Ólafur Ástgeirsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Ólafur Ástgeirsson
Ólafur Ástgeirsson árið 1966

Ólafur Ástgeirsson Óli í Bæ, eða Óli í Litlabæ, eins og hann var oftast kallaður, var fæddur í Litlabæ í Vestmannaeyjum 3. ágúst 1892 og lést 8. apríl 1966. Hann var sonur þeirra Kristínar Magnúsdóttur og Ástgeirs Guðmundssonar skipasmiðs.

Ólafur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Kristín Jónsdóttir, f. 1884. d. 1943.
Börn þeirra voru: Magný, Ástgeir, Sigurjón og Sigrún.

Seinni kona Ólafs var Guðrún Sigurðardóttir f. 1920, d. 1993.
Sonur þeirra er Kristinn R. í Madríd, Spáni.

Eplið féll ekki langt frá eikinni því snemma varð ljóst að Óli myndi feta í fótspor föður síns enda var hann orðinn lagtækur smiður strax sem smápeyi. Um fermingaraldurinn fór hann að smíða með föður sínum og innan við títugt var hann farinn að smíða sjálfstætt. Alltaf vann hann einn við smíðarnar sem hann stundaði allt til dánardægurs. Ekki er með vissu vitað hver marga báta Óli smíðaði á lífsleiðinni, sjálfur taldi hann að þeir myndu nær 400 og er með ólíkindum að einn maður skuli hafa afkastað slíku. Bátasmíðarnar voru nefnilega ekki aðalstarf Óla, hann var sjómaður í nær sextíu ár og stundaði bátasmíðina í hjáverkum, í skammdeginu og yfir haustmánuðina, fram að vertíðarbyrjun, oftast við slæmar aðstæður, undir Skiphellum eða í fiskikróm. Bátarnir, sem Óli í Litlabæ smíðaði, þóttu afbragðs sjóskip. Langt fram eftir síðustu öld voru svonefndir skjögtbátar notaðir til að ferja línubjóð út í báta sem lágu á bóli. Einnig voru skjögtbátarnir notaðir þegar farið var upp í Landeyjasand. Óli smíðai marga tugi af skjögtbátum og um 1930 breytti hann lagi þeirra, gerði þá léttari til róðurs og setnings og þótti það mikil framför.

En aðalstarf Óla var sjómennska og um fermingaraldur byrjaði hann að róa með föður sínum sem hálfdrættingur á sexæringnum Enok. Þá kom strax í ljós hve fiskinn hann var á færi og fylgdi sú fiskisæld hunum alla ævi sem og mörgum afkomenda hans. Þá þótti hann snillings sjómaður og unun að sjá hann stýra báti. Auk þess var hann einn af slyngustu bjargveiðimönnum í Eyjum og í 30 sumur stundaði hann lundaveiði í Ystakletti og víðar. Árið 1913 smíðaði Óli sér sexæring með færeysku lagi sem hann nefndi Gæfu og þótti afburða sjóbátur. Þann bát var hann formaður með fram um 1920 og fiskaði alltaf vel. Óli og Kristinn bróðir hans voru síðustu formenn sem stýrðu áraskipum á vetrarvertíð. Áður fyrr var sá siður við lýði að ortar voru formannavísur um þá sem voru formenn á vetrarvertíð. Þessar vísur voru ortar um Óla í Litlabæ en höfundurinn er ókunnur:

Formaðurinn glatt með geð
Gæfu lætur skríða,
saltan út á sílabeð
seggi meður fríða.
Súðahundi siglir hratt
um síldarvöllinn bláa.
Ólafur með geðið glatt
guma hefur knáa.
Hagleiksmaður heims um frón
hefir margs að gæta,
sá kann smíða súðaljón,
seggja þarfir bæta.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Ólaf:

Óli Bær í aflann nær
ýtinn jagar snæri.
Dólar kær við djúpa mær
drátthagur á færi.

Óli smíðaði fyrsta trillubátinn sem hér var notaður til fiskveiða, fyrir Stefán í Gerði og gekk frá mótornum um borð. Það var tveggja strokka tvígengisvél og svinghjólið ofan á þeim með tveimur töppum til að snúa í gang. Þá trillaði í henni og er sagt að Stefán hafi kallað bátinn trillu vegna þess. Það nafn festist síðan við þessa gerð báta og er notað enn í dag.

Ebenezarklakkar eru fiskimið í norðvesturbrún Blindskerjahraunsins vestur af Eyjum og hafa margir velt því fyrir sér hvernig það nafn er til komið. Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum hefur sagt frá því að árið 1932 hafi hann verið á lúðuveiðum á Halkion VE 205 með Stefáni í Gerði. Skipverjar, auk þeirra voru Runólfur Runólfsson í Bræðratungu og Óli í Litlabæ. Sá var háttur á þessum lúðuveiðum að reynt var að koma lúðunni um borð í togara sem sigldu með hana til Englands þar sem hún var seld. Á þessum klökkum, sem ekki höfðu hlotið nafn sitt þá, fengu þeir mjög góðan afla, átta stórlúður og komu aflanum um borð í togarann Álsey frá Grimsby en þar var þá Guðmundur Ebenezarson skipstjóri. Þegar búið var að koma lúðunni um borð, kom Guðmundur út að lunningu með viskíflösku sem hann rétti niður í bátinn með þeim orðum að hún væri betur komin hjá þeim en sér. Þegar tappinn hafði verið tekinn úr flöskunni og aðeins var farið að liðkast um málbeinið, sagði Óli í Litlabæ: „Ja, góðir eru Ebenezarklakkarnir.“ Eftir þetta voru þessir hraunbrúnarklakkar aldrei nefndir annað og festist nafnið við þá.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Ritverk Árna Árnasonar/Ólafur Ástgeirsson


Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.