Blik 1972/Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1972HALLDÓR MAGNÚSSON:


Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum


Það gerðist á árinu 1912, að hér var hafizt handa um að reisa fiskimjölsverksmiðju. Upphaf þessa máls var það, að Gísli J. Johnsen, sem var enskur ræðismaður, komst í kynni við enskt félag í Grimsby, sem framleiddi fiskimjöl í stórum stíl. Gísli Jóhannsson Johnsen sá, að hér heima í Vestmannaeyjum var tilvalið að setja á stofn slíka verksmiðju. Sjálfur varð hann að hafa verksmiðjuna á sínu nafni samkvæmt landslögum, en félagið byggði raunar húsið og lagði til allar vélar.
Þetta brezka félag var afaröflugt og átti fiskimjölsverksmiðjur víðsvegar á Englandi og hafði yfir að ráða miklu fjármagni.
Hingað kom svo skipið með vélarnar. Það lagðist á Víkina, því að þá komust skip ekki inn á höfnina, og varð því að afgreiða það „fyrir utan“, eins og það var kallað.
Sívalningarnir, þurrkararnir voru einna þyngstir af vélahlutum þessum. Þeir voru þéttaðir til beggja enda og síðan var þeim fleytt í land. Flestum vélahlutunum var samt komið í land á uppskipunarbátum, sem var býsna erfitt, því að engin lyftitæki voru þá til að lyfta þessum þungu hlutum upp úr bátunum, aðeins tógblakkir knúðar handafli. Einnig voru til svokallaðar kraftblakkir.
Þegar svo vélahlutirnir voru komnir á land, þurfti að flytja þá vestur í verksmiðjuhúsið. Sá flutningur fór að mestu fram á þann hátt, að kössunum, sem þeir voru í, var velt með hjálp tóga eða „skrúftóga“, eins og þau voru kölluð. Sumir verksmiðjuhlutarnir voru umbúðalausir, svo sem tveir suðukatlar. Þarna voru sex suðuvélar og gufuvél. Hún var í heilu lagi nema aflhjólið, sem var út af fyrir sig. Gufuvélin átti að skila 55 hestöflum, og gizka ég á, að aflhjólið hafi verið um hálfur annar metri að þvermáli.
Allar vélar í þá daga voru mjög þungbyggðar, því að þær voru svo efnismiklar. Því var einmitt hér til að dreifa.
Allar komust þessar vélar og vélahlutar á sinn stað að lokum og verksmiðjan tók til starfa síðari hluta aprílmánaðar 1913. Þá var verksmiðjan opnuð almenningi til sýnis einn dag, og voru gestunum boðnar veitingar. Börn fengu vínarbrauð, og öllum fannst mikið til um þetta fyrirtæki.


ctr


Hjónin Friðrik Halldór Magnússon og Jónína Ingibjörg Gísladóttir, Ásavegi 12 hér í bæ, og þrjú börn þeirra af fjórum, er þau áttu.
Halldór Magnússon verkstjóri er fæddur 15. apríl 1904 í Nýjabæ hér í Eyjum. Foreldrar: Magnús Eyjólfsson og Þorbjörg Jónsdóttir, sem byggðu á sínum tíma húseignina nr. 11 við Skólaveg (Grundarbrekku), þar sem þau bjuggu um árabil og til aldurstilastundar.
Frú Jónína var fædd 2. maí 1905 á Þorgrímsstöðum í Ölfushreppi. Foreldrar: Gísli bóndi Magnússon og Ingibjörg húsfreyja Jónsdóttir, hjón á Þorgrímsstöðum.
Hjónin Halldór Magnússon og Jónína I. Gísladóttir gengu í hjónaband 2. jan. 1930. Þau byggðu sér íbúðarhúsið Pétursey, nr. 43 við Hásteinsveg, og síðar húseignina Ásaveg 12.
Börn hjónanna: Ingibjörg, f. 2. júlí 1925, gift Þórði Stefánssyni, netagerðarmanni, Engilbert, f. 16. maí 1930, kvæntur Selmu Guðjónsdóttur, yfirhjúkrunarkonu, Hanna, f. 28. sept. 1931, gift Kristjáni Friðbergssyni, Elín, f. 19. des. 1941, gift Magnúsi Jónssyni.
Halldór Magnússon hóf störf í Fiskimjölsverksmiðjunni haustið 1920 og vann þar nær hálfa öld. Um tugi ára var hann verkstjóri þar! Hann missti konu sína 24. nóv. 1970.

Ég vil þessu næst reyna að lýsa verksmiðjunni í sem stærstum dráttum.
Þá er fyrst að nefna gufukatlana. Gufuþrýstingurinn var venjulega 135-145 pund (67,5-72,5 kg) á hvern ferþumlung. Gufuafl knúði gufuvélina. Einnig var gufan notuð til þess að sjóða beinin í suðuvélunum. Hver suðuvél var láréttur sívalningur sem næst 170 cm í þvermál. Tveir voru byrðingar þeirra, innra og ytra borð og bil á milli og lék gufa milli byrðinganna, þrýstist inn á milli þeirra. Þannig var hráefnið soðið í mauk og þar til það var þurrt orðið, allur vökvi gufaður upp úr því. Eftir hverjum suðuvélarsívalning lá stálöxull og á hann voru festir 12 armar og á hverjum armi stálplata, sem fest var með tveim spenniboltum, svo að hægt var að stilla stöðu hverrar plötu frá ytra bori byrðingsins. Bilið frá stálplötunni út að innra borði sívalningsins var sem næst 1/16 úr þumlungi. Öxullinn snerist innan í suðuvélarsívalningnum 3 snúninga á mínútu. Á öðrum enda sívalningsins var stórt snekkjutannhjól. Með reim var það tengt við stálöxul, sem lá eftir endilöngu verksmiðjuhúsinu og var snúið með afli gufunnar. Geysisterk reim úr úlfaldahári var strengd milli aflhjóls gufuvélarinnar og hjóls á stálöxlinum, og þannig snerist hann og sneri svo með sér öxlum suðuvélanna.
Þegar fiskbeinin í suðuvélinni voru fullsoðin, var opnuð loka neðan á sívalningnum, og ruddist þá efnið allt út úr vélinni niður á gólfið. Þar varð að breiða úr því til að kæla það, áður en því var mokað upp í sigtið. Það af efninu, sem enn var svo gróft að ekki fór í gegnum sigtið, var malað í beinakvörn og sigtað síðan. Mjölinu var síðan mokað á reim, sem rann á milli tveggja stálsívalninga og var annar sívalningur sá segulmagnaður. Á þann hátt hreinsaðist allt járn úr mjölinu, allir línuönglar t.d., og var það mjög áríðandi, þar sem mjölið var ætlað til skepnufóðurs. Geta má þess, að segull þessi var mjög kröftugur. T.d. um það má geta þess, að eitt sinn kom í verksmiðjuna einn mesti kraftajötunn Eyjanna. Lét ég þá 10 kg. lóð á segulinn og bauð honum svo að losa lóðið. Það hélt hann að væri auðvelt verk. En það fór á annan veg. Hann hreyfði það ekki, og hafði hann þó gott tak á hanka lóðsins.
Svo var það í annað sinn, að maður nokkur fékk járnflís í augað eða við augað. Hann fór til okkar ágæta læknis, Halldórs heitins Gunnlaugssonar, sem sendi manninn umsvifalaust inn í verksmiðju. Átti hann að leggja augað að seglinum og halda því við hann um stund. Þetta gerði hann. Frá okkur fór svo maðurinn til læknisins, sem skoðaði augað aftur. Var þá járnflísin horfin.
Fyrst var hugmyndin að lýsa verksmiðjuna upp með karbítljósum, en þau reyndust óþægileg. Þá var fenginn hálf kílóv. rafall til ljósaframleiðslunnar. Enda þurfti rafmagn til að orka á segulinn, en segul þurftu þeir ekki að nota í verksmiðjunum í Englandi, því að þeir unnu ekki úr beinum með járni í. Hér var hins vegar mest allur fiskur þá veiddur á línu og þess vegna mikið af önglum í efninu.
Mikið þótti varið í rafljósin. Þetta var algjör nýjung hér í bæ, þar sem engin rafstöð var þá til hér og allsstaðar notuð olíuljós.


ctr


Fiskimjölsverksmiðjan árið 1921.


Eitt var það, sem gjörði rekstur verksmiðjunnar erfiðan. Það var vatnsskorturinn. Hans vegna bar það oft við, þegar mikill var snjór, að strákar höfðu atvinnu af að velta snjókúlum að verksmiðjunni og láta þær í brunna eða vatnsgeyma hennar. En alltaf olli vatnsskorturinn okkur sömu vandræðunum. Að lokum var hafizt handa og sprengdur niður vatnsgeymir eða brunnur fyrir vestan og sunnan verksmiðjuhúsið. Það var bæði erfitt og dýrt verk. Brunnur þessi var 55 fet á dýpt, og úr honum var vatninu dælt. Fyrst í stað var aðeins örlítið salt í vatninu, en þegar frá 1eið, reyndist vatnið í brunni þessum jafn salt og sjórinn í höfninni. Samt urðum við að nota þetta vatn blandað vatni því, sem fékkst af þaki verksmiðjunnar, þegar rigndi.
Framleiðslumagn verksmiðjunnar var ein smálest af ágætu fiskimjöli á hverjum 12 vinnutímum. Fiskúrgangur sá, sem við fengum til vinnslu, var aðeins lítill hluti þess fiskúrgangs, sem til féllst í verstöðinni. Mikið af slógi og fiskbeinum var notað í kálgarða og til túnræktar, en erfitt var það ýmsum að koma þessum áburði frá sér, þar sem engin bifreið var þá í kauptúninu (kom fyrst 1919 til Vestmannaeyja), og varð því að aka þessum áburði á hestvögnum, sem líka voru fáir til, eða á handvögnum og hjólbörum.
Allur flutningur á hráefni til verksmiðjunnar fór fram á hestvögnum og svo eilítið á handvögnum.
Gísli J. Johnsen hafði fengið lóð handa verksmiðjunni á grasivaxinni flöt, sem var suður af Nýjabæjarklettum, sem voru vestast í Skildingafjöru. (Hún var þar, sem dráttarbrautirnar eru nú.) Þetta var mjög fagur staður, þar sem verksmiðjan var byggð. Ég get til, að lóðin hafi verið 5-6 þúsund fermetrar að stærð. Hinn nýi eigandi lóðarinnar lét girða hana mjög traustri trégirðingu. Stólparnir voru úr 5x6 þumlunga trjám. Plankar voru negldir á stólpana, og voru þeir tveggja þumlunga þykkir og fjögurra þumlunga breiðir. Á þá voru þykkir rimlar negldir. Girðingin mun hafa verið um það bil tveggja metra há. Á móti austri var 3,5 metra breitt hlið á girðingunni, og hliðstólpar gildir og fjögurra metra háir. Tré tengdu saman efri enda hliðstólpanna. Breiður akvegur var lagður vestur í hlið verksmiðjunnar frá vesturenda Strandvegarins.
Innan verksmiðjugirðingarinnar var allt geymt, sem heyrði til verksmiðjunni og fór þar mest fyrir kolunum. Þau voru þar í háum byng og stærstu kolastykkin lögð að byngnum allt um kring. Yfirmaður verksmiðjunnar, sem var brezkur*, vildi láta fara vel um kolin þannig, að þau lægju á sem minnstum fleti.
Hann gerði líka kröfu til þess, að gengið væri sérlega vel um kolin, þegar þeim var ekið inn í verksmiðjuna að gufukatlinum.
* Englendingur þessi hét E. Peacock. (Þ.Þ.V.)

Vertíðina 1914 var unnið látlaust í verksmiðjunni og svo fram eftir vorinu. Þá var hráefnið þrotið, enda komin vertíðarlok. Aðkomufólkið var farið heim og bátum lagt við ból sín á höfninni. Þar lágu þeir flestir allt sumarið, en er hausta tók, voru þeir bátar settir á land, er þurftu viðgerðar við. Minni viðgerðir á þeim voru framkvæmdar í fjörunni, þar sem látið var fjara undan þeim.
Sumarið 1914 hurfu Englendingar, sem unnið höfðu í verksmiðjunni, en þeir voru tveir, - til Englands, og komu þeir aldrei aftur, enda hófst fyrri heimsstyrjöldin, er á sumarið leið. Hún stóð 4 ár eða til 11. nóv. 1918, eins og vitað er, og var verksmiðjan ekki rekin styrjaldarárin og þrem árum lengur, eða ekki fyrr en á vertíð 1921.
Sumarið 1915 kom til Eyja enskt flutningaskip og tók til útflutnings allt fiskimjölið, sem eftir var í verksmiðjunni. Við fréttum síðar, að á leiðinni út hefðu Þjóðverjar hertekið skipið og farið með það til Þýzkalands. Þannig endaði þá fyrsti áfangi verksmiðjurekstursins, að eigendurnir höfðu heldur lítið eftir í aðra hönd.
Þessi fiskimjölsverksmiðja mun vera sú fyrsta, er reist var hér á landi**.
Þó er rétt að geta þess hér, að franskt félag hóf byggingu fiskimjölsverksmiðju á Eiðinu hér í Eyjum nokkru áður en Gísli J. Johnsen byggði sína verksmiðju. En hin franska verksmiðja var aldrei nema hálfbyggð. Hinn franski Brillouin í Reykjavík var aflið í fyrirtæki þessu. Mér var tjáð, að gufuketill í verksmiðju þessa hina fyrirhuguðu hefði verið fluttur til Eyja á sínum tíma. Það var allt vélakyns, sem til hennar kom hingað. Grunnur verksmiðjuhússins sést enn á Eiðinu sunnanverðu.
** Það hefur ávallt verið nokkuð á huldu um fjármagn það, sem verksmiðjan var byggð fyrir. Að öllum líkindum hefur það verið enskt að megin magni. Og fyrir ofan skrifstofudyr verksmiðjunnar stóð þetta letrað: „The Icelandic Fisheries Company, Ltd. (Þ.Þ.V).

Þá kem ég að því, hvernig hráefnisins var aflað í fiskimjölsverksmiðju Gísla J. Johnsens. Það var keypt af útgerðarmönnum, nema það sem barst verksmiðjunni frá hinni miklu útgerð Gísla sjálfs. Ekki man ég verðið, en allt var það miðað við tunnur eins og í Englandi. Sá maður, sem tók á móti hráefninu út úr krónum eða aðgerðarhúsunum og skráði nótur fyrir því, hét Guðmundur Jesson og var fæddur hér í Eyjum og dvaldist hér alla ævi. Hráefninu var ekið inn að verksmiðju á tveim hestvögnum. Sá maður, sem sá um aksturinn, var hinn virðulegasti maður, er hafði útbúið sér sæti á hestvagninum, og var það klætt innan með gæruskinni. Svo virðulegur frágangur þótti algjör nýjung í verstöðinni, því að aðrir vagnmenn létu sér nægja fjöl þvert yfir vagninn til að sitja á.
Þessi maður í gæruskinnssætinu var Páll Erlendsson, sem seinna var hér kunnur bifreiðarstjóri.
Hér óska ég að greina með nöfnum þá íslenzka menn, sem fyrstir unnu í fiskimjölsverksmiðjunni með Enlendingunum tveim. Þar skal fyrstan telja Matthías Finnbogason frá Litlhólum við Hásteinsveg. Hann var lengi mjög vel þekktur hér í Eyjum sem afburða smiður og vélamaður, einn hinna beztu manna, sem ég hefi unnið með. Annar var Jón Jónsson frá Brautarholti hér í bæ, ágætismaður. Þar var einnig Ágúst Gíslason Stefánssonar frá Hlíðarhúsi. Ágúst byggði íbúðarhúsið Valhöll við Strandstíg 1912. Þá vann Snorri Þórðarson (Steini) hér í bæ og Árni Árnason eldri frá Grund við Kirkjuveg, faðir Árna símritara. Einnig vann þar Ingimundur Ingimundarson, sem byggði Nýlendu við Vestmannabraut og fleiri hús hér. Allt mætir menn og duglegir verkmenn. Ein kona vann í verksmiðjunni um lengri tíma. Það var Gróa Einarsdóttir, sem bjó lengi að Kirkjuvegi 12, systir Guðjóns í Breiðholti.
Þetta er þá í stærstum dráttum upphafið að þessum verksmiðjuiðnaði hér í Eyjum, sem varð mörgum hér bæði mikil tekjulind, þegar fram leið, og svo bænum í heild mikið þrifnaðarfyrirtæki, því að segja mátti með sanni, að alls staðar lægju fiskbeina- og slóghrúgur rotnandi í bænum, áður en fiskimjölsverksmiðjan varð til. Sá óþrifnaður fór sívaxandi í bænum með aukinni útgerð.
Haustið 1920 hafði verksmiðjan staðið 6 ár ónotuð vegna heimsstyrjaldarinnar, sem lamaði allan slíkan rekstur. Þá var hafizt handa um að undirbúa verksmiðjuna til nota og reksturs á næstu vertíð (1921). Sá undirbúningur allur var mikið verk. Aðalmaðurinn í því starfi öllu var Matthías Finnbogason, sem kunni góð skil á öllum vélunum og notkun þeirra. Jón Jónsson hafði verkstjórnina á hendi.
Þannig var verksmiðjan rekin í 3 næstu ár, en haustið 1923 kom hingað til Eyja enskur maður, sem var vélstjóri. Hann var sendur frá eigendum verksmiðjunnar, að okkur var tjáð. Hann dvaldist hér til aprílloka 1924. Hann var til húsa á Grund hjá hjónunum Jóhönnu Lárusdóttur og Árna Árnasyni.
Englendingur þessi reyndist okkur hinn bezti náungi. Meðan hann dvaldist hér, lét hann taka allar vélar verksmiðjunnar í notkun, svo að framleiðslan óx úr einni smálest á 12 tímum í 1 3/4 smálest á sömu tímalengd.
Sumarið 1924 tók svo Gísli J. Johnsen algjörlega verksmiðjuna í sína umsjá. Hvort hann keypti hana þá, veit ég ekki. Um haustið komu svo hingað norskir menn og breyttu miklu í verksmiðjunni. Þá var þar sett upp ný pressa til þess að pressa soðin beinin, og ýmis tæki varðandi það verk. Allt reyndist þetta ónýtt verk og til hins verra um alla beinavinnslu í verksmiðjunni.
Sumarið 1925 lét Gísli J. Johnsen byggja reykháf þann, sem enn stendur, því að reykpípur þær, sem voru við gufukatlana, voru orðnar ónýtar.


ctr


Reykháfurinn mikli 1925 og 2. hæðin byggð.


Norskur maður hlóð reykháfinn og þótti hann mikið fyrirtæki. Meðan hann hlóð reykháfinn, stóð hann innan veggja hans og hlóð um það bil einn metra á dag. Haft var á orði, hve mikið sement fór í undirstöðu reykháfsins, enda er hún öflug. Við hleðsluna hafði Norðmaðurinn einn aðstoðarmann og hrærði hann steypuna og handlangaði. Hjálparmaður þessi var kunnur Eyjabúi á sínum tíma, Ólafur Diðrik Sigurðsson frá Strönd við Miðstræti hér í bæ. Járnteinar voru settir innan í reykháfinn, og mynduðu þeir stiga, sem hægt var að fikra sig upp eftir og standa í. Þetta sumar (1925) var einnig önnur breyting gjörð í verksmiðjunni. Byggt var ofan á verksmiðjuhúsið um miðjuna, veggir hækkaðir sem næst um 4 metra og svo sett þar ris á. Þar fékkst þannig mikið gólfrými, sem mikil þörf var fyrir.
Vegna þess að endurbæturnar, sem gjöra átti á ýmsum vélum verksmiðjunnar haustið 1924, komu að engu gagni, afréð eigandinn að gjöra samning við þýzkt félag um endurbætur á fyrirtæki þessu. Skyldi þýzka félagið setja í verksmiðjuna vélar af nýjustu gerð þess tíma. Um haustið var hafizt handa um undirbúning að framkvæmdum þessum. Grafið var fyrir nýjum undirstöðum og þær steyptar. Var það allt mikið verk, sérstaklega við undirstöður nýja ofnsins, sem kaupa skyldi verksmiðjuna. Í byrjun ársins 1926 tóku vélarnar að flytjast til Eyja. Þá þegar var farið að ganga frá þeim. Með vélunum kom þýzkur maður, og sá hann um alla uppsetningu þeirra. Einnig réðst þá til verksmiðjunnar ungur Íslendingur, sem var útlærður vélfræðingur. Sá hét Þórður Runólfsson, kunnur ágætismaður og samvinnuþýður. Vel kom það sér, að hann réðst til verksmiðjunnar, því að hann talaði þýzku, hafði stundað nám í Þýzkalandi. Það gekk vel að koma nýju vélunum fyrir, og undir marzlokin 1926 var allt undirbúið, svo að vélarnar yrðu ræstar. Þessar nýju vélar áttu að framleiða 12 smálestir af mjöli á sólarhring, svo að þetta framtak þótti stórt stökk fram á við og í góðu samræmi við vaxandi útgerð í Eyjum, eins og hún hafði þróazt síðasta áratuginn þar.


ctr


Þessi mynd er í Bliki 1969. Þar er hún sögð vera að Lifrarbræðsluskúrum Tangaverzlunarinnar. Þetta er ekki rétt. Lengst til hægri sést lifrarbræðsluskúr Gísla J. Johnsen. Vestan við „brasið“, það er lifrarbræðsluskúr Árna útgerðarmanns Sigfússonar, og vestast sést á bræðsluhús Ólafs útgerðarmanns Auðunssonar í Þinghól. Þar bræddi Bergmundur Arnbjörnsson í Nýborg lifrina. Ekki er það ólíklegt, að einhver dóttir hans standi þarna í dyrunum.

Ofninn í þessum nýju vélasamstæðum var með tveim kyndihólfum, og inn af þeim kom reykvendisveggur, sem átti að verja öskuryki að komast fram í þurrkarann. Eins átti allur reykur að eyðast þar. Fyrir aftan þennan vegg tók við sjálft gasrúmið, og var hitinn venjulega þar 1400-1600 stig á Celsíusmæli, og kom það fyrir að hann steig upp fyrir þetta hitamark.
Í ofninum var brennt koxi. Það var bæði erfitt verk og þrautaverk vegna hins mikla hita að hreinsa eldinn, því að mikil óhreinindi söfnuðust á ristarnar, sérstaklega þegar koxið var blautt og sandur tolldi því frá jarðveginum, þar sem það var geymt úti. Ég ímynda mér, að enginn fengist núna til þess að inna þessa vondu vinnu af hendi.
Aftan við ofninn kom svo þurrkarinn, 12 metra langur og 153 sm að þvermáli. Sá sívalningur var margbrotið tækjavirki, sem átti að vinna að þurrkuninni. Þar næst kom sogari, sem saug heita loftið úr ofninum í gegnum þurrkarann. Einnig saug hann vökva úr hráefninu, sem verið var að þurrka.
Mikið af fínasta mjölinu barst með loftstraumum frá þurrkaranum, en til þess að það tapaðist ekki út í veður og vind, þá streymdi heiti loftstraumurinn inn í stóran sívalning með keilumynduðum stút. Inni í sívalningnum var töluvert járnavirki. Þetta tæki er nefnt rykskilja, og er mjög áríðandi, að hún sé í góðu lagi, því að allt smágerðasta mjölið fellur niður í hina keilumynduðu trekt og sameinast hinu þurrkaða efni.
Þegar farið var að nota þessi þýzku tæki, reyndust þau meingölluð. Allt fylltist brátt af blautu hráefni í þurrkaranum, svo að allir snigilásar sátu fastir. Afköstin urðu aðeins hálf við það sem átti að vera á sólarhring. Allt gekk í basli og erfiðleikum. Nokkru eftir að þýzki sérfræðingurinn fór heim til sín, hrundi ofninn og þar með var verksmiðjustarfið búið að vera um tíma. Þá var fenginn múrari frá Reykjavík til þess að hlaða upp ofninn að nýju. Síðan komst allt kerfið í gang aftur. Hér kom skip á leið til Reykjavíkur og hleðslumaðurinn tók sér far heim með því. Þegar við sáum það norður af Eiðinu á leið suður, hrundi ofninn á ný. Nú steðjuðu enn að vandræði. Þá tókum við sjálfir til að múra upp ofninn og breyttum honum nokkuð um leið, eftir því sem brjóstvit okkar hrökk til. Eftir það hrundi hann ekki og entist árum saman. Eftir þetta náðum við fullum afköstum eða 12 smálesta framleiðslumagni á sólarhring.


ctr


Þessi mynd mun tekin af starfsmönnum Fiskimjölsverksmiðjunnar árið 1927 eða þar um bil.


Aftari röð frá vinstri (9 menn): 1. Guðni Finnbogason frá Norður-Garði, 2. Jónas Guðmundsson frá Miðgili í Húnavatnssýslu, húsbóndi að Grundarbrekku við Skólaveg (nr. 11), mágur höfundar þessarar greinar, 3. Haraldur Sigurðsson vélsmiður, Hvítingavegi 2, 4. Karl Vilmundarson, Vestmannabraut 69 (Hjarðarholti), 5. Björn Magnússon frá Akureyri, 6. Eyvindur Sigurðsson frá Drumboddsstöðum í Biskupstungum, 7. Sigfús Vigfússon af Síðu, 8. Bjarni Guðmundsson, bifreiðarstjóri, Illugagötu 13, 9. Sigurbjörn Gíslason úr Landeyjum.
Fremi röð frá vinstri (7 menn): 1. Skaphéðinn Vilmundarson, Vestmannabraut 69, 2. Þórarinn Magnússon frá Grundarbrekku, bróðir greinarhöfundar, 5. Páll Einarsson frá Langholti í Eyjum, 6. Guðmundur Hreinn Gíslason, síðar bóndi á Uxahrygg í Árnessýslu, 7. Guðmundur Sveinsson, Húnvetningur, bróðir Sigurbjörns Sveinssonar, rithöfundar.
Fremst á myndinni situr Störker Hermansen, vélsmiður frá Ásbyrgi hér í bæ.

Rétt þykir mér að greina frá verkinu við hráefnið, beinin, áður en þau voru sett í þurrkarann.
Fyrir austan verksmiðjuvegginn var vél eða kvörn, sem hakkaði efnið, og var hún afkastamikil. Hún gat afkastað miklu meir en þörf var fyrir eða við gátum unnið úr. En lyftan, sem lyfta skyldi efninu upp í þurrkarann frá kvörninni, var allt of veikbyggð. Að kvörninni var beinunum ekið á handvagni. Öllu var hráefninu lyft með kvísl í hönd. Engar vélar til þeirra hluta. Þarna unnu þrír menn hvern dag erfitt verk. Þeir mokuðu upp 30-40 smálestum af beinum á hverjum 12 tímum, sem taldist vera ein „vakt“. Á þennan hátt var verksmiðjan rekin í nokkur ár án nokkurra breytinga á vinnutilhögun.
Svo leið fram á árið 1930. Þá varð breyting á. Þá hætti Gísli J. Johnsen rekstri verksmiðjunnar og tengdasonur hans, Ástþór Matthíasson, tók við.
Árið 1931 var mótorvél sett í verksmiðjuna sem aflvél, því að gamla gufuvélin reyndist orðið of lítil og svo slitin. Að þeim skiptum var mikil bót. Nokkru síðar fengum við mokstursvél og þá léttist að mun allt starfið við beinin úti í „portinu“. Hér um bil jafnframt þessari tækni var gjörð mikil breyting á kyndingunni. Aftur var tekin upp kolakynding, en að miklu leyti sjálfvirk. Þá rifum við gamla ofninn til grunna og hlóðum upp nýjan ofn eftir teikningum, sem fyrir lágu. Þessi kyndingartæki notuðum við nokkur ár. Þá komu nýir tímar með nýjum og meiri kröfum til afkasta verksmiðjunnar, því að útgerð og framleiðsla sjávarafurða í Vestmannaeyjum fór mjög vaxandi ár frá ári.


ctr


Starfsmenn Beinamjölsverksmiðjunnar árið 1934.


Fremri röð frá v.: 1. Ólafur Magnússon, 2. Magnús Eyjólfsson, 3. Halldór Magnússon, 4. Sigmundur Einarsson, 5. Eyvindur Sigurðsson, 6. Bjarni Guðmundsson.
Miðröð frá v.: 1. Gísli Guðmundsson, 2. Bjarni Hósíasson, 3. Þórarinn Magnússon, 4. Björn Magnússon, 5. Karl Pétursson, 6. Friðrik Jónsson.
Aftasta röð frá v.: 1. Sigursteinn Ívarsson, 2. Magnús Björnsson, 3. Ágúst frá Snotru, 4. Jón Jónsson frá Brautarholti.

Ný kyndingartækni ruddi sér til rúms í verksmiðjuiðnaði öllum. M.a. var nú tekið til að kynda undir kötlum með gasolíu. Og nú var svo komið þróuninni, að Íslendingar gátu smíðað veigamestu kyndingartækin í verksmiðjuna. Héðinn hf. í Reykjavík smíðaði kyndingartækin fyrir gasolíuna og tel ég þau allra beztu endurbótina, sem gjörð hefur þar verið. Síðar fengum við þó ennþá fullkomnari kyndingartæki. Þau brenna svartolíu, sem er miklu ódýrari en gasolían.
Alvarleg slys hafa aldrei átt sér stað í fiskimjölsverksmiðjunni nema eitt sinn, er maður slasaðist á hendi, þegar reim slitnaði og slóst í hendina, svo að hún brotnaði illa. Það var í aprílmánuði 1927. Fyrir guðs náð hélt þó maðurinn hendinni með því að hann aftók, að hún yrði tekin af honum. Þessi maður var lengi eftir slysið vélstjóri í Sænska frystihúsinu í Reykjavík. Hann er snillingur í höndum og innir bæði grófar smíðar og fitlsmíðar af hendi þrátt fyrir slysið, er hann hlaut. Annars var sú gæfa yfir öllum verksmiðjurekstrinum, að lítið var um meiðsli eða önnur óhöpp á mönnum.
Eftir að síld tók að berast til vinnslu í Vestmannaeyjum í stórum stíl, var hugsað til að afla nýrra og fullkomnari tækja til þess að vinna síldina. Um þetta leyti (1944) gerði Vestmannaeyjakaupstaður út tvo togara. Þeir öfluðu mikið af karfa, sem einnig var fluttur í verksmiðjuna til vinnslu. Síldar- og karfahráefnið krafðist nýrra tækja, ættu að verða tök á að vinna úr því markaðsvöru. Fyrir harðfengi og dugnað þeirra manna, sem hér lögðu hönd á plóginn og áttu mest í húfi um allan rekstur verksmiðjunnar, tókst að afla nothæfra tækja til síldar- og karfavinnslunnar, þ.e.a.s. þess af karfanum, sem ekki var unnið í hraðfrystihúsunum, en þar var hann flakaður til útflutnings.
Óhöpp á vélum verksmiðjunnar áttu sér ekki stað, svo að teljandi sé, utan einu sinni, er sveifarás aflvélarinnar brotnaði. Þetta óhapp gerðist á seinni hluta styrjaldartímans og þess vegna mjög erfitt að fá varahluti alla frá útlöndum. Óhappið átti sér stað á versta tíma ársins, í byrjun aprílmánaðar og í upphafi netavertíðarinnar. Bátar komu að landi með mikinn afla. Brotið á sveifarásnum var mikið áfall fyrir verksmiðjuna. Segja mátti, að við stæðum allir ráðalausir. Hvað var til ráða? Ekki varð fenginn sveifarás utanlands frá nema á löngum tíma, þó svo vel tækist til, að hann kæmi einhverntíma.
Þessi langa stöðvun á rekstri verksmiðjunnar hlaut að hafa miklar skemmdir á hráefni í för með sér, og þar með afarmikið fjárhagslegt tjón. Til voru gamlar vélar, sem teknar höfðu verið úr bátum vegna slits. Þær vildu sumir taka í notkun, reyna að tjaslast við þær. Ég var því mótfallinn. Hafði enga trú á, að vélar þær dygðu okkur fremur en fyrri eigendunum. Ég vildi láta reyna að sjóða saman sveifarásinn, og ég hafði óbilandi trú á vissum starfsmönnum Vélsmiðjunnar Magna til þess að inna það verk af hendi. Með þá sannfæringu mína gekk ég á fund vinar míns og beztu hjálparhellu, Guðjóns Jónssonar, vélsmiðs í Magna, og fékk hann til að hugleiða hlutina með mér. Loks afréð hann að reyna þetta. Brátt hófst undirbúningur undir suðuna. Einar Illugason var þá starfsmaður í Magna og sauð hann saman sveifarásinn. Síðan tók Guðjón við að rétta sveifina og gera hana nothæfa, því að við suðuna kastaði efnið sér.

Þorsteinn Sigurðsson, forstj., Blátindi.
Ástþór Matthíasson, forstjóri, Sóla.

Segja má með sanni, að starf þessara Magnamanna hafi tekizt vel í alla staði, því að 14. apríl var vélin komin í gang, og gekk hún eftir það í mörg ár, dag og nótt vikum saman. Þetta varð allt til mikillar ánægju fyrir okkur alla, sem unnum við verksmiðjuna og svo eigendur hennar, og til mikils hagnaðar öllu byggðarlaginu. Mikla þökk og innilega hlaut Guðjón Jónsson fyrir verk sitt.
Það mun hafa verið árið 1946 að bætt var við vélaafl verksmiðjunnar, svo að um munaði. Þá var keypt 110 hestafla vél og 60 kgw jafnstraumsrafall, sem framleiddi rafmagn til síldarvinnslunnar. Fleiri vélum var bætt við, m.a. dísilrafvél til riðstraumsframleiðslu. Eftir þá endurbót og þann viðauka uxu afköst verksmiðjunnar upp í 30-40 smálestir af mjöli á sólarhring.
Árin liðu með miklum breytingum og jafnvel byltingum í aflabörgðum og atvinnulífi, framleiðsluháttum og framþróun.
Árið 1957 verða eigendaskipti að fiskimjölsverksmiðjunni. Þá var henni breytt í hlutafélag og eigendurnir urðu Fiskiðjan hf. og Vinnslustöðin hf.
Þá gerðist forstöðumaður verksmiðjunnar Þorsteinn Sigurðsson á Blátindi við Heimagötu. Þetta er mikill dugnaðar- og framfaramaður og einnig góður drengur. Nú eru allir gömlu ofnarnir úr sögunni og ný gerð komin í staðinn, öðruvísi gerðir en gamla dótið og miklu fullkomnari. Þessir ofnar eru miklu fyrirferðarminni en gömlu ofnarnir og þægilegri tæki á allan hátt. Gömlu „pressunum“ var rutt úr vegi og ný 5000 mála pressa sett í staðinn með sjóðara og öllu öðru, sem þar til heyrir. Þá hófst síldarvinnsla fyrir alvöru til mótvægis við hina fullkomnu veiðitækni á síldarflotanum. Nokkru síðar var keypt önnur 5000 mála pressa, og svo nýr gufuketill, svo að nú eru þeir tveir. Nýjar aflvélar, dísilvélar, voru keyptar, því að gömlu vélarnar voru orðnar úreltar og allt of eyðslufrekar. Allar þessar endurbætur á Verksmiðjunni og fleiri en hér eru nefndar ollu því, að framleiðsluafköst hennar uxu upp í 140-150 smálestir mjöls á sólarhring. Og þó að svo mikið væri framleitt af mjöli, barst svo mikið hráefni að Verksmiðjunni, að hvergi nærri hafðist við að vinna úr því. Bæði skorti geymslurými fyrir mjöl og hráefni. Afréð þá verksmiðjustjórnin að byggja nýjar þrær til geymslu á hráefninu, síldinni, og byggja um leið rúmmikla skála til geymslu á framleiðslunni. Allt var þetta framkvæmt og það á næsta ótrúlega skömmum tíma, því að hin nýja tækni til framkvæmda á erfiðum verkum var notuð til hins ýtrasta.
Síldarþrær Fiskimjölsverksmiðjunnar hér eru held ég þær stærstu nú hér á landi. Þær munu taka um 120 þúsund tunnur af síld. Þá hefur nú verið lokið við að byggja nýtt verksmiðjuhús utan um gamla húsið. Síðan var það rifið og látið hverfa. Það var búið að skila hlutverki sínu.

Nú nemum við staðar við árið 1967. Þá eru enn aukin afköst Verksmiðjunnar. Til þess er keypt ný 10 þúsund mála síldarpressa með gufukatli og öllu öðru, sem þar fylgir verki og vinnslu.
Ég veit, að ýmsu er ábótavant hjá mér um efni þessarar greinar um Fiskimjölsverksmiðjuna gömlu í Vestmannaeyjum, vöxt hennar og þróun. Þó hefi ég látið til leiðast fyrir beiðni Þ.Þ.V., að skrá þetta til geymslu síðari tíma fólki og fræðslu um stórmerkan lið í atvinnulífi Vestmannaeyinga, eins og verksmiðjurekstur þessi hlýtur að teljast frá upphafi.