Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Söluturninn 50 ára

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
50 ára starfsafmæli:

Söluturninn í Vestmannaeyjum

Söluturninn 1.png

Hinn 3. febrúar 1977 voru liðin 50 ár frá því, er Söluturninn í Vestmannaeyjum var opnaður. Verzlun þessi á sér merkilega og samfellda sögu fram á þennan dag og starfar enn, nú í Drífanda, daglega nefnd Tóta Turn. Hér á eftir verða raktir helztu þættirnir í sögu fyrirtækisins, byggðir sumpart á skriflegum heimildum verzlunarbóka frá fyrri tíð, sumpart á viðtölum við ýmsa Vestmannaeyinga.

Stofnandi og einkaeigandi Söluturnsins um hartnær tveggja áratuga skeið var Þorlákur Sverrisson, kaupmaður, sem bjó að Hofi, Landagötu 25, sem nú er horfið undir hraun. Hann var fæddur að Klauf í Meðallandi 3. apríl 1875, sonur hjónanna Sigríðar Jónsdóttur og Sverris Magnússonar, sem þá bjuggu þar. Fimm voru systkinin að Klauf, sem upp komust, bræður fjórir, þeir Þorlákur, Bjarni og Jón, sem um langt skeið átti heima í Vestmannaeyjum og gegndi störfum yfirfiskimatsmanns, var bæjarfulltrúi um skeið, og Sigurður, sem fluttist til Ameríku og á þar afkomendur á lífi, og Rannveig, sem settist að í Reykjavík.
Þess skal getið, að tveir synir Jóns Sverrissonar, þeir Einar og Sverrir, fórust með m/b Mínervu 1927, ennfremur fórst þá með þeim Ragnar, sonur Bjarna Sverrissonar. Eitt af börnum Jóns Sverrissonar er búsett hér í bæ, Karl, lögregluvarðstjóri. Þorlákur Sverrisson ólst upp við þau störf og þau kjör, sem þá gerðist til sveita á Íslandi, en voru að sumu leyti sérstæð fyrir Skaftfellinga. Þeir bræður frá Klauf voru taldir léttleikamenn, og segir Þorsteinn Kjarval, bróðir Jóhannesar listmálara, af þeim skemmtilega gamansögu í endurminningum sínum.
Þorlákur kvæntist Sigríði Jónsdóttur frá Skálmarbæ í Álftaveri. Hófu þau búskap í Skálmarbæ, en fluttust árið 1911 til Víkur í Mýrdal. Veturinn 1913-1914

Söluturninn 2.png

dvaldi Þorlákur í Reykjavík og nam ljósmyndafræði hjá Magnúsi Ólafssyni, ljósmyndara. Stundaði hann myndatökur um skeið í Vík. M.a. tók hann fyrstu myndirnar, er náðust við upphaf Kötlugoss 1918. Eru þær varðveittar hjá Jarðvísindadeild Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, gefnar deildinni af börnum Þorláks á 100 ára afmæli hans, 3. apríl 1975. Þessar myndir hafa aldrei birtzt á prenti. Þess skal og getið, að hluti af myndasafni Þorláks er varðveittur á Byggðasafni Vestmannaeyja, einkum mannamyndir. Meðal viðskiptavina Þorláks frá þessum árum má nefna Sigurð Eggerz, þá sýslumann í Vík, Svein Ólafsson í Hvammi, föður prófessors Einars Ól. Sveinssonar, en afa Sveins Þjóðleikhússtjóra, Stefán Árnason frá Jórvík, sem Vestmannaeyingum er kunnari en kynna þurfi sérstaklega og marga fleiri.
Árið 1915 hóf Þorlákur verzlunarrekstur í Vík í Mýrdal. Fékk hann þá svonefnt borgarabréf. Er það undirritað og útgefið af þáverandi sýslumanni, Sigurjóni Markússyni, föður Rögnvaldar, píanóleikara, og þeirra systkina. Hefst það með svofelldum orðum:
„Sigurjón Markússon, sýslumaður í Skaftafellssýslu kunngjörir: Mér hefur tjáð Þorlákur Sverrisson, tómthúsmaður í Vík í Hvammshreppi, að hann óski eftir að fá heimild og réttindi til þess að reka verzlun á kauptúninu í Vík í Vestur-Skaftafellssýslu“.
Fyrir þetta borgarbréf greiddi Þorlákur kr. 50, og er það útgefið hinn 1. desember 1915. Þar með hófst verzlunarrekstur Þorláks, sem fluttist síðan til Vestmannaeyja. Frá verzlunarárum hans í Vík eru varðveittar ýmsar bækur, sem eru gagnlegar heimildir um verzlun og viðskipti á þeim tíma, bæði hvað snertir vöruúrval, vöruheiti, framleiðendur og seljendur, og ekki hvað sízt um verðlag á þessum árum. Hér er því miður ekki rúm til að birta slíkt. Þá er og til bréfabók, hið merkilegasta plagg. Skal þess getið, að á árum fyrra stríðs, 1914-1918, vildu Bretar hafa eftirlit með viðskiptum landsmanna, þ.e. að sjá um, að vörur, sem gætu nýtzt andstæðingnum, lentu ekki í hans höndum, og varð Þorlákur að skuldbinda sig varðandi viss atriði til ríkisstjórnar Hans Hátignar, Bretakonungs.
Árið 1925 flutti Þorlákur með fjölskyldu sína til Vestmannaeyja. Þangað var þá kominn bróðir hans, Jón. Fékk hann í fyrstu inni á Stóru-Heiði, húsi, sem sjómannafélögin í Vestmannaeyjum eignuðust síðar hlutdeild í. Stóra-Heiði var nr. 19 við Sólhlíð, stóð næst austan við Tindastól, en var brotin niður í maímánuði 1975. Þá bjuggu á Stóru-Heiði hjónin Guðríður Jónsdóttir, ekkja Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar, en þau voru foreldrar Einars Sigurðssonar í Hraðfrystistöðinni, og Baldurs á Stóra-Heiði, og Guðjón Jónsson, síðari maður hennar, Guðjón á Heiði, alkunnur dugnaðarmaður á sinni tíð. Sama sumar keypti hann Hof, sem áður hafði verið sýslumannssetur. [[Magnús Jónsson (sýslumaður)|Magnús Jónsson, sem síðar varð bæjarfógeti í Hafnarfirði, reisti húsið um 1906 og bjó þar, meðan hann átti heimili í Vestmannaeyjum, en síðan bjó þar Karl Einarsson, sýslumaður, fyrsti bæjarfógeti og jafnframt fyrsti bæjarstjóri í Eyjum. Um þær mundir hafði Karl látið af embætti, en við tók Kristján Linnet, sem lét reisa Tindastól, en seldi Hofið. Átti Þorlákur síðan heima á Hofi til æviloka, en ekkja hans, tvær dætur þeirra og fjölskyldur bjuggu þar í mörg ár eftir andlát Þorláks, árið 1943, eða allt til ársins 1961.

Söluturninn 3.png

Söluturninn 4.png

Þau hjónin, Þorlákur og Sigríður eignuðust þrjú börn. Elzt er Sigríður, sem gift er Bjarna Guðjónssyni, myndskera frá Bæ í Lóni, Óskar Jón, fyrrv. dómprófastur, kvæntur Elísabetu Arnadóttur bónda í Gerðakoti á Miðnesi, og Guðrúnu, gift greinarhöfundi. Strax við komuna til Vestmannaeyja hóf Þorlákur að undirbúa verzlunarrekstur. Í kassabók hans er skráð 2. desember 1925:
„Hér byrjar í Vestmannaeyjum“.
Um þessar mundir keypti Þorlákur borgarabréf í Vestmannaeyjum. Var það útgefið af Kristjáni Linnet, bæjarfógeta, dagsett 15. desember 1925, gildistími til 1. janúar 1926. Gjald fyrir bréfið var kr. 50 til bæjarsjóðs, stimpilgjald kr. 100, samtals kr. 150. Ekki verður nú vitað, hvers vegna borgarabréfið var gefið út til svo skamms tíma.
Þorlákur hóf rekstur verzlunar sinnar fyrst í Vinaminni, litlu húsi nr. 5 við Urðaveg, sem fór undir hraun 1973. Stóð það norðan vegar, gegnt Steinasmiðju, þ.e. vélsmiðju Þorsteins Steinssonar við Urðaveg. Á þeim tíma var það í eigu Sigmundar nokkurs Jónssonar, sem þá bjó þar með barnmargri fjölskyldu sinni. Verzlaði Þorlákur þar til ársloka 1926. Flutti hann verzlun sína síðan í Söluturninn við Strandveg í ársbyrjun 1927, og er í kassabók hans ritað við dagsetninguna 3. febrúar: „Kassabók fyrir Söluturn 1927.“ Verður hér á eftir gerð grein fyrir sögu Turnsins í megindráttum, byggðri á þeim heimildum, sem áður getur, ennfremur á frásögnum Þórarins Þorsteinssonar, sem nú rekur Turninn í Drífanda og gert hefur sér far um að afla vitneskju um Turninn og sögu hans.
Söluturninn við Strandveg stóð austan við Mandalur, á svipuðum slóðum og nú stendur hið nýja fiskverkunarhús Ísfélags Vestmannaeyja h.f. Upphaflega sótti Þorlákur um leyfi til að reisa söluturn vestan við Mandal, norðan Nýborgar við Njarðarstíg, þ.e. á þeim slóðum, sem nú stendur verzlunarhús Páls Þorbjörnssonar h.f, en það hús reisti Ólafur heitinn Auðunsson í Þinghóli sem fiskverkunarhús á sínum tíma. Fékk Þorlákur Einar Runólfsson, smið, sem þá átti heima á Staðarfelli, til að gera teikningu að fyrirhuguðum söluturni. Þessi teikning Einars er enn til, og er birt með þessum greinarstúfi. Var gert ráð fyrir áttstrendu húsi með hvolfþaki, mjög svipuðum stíl og rafspennistöðvar, sem reistar voru í Reykjavík og standa þar sumar enn.
Af þessari turnbyggingu varð þá ekki, en horfið var að því ráði að kaupa kró, er stóð austan við Mandal og átti þá Gunnar Marel Jónsson, skipasmiður. Munu kaupin hafa verið gerð fyrir milligöngu Gunnars heitins Ólafssonar, kaupmanns á Tanganum, en þeir Þorlákur voru miklir vinir frá Víkurárum beggja. Kró þessi var steypt, og stóð hún vestast í röð sams konar húsa, sem náðu allt austur að Sjómannasundi. Hún var einnar hæðar, en Þorlákur lét steypa aðra hæð ofan á hana, og annaðist Einar Runólfsson um það verk. Hann innréttaði síðan húsnæðið, setti upp afgreiðsluborð og hillur. Mjór stigi lá upp á loft, þar sem vörur voru geymdar. Var þröngt þar inni, bæði til afgreiðslu og fyrir viðskiptamenn fyrir framan borð, en allt bjargaðist þó og gekk vel.
Það var hugmynd Þorláks að vera sjómönnum, sem komu seint að landi, og aðgerðamönnum og öðrum, sem unnu í krónum, innan handar með verzlunarþjónustu. Sótti hann því um leyfi til að hafa Turninn opinn lengur fram eftir á kvöldin en almennt tíðkaðist um verzlanir. Krærnar stóðu þá bæði norðan og sunnan Strandvegar, þar sem nú eru byggingar Ísfélagsins og Fiskiðjunnar. En tregða var hjá þáverandi ráðamönnum bæjarins til að veita slíkt leyfi. En loks fékkst það, og þá í tengslum við þann þátt þjónustu, sem rakinn verður hér á eftir.
Veðurstofa Íslands tók til starfa 1. janúar 1920. Fyrsti veðurstofustjóri var Þorkell Þorkelsson, en starfsmenn að sjálfsögðu fáir framan af og veðurþjónustan því ófullkomin, miðað við það, sem nú gerist. Ýmsir annmarkar voru á því að koma veðurfregnum eins vítt og breitt og æskilegt var talið. Ríkisútvarpið var þá ekki tekið til starfa - hóf sendingar árið 1930 - og varð því að treysta á símaþjónustuna eingöngu í þessu efni. Framan af voru veðurskeytin hengd upp í kassa á Símstöðinni, þ.e. elzta hluta þess stöðvarhúss, sem nú stendur við Vestmannabraut. Björgunarfélag Vestmannaeyja og stjórn þess tók mál þetta til athugunar og samþykkti stjórnin árið 1927, að höfðu samráði við veðurstofustjóra, að gera ráðstafanir til að veðurskeytin yrðu birt almenningi á hentugum stað kvölds og morgna. Varð Söluturninn fyrir valinu. Það mun því hafa verið fyrir tilstilli stjórnar Björgunarfélagsins, og einkum Jóhanns heitins Þ. Jósefssonar, alþingismanns, að leyfi fékkst til að hafa Söluturninn opinn fram eftir kvöldi til hagræðis fyrir sjómenn, er þeir fóru heim úr beituskúrunum og aðgerðarhúsunum, enda lá leið þeirra vel flestra þá fram hjá Turninum. Greiddi Björgunarfélagið nokkra þóknun fyrir þessa þjónustu.

Söluturninn 5.png

Veðurfregnirnar voru framan af sóttar á Símstöðina. Á kvöldin sótti Guðrún, dóttir Þorláks, veðurskeytin og fór með þau niður í Turn til föður síns. Skráði hann þau á sérstök þar til gerð eyðublöð og hengdi út í glugga. Jafnframt var fyrir tilstuðlan Björgunarfélagsins sett sjálfritandi loftvog, svonefnt „barograf“, út í glugga, og var það um langt skeið eins konar kennimerki Söluturnsins. Hvorttveggja stuðlaði að því, að menn áttuðu sig betur en ella á veðri og veðurhorfum. Þegar stormur var i aðsigi, voru veðurfregnir skráðar á rauð eyðublöð, kölluð „rauðu skeytin“, og voru þau fyrirboði illviðris. Ætla má eftir ýmsum upplýsingum, að „rauðu skeytin“ hafi verið fest upp, ef vænta mátti 8 vindstiga eða meiri veðurhæðar.
Eftir að Þorlákur fékk útvarpsviðtæki á heimili sitt, en það var ekki löngu síðar en Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína, voru veðurfregnir skráðar eftir upplestri í útvarpi. Annaðist Guðrún, dóttir Þorláks, það starf. Hringdi hún síðan í Turninn til föður síns, en hann skráði og hengdi út í glugga.
Lengi vel var ekkert viðtæki í Turninum. Fékk Þorlákur þá hátalara, sem tengdur var við viðtæki hjá Gyðu í Mandal. Fullu nafni hét hún Gyðríður Stefánsdóttir og bjó um langt árabil í kjallaranum í Mandal. Hún var móðir Stefáns Árnasonar, yfirlögregluþjóns, og Sigríðar, móður Jóns Í. Sigurðassonar á Látrum, hafnsögumanns. Mikill gestagangur var hjá Gyðu í Mandal margir, sem brugðu sér þangað inn til að fá heitan kaffisopa, enda var hún mikill höfðingi og átti alltaf eitthvað á könnunni. Hún andaðist árið 1951, 88 ára gömul.
Þegar síðari heimstyrjöldin hófst, í byrjun september 1939, var mjög tekið fyrir að birta veðurfregnir. Þær heyrðust ekki í útvarpi öll stríðsárin, og ekki mátti birta þær á almannafæri. Var þá gripið til þess ráðs að gefa vísbendingar um yfirvofandi storma og óveður með merkjum. Í Turninum var komið fyrir rauðu ljósi í glugga, og var það tákn þess, að óveður - 8 vindstig eða meira - væri í aðsigi. Að vísu var „barografið“ alltaf í glugganum, og gaf það að sjálfsögðu vísbendingar eftir sem áður, enda var það þá mikið skoðað. Að stríðinu loknu var þráðurinn tekinn upp að nýju og veðurskeyti birt í Turninum um nokkuð mörg ár eftir stríðslok.
Rétt vestan við dyrnar á Söluturninum stóð staur einn mikill, síma- eða ljósastaur, nema hvorttveggja hafi verið um skeið. Staur þessi var mikið notaður af viðskiptamönnum Turnsins á þann veg, að hengdar voru á hann fiskspyrður á nagla, sem festir höfðu verið í staurinn. Áttu þær að lafa þarna, meðan menn, sem voru á heimleið með spyrðu í soðið, luku erindum sínum í Turninum. Stundum dvaldist mönnum inni, og voru spyrðurnar þá gjarnan horfnar, er út var komið. Stundum gleymdist að hirða þær, þegar heim skyldi halda, en fæstir munu hafa endurheimt þær, þótt eftir væri leitað síðar. Spyrðurnar voru þá gjarnan hirtar og þá ekki fengist frekar um það.
Margar vörutegundir fengust í Turninum, og flest af því, sem þá þurfti að nota til heimilishalds ekkert síður en það, sem eingöngu var notað við sjávarsíðuna. Enn í dag eru vörurnar að mörgu leyti hinar sömu, þótt undir allt öðrum vörumerkjum sé. Það er út af fyrir sig fróðlegt að bera saman vörumerki þá og nú og verðlag á ýmsum vörum. Neftóbaksmenn muna sjálfsagt eftir Brödrene Braun - rjóli, sem saxað var niður með tóbaksjárni á fjöl, þeir, sem tuggðu tóbak, minnast tegunda eins Smallskro, Ágústínus skro o.fl. Af vindlingum voru þá algengastar tegundir Elefant - eða Fíllinn -, sem kostaði 50 aura 10 stykkja pakki, Commander, sem kostaði um eina krónu 20 stykkja pakki, píputóbak hét þá ýmsum nöfnum, t.d. Capstan, Waverley, Moss Rose o.fl. ofl. af því tagi. Þá var hægt að fá vanillukonfekt fyrir 10 krónur kassann, dúkka í kassa kostaði kr. 7,50. Þannig væri hægt að halda áfram með langa runu, en þetta verður að nægja.
Auk venjulegra vörutegunda fengust soðin egg, sem margir þáðu með þökkum að geta fengið. Ennfremur var til sérstakt öl, sem kostaði 20 aura glasið, en það var jafnvirði eins lifrarpotts. Öl þetta var einskonar hvítöl, sem kallað var, gert úr efnum, sem þá fengust í pökkum. Þótti það góður drykkur, þótt óáfengt væri það að sjálfsögðu.
Eins og fyrr segir, andaðist Þorlákur Sverrisson í ágústmánuði 1943. Erfingjar hans seldu þá Söluturninn, og voru kaupendur þeir Ólafur Erlendsson frá Landamótum, síðar útgerðarmaður og verzlunarmaður á Tanganum, faðir Óskars, prentsmiðjustjóra, og Rútur Snorrason frá Steini, síðar verzlunarstjóri hjá Haraldi Eiríkssyni h.f, faðir Snorra, íþróttakennara. Héldu þeir áfram rekstri Söluturnsins í sama horfi og verið hafði. Veðurfregnir voru áfram birtar þar, og enn var „barografið“ í glugganum.
Það var skilyrði fyrir kaupum, að þeir félagar fengju leyfi til að hafa Turninn opinn á kvöldin, eins og verið hafði, meðan Þorlákur heitinn rak hann. Hann hafði oft átt í nokkru stríði við að fá nauðsynleg leyfi til lengri opnunartíma en almennt var um verzlanir á þeim tíma. Þeim Ólafi og Rúti gekk erfiðlega að fá opnunarleyfi framlengt, og eru til skjöl, sem sýna það og sanna. En leyfið fékkst og er ekki kunnugt um, að frekar hafi verið aðhafzt í þeim efnum að hálfu forráðamanna bæjarins. Meira að segja var um eitt skeið leyft að hafa opið svo lengi sem von var á bátum úr róðri, en það gat oft dregizt fram eftir nóttu.
Ólafur Erlendsson, eða Óli á Landamótum, eins og hann var daglega nefndur, annaðist að mestu leyti afgreiðslustörfin innan búðar, en Rútur sá um bókhald og fjárreiður. Hugur Ólafs stefndi þó í aðrar áttir en að standa alla daga „fyrir innan disk“. Þar kom, að hann seldi sinn hlut í fyrirtækinu, keypti ásamt öðrum vélbátinn Maggý VE 111, af Guðna Grímssyni, sem þá keypti stærri bát frá Danmörku. Gerði hann bátinn, sem hann nefndi „Stakk“, út um nokkurra ára skeið, en seldi hann síðan. Tók hann þá upp verzlunarstörf að nýju og var lengi innanbúðar á Tanganum. Hann flutti síðan til Reykjavíkur og andaðist þar fyrir fáum árum.

Söluturninn 6.png

Sá, sem keypti hlut Ólafs Erlendssonar í Turninum, var Þórarinn Þorsteinsson frá Hjálmholti, og fóru kaupin fram á árinu 1952. Þórarinn, eða Tóti, eins og hann er nefndur daglega manna á milli, tók upp afgreiðslustörfin, en meðeigandi hans var áfram Rútur Snorrason, sem áfram annaðist um bókhald og fjárreiður. Tóti hafði unnið við afgreiðslustörf hjá Ísfélagi Vestmannaeyja h.f, í sölubúð félagsins norðan Strandvegarins, gegnt Turninum. Hann var því vanur afgreiðslu- og verzlunarstörfum. Þegar hann kom í Turninn, hafði málum verið skipað á þann veg, sem að framan greinir, að leyft hafði verið að hafa Turninn opinn svo lengi sem von var á bátum af sjó. Hélzt þessi háttur fram á árið 1961, en þá var lokunartími ákveðinn kl. 23:30 - klukkan hálf tólf að kvöldi.
Þess var áður getið, að Björgunarfélagið greiddi nokkurn styrk fyrir veðurþjónustu þá, sem fram fór í Turninum frá upphafi. Greiddi það afnotagjald af útvarpsviðtæki og síma um skeið. „Barografið“ var áfram í glugganum, en brátt kom að því, að Turninn fékk sérstakt hlustunartæki. Var þá hægt að fylgjast grannt með komutíma bátanna og aflamagni, að svo miklu leyti sem það var gefið upp. Létti þetta mjög á Símstöðinni, sem fram til þess hafði verið aðalupplýsingamiðstöð fyrir bátana, einkum eftir að föst næturvakt var tekin þar upp. Turninn varð því aðalfréttamiðstöð bæjarins - einskonar Reuter- um bátana og aflann, sem hann hafði að vísu verið áður, en þó með nokkuð öðrum hætti. En þar var líka ýmsar aðrar fréttir að fá af því, sem var að gerast í bænum. Þar voru margar sögur sagðar, sannar eða lognar, nema hvort tveggja væri, en engu að síður skemmtilegar sögur, sem hittu oft í mark. Margur „brandarinn“ var þar sagður, meinlaus og græzkulaus. Kann Tóti í Turninum fjöldann allan af slíku, og mundu sumar þeirra þykja æði merkilegar, ef skráðar væru.
Allar götur frá 1952 hafa Tóti og Turninn varið óaðskiljanlegir í hugum manna. Hann var rekinn í sama anda og með sama sniði og verið hafði. En árið 1958 verður breyting á um rekstur Turnsins. Á því ári voru gerðar allmiklar breytingar á Strandveginum. Hann var breikkaður til suðurs og malbikaður, og varð þá Turninn að víkja ásamt fleiri húsum, m.a. Garðsstöðum og Björgvin við Sjómannasund. Turninn var brotinn niður og fjarlægður. Tók Vestmannaeyjakaupstaður að sér að vinna verkið, gegn því að eigendum Turnsins yrði tryggð aðstaða til reksturs á nýjum stað. Fyrir valinu varð staður sunnan megin Strandvegarins, þar sem húsið Björgvin hafði áður staðið. Var reist nýtt hús af timbri, og var hafinn rekstur þar síðar á árinu 1958. Hélt starfsemin áfram í þessu nýja húsi með svipuðum hætti og verið hafði í gamla Turninum. Þar var „barografið“ áfram í glugganum, þangað komu menn að leita frétta af bátum og aflabrögðum. Þar sátu menn inni, skeggræddu um lífið og tilveruna, sögðu fréttir og gamansögur, keyptu áfram sömu vörur og áður höfðu verið á boðstólum. Tóti var allan tímann innanbúðar, en Rútur, meðeigandi hans, annaðist áðurnefnd störf áfram.
Þannig hélt starfsemin áfram um árabil. Stofnunin hélt sínu gamla nafni, þrátt fyrir breytt húsakynni, aldrei nefnd annað en Turninn. Andinn var sá sami og verið hafði frá upphafi og myndazt hafði strax í gamla Turninum austan við Mandal. Þess var áður getið, að árið 1961 var lokunartími ákveðinn kl. 23.30. Mánudagskvöldið 22. janúar 1973 var lokað kl. 23.30, eins og lög gerðu ráð fyrir, en af ástæðum, sem óþarft er að greina, var Turninn aldrei opnaður aftur á þessum stað. Húsið eyðilagðist af völdum hraunrennslis í marzmánuði 1973, eins og fleiri hús á þessum slóðum.

Söluturninn 7.png

Þegar líf tók aftur að færast í bæinn eftir eldsumbrotin, var Turninn opnaður að nýju, í þetta skipti í Drífanda, þar sem Jóhann Friðfinnsson hafði áður ráðið ríkjum „fyrir innan disk“, ásamt Rósu á Löndum og fleiri mætum konum. Þangað leita menn nú í dag sömu erinda og áður var farið niður á Strandveg. Tóta Turn í Drífanda er beint framhald Söluturnsins gamla við Strandveg, sem tók til starfa 3. febrúar 1927, fyrir rúmlega 51 ári síðan. Þessi verzlun á sér samfellda sögu, eins og rakið hefur verið hér að framan, allt fram á þennan dag. Hún hefur varðveitt þann anda, sem fljótt skapaðist í Turninum - hið sama andrúmsloft. Allar líkur benda til, að svo verði enn um skeið.
Framanrituð frásögn er byggð á gögnum úr búi Þorláks heitins Sverrissonar, sem enn eru varðveitt, einkum að því er tekur til upphafs verzlunarreksturs í Turninum og fram að því, er hann lézt. En auk þess hefi ég notið aðstoðar og upplýsinga frá ýmsum. Þar ber fyrstan að nefna Þórarin Þorsteinsson, - Tóta í Turninum - sem orðið hefur sér úti um fjölmargt, er varðar sögu Turnsins. Ennfremur hefur Guðrún, kona mín, dóttir Þorláks heitins, og bróðir hennar, sr. Óskar J. Þorláksson, fyrrv. dómprófastur, frætt mig um mörg atriði, sem fram koma í þessari frásögn. Þá vil ég einnig nefna þá Jónas í Skuld, Pál Scheving og Stefán heitinn Árnason, en hann fræddi mig á ýmsu nokkrum mánuðum áður en hann dó. Öllum þessum aðilum og fleiri ónefndum kann ég beztu þakkir fyrir aðstoðina.

Einar H. Eiríksson

Söluturninn 8.png