Örn Friðgeirsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Örn Friðgeirsson.

Örn Friðgeirsson frá Stöðvarfirði, skipstjóri, fiskimatsmaður fæddist þar 24. apríl 1931 og lést 30. ágúst 2006 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Friðgeir Þorsteinsson útibússtjóri, f. 15. febrúar 1910 í Kirkjubólsseli í Stöðvarfirði, d. 31. maí 1999, og kona hans Elsa Jóna Sveinsdóttir húsfreyja, f. 7. ágúst 1912 á Bæjarstað í Stöðvarfirði, d. 20. desember 1978.

Örn ólst upp til 12 ára aldurs hjá föðurforeldrum sínum á Óseyri við Stöðvarfjörð, þeim Þorsteini Mýrmann og Guðríði Guttormsdóttur.
Hann stundaði nám í Alþýðuskólanum á Eiðum 1949-1951, lauk hinu minna fiskimannaprófi í Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1961.
Örn hóf sjómennsku 14 ára, var á Björgu frá Eskifirði í Eyjum, varð stýrimaður og síðan skipstjóri 1964 á Kambaröst frá Stöðvarfirði, 1966 var hann með Sjöstjörnuna VE, en lengst var hann skipstjóri á Ófeigi III. VE.
Eftir Gosið 1973 flutti hann til Þorlákshafnar. Hann var áfram skipstjóri á Ófeigi þar til vors 1974.
Sumarið 1974 tók hann við Dalaröstinni ÁR og var skipstjóri á henni til 1976, er hann tók við Birtingi ÁR og var með hann eina vertíð.
Þegar vertíðinni lauk, tók hann svo aftur við Ófeigi III. og var skipstjóri á honum til 1978, þegar hann hætti sjómennsku að mestu leyti vegna veikinda.
Frá árinu 1979 var Örn fiskmatsmaður og síðar einnig verkstjóri hjá Glettingi hf. í Þorlákshöfn og á Selfossi.
Þau Hallbera Sigríður giftu sig 1957, eignuðust fjögur börn. Þau fluttu til Óseyrar í Stöðvarfirði 1957 og hófu þar búskap. Eftir skólagöngu Arnar fluttu þau til Eyja 1961, til Stöðvarfjarðar sama ár, aftur til Eyja 1965, keyptu Vestri-Oddsstaði, bjuggu þar til Goss 1973. Þá fluttu þau til Þorlákshafnar og bjuggu þar síðan.
Örn lést 2006 og Hallbera 2022.

I. Kona Arnar, (22. desember 1957 að Heydölum í Breiðdal, S.-Múl.), var Hallbera Sigríður Ísleifsdóttir frá Ytri-Sólheimum í Mýrdal, húsfreyja, f. 13. maí 1934, d. 13. september 2022.
Börn þeirra:
1. Lilja Arnardóttir, f. 26. maí 1958. Maður hennar Hróbjartur Ægir Óskarsson.
2. Ísleifur Arnarson, f. 14. febrúar 1960. Fyrrum kona hans Sigríður Stefánsdóttir. Kona hans Patricia Marie Bono.
3. Elsa Arnardóttir, f. 30. desember 1961.
4. Erlingur Örn Arnarson, f. 23. júlí 1969. Barnsmóðir hans Unnur Sturlaugsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.