Blik 1952/Þáttur skáta

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1952ctr
3.-13. ágúst 19517. alheimsmót skáta


7. alheimsmót skáta, sem háð var í Austurríki s.l. sumar, sóttu tveir Vestmannaeyskir skátar, þeir Hafsteinn Ágústsson, deildarforingi og Óskar Þór Sigurðsson, félagsforingi Skátafélagsins Faxa.
Skátaþáttur Bliks er að þessu sinni helgaður Alheimsmótinu, Jamboree. Óskar Þór segir frá leið þeirri er farin var og frá degi úr lífi skátanna á Jamboree.
Vegna takmarkaðs rúms í blaðinu verður þetta aðeins lauslegt yfirlit.
Ferðalagið hófst miðvikudagsmorguninn 18. júlí, er við félagarnir tókum okkur far með Helgafelli Loftleiða til Reykjavíkur.
Frá Reykjavík fórum við síðan 21. júlí, með Gullfossi, áleiðis til Kaupmannahafnar. Veðurblíða var einstök á hafinu og sóttist ferðin því vel. Komið var við í Leith, og stanzað í einn sólarhring.
Í Kaupmannahöfn dvöldum við frá 26. júlí til 31. júlí. Þann dag fórum við með járnbrautarlest áleiðis til Austurrísku borgarinnar Salzburg. Skamma viðdvöl höfðum við í þýzku stórborgunum Hamburg og München, auk þess var stanzað í tugum smærri borga, skipt um vagna og eldsneytið aukið. Farþegar fóru og komu. Svefnlausir og matarlitlir vorum við þá tvo sólarhringa, sem ferðin til Salzburg tók. Til Bad Ischl bæjar um 50 km. frá Salzburg komum við loks 2. ágúst. Þar í grenndinni var Jamboree háð dagana 3.-13. ágúst.
Haldið var heim á leið þann 13. ágúst. Fyrsti áfanginn var Tyrólska borgin Innsbruck. Næsti svissneska borgin Zurich, undurfögur og hreinleg borg. Þessi alpaför var farin á stórum nýtízku farþegavagni. Í Zürich var lestin um Basel til Parísar tekin og listaborgin gist frá 17. til 21. ágúst. Síðasta stórborgin sem við dvöldum í var London. Þar vorum við í 5 daga. Þann 27. ágúst stigum við á skipsfjöl í Leith og skilaði Gullfoss okkur heilum heim til Íslands. Til Vestmannaeyja komum við svo aftur þann 5. september, eða réttum 50 sólarhringum eftir að við lögðum upp.

ctr
Ferðafélagarnir.

DAGBÓKARBROT:

Merki mótsins,
Gyðinga-
harpan.


DAGUR
Á
JAMBOREE

Við vöknuðum við suðið í engisprettunum. Það er engu líkara en margar klukkur hringi í órafjarlægð. Niður lækjarins blandast klukknahljómnum, og okkur finnst náttúran tala til okkar, bjóða okkur velkomin hingað suður í fjalla- og vatnaparadísina austurrísku. Við rísum upp og virðum fyrir okkur hina frjósömu fögru sveit.
Hvert sem litið er, gnæfa fjöllin himinhá, tignarleg og hrikaleg, klædd greniskógi upp í efstu eggjar. Dalurinn er þröngur. Milli hæðadraganna liðast ár og lækir og tengja saman hin miklu vötn. Fjallahringurinn og ísaldarleifarnar inni á öræfunum speglast í safírbláum vötnunum og mynda heilsteypta mynd, sem þúsundir augna hrífast af.

Aðalhlið 7. Jamboree.
Austurrísku skátarnir afhenda þjóðunum líkan af mótsmerkinu, - gyðingahörpunni.

ctr

„NIEDERÖSTERREICH“ – tjaldbúðarhverfið.
– Aðeins 1/10 allrar tjaldbúðarinnar.

Á þessum fegursta stað Austurríkis, í skauti fjallanna, er tjaldborgin stóra, sem skátarnir úr norðri og suðri, austri og vestri reistu.
Fyrstu geislar árdagssólarinnar breiða sig yfir tjaldborgina og slær gullnum bjarma á grenirjóðrin. Á fáum stöðum teygja ljósgulir reykir sig þráðbeint til himins. Mótsöngurinn: Brüder auf und hört die Melodie, ómar í fjarlægð. Líf er að færast yfir borgina. Þúsundir skáta vakna til raunveruleikans úr heimi draumanna.
Hitinn er ákaflega þægilegur svo árla dags. Flestir striplast um á stuttbuxum einum klæða og láta geisla morgunsólarinnar baka hörundið.
Morgunþvotturinn fer fram niður við lækinn. Það er hressandi að skvampa í köldu vatninu. Hörundsdökkir og hörundsljósir skátar hlaupa fram og aftur í læknum og kaffæra hver annan. Mörgum verður starsýnt á kolsvartan Afríkunegra, er þvær sér vandlega. Öllum kemur saman um að hann hafi ekkert lýstst við þvottinn.
Morgunverðurinn er eldaður á hlóðum, gerðum úr viðarbútum og leir. Eldsneytið er einungis viður. Maturinn er snæddur við haglega gert borð. Segldúk er tjaldað yfir hlóðarstæðið, sömuleiðis borðið, til þess að menn skaðist ekki af hinum sterku sólargeislum.
Á mínútunni klukkan átta eru allir fánar mótsins dregnir að hún, með hátíðlegri viðhöfn. Íslenzka fánastöngin er á miðri íslenzku flötinni og er tjöldunum slegið upp í hálfhring umhverfis hana. Gegnt henni móti suðri er hliðið.

Hlið íslenzku skátanna á Jamboree.

Syndandi fiskar tákna auðlegð íslenzku fiskimiðanna. Netið, sem strengt er í hliðið, táknar aðalatvinnuveg Íslendinga, fiskveiðarnar.
Allir, nema kokkarnir tveir, mega nota tímann fram að hádegi til þess að litast um í tjaldbúðunum. Fyrsta verkefnið þennan morgun er að leita uppi engisprettu. Þessi nágranni hafði svæft okkur á kvöldin og vakið á morgnana, en enn hafði enginn séð hann. Loksins fannst hún. Allra skemmtilegasta kvikindi, að margra dómi. Þeir eru aftur færri, sem dást að moskitóunni, sem flýgur hér um allt. Hún flýgur á feikna krafti allt umhverfis þann, er raskar ró hennar og stingur þegar minnst varir. Önnur lítil fluga er og óvelkomin. Hún bítur og sýgur blóð. Oft kemur það fyrir að húðin hleypur upp eftir heimsókn hennar. Skordýralífið er mjög fjölbreytt, maurar, býflugur, og mörg önnur kvikindi, sem við höfum aldrei áður litið eru hér um allt.


Sól er nú farin að brenna húðina helzt til mikið. — Þar sem við erum óvanir sterkum sólargeislum og engin gola er til þess að kæla húðina, er tryggara að fara í skátaskyrturnar. Ógjarnan viljum við fá sólsting.

Íslenzku þátttakendurnir á mótinu.

Áður en við förum að litast um í nærliggjandi tjaldbúðum og verzlunarhverfunum, förum við upp í Coca Cola kofann og fáum okkur eina flösku og hlaupum síðan niður í læk og kælum okkur almennilega.
Á leiðinni í verzlunarhverfin komum við í tjaldbúðir, sem verða á vegi okkar. Fyrst stönzum við hjá austurrískum skátum og hlustum á söng þeirra. Það virðist vera í blóði þjóðarinnar hæfileikar til þess að flytja sönginn á ógleymanlegan hátt. Strákarnir, sem syngja fyrir okkur virðast í fyrstu vera ósköp venjulegir strákar, en eftir að við kynnumst söng þeirra, vaknar hjá okkur þrá til þess að hlusta lengur. Þeir fara svo undursamlega vel með söngvana sína.
Skátar frá Gullströndinni sýna okkur dansa. Leikið er undir á tvær trumbur og slaghörpu búna til úr viði á frumstæðasta hátt. Dans þeirra á að túlka stríðsdansa forfeðranna og finnst okkur við vera komnir til heimkynna svertingjanna. Strákofar skátanna, klæðnaður og vopn minna á sögur, sem sagðar hafa verið þaðan að sunnan og óaði okkur við að vera á meðal þeirra á meðan á dansinum stóð.

Troðningur mikill er í öllum verzlununum og verðum við að bíða lengi eftir afgreiðslu í kortabúðinni. Loks komumst við að og kaupum okkur kort til þess að senda heim. Við skrifum vinum og vandamönnum hvað hitinn sé óskaplegur og að okkur líði samt vel. Sama ösin er á pósthúsinu. Við verðum að bíða lengi eftir afgreiðslu þar. Á pósthúsinu fáum við Jamboree stimpilinn í vegabréfið okkar, svo við getum sýnt og sannað, þegar við komum heim, að við höfum verið á þessum stað. Póststúlkan brosir að sérvizku okkar og segir eitthvað sem við skiljum ekki. Líklega að þetta sé ekki svo vitlaust hjá okkur.
Við löbbum um og leitum að minjagripasölu. Það er allt fullt, eins og annarsstaðar. Við fáum okkur því ískaldan ís og hressum upp á sálina á meðan við bíðum eftir afgreiðslu. En það er betra að hafa hraðann á, því einhver segir, að hitinn sé yfir 40 gráður á Celsíus.
Við kaupum okkur myndabækur og lítil merki í minjagripasölunni, einnig Gyðingahörpu. Við reynum að leika lag á hana, en það tekst ekki, enda þótt við fáum lítinn austurrískan snáða til þess að kenna okkur. Hann leikur hvaða lag sem er, þótt lítill sé, og er gaman að hlusta á leik hans.
Ekki megum við gleyma matmálstímanum, því ella verðum við að kaupa okkur fæði á einhverri matsölunni hér í tjaldborginni. Við höldum því heimleiðis og komum í tæka tíð. Maturinn er austurrískt nautakjöt og kartöflur með glóaldingraut í eftirmat. Við leggjum okkur inn í tjald eftir matinn af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi er hitinn næsta óþolandi og því illt fyrir óvana Norðurlandabúa að vera í brennandi sólargeislunum og í öðru lagi erum við saddir, því maturinn bragðaðist vel. Einnig eru allir þreyttir eftir röltið um tjaldborgina. Íbúar Jamboree eru milli 15 og 20 þúsund skátar, eða 5—6 sinnum fleiri en allir Vestmannaeyingar. Borgin er ákaflega dreifð. Kemur þar fyrst til, að landið er að nokkru leyti skógi vaxið og svo að aðeins er tjaldað, þar sem tjaldstæði eru góð. Það er því langur gangur um alla borgina.
Við setjum á okkur skátahattana barðastóru og höldum aftur út í borgina. Aldrei fyrri höfum við fundið jafn vel hvað skátahatturinn er góður í sterkum sólarhita.

Lady Baden-Powell alheimsforingi kvenskáta
Gol. Wilson, framkvæmdastjóri
alþjóðabandalags skáta.

Niðri á aðalhátíðasvæðinu eru amerísku skátarnir með skemmtun. Þrjátíu manna lúðrasveit leikur fjöruga marsa. Stórar fylkingar skáta streyma inn á völlinn. Áhorfendur setjast í brekkurnar, í forsælu trjánna og horfa þaðan á skemmtiatriðin.
Flokkur skáta, klæddir eins og Indíánar stíga dans og reka upp öskur í takt við hljóðfallið. Kúrekar sýna listir sínar við geysi fögnuð áhorfenda. Áður en ameríska skemmtunin er úti, förum við á annað hátíðasvæði. Þar eru fyrir Svisslendingar og sýna íþróttir. Einnig er þar töframaður og leikur hann ótrúleg brögð.
Nýsjálendingar eru þarna skammt frá og sýna villimannadansa. Þeir eru klæddir í strápils settum dýrum perlum.
Eftir kaffi er tjaldbúðavakt okkar til kl. 5. Hlutverk okkar er fyrst og fremst það, að gæta tjaldbúðarinnar og að kynna fróðleiksfúsum gestum, er kynnu að heimsækja tjaldbúðina, Ísland. Við tökum fram allar þær myndabækur og kort að heiman, sem við höfum meðferðis.
Þessar tvær stundir eru fljótar að líða. Gestastraumur er mikill og hafa allir gaman af að hlusta á okkur segja frá Íslandi.
Undravert er, hvað fólkið veit mikið um land og þjóð, og það virðist dá Ísland.
Á aðalhátíðasvæðinu er fyrir austurrískur dansflokkur og dansar austurríska þjóðdansa. Dansarnir eru fagrir, léttir og leikandi og stígur fólkið þá af mikilli tilfinningu. Sérkennilegt er að sjá, er dansfólkið fléttar saman marglit bönd sem fest eru í staur á miðju dansgólfinu.
Nokkru neðar á flötinni heyrum við undurfagran söng. Söngurinn er raddaður og snerta skærar drengjaraddirnar söngelsk hjörtu okkar. Þar eru þýzkir skátar. Þetta er í fyrsta skipti, sem þýzkir skátar koma á Jamboree, en vonandi ekki það síðasta. Með þýzku skátunum eru nokkrir þýzk-rússneskir skátar og sýna þeir okkur rússneska þjóðdansa.
Við höfum að mestu leyti fundið allar þessar skemmtanir af tilviljun, en til þess að missa ekki af neinu lítum við í dagskrána. Fyrr um daginn voru ráðstefnur hinna ýmsu skáta, lækna, blaðamanna og frímerkjasafnara. Einnig eiga að vera varðeldar um alla borgina, stórir og smáir, er kvölda tekur. Kl. 8 1/2 verða tónleikar, Mozartshljómsveitarinnar í Salzburg. Þangað hyggjumst við fara.
Um dimmumótin syrtir að og nokkru seinna gerir óskaplegt þrumuveður. Regnið steypist niður og þykir okkur hressandi að fara út á sundskýlunni einni klæða og kæla okkur eftir heitan dag. Aðrir liggja í tjaldgættinni og horfa á eldingarnar uppi í sortanum. Það styttir upp jafnsnöggt og regnið skall á, en nú er ekki lengur bjart, á skammri stundu grúfir myrkrið allt.
Eftir að við höfum lokið snæðingi löbbum við niður á veitingastað og setjumst þar inn og hlustum á músikina. Við komum inn rétt í því er austurrísk stúlka hefur upp söng sinn. Hún leikur sjálf undir á harmoniku og jóðlar svo undurfagurlega, að við gleymum bæði stund og stað og hlustum hugfangnir á söng stúlkunnar. Við rönkum við okkur er stúlkan hættir söng sínum og munum þá eftir konsertinum.
Er við komum inn í Konserttjaldið er allt orðið yfirfullt. Skátarnir sitja á grasgólfinu og hlusta hljóðir á verk Mózarts. Hátölurum er komið fyrir um allt tjaldið svo við getum alveg notið tónlistarinnar hér úti í horni. Það er undravert hvað skátarnir eru rólegir í bekkjalausum konsertsalnum. Hvorki heyrist hósti né stuna frá þeim 3000 skátum er þarna sitja. Gleðibaugar birtast á ásjónu þeirra. Fagnaðarlátunum ætlar aldrei að linna og verður hljómsveitin, sem telur yfir 90 manns að leika aftur kafla úr verkunum.
Eftir konsertinn höldum við heimleiðis, ánægðir eftir æfintýri dagsins. Söngvar og hróp þúsundanna óma úr öllum áttum út í rökkurkyrrðina. Bjarma bálanna slær á trjátoppana og leikur æfintýraljómi yfir allri tjaldborginni. Eldar loga á fjallatindunum allt umhverfis og unum við okkur lengi við tjaldskörina og horfum til fjallaeldanna.
Það þarf herkju til þess að slíta sig frá þessu dásamlega rökkri. Þreytan sigrar þó. Við þörfnumst hvíldarinnar.

Ó.Þ.S.