Vestmannaeyjabær
Í upphafi landnáms komu Vestmanneyjar fyrst við sögu, en þá flýðu þrælar Hjörleifs, fóstbróðurs Ingólfs Arnarsonar, til Eyja eftir að hafa drepið Hjörleif og fylgdarlið hans. Þá segir í Landnámu að Herjólfur Bárðarson hafi fyrstur manna numið land í Vestmannaeyjum um 900.
Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason byggðu kirkju á Hörgaeyri, sunnan við Heimaklett, í kringum árið 1000 og var það fyrsta kirkja sem byggð var á Íslandi.
Vestmannaeyjar voru í bændaeign fram á 12. öld er þær komust í eigu Skálholtsstóls. Í byrjun 15. aldar verða þær síðan eign Danakonungs.
Árið 1609 urðu Vestmannaeyjar sérstök sýsla og árið 1874 urðu þær ríkiseign.
Árið 1627 réðust sjóræningjar á land í Eyjum og rændu 242 og drápu 36 íbúa. Í Vestmannaeyjum bjuggu um 500 manns á þessum tíma, þannig að aðeins 200 manns sluppu undan árásinni. Af þeim sem seldir voru til þrælkunar í Algeirsborg komu aðeins 22 aftur til Eyja.
Í jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 eru íbúar í Vestmannaeyjum 318 talsins. Á 18. öld fækkaði heldur íbúum og um aldamótin 1800 bjuggu í Eyjum aðeins 173.
Meðan konungsútgerð og útgerð einokunarkaupmanna var við lýði voru Eyjamenn skyldaðir til að róa á dönskum skipum. Þegar einokuninni lauk áttu eyjaskeggjar því engin vertíðarskip og þau skip sem voru fyrir í Vestmannaeyjum voru seld. Lítið var því um útgerð á 19. öldinni, en gerðar voru tilraunir til þilskipaútgerðar á seinni hluta aldarinnar. Þær tilraunir gengu hins vegar ekki vel.

Vélbátaútgerð hófst upp úr 1906 og fjölgaði vélbátum ört á næstu árum á eftir. Árið 1912 voru 58 vélbátar sem réru frá Vestmannaeyjum sem þá var orðin stærsta verstöð á landinu. Óhætt er að segja að fiskveiðar og fiskvinnsla ásamt þjónustu við sjávarútveginn hafi upp frá því verið burðarás atvinnulífs í Vestmannaeyjum.
Árið 1919 fengu Vestmannaeyjar kaupstaðarréttindi og kusu Eyjamenn þá sína fyrstu bæjarstjórn.
Vestmannaeyjabær starfrækir ýmsar deildir og stofnannir:
- Félags- og fjölskyldusvið Vestmannaeyjabæjar
- Umhverfis- og framkvæmdasvið Vestmannaeyjabæjar
- Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar
- Stjórnsýslu- og fjármálasvið Vestmannaeyjabæjar
- Þjónustumiðstöð Vestmannaeyja — Sér um viðhald og aðra þjónustu fyrir bæinn.
- Fiska- og Náttúrugripasafn Vestmannaeyja
- Bókasafn Vestmannaeyja
- Byggðasafn Vestmannaeyja
- Hraunbúðir — Dvalarheimili aldraðra
- Leikfangasafn Vestmannaeyja
- Kertaverksmiðjan Heimaey — Verndaður vinnustaður.
- Félagsheimili Vestmannaeyja
- Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja
- Náttúrustofa Suðurlands
- Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja
- Athvarfið
- Sambýlið
- Skammtímavistunin Búhamri 17
- Slökkvilið Vestmannaeyja
- Malbikunarstöð Vestmannaeyja
- Sorpeyðingarstöð Vestmannaeyja
- Nýsköpunarstofa Vestmannaeyja
- Vinnuskólinn
Íbúafjöldi í Vestmannaeyjum
| Ár: | Fjöldi íbúa: |
| 1900 | um 500 |
| 1925 | 3.184 |
| 1950 | 3.726 |
| 1960 | 4.675 |
| 1965 | 5.023 |
| 1970 | 5.179 |
| 1971 | 5.231 |
| 1972 | 5.179 |
| 1973 | 4.892 |
| 1974 | 4.369 |
| 1975 | 4.421 |
| 1976 | 4.568 |
| 1978 | 4.634 |
| 1980 | 4.727 |
| 1982 | 4.657 |
| 1984 | 4.789 |
| 1986 | 4.785 |
| 1988 | 4.737 |
| 1990 | 4.913 |
| 1991 | 4.923 |
| 1992 | 4.867 |
| 1993 | 4.883 |
| 1994 | 4.888 |
| 1995 | 4.804 |
| 1996 | 4.749 |
| 1997 | 4.640 |
| 1998 | 4.594 |