf við góðan orðstír.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.


Myndir