Þorsteinn Ingi Sigfússon

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Þorsteinn Ingi Sigfússon.

Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor fæddist 4. júní 1954 í Eyjum og lést 15. júlí 2019 í Stokkhólmi.
Foreldrar hans eru Sigfús Jörundur Árnason Johnsen, f. 1930, d. 2006, og k.h. Kristín Sigríður Þorsteinsdóttir, f. 1930.

Maki (16. ágúst 1975): Bergþóra Karen Ketilsdóttir kerfisfræðingur, forstöðumaður viðskiptavers Borgunar h.f., f. 20. júní 1954.
Foreldrar hennar voru Ketill Jónsson skipstjóri, bifreiðastjóri og verzlunarmaður, f. 1921, d. 2001 og k.h. Bergþóra Heiðrún Guðlaugsdóttir húsmóðir, f. 1922, d. 2015.
Börn þeirra eru:
1. Davíð Þór Þorsteinsson læknir, f. 16. apríl 1980. Sambýliskona hans er Helena Eufemía Snorradóttir.
2. Dagrún Inga Þorsteinsdóttir læknir, f. 10. okt. 1988. Sambýlismaður hennar er Marteinn Ingi Smárason.
3. Þorkell Viktor Þorsteinsson nemi í tölvunarfræði við H.R., f. 23. júlí 1992. Sambýliskona hans er Katrín Birna Sigurðardóttir.

Nám og störf

Þorsteinn Ingi varð stúdent 1973 frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hann nam eðlisfræði og stærðfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1973-78. Doktorsprófi í eðlisfræði lauk hann frá háskólanum í Cambridge á Englandi 1982.
Í náminu við Cambridge háskóla hlaut hann verðlaunastyrk Clerk-Maxwell fyrir þróun aðferðar til segulmælinga og var kjörinn Research Fellow við Darwin College 1981.
Þorsteinn Ingi var sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, síðar í prófessorsstöðu í eðlisfræði, sem Íslenzka járnblendifélagið kostaði við Háskóla Íslands 1989-1994, en prófessor Háskólans í eðlisfræði frá 1994.
Þorsteinn var formaður stjórnar Raunvísindastofnunar 1986-90, formaður Rannsóknarráðs 1996-99 og formaður tækniráðs Rannís 2008-2013.
Þorsteinn Ingi hefur beitt sér fyrir tengingu Háskólans við atvinnulífið og stofnað mörg sprotafyrirtæki. Eitt þeirra er Vaki –fiskeldiskerfi sem hann stofnaði með Hermanni Kristjánssyni. Þá má nefna Al-álvinnslu sem vinnur ál úr álgjalli sem fellur til við álframleiðslu. Enn eitt er Íslenzk NýOrka ehf., sem vann að vetnisvæðingu í samgöngum á Íslandi. Þegar alþjóða vetnissamtökin (IPHE) voru stofnuð í Washington 2003, var Þorsteinn Ingi kjörinn formaður framkvæmdanefndar þeirra.
Hann var sæmdur riddarakrossi íslenzku fálkaorðunnar 2004.
Í júní 2007 var Þorsteinn Ingi ráðinn í starf forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, en hélt áfram prófessorsstöðu við Háskóla Íslands. Í sama mánuði hlaut hann Alheimsorkuverðlaunin, Global Energy Priz . Verðlaunin hlaut hann fyrir rannsóknir sínar í orkumálum, en þau eru ein æðsta viðurkenning rússneska lýðveldisins fyrir vísindarannsóknir og er ætlað að styðja alþjóðlega samvinnu við lausn brýnustu orkuvandamála samtímans.
Undanfarin ár var Þorsteinn m.a. formaður alþjóðlegrar úthlutunarnefndar Global orkuverðlaunanna.
Á sextugsafmæli Þorsteins Inga, 4. júní 2014 gaf Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands út afmælisritið „Þekkingin beisluð – nýsköpunarbók“ . Efni bókarinnar er skrifað af um 30 höfundum um jafnmörg efni, sem varða vísindi og nýsköpun á Íslandi, starfsvið Þorsteins Inga og sögu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Bókin er rúmlega 600 blaðsíður að lengd og var ritstýrt af Árdísi Ármannsdóttur.
Útgáfu- og erindaskrá Þorsteins er að finna á: http://nmi.is/um-okkur/stefna-og-skipurit/forstjori/ .
Þorsteinn Ingi lést 15. júlí 2019.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.