Blik 1963/Margs er að minnast

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1963EINAR SIGURFINNSSON:


Margs er að minnast


Síðla vetrar 1956 var, eins og margir muna, stofnað til allítarlegrar bindindismálasýningar. Sýning þessi var sett upp í húsi K.F.U.M. og K. hér í bæ. Allir veggir hússins voru þaktir myndum, línuritum og skýrslum, sem sýndu á mjög greinilegan hátt skaðsemi áfengisnautnar varðandi fjárhag, heilsu, slysahættu, heimilishamingju og uppeldismenningu. Þarna mátti og á auðveldan hátt öðlast mikla fræðslu um áfengismál þjóðarinnar, löggjöf um þau efni o.s.frv.
Maður úr Reykjavík gekk frá sýningu þessari á prýðilegan hátt og hafði umsjón með henni. Það vildi svo til, að ég var fenginn til að annast dyravörzlu við sýninguna síðari hluta dags hvern dag, meðan hún stóð yfir, vegna þess að ég var laus frá skyldustörfum kl. 3 e.h. Sýninguna skoðuðu rúmlega 1.800 manns auk barna.
Ég hafði gott tækifæri til að veita sýningargestum eftirtekt. Það veitti mér ýmsan fróðleik. Ég var þá nýlega fluttur til Eyja og kunnugur mjög fáum. En glöggt er gestsaugað, er sagt, og því gleggra sem eigandinn er heimskari. Mér fannst því, að ég gæti nokkuð kynnzt fólki því, sem þarna kom.
Mjög var það mismunandi, hvernig hver og einn gekk um sýningarsalinn og beindi augum og athygli að því, sem á veggjunum var. Sumir fóru fljóta hringferð um salinn, bentu ef til vill heldur kæruleysilega á sumar myndirnar og gengu síðan brosandi út. Aðrir gáfu sér góðan tíma, athuguðu gaumgæfilega myndir, línurit og tölur. Sumir skrifuðu eitthvað í vasabók sína. Margir voru alvarlegir á svip, og í sumra augum blikuðu tár. Margir þökkuðu fyrir, er þeir kvöddu, og sumir töluðu nokkur orð við mig um leið og létu í ljós álit sitt á bindindismálunum og skaðsemi áfengisnautnarinnar.
Meðal annarra ágætra gesta kom þarna roskinn maður, sem var fyrirmannlegur í fasi. Ég veitti honum eftirtekt, því að hann gekk svo virðulega um salinn og skoðaði allt með greinilegri eftirtekt og athygli. Þegar þessi maður kom aftur fram í forstofuna, sagði hann: „Margt er hér að sjá athugunarvert, ekki sízt fyrir brennivínsberserki eins og mig.“ Síðan fórust honum orð á þessa leið: „Ég sat 16 ára útdráttarveizlu. Þar var drukkið kaffi, og drjúg lögg af brennivíni var látið í krukkurnar, sem kaffið var drukkið úr. Þegar ég bragðaði á þessari blöndu, féll mér ekki bragðið og sagði við konuna, sem stóð fyrir veitingunum, að þetta gæti ég ekki drukkið. „Af hverju?“ spurði hún æði gustmikil. „Af því að brennivínsbragðið er svo vont,“ sagði ég. „Þú verður aldrei maður með mönnum, ef þú drekkur ekki brennivín, og settu það í þig,“ sagði hún höstum rómi. Ég var þá ekki meiri maður en það, að ég þorði ekki annað en hlýða. Ég varð að taka á öllu mínu þreki til að ljúka úr krukkunni, og ekki leið á löngu, þar til maginn tók til sinna ráða og losaði sig við óþverrann. Þetta voru fyrstu kynni mín af Bakkusi, og man ég það vel, þó að löngu sé liðið. — Lengi hafði ég óbeit á víni eftir þetta, en samt fór það svo, að ég fór að snerta það við og við með kunningjum, þó að ég slyppi skaðlítill frá því. — Eitt með öðru finnst mér miklu verra nú en þá. Það er drykkjuskapur kvenfólksins. Ég minnist þess, að eitt sinn sem oftar var ég á danssamkomu. Þá kom þangað ein af glæsilegustu stúlkum bæjarins æði mikið drukkin.
Auðséð var, að flestallir litu þetta ástand stúlkunnar aumkunarvert og óviðfeldið, og ekki einn bauð henni upp í dans. Seinast sá ég hana fara af dansleiknum með tárvot augu. Líklega hefur þessi stúlka ekki bragðað vín eftir þetta, og nokkuð lengi mun þetta atvik hafa skert álit hennar. Seinna varð hún mikilsmetin frú hérna í kaupstaðnum. Svona var nú almenningsálitið þá. — Einstaka kerling skvetti þá í sig, en ósvinna og vesalskapur þótti það jafnan. Ég reykti einnig töluvert um tíma. Svo fór mér að blöskra, hvað þetta kostaði mikið fé. Þá fór ég að draga úr þessari skaðsemisvitleysu. Eitt sinn á hátíðardegi afréð ég að hætta að reykja. Mikið sótti nautnin á mig fyrst í stað svo að við lá, að ég gæfist upp. En fastur ásetningur veitti mér sigurinn. Ég sigraðist gjörsamlega á tóbaksnautninni. Síðan er það sannfæring mín, að þetta geta allir, ef nokkur manndómur er í þeim. Það er einbeittur vilji, er gildir hér sem annars staðar.“
Á þessa leið fórust honum orð, einum af elztu og merkustu mönnum Vestmannaeyjakaupstaðar, eftir að hann hafði lengi dvalizt við að skoða bindindissýninguna og þá rifjað upp gömul minni. Svo hittist á, að fátt var um gesti, meðan hann dvaldist þarna og ræddi við mig.
Ekki hafði ég áður átt tal við þennan mann. Vissi þó hver hann var og var nokkuð kunnugur honum eftir öðrum leiðum en persónulegum kynnum.
Eftir þetta stutta samtal fannst mér ég þekkja þennan mann nokkuð náið. Síðan hef ég kynnzt honum talsvert meira og fengið miklar mætur á honum fyrir manndóm og ýmsa aðra mannkosti.
Ég rifja þetta upp núna eftir þessi 6 ár, af því að ég rakst nýlega á nokkra punkta, sem ég hafði krotað hjá mér eftir starf mitt við bindindissýninguna. Þar voru einnig skráð orð hins mæta öldungs.
Mikið er rætt og ritað um vaxandi drykkjuskap íslenzku þjóðarinnar, ekki sízt unga fólksins, pilta og stúlkna. Það er þjóðarvoði og þjóðarböl, ef ekki fæst um bætt og traustlega tekið í taumana.

Skáldið segir:
„Vér þurfum að opna vor augu og sjá,
og eyru vor sannleik að heyra.“
Og einnig:
„Lítil þjóð, sem geldur stórra synda.
Reistu í verki viljans merki,
vilji er allt, sem þarf.“