Ritverk Árna Árnasonar/Vilhjálmur Jónsson (Dölum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Vilhjálmur Jónsson.

Kynning.

Vilhjálmur Jónsson rafveitustjóri frá Dölum fæddist 23. janúar 1893 og lést 15. júlí 1971.
Foreldrar hans voru Jón Gunnsteinsson bóndi, útvegsmaður og söðlasmiður í Dölum, f. 10. desember 1844, d. 19. júlí 1924, og kona hans Þorgerður Hjálmarsdóttir húsfreyja, f. 4. júní 1855 að Ketilsstöðum Mýrdal, d. 2. mars 1939.

Kona Vilhjálms, (11. apríl 1925), var Nikólína Jónsdóttir húsfreyja og leiklistarkona, f. 15. júlí 1900 í Holti í Mjóafirði eystra, d. 15. ágúst 1958.
Börn þeirra:
1. Sigríður Vilhjálmsdóttir húsfreyja, f. 7. apríl 1927, d. 30. desember 2016.
2. Ólafur Kristján Vilhjálmsson rafvirki, f. 18. mars 1928, d. 4. mars 2009.
3. Guðrún Þorgerður Vilhjálmsdóttir snyrtifræðingur, f. 21. janúar 1933, d. 19. september 2017.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Vilhjálmur er tæplega meðalmaður á hæð, en nokkuð þrekinn og feitlaginn. Hann er ræðinn og skemmtilegur, góður heim að sækja og veitull vel. Hann er ljósleitur yfirlitum með blágrá augu.
Hann hefir verið mikið til eggja og fuglatekju, bæði í úteyjum og á Heimalandi og hefur þótt mjög fylginn sér og liðtækur í hvívetna. Ekki hefir hann verið kraftamaður, en seigur og úthaldsgóður. Við lundaveiðar hefir Vilhjálmur verið töluvert, og allgóður veiðimaður fyrr meir, en dróst aftur úr vegna atvinnuhátta sinna.
Hann hefir verið á rafstöðinni frá byrjun 1915 og rafstöðvarstjóri, er Sveinbjörn bróðir hans lést 1930, þar til heilsan bilaði og hann varð eftirlitsmaður við stöðina og er það ennþá. Vellátinn maður og lipur í framkomu.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.