Veiðarfæragerð Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Veiðarfæragerð Vestmannaeyja var eitt af elstu starfandi fyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Það var stofnað árið 1939 af Magnúsi Magnússyni og Þórði Gíslasyni og gekk fyrst undir nafninu Netagerð Magnúsar og Þórðar.

Starfsemin

Strax í upphafi var nóg að gera og mjög fljótlega voru þeir Magnús og Þórður komnir með mannskap í vinnu. Fjöldi manns vann hjá fyrirtækinu, bæði karlar og konur. Ákveðið var að synir þeirra yrðu meðeigendur og árið 1948 var stofnað hlutafélag um reksturinn og nafninu breytt í Veiðarfæragerð Vestmannaeyja.

Upprunalega var Netagerðin til húsa á Strandvegi, þar sem Eyjabúð er núna, en fluttist síðar á efri hæðina að Heiðarveg 3, þar sem Prófasturinn er nú til húsa. Seinna fluttist fyrirtækið á Strandveg 77 og svo á Skildingaveg 8.

Veiðarfæragerðin við Skildingaveg hefur um árabil verið aðsetur þeirra er sjá um þrettándagleðina, fyrst Knattspyrnufélagsins Týs og hin seinni ár ÍBV. Guðjón Magnússon heitinn, sonur Magnúsar sem stofnaði fyrirtækið, var ein helsta driffjöðrin í þeim hátíðahöldum og hannaði og útbjó marga þá búninga sem þar koma við sögu.