Blik 1976/Háöldruð heiðurshjón

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1976ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Háöldruð heiðurshjón


Ragnhildur Guðmundsdóttir.

Við, sem dvöldumst um árabil í Vestmannaeyjakaupstað á sjötta og sjöunda áratugnum, kynntumst vel Einari Sigurfinnssyni, fyrrv. bónda í Skaftafellssýslu og Árnessýslu. Hann var um skeið starfsmaður landsímans í kaupstaðnum og hvarvetna að góðu kunnur. Ég birti æviágrip hans í Bliki 1967 sökum þess, hve gagnmerk ævi hans er, þó að hann hafi ekki verið annað en það, sem við nefnum óbreyttan bóndamann og þjóðfélagsliða.
Nokkrar greinar hefur Blik birt eftir Einar Sigurfinnsson á liðnum árum. Allar eru þær á einn veg og bera manninum gott vitni um göfugmennsku og heilbrigða hugsun hins lífsreynda manns.
Nú er þessi vinur ársritsins okkar kominn á tíræðisaldurinn. Hann fyllti níunda tuginn 14. sept. 1974. Og frú Ragnhildur Guðmundsdóttir kona hans áttræð. Þau hafa verið í farsælu hjónabandi í 48 ár, þegar þetta er skrifað. Þau búa í Hveragerði.
Bliki hafa borizt nokkur orð frá Einari Sigurfinnssyni. Hann segir þar frá ferð þeirra hjóna austur á Höfn í Hornarfirði eftir að hringvegurinn var lagður. Einar átti heima í Skaftafellssýslu hinni vestari nálega 5 áratugi, en stórvötnin hindruðu ferðir hans til austursýslunnar, þar sem hann átti þangað aldrei brýn erindi. Nú reyndist það leikur einn níræðum öldungi að ferðast alla leiðina austur í Hornafjörð. Samhugur og samhjálp þjóðarheildarinnar olli því, að svo vel gat til tekizt með þessum háöldruðu hjónum, fyrst heilsa og kraftar leyfðu svo langt ferðalag. Með hjálp Guðmundar einkasonar þeirra og tengdadóttur tókst ferðin giftusamlega, en yngri hjónin ferðuðust með þeim og voru þeim hægri höndin og hallkvæm í alla staði. Vissulega er það mikil gæfa, þegar svo vel tekst til um samhug, samhjálp og samlíf í hinni mannlegu veröld.
Nokkrar vísur hefur Einar Sigurfinnsson sent Bliki í tilefni hins háa aldurs þeirra hjóna. Þær eru heilbrigðar að hugsun, eins og vænta mátti, og hafa vissan boðskap að flytja okkur öllum, eldri sem yngri. Þess vegna verða þær birtar hér í ritinu. Hver sá, sem ber gæfu til að hugsa þannig til maka síns eftir nær hálfrar aldar hjónaband, hefur vissulega ekki farið varhluta af gæfu lífsins.
Sem eðlilegt er, veit ekki töluverður hluti yngri kynslóðarinnar í Eyjum, hver Einar Sigurfinnsson er. Þess vegna vil ég geta þess, að ég skrifaði á sínum tíma ágrip af ævisögu hans og birti í Bliki 1967. Þessi fyrrverandi bóndi í Skaftafellssýslu og síðar í Árnessýslu er faðir eins kunnasta og áhrifaríkasta landa okkar, sem nú er uppi með þjóðinni og gegnir hinu veigamikla embætti. Hann er herra Sigurbjörn Einarsson, biskup. Og hver var svo móðir hans? Fyrri kona Einars Sigurfinnssonar, frú Gíslrún Sigurbergsdóttir, skaftfellsk að ætt og uppruna. Þessa eiginkonu sína missti Einar Sigurfinnsson eftir stutt hjónaband.
Síðari konu sinni kvæntist Einar Sigurfinnsson árið 1928. Hún er frú Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi. Ég vísa hér að öðru leyti til greinar minnar í Bliki 1967, bls. 90-119. Einar Sigurfinnsson kveður til konu sinnar áttræðrar:

Vorsins andi varmur skín.
verkin margþætt unnin;
áttatíu árin þín
eru framhjá runnin.
Eftir vetrarélin þétt
ylríkt gleður vorið;
þú hefur með mér þungt og létt
þraut og gleði borið.
Þína met og þakka tryggð,
þrátt til gæfu spunnið;
ár og síð með dáð og dyggð
daglegu verkin unnið.
Því skal fagna þennan dag,
þakka liðnu árin;
Guð þinn efli gæfuhag
gegnum bros og tárin.
Ljós guðs náðar bjarma ber;
bjart er í heimaranni;
frið og gleði færi þér
friðargjafinn sanni.


Þegar Einar Sigurfinnsson átti 90 ára afmæli, er var 14. sept. (1974), sem er svokölluð krossmessa á hausti, kvað hann þessar vísur:

Fljótt er stiginn ferillinn
fram að leiðarmótum;
tíunda á tuginn minn
tölti ég stirðum fótum.
Gengið hefi ég langa leið,
en lítt til þarfa unnið.
Innan stundar endar skeið,
æviskarið brunnið.
Brautin stundum brött og hál
byltu kunni valda;
eftir langsamt ösl í ál
átti ég fætur kalda.
Af þessum sjónar háa hól
horfa má til baka;
þar við marga bala og ból
bjartir hugir vaka.
Allt að minni æskustorð
eg læt síga á hömlu;
margir fallnir fyrir borð
félagarnir gömlu.
Þannig sífellt sakna má
sá, er lengi hjarði;
en fleiri unaðsurtir á
í ævinnar blómsturgarði.
Hef um mína ævi átt
ótal gleðistundir;
aldaföður ást og mátt
alla daga fundið.
Þér sé Drottinn dýrð og þökk;
dásemd lofa ég þína;
og svo kveður öndin klökk
alla vini mína.

Blik færir þessum háöldruðu heiðurshjónum innilegar árnaðaróskir og lætur um leið þá ósk sína í ljós, að sem allra flest mannanna börn beri gæfu til að líta á liðna langa ævi með sömu augum og Einar Sigurfinnsson.

Þ.Þ.V.