Bjartmar Guðlaugsson

Bjartmar Anton Guðlaugsson frá Fáskrúðsfirði, málari, tónlistarmaður, ljóðskáld fæddist þar 13. júní 1952.
Foreldrar hans Guðlaugur Ágústsson frá Brekkuborg í Breiðdal, sjómaður, vélstjóri, verkstjóri, f. 2. apríl 1919, d. 24. júlí 2004, og kona hans Svanhild Jensen Ágústsson frá Sandey í Færeyjum, húsfreyja, f. 22. júní 1926, d. 21. júlí 2001.
Börn Svanhild og Guðlaugs:
1. Sigurlaug Ágústa Guðlaugsdóttir húsfreyja, f. 22. september 1945, d. 17. júní 2019. Maður hennar Aðalsteinn Aðalsteinsson.
2. Petrína Ingiborg Guðlaugsdóttir, f. 4. ágúst 1947.
3. Bjartmar Anton Guðlaugsson, f. 13. júní 1952. Kona hans María Helena Haraldsdóttir f. 1. ágúst 1960.
Bjartmar var með foreldrum sínum, flutti til Vestmannaeyja 1959.
Hann lauk gagnfræðaprófi í Eyjum, stundaði nám í Iðnskólanum í Eyjum 1968-1970, lærði málaraiðn hjá Sigurði Ingólfssyni í Rvk 1974-1978 og í Málaraskóla iðnskólans í Rvk, lauk þaðan sveinsprófi.
Bjartmar stundaði ýmsa almenna vinnu til sjós og lands ásamt hljóðfæraleik. Hann hefur unnið við hljóðfæraleik frá unga aldri, samið ljóð og lög. Bjartmar hóf feril sinn sem laga- og textahöfundur árið 1977 og frá þeim tíma hefur hann samið bæði fyrir aðra og eigið útgefið efni. Þá hefur hann haldið tónleika um allt land og erlendis, bæði sem trúbador (einn með gítar) og með hinum ýmsu hljómsveitum. Má þar nefna The Hounds, Dauðarefsing, Glitbrá Hvolsvelli, Töfraflautan, Járnkarlarnir, Dúndur og Bjartmar og Bergrisarnir. Auk þess hefur hann komið fram sem gestur hjá hinum ýmsu hljómsveitum um allt land. Hann sat sem fulltrúi Danmarks Radio í samnorrænni hljómsveit höfunda, sem hét Nordmix í sjö mánuði (1992-1993) og spilaði hljómsveitin víðsvegar um Danmörk og Svíþjóð á hinum ýmsu tónleikahátíðum og kom fram í sjónvarpi og útvarpi. Bjartmar er höfundur lags og ljóðs á óskalagi þjóðarinnar árið 2014 „Þannig týnist tíminn“. Árið 2019 samdi Bjartmar lag og texta Þjóðhátíðar Vestmannaeyja „Eyjarós“.
Bjartmar eignaðist barn með Jónínu Hjördísi 1974.
Hann eignaðist barn með Sigrúnu Hörpu 1978.
Þau María Helena giftu sig, eignuðust eitt barn.
I. Barnsmóðir Bjartmars er Jónína Hjördís Gunnarsdóttir, f. 8. júní 1957.
Barn þeirra:
1. Arna Bjartmarsdóttir, f. 21. desember 1974.
II. Barnsmóðir Bjartmars er Sigrún Harpa Guðnadóttir, f. 12. mars 1958.
Barn þeirra:
2. Elma Björk Bjartmarsdóttir, f. 12. desember 1978.
III. Kona Bjartmars er María Helena Haraldsdóttir húsfreyja, f. 1. ágúst 1960. Foreldrar hennar Erla J. Marinósdóttir, f. 30. mars 1943, og Harald Albertsson af þýsku þjóðerni, f. 13. janúar 1942, d. 1977.
Barn þeirra:
3. Berglind Bjartmarsdóttir, f. 18. september 1985.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Bjartmar.
- Íslendingabók.
- Íslenskir málarar - Saga og málaratal. Kristján Guðlaugsson. Málarameistarafélag Reykjavíkur 1982.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.