Þórður Stefánsson (Árbæ)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Þórður Stefánsson.

Þórður Stefánsson sjómaður, vélstjóri, skipstjóri, netagerðarmaður fæddist 17. júní 1924 í Sjávarborg við Sjómannasund og lést 4. júní 2007.
Foreldrar hans voru Stefán Erlendsson sjómaður, vélstjóri, verkamaður frá Ekru í Norðfirði, f. 24. júní 1888, d. 29. mars 1969, og kona hans Sigríður Þórðardóttir húsfreyja frá Pálsbæ á Stokkseyri, f. 3. nóvember 1899, d. 19. júní 1935.

Börn Sigríðar og Stefáns:
1. Ingi Gunnar Stefánsson bóndi, f. 7. ágúst 1918 í Nesi í Norðfirði, d. 4. mars 1950.
2. Gunnar Erlendur Stefánsson skósmiður, netagerðarmeistari, f. 20. febrúar 1920 á Stokkseyri, d. 12. ágúst 2007.
3. Lilja Stefánsdóttir, f. 17. september 1922 í Sjávarborg, d. 22. september 1922.
4. Þórður Stefánsson sjómaður, vélstjóri, skipstjóri, netagerðarmaður, f. 17. júní 1924 í Sjávarborg, d. 4. júní 2007.
5. Magnús Stefánsson sjómaður, f. 9. desember 1925 í Fagranesi, d. 25. ágúst 2001.
6. Fjóla Stefánsdóttir, f. 31. júlí 1930 í Eyjum, d. 11. júlí 1932.
7. Erna Stefánsdóttir, f. 28. ágúst 1931 í Eyjum, d. 4. júlí 1944.
8. Fjóla Stefánsdóttir, f. 5. janúar 1933 á Brekastíg, d. 23. ágúst 1935.

Þórður var með foreldrum sínum í fyrstu, en móðir hans lést, er hann var ellefu ára.
Hann var með þeim í Sjávarborg við Sjómannasund 1921 í Fagranesi við Hásteinsveg 1924 og 1925, voru komin í Árbæ, (Brekastíg 7) 1927 til 1931, en síðan í húsi sínu við Brekastíg 37, sem þau reistu 1931.
Þar bjó Þórður með föður sínum og bræðrum. Vilborg móðursystir hans tók að sér hússtjórn og móðurhlutverk.
Hann varð snemma sjómaður, öðlaðist vélstjóra- og skipstjórnarréttindi. Einnig stofnaði hann til verslunar 1953 með Braga Straumfjörð og Reykdal Jónssyni og nefndu R. Jónsson og Co.
Hann eignaðist, ásamt Holbergi Jónssyni, Reykdal Jónssyni og Arnmundi Þorbjörnssyni bátinn Gunnar Hámundarson, sem þeir nefndu Björgvin VE 271. Þeir stækkuðu með Kap VE 272 1954 og nefndu Björgvin VE 72 og hófu humarveiðar frá Eyjum og voru frumkvöðlar á því sviði.
Þórður missti sjón og varð lamaður í andliti eftir aðgerð vegna heilaæxlis 32 ára og varð að hætta skipstjórn. Stundaði hann síðan netagerð með vél, sem Erlendur bróðir hans fékk hugmynd að og Guðjón í Magna smíðaði. Vélin gerði Þórði kleift að spinna fangalínur úr gömlum netateinum. Með vél frá Reykjalundi varð framleiðslan léttari. Nokkrir unnu hjá Þórði við framleiðsluna, en hún var rekin á fyrstu hæð í húsi þeirra Ingibjargar við Faxastíg 2b.
Við Gosið fluttist framleiðslan til Þorlákshafnar.
Um sextugt hætti Þórður að vinna við þetta og vann síðan við Kertaverksmiðjuna (verndaðan vinnustað) í tíu ár eða til starfsloka.
Þau Inga giftu sig 1945, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í fyrstu í Pétursey, en byggðu húsið að Faxastíg 2b og bjuggu þar frá 1950, en síðast á Bröttugötu 20.
Þórður lést 2007 og Ingibjörg 2010.

I. Kona Þórðar, (17. nóvember 1945), var Ingibjörg Haraldsdóttir (Inga) húsfreyja, f. 2. júlí 1925 í Stakkholti, d. 20. apríl 2010.
Börn þeirra:
1. Hrönn Þórðardóttir húsfreyja, f. 29. apríl 1946 í Pétursey, Hásteinsvegi 43. Maður hennar er Óli Þór Alfreðsson.
2. Hanna Þórðardóttir húsfreyja, f. 18. ágúst 1947 í Pétursey. Maður hennar er Gísli Valtýsson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.