Blik 1961/Úteyjaför

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



ctr
Tígulkóngarnir, sem annast ritstjórn þessa þáttar.


Úteyjaför
Rabbað við Geirmund Gudduson
í Bobba, sem segir frá.
(Gamalt handrit).


Framhald frá 1960.
Nú leið á nóttu og til náða skyldi ganga. Öll glös voru tóm. Sælan var tekin að líða frá og tómleikinn farinn að gera vart við sig.
Í bóli bændaliða frá Oddsstöðum og Kirkjubæ var þröngt um manninn og lítið svefnrúm að fá handa öllum þessum mannfjölda.
Tóti gaf það dauðanum og hinum, að hún Frikka sængaði hjá honum, sem hún æskti þó helzt, eftir að hann hafði talað snjallt fyrir minni þeirra lagsmeyjanna. „Ósnortinn,“ sagði hún og hló. Þar skyldi á leitað.

Torfi.

Hér kemur til sögunnar arfi bónda á Búastöðum, sem Torfi hét „í höfuðið á honum Grími“, eins og hann orðaði það sjálfur. Hann hafði á yngri árum verið hátt uppi og lyft sér í meira lagi fimlega. En nálgaðist nú óðum jörðina aftur. Ekki var Torfi minni gárungi en Bjöggi og gáfaður að sama skapi. Hann var næsta ótrúlega minnugur á spaugilegar hendingar. Nú tók Torfi að segja skrítlur úr Eyjum, svo að við gleymdum tímanum.
Hérna læt ég nokkrar skrítlurnar hans Torfa fjúka:

Alveg ókeypis.

Fyrir rétti í faðernismáli.
Dómarinn: Þér viðurkennið sem sé, að þér séuð faðir barnsins.
Pilturinn: Það viðurkenni ég hjartanlega sannfærður með athugun á almanakinu.
Dómarinn: Þá er ekkert annað eftir en að borga fyrir brúsann, piltur minn.
Pilturinn: Það var aldrei ætlan mín að taka greiðslu fyrir þennan greiða.

Við hlógum hjartanleg og báðum um aðra.

Þetta gerum við oftar.

Ung hjón í Vestmannaeyjum, sem bjuggu við mikla fátækt, höfðu eignazt fyrsta barnið sitt. — Hjartagott nágrannafólk sendi ungu hjónunum mikið af góðum mat, meðan konan lá á sæng. Ungi faðirinn hámaði í sig kræsingarnar, sem voru honum mikið nýnæmi. Þegar hann var orðinn mettur, sagði hann: Þetta gerum við oftar, Gunnhildur.


Nú skoruðum við á Óskar formannaskáld að yrkja eina vísu um Möngu í meydómi og Torfa, sem vissulega höfðu gefið tilefni til þess.
Þá kvað Óskar:

„Neiss es nökkviður halur“
Nanna báru elda
nú á Torfa tók sanna,
því að Manga í meydómi,
mær hinna gneypu bjarga,
gneri nú fast um gnaddinn.

Við sögðum vísuna með afbrigðum vel kveðna, þó að við skildum naumast annað í henni en orðin Manga og Torfi. Og aftur var skorað á Óskar að yrkja aðra vísu um Tóta og Frikku, þar sem hún sat uppi í fanginu á honum, svo sem til þess að storka öllum hinum.
Óskar kvað:

Dyggðagæddur tjaldatróðu
Tóti spennti afkárlegur.
Dýrðarvíf í döglingshöndum
dálaglega undi lífi.
Ofþekkt niptin öllum seggjum
úteyjanna lyfti barmi.

Við kváðum nú og spurðum.
„Mitt er að yrkja, ykkar að skilja,“ sagði Óskar.
Þá var Erlendur auga kallaður til, því að hann var kunnur kveðskaparmaður og rímfróður í bezta lagi. Hér sagði hann Tóta vera titlaðan dyggðumprýddan konungsson, sem faðmaði að sér dýrlega mey, er yndi vel lífinu í faðmi hans, og fimlega færust honum faðmlögin. Um áhrif hennar á hjörtu hinna bjargveiðimannanna vildi hann ekkert segja.
Við, sem aðrir góðir Íslendingar, dáðum hinn ómengaða Bölverksmjöð í dýrum hornum fram reiddan.
Nú var skorað á Torfa að halda fram með skrítlurnar. Hér kemur ein, sem sannar hugkvæmni Sveins á Skálum.
Árið 1950 hitti Sveinn á Skálum landa sinn, sem lengi hafði verið búsettur í Ameríku. ,,Grobbnir allir þeir karlar, eftir því sem sagt er,“ hugsaði Sveinn ,,og skal hann ekki koma að tómum kofanum hjá mér, ef hann byrjar.“ Landarnir ræddu um heima og geima af djúpri speki og mikilli sannleiksást. Loks ræddu þeir um amerísk læknavísindi.
„Já, okkar læknar eru komnir langt í tækni og vísindum, það má nú segja,“ sagði ameríski Íslendingurinn. ,,Nú taka þeir úr þeim hjörtun, gera við þau og láta þau svo á sinn stað aftur.“
„Já, víst er það sniðugt,“ sagði Sveinn á Skálum, „en svo langt er hann Einar okkar kominn líka. Hann tók nú bara höfuðið af einum hérna um árið, skóf það innan og hreinsaði vel og setti það svo á aftur. Þessi náungi hefur síðan verið mörg ár í bæjarstjórn og staðið sig þar áberandi vel.“
Við hlógum hjartanlega að þessari snjöllu skrítlu, ekki sízt sökum þess, hve snilldarlega Torfi sagði frá.
Þegar hlátrinum lauk, kvað Lási lúrifax við raust gamlan húsgang.

„Brögnum flestum blöskraði,
hve blundaði þundur stála,
því átján sinnum öskraði
í hann Svein á Skála.“

Og enn var skorað á Torfa að segja svo sem tvær skrítlur til.

Kauptu ekki neinn óþarfa

Vestmannaeyingar höfðu samþykkt að loka skyldi áfengisverzlun ríkisins. Svo var gjört. Lítið var því um sterka drykki í bænum um skeið. Þá gerðu nokkrir þorstlátir Eyjaskeggjar út einn af félögum sínum og sendu hann til Reykjavíkur til áfengiskaupa. Árni Valda tortryggði peyja þennan og fylgdi honum til skips. Um leið og skipið leysti festar, kallaði Árni til félagans: „Þú mátt ekki kaupa neinn bölvaðan óþarfa fyrir peningana okkar.“

Lakkrís fyrir 15 aura

Það gerðist á dögum Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala og skálds frá Arnarholti. Þrír strákar komu inn í Lyfjabúð Vestmannaeyja, og bað einn þeirra um lakkrís fyrir 10 aura. Lyfsalinn klöngrast upp búðartröppuna og teygir sig eftir lakkrískrukku í efstu hillu. Þegar hann svo hefur afhent lakkrísinn og gengið frá krukkunni á ný, biður annar drengur um lakkrís fyrir 10 aura. Aftur varð lyfsalinn að paufast upp tröppuna og teygja sig eftir krukkunni. Þá segir hann við þriðja strákinn: „Ætlar þú þá ekki líka að fá lakkrís fyrir 10 aura, Konni?“ „Nei“, anzaði strákur. Þá gekk hinn þungi lyfsali frá lakkrískrukkunni í efstu hillu. Þegar hann kom niður aftur, spurði hann: „Hvað þóknast þér helzt, Konni minn?“ „Ég ætla að fá lakkrís fyrir 15 aura,“ svaraði strákur.
Þá kvað Kiddi hástöfum og lyfti bauk gegn Torfa:

Viltu í nefið, vinur, fá,
veit ég kvefið minnkar þá.
Mœrðarstefið mitt skal tjá,
að mér var gefið baukinn á.

Nú bauðst Lási lúrifax til að segja eina eða tvær skrítlur. Það boð var þegið með þökkum.

Jón skal hundurinn heita.

Áður fyrr áttu Eyjabændur æði marga hunda. Af þeim greiddu þeir skatt í landssjóð, eins og lög gerðu ráð fyrir.
Eitt sinn lét sýslumaður lögregluþjón sinn taka fastan hund bónda eins og setja í geymslu. Bóndi hafði þrjózkazt við að greiða hundaskattinn. Síðan gerði sýslumaður bónda orð að finna sig að máli. „Óskið þér að eiga hundinn framvegis?“ spurði sýslumaður. „Já, vissulega,“ svaraði bóndi. „Þá verð ég að skrá hann í bækur embættisins,“ sagði valdsmaðurinn, „hvað heitir hundurinn?“ „Hann heitir ekki neitt,“ sagði bóndi. „Við höfum bara kallað hann hund og ekkert nema hund.“ „Eitthvert nafn verður hundurinn að bera,“ sagði sýslumaður. „Getur sýslumaðurinn þá ekki gefið honum eitthvert nafn?“ spurði bóndi. „Nei, það er ekki mitt að gera það,“ svaraði sýslumaður með valdsmannsróm. — Eftir nokkra þögn spurði bóndinn: „Hvað heitir lögregluþjónninn, sem sótti hundinn?“ „Hann Jón sótti hundinn,“ anzaði sýslumaður, „hér er ekki um annan að ræða.“ „Þá skulum við kalla hundinn Jón,“ svaraði bóndi.

Enginn vandi að skrökva,
ef menn vilja hafa sig til þess.

Kaupmaður í Eyjum hafði fundið að því við búðarþjón sinn, að hann segði stutt og klippt, að vara væri ekki til, ef hún var ekki fáanleg í verzluninni. „Þú átt að segja, að því miður sé varan ekki til eins og stendur, en verzlunin geti útvegað hana með stuttum fyrirvara, eða þá að hún sé á leiðinni til okkar og verði til sölu innan skamms,“ sagði kaupmaður.
Eftir nokkra daga datt kaupmanni í hug að reyna búðarþjón sinn og hringdi í verzlunina til þess að spyrja eftir vöru, sem hann vissi, að var ekki til og hafði aldrei verið til. „Hafið þér til viðarull?“ spurði hinn nafnlausi við hinn enda símans. „Nei, því miður,“ svaraði búðarþjónninn, „við sendum það síðasta af henni til Ameríku, en við fáum hana mjög bráðlega aftur.“ „Voru þá „Kanarnir“ orðnir uppiskroppa af viðarull?“ var spurt. „Það lítur út fyrir það,“ sagði búðarþjónninn. „Hvað skyldu þeir gera við alla sína viðarull?“ spurði ókunna röddin. „Þeir ala tréhestana sína á henni,“ svaraði búðarþjónninn.

Guffi gossari.

Þegar hér var komið sögu, vildi Guffi gossi komast að með skrítlurnar sínar. Þær koma hér:

Varð víst sjálfdautt.

Fyrir nokkrum árum bjó í tómthúsi hér í Eyjum sérstaklega meinyrtur náungi, sem á marga afkomendur hér í bæ.
Eitt inn leitaði hann læknis, og var þá Þorsteinn Jónsson læknir hér. Þennan dag átti sér stað jarðarför í bænum.
„Hvern er verið að jarða í dag?“ spyr læknir. Tómthúsmaðurinn gat frætt lækninn um það og sagði það eitthvert gamalmenni.
„Nú, og aldrei sóttur til þess læknir,“ sagði læknirinn.
Tómthúsmaðurinn: „Nú, það hefur þá víst orðið alveg sjálfdautt.“

Á öðrum staðnum enginn,
á hinum staðnum allir.

Kunnur borgari í Eyjum var á síldarbát fyrir Norðurlandi, sóði með afbrigðum. Eitt sinn í slæmu veðri lagðist Eyjabátur þessi við bryggju í Siglufirði. Skipverjar hugðu á landgöngu og dansleik um kvöldið. Þá sögðu þeir við hinn kunna Eyjaborgara: „Þvoðu þér nú rækilega og hafðu fataskipti, svo að þú verðir ekki okkur og Eyjunum til skammar í kvöld fyrir skítinn og göslháttinn.“
,,O, fjandakornið,“ sagði göslarinn, „hér þekkir mig enginn.“
Um haustið þegar heim kom af síldveiðunum, sögðu skipverjar hið sama við göslarann. „O, fjandakornið,“ sagði hann, „það tekur því ekki, því að hér þekkja mig allir.“
Við hlógum dátt að þessum skrítlum Guffa gossa, ekki minnst sökum þess, að hann var sjálfur hinn mesti göslari, rifinn og tættur (sjá mynd).
Og enn hélt Gossi áfram:

Ég set negluna í

Eyjastrákur dvaldist að sumrinu hjá bóndahjónum, sem bjuggu utarlega með firði nokkrum. Strákur þurfti iðulega að ferja sveitarmenn yfir fjörðinn til þess að stytta þeim leið heim. Þeir réru þá jafnan með drengnum.
Oft þurfti hann að ferja einn af embættismönnum ríkisins og sat hann þá jafnan í skut og lét drenginn róa einan. Eitt sinn, er drengur ferjaði embættismann þennan, kom svo mikill leki að bátnum, að embættismaðurinn varð að standa í austri alla leiðina til þess að varna því, að kænan sykki undir þeim. Kófsveittur steig embættismaðurinn á land úr kænunni eftir austurinn. „Hvernig ferðu nú að með lekann, þegar þú ert orðinn einn?“ spurði hann Eyjadrenginn. „Ég set negluna í,“ sagði drengurinn um leið og hann ýtti frá landi.

Hverjum sængaði hún hjá?

Vestmannaeyingar stofnuðu nautgripaábyrgðarfélag árið 1893. Þetta þótti merkilegt framtak og virðing mikil meðal bænda að vera kenndur við stjórn þess fyrstu árin.
Bóndi nokkur á austanverðri Eyjunni hafði lengi æskt nokkurra mannaforráða, en honum hafði ekki til þessa tekizt að fá sæti í nokkurri stjórn eða nefnd í hreppsfélaginu. Þegar svo eitt sinn var kosið í stjórn nautgripaábyrgðarfélagsins, var bóndi þessi kosinn varamaður í stjórnina. Hann var mjög upp með sér af þessum frama og óskaði ekki að flíka neinu um þessa mikilvægu mannvirðingu, þegar hann kom heim um kvöldið að loknum fundi.
Við kaffiborðið morguninn eftir gat hann samt ekki þagað lengur yfir upphefð sinni. Þá tók hann til máls. „Veiztu, kona, hjá hverjum þú hefur sofið í nótt?“ „Hö, hö, ætli ég hafi sofið hjá nokkrum öðrum en þér eins og ég er vön,“ hreytti kerling út úr sér.
Bóndi: „Það er bezt, að þú vitir það, kona, að þú hefur sofið hjá varamanni í stjórn Nautgripaábyrgðarfélags Vestmannaeyja.“

Allar giftast þær.
En sá smekkur!

Eitt sinn á dögum Sigurðar lyfsala frá Arnarholti kom kunnur ,,lampa“þambari inn í lyfjabúðina. Tóbakstaumarnir úr hvoru munnviki lágu niður á höku. Hárlubbinn hafði auðsjáanlega ekki verið greiddur í nokkra daga. Órakaður var hann og rónalegur. Hann vildi fá keypt sitt daglega lyf. Meðan hann bíður afgreiðslu, rekur hann augun í stórt glas á búðarborðinu. Á miðanum á glasinu stóð andlitsmynd og orðið „Gift“ þar undir. Þá segir viðskiptavinurinn: „Mikið andskoti er hún ljót og óræstileg þessi, og þó segist hún vera gift. Já, það er von hún státi. Allar giftast þær. En sá smekkur okkar karlmannanna!“

Þau höfðu afráðið það
fyrir löngu

Það bar við á 18. öld. Tveir bændur bjuggu á Búastöðum. Annar var ógiftur en hinn aldraður og átti miðaldra konu. Hinn aldraði bóndi lá veikur og dró heldur af honum. Eitt sinn ávarpaði hann konu sína: „Ég býst við dauða mínum innan skamms. Þegar ég hugleiði framtíð þína, vildi ég einna helzt, að þú giftist nágrannanum eftir minn dag.“ „Blessaður góði, hafðu ekki áhyggjur af því,“ sagði konan, „því að það höfum við afráðið fyrir löngu, hann og ég.“

Droparnir búnir, pillurnar eftir

Það gerðist á dögum hoppmannsdropanna, að Halldór læknir hitti sjúkling sinn á götu. „Jæja, Jónas, hvernig líður þér? Ég vona, að þú hlýðir því að taka pillurnar inn að deginum eftir settum reglum og hoppmannsdropana að kvöldinu, þegar þú ferð að sofa.“ ,,Já, það geri ég vissulega. Ég lauk næstum strax við dropana, en ég á hér um bil allar pillurnar eftir enn,“ sagði sjúklingurinn.

„Þá óska ég ekki,“ sagði Geirmundur gamli, ,,að segja þér fleira frá gistingunni í Elliðaey, en get þó bætt ýmsu við, sem þú gætir haft gaman af.“
Ég þakkaði honum kærlega og sagðist vilja fá sem mest að heyra. Ég hugsaði, en sagði ekki, að bezt mundi vera að ,,draga á land“ sem mest, því að ég sá, að Geirmundur var hrumur orðinn.

Anti-Faríseinn: Kæri faðir...

Svo hélt þá Geirmundur í Bobba áfram frásögn inni.
„Það dróst fram á morguninn, að Þóroddur sprengur og félagar hans kæmu að sækja okkur. Þarna í eyjunni var einn af bændum Eyjanna við heyskap. Ég óska ekki að nefna hann, því hann á fjölmennt ættlið í Eyjum. Bóndi lá þar við í tjaldgarmi. Við heimsóttum hann um morguninn. Svo var ástatt um hann, að hann hafði sagt sig úr þjóðkirkjunni og gengið í sérstakan heittrúarflokk, sem kallaði sig „Antifarisea“. Þeim fannst mikið á skorta, sögðu þeir, að orð og gjörðir þjóðkirkjumanna færu saman. Þeir sögðu með yfirlætissvip, að þar „rækist eitt á annars horn, eins og graðpening hendir vorn,“ svo sem presturinn á Bægisá kvað.

Síðar um daginn: „Svona svararðu bænum mínum. Þú nýtur þess, að ég næ ekki til þín.“

Þegar ég kom í tjald bónda, var hann að snæða árbít. Eftir snæðing gerði hann bæn sína:
,,Kæri faðir, ég þakka þér innilega fyrir árbítinn og allt daglegt brauð. Ég þakka þér líka að ég er ekki eins og hann Geirmundur þarna og aðrir slíkir syndagroddar. Fyrirgefðu mér, faðir, að ég skyldi freistast til að blekkja vigtarmanninn og láta hann vega mig með tittunum mínum. Gefðu mér nú í dag brakandi þurrk á töðuna mína, sem bíður þurrksins hérna í eyjunni.“
Ég yfirgaf bónda án nokkurra orða.
Loks komu þeir á Strombólí til þes að sækja mannskapinn. Svo kyrrlát var láin á leiðinni í land, að hvergi lóaði við stein eða steðja úteyja.
Þegar í land kom, reyndist svefninn okkur vinunum, Þóroddi spreng og mér býsna fjarri. Við höfnuðum að lokum í Goðasteini, þar sem bæjarþrælarnir, Brekkubræðurnir Gísli (G), Eiríkur (E), Helgi (H), voru enn að verki við myndaráðningar fyrir bæjarsjóð. Við sátum nú hjá þeim æðilanga stund og sáum og heyrðum. Þeir voru auðsjáanlega og auðheyrilega í essinu sínu. Þar fauk í kveðlingum eins og vera ber, þar sem Íslendingar vinna saman.
Eftir nokkrar skeggræður um störf þeirra, tóku þeir að kveða.

G.: Ég hefi kynnzt til þrautar því,
að þeim mun betur vinna
menn, sem ekkert eiga í
aukaþóknun hinna.
H.: Ekki er nefndin iðjulaus,
engum tíma fargar.
E.: Sinn í bleyti hefur haus
haft í vikur margar.
E.: Feikn er maður framagjarn
og fús að vinna bæjarsjóði.
H.: Við örkum sem um eyðihjarn
í öllu þessu myndaflóði.
E.: Oftast vita ekki hót,
á þó filmu góni,
G.: hvort fyrirmynd er fögur snót
eða fullur róni.

Þá bar að mynd af fallegri stúlku, sem þeir E. og H. þekktu ekki, en G. mundi og þekkti.

H.: Árni sonur Árna á Grund
afbragðsminni hefur.
Öll hann þekkir Eyjasprund
og á þeim lýsing gefur.

Þá kom mynd af hjónum, sem nafngreind voru. Þau höfðu ekkert barn átt, þrátt fyrir langt hjónaband. E. vissi, að þau bjuggu við góð efni.

G.: Engin hjónin ala börn,
þótt eigi í búi gnóttir,
H.: Ástvaldur og gumagjörn
Guðrún Jóhannsdóttir.
H.: Margar hverjar myndirnar
mótaðar á plötunum
E.: sýna okkur syndirnar
og siðleysið á götunum.

Þá kom mynd af fagurri, ungri stúlku, sem þeir þekktu ekki, en ég mundi vel frá mínum duggarabandsárum. Ég sagði þeim sem satt var, að stúlka þessi hefði verið mesta kynbomba Eyja á sínum yngri árum, mörgum hefði hún verið kær, ýmsum blíð, en þó ekki lauslát. Þetta þótti þeim skrítin skilgreining og var nú skorað á H. að yrkja um kynbombuna eina ferskeytlu.

H.: Öllum kær og ýmsum vær
yngismærin, halt' þig fjær,
því enginn fær þar lofnarlær
lostaær, þótt komi nær.

Með því að mér fannst, að H. beindi vísunni til mín, súrnaði mér í sinni. Mér fannst sem hann vildi beina því að mér, að ég væri lostaær og skyldi því halda mig fjarri yngismeynni. G. taldi það mesta misskilning og róaðist ég.
Mynd kom af gömlum grepp, sem E. þekkti einn. Þá tók G. til að yrkja um E.:

Okkur léttir erfiðið
og ávallt heldur vinnuglöðum,
H: því alla karla kannast við
kundur Gísla á Bessastöðum.

Úr einu umslaginu birtist mynd af Birni Zakaríasi Jóakimssyni, sem hrasað hafði eitt sinn í Heimakletti, svo að lá við slysi. Þegar honum hafði verið bjargað og hann tók að segja frá svaðilförinni, taldi hann sig hafa boðið öllum hættum birginn mitt í hrapinu. Þessa sögu sagði ég félögunum.

H: Bjössi bauð í hrapinu
birginn öllum hættum.
G.: Þar var karl í krapinu,
kominn af bændaættum.

Mynd kom af fríðri stúlku, sem gekk með E. í barnaskóla Vestmannaeyja, sem þá var í gamla þinghúsinu við Heimagötu, húseigninni Borg. Siggi bróðir þeirra var svo feiminn við stúlkuna, að hann var miður sín og vakti það athygli kennaranna. Stúlka þessi var sérlega fögur.

G.: Fögur er hún foldargná,
fátt er þar, sem skyggir á.
H.: Helzt ei vatni halda má,
horfi Siggi á pilsará.

Undir lokin kom fram mynd af Litlu-Gunnu, sem hafði auðvitað elskað hann Litla-Jón. Allir þekktu hana, glaða og netta, yndislega og ástargjarna, en giftist þó aldrei og var aldrei við karlmann kennd.

H.: Engin getur af sér börn,
þótt Amors sé við brunna,
G.: yndisleg og ástargjörn
er hún Litla-Gunna.

Nú var skorað á H. að gera aðeins eina atómvísu svona til þess að gleyma ekki nýja tímanum. Þá bað hann um frest, því að háleitur skyldi sá skáldskapur, sagði hann.
Hér kemur svo atomvísan hans H.:

Sálin er í uppnámi
eins og hárin á rófu
kisa gamla í rottuvon.
Þess á milli leikur hún sér
eins og litli kisi við
hnoðað hennar ömmu gömlu.

„Já, þetta var dýrlegur skáldskapur, og það þarf skáldgáfur á háu stigi til þess að geta ort svona yndisleg ljóð,“ sagði ég, af því að ég meinti það. Nú skoruðu þeir á mig að hnoða saman einni bögu.
Ég byrjaði og vildi vera háfleygur eins og atomskáld.

Heili minn er sem sauðarsmér
og sálin sem þrýst í hólk.

Nú gat ég ekki meira. Þá bauðst H. til þess að láta Þórberg Þórðarson botna.

En „ástin spriklar innan í mér
eins og spenvolg mjólk.“

Að lokum var svo skorað á H. (Gísli, Eiríkur, Helgi), að segja eina Eyjaskrítlu, áður en við skildum. Og hér kemur hún:

Þú gætir látið þér detta
í hug...

Það bar við um aldamótin síðustu, að kunnur tómthúsmaður hér í bæ dó drottni sínum. Uppboð var auglýst á eignum dánarbúsins. Vinnupiltur á einum Ofanleitisbænum fékk hug til að kaupa á uppboðinu heimalninginn, sem tómthúsmaðurinn hafði átt, og fór því á uppboðið. Samferða piltinum í bæinn varð vinnustúlka á næsta bæ.
Piltinum var sleginn heimalningurinn. Hann tók hann undir hendi sér til þess að bera hann heim. Séra Oddgeir bað piltinn að halda á dálítilli kirnu fyrir sig í hinni hendinni heim að Ofanleiti. Stúlkan varð aftur samferða piltinum upp fyrir hraun.
Þegar þau komu upp að Olnboga, segir stúlkan: „Ó, ég er svo hrædd.“ — ,,Við hvað ertu hrædd?“, spyr piltur. ,,Ég er svo hrædd um, að þú faðmir mig.“ — „Hvernig ætti ég að geta það, — ég, sem er með lambið undir annarri hendinni og kirnuna í hinni?“ — Stúlkan: „Þú gætir látið þér detta í hug að hvolfa kirnunni yfir lambið.“