Benedikt Hannesson (Kastala)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Benedikt Hannesson sjómaður í Kastala fæddist 13. júli 1818 að Hellishólum í Fljótshlíð og lést í september 1860 í Omaha í Nebraska í Bandaríkjunum.
Faðir hans var Hannes bóndi á Hellishólum, f. 27. febr. 1788 í Auraseli í Fljótshlíð, d. 22. febr. 1863 í Vestra-Fíflholti, Páls Nikulássonar frá Hlíð u. Eyjafjöllum, Jónssonar og konu Páls, Guðrúnar húsmóður, f. 1748, Þorsteinsdóttur, Þorvaldssonar.

Móðir Benedikts og kona Hannesar var Björg húsfreyja, f. 17. ágúst 1795 að Króki í Garði í Gull., d. 27. des. 1874 í Fljótshlíð, Andrésar, f. 1757 að Útskálum, d. 9. okt. 1815 að Króki, Egilssonar og konu Andrésar, Valgerðar húsfreyju, f. 1757 í Fuglavík í Hvalsnessókn, Gull., d. 16. ágúst 1820 að Króki, Þorgeirsdóttur, Markússonar.

Benedikt var tökupiltur í Auraseli í Fljótshlíð 1835, vinnumaður þar 1840.
Hann var kominn til Eyja 1845, var þá ókvæntur sjómaður í Götu. Þar var einnig Ragnhildur, síðar kona hans og barn þeirra María, nýfædd.
Þau bjuggu síðar í Hólshúsi og voru í húsmennsku í Kastala (Gamla-Kastala).
Þau Benedikt voru þau fyrstu, sem skírð voru til mormónatrúar á Íslandi og það veitti Þórarinn Hafliðason. Þau voru skírð í Beinasundi, líklega sjávarlóni niðri í Sandi.
Þau fóru til Kaupmannahafnar 1852, eignuðust þar barn, töfðust þar, líklega vegna barneignar Ragnhildar, og fóru síðar þaðan til Utah.
Benedikt lézt 1860 á leiðinni, í fylkinu Nebraska. Ragnhildur ól stúlkubarn 1. júlí 1859 í Omaha í Nebraska og var því gefið nafnið María. Það barn varð langlíft í Utah og talin merk kona. Mary Hanna Sara Hanson Sherwood hét hún þar í borginni Levan. Hún kom fram við hátíðahöld í Spanish Fork 1. ágúst 1938, þegar minnisvarði var afhjúpaður um íslenzku landnemana og var þá eini Íslendingurinn, sem var lifandi af þeim 16, sem áttu nöfn sín skráð á minnuisvarðann. Nafnið Hanson var nafn, sem Benedikt hafði líklega tekið upp í Danmörku.

I. Kona Benedikts, (11. nóv. 1846), var Ragnhildur Stefánsdóttir, f. 24. okt. 1817, d. 15. apríl 1874 í Salt Lake City í Utah.
Börn þeirra voru:
1. María Kristín Benediktsdóttir, f. 7. ágúst 1845 í Götu, d. 25. júlí 1851 „af Barnaveikleika“.
2. Benedikt Benediktsson, f. 25. sept. 1847 í Hólshúsi, dó úr barnaveiki 25. júlí 1851.
3. Jóhanna Benediktsdóttir, f. 31. okt. 1849 í Hólshúsi, d. 13. nóv. 1849 „af Barnaveikin“.
4. Andvana fætt sveinbarn í Kastala 26. marz 1852.
5. Ephriam Christen Benedikt Benediktsson Hanson, f. 6. nóv. 1853 í Kaupmannahöfn, d. 21. sept. 1878.
6. María Benediktsdóttir Hanson, f. 1. júlí 1859 í Omaha í Nebraska, Bandaríkjunum, dó undir nafninu Mary Hanna Sara Hanson Sherwood 23. nóv. 1945 í Salt Lake City, Utah.. Maður hennar, (16. nóv. 1879), var William Sherwood, f. 12. jan. 1852, d. 21. marz 1923. Þau eignuðust 10 börn.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.