Blik 1961/Hjónin í Svaðkoti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



Hjónin í Svaðkoti
Bjarni Ólafsson og Ragnheiður Gísladóttir



Árið 1854 fluttist hingað til Eyja 18 ára piltur frá Stóradalssókn undir Eyjafjöllum. Hann hét Bjarni Ólafsson. Hann réðist þá vinnumaður hjá Sigurði hreppstjóra Torfasyni á Búastöðum. Þar var hann næstu þrjú árin.
Bjarni Ólafsson var Landeyingur, fæddur að Steinmóðarbæ þar 22. jan. 1836. Foreldrar: Ólafur monsjör Ólafsson og k.h. Guðríður Ingvarsdóttir, bóndahjón á Steinmóðarbæ, sem þá var í Stóradalssókn.
Tveim árum síðar, eða 1856, kom ung stúlka til Eyja frá Teigssókn (Hlíðarendasókn) í Rangárvallasýslu. Sú hét Ragnheiður Gísladóttir. Hún réðist einnig að Búastöðum til Sigurðar hreppstjóra og varð þar vinnukona.
Amor skaut örvum sínum á Búastöðum eins og annars staðar bæði fyrr og síðar, og þá á milli Bjarna Ólafssonar og Ragnheiðar Gísladóttur. Þau felldu hugi saman.
Árið 1857 rugluðu svo þessi vinnuhjú á Búastöðum saman reytum sínum og stofnuðu eigið heimili. Þau hófu búskap í Litlakoti, sem var tómthús skammt frá Hólshúsi. Síðar var breytt um nafn á tómthúsi þessu og það kallað Veggur. Ennþá ber húsið það nafn. Þessari fullyrðingu til staðfestingar er vísa þessi, sem lifað hefur um tugi ára á vörum Eyjabúa:

Nú heitir húsið mitt Veggur,
sem áður hét Litlakot.
Og ekki er ég orðmælgisseggur,
þótt ætti þar blóðmör og flot.

Vísan ber það mér sér, að sá hinn sami hefur ekki verið óánægður með afkomu sína í Litlakoti, sem honum fannst oflítið nafn á tómthúsið sitt og kallaði það Vegg, — veggur á fjóra vegu, þar sem allt flaut í floti og hver kirna full af blóðmör!
Þegar þau Bjarni og Ragnheiður fluttu úr vinnuvistinni á Búastöðum eftir slátt 1857, var hún komin langt á leið. Hún fæddi fyrsta barn þeirra 27. okt. um haustið. Það var sveinbarn og skírt Gísli, nafni móðurafa síns.
Ári síðar, eða 29. okt. 1858 voru þau Bjarni og Ragnheiður gefin saman í hjónaband, hann þá 22 ára, f. 1836, og hún 25 ára, f. 1833.
Svaramaður Bjarna við giftinguna var fyrrverandi húsbóndi hans, Sigurður hreppstjóri Torfason að Búastöðum, en svaramaður hennar var Árni bóndi Einarsson, meðhjálpari á Vilborgarstöðum, síðar hreppstjóri og alþingismaður.
Árið 1859, 9. ágúst, fæddist þeim hjónum í Litlakoti annað barn. Það var einnig sveinbarn og skýrt Ólafur, nafni föðurafa síns.
Árið 1860 fluttust þessi ungu hjón að Svaðkoti, sem stóð í húsagarði mjög skammt sunnan við prestssetrið að Ofanleiti. Sá húsagarður stendur þar enn og er tiltölulega heillegur, eini húsagarðurinn að fornri gerð í Vestmannaeyjum.
Tíundarskýrslan frá 1860 sem hér er birt á öðrum stað í ritinu, gefur nokkra hugmynd um efnahag þessara ungu hjóna, þegar þau hófu búskap í Svaðkoti árið 1860:
Skýrslan sýnir eignirnar þessar:
Ein kýr, ein hryssa, ein ær og eitt verkfæri.
Á þessum eignum skyldi fleyta fram fjögurra manna fjölskyldu, og svo sjósókn.
Ungu hjónin voru þrekmikil og vinnusöm og kunnu vel til þeirra verka, er þá tíðkuðust í Eyjum. Þau verk, sem voru annars háttar en þau höfðu lært í uppvextinum, t.d. eggja- og fuglatekja og nýting þeirra afurða, höfðu þau lært í vinnumennskunni á Búastöðum.
Bjarni bóndi Ólafsson var hraustur maður og sterklega byggður, karlmenni að burðum og dugmikill með afbrigðum. Ragnheiður húsfreyja var nett kona og fríð, tápmikil og dugleg.
Önnur börn þeirra hjóna urðu þessi:
Jón, fæddur 1861 og dáinn sama ár.
Sæmundur, f. 4. okt. 1864, d. 26. júní 1873.
Steinunn, f. 11. júní 1867.
Gísli, f. 10. maí 1870, d. 13. maí 1883. Hann bar nafn fyrra bróður síns, Gísla, sem dó mjög ungur.
Guðjón, f. 16. marz 1873.
Guðríður, f. 29. febr. 1875.
Halla, f. 2. nóvember 1878.
Árin liðu í Svaðkoti við sífellt strit og fátækt, því að erfitt var þá að fleyta fram svo fjölmennum barnahóp. En með sífelldu striti nótt með degi og stakri reglusemi tókst þeim hjónum að efnast, þrátt fyrir það, að á þau hlóðst mikil ómegð fyrstu 20 búskaparárin.
Árið 1872 óskaði Fljótshlíðarhreppur að flytja yfir á herðar Bjarna bónda og þeirra hjóna framfærslu Gísla Sveinssonar að Heylæk, sem var kominn á vonarvöl vegna elli og blindu, en Gísli sá var tengdafaðir Bjarna bónda, faðir Ragnheiðar konu hans. Þó viðurkenndu hreppstjórarnir í Fljótshlíðarhreppi, að hreppnum bæri að sjá þessu gamalmenni farborða, en þeir höfðu frétt, að hjónin í Svaðkoti ættu svo gott bú, að þau mundi ekki muna um að bæta á sig einum ómaga enn.
Sýslumaður Rangárþings var nú látinn skrifa sýslumanni Vestmannaeyja, M. L. Aagaard, varðandi þetta framfærslumál og hann beðinn að láta rannsaka efnahag og afkomu þeirra hjóna í Svaðkoti og úrskurða úr búi þeirra árlega greiðslu með gamla manninum.
Sýslumaður Eyjanna fól síðan oddvita, Þorsteini Jónssyni, lækni, og hreppstjóranum Lárusi Jónssyni að Búastöðum að rannsaka efnahag þessara hjóna, áður en hann kvæði upp úrskurðinn. Sökum þessarar rannsóknar vitum við, hvernig efnahagur þeirra var í upphafi ársins 1873.

Ríkisdalir
Hjónin áttu þá í lifandi peningi um 82
Í húsum og innanstokksmun 90
Í skipi, sem arðsvon var af 40
4/7 hluta jarðarinnar
Steinmóðarbæjar í V.-Eyjafjallahr.
eða 9 hundruð á 30,5 ríkisdali
hvert hundrað samkv. Landhagsskýrslum
276
Öll eign hjónanna þannig 488
Verzlunarskuldir og skuldir við einstaklinga samtals 134
Skuldlaus eign 354

Oddviti og hreppstjóri minna á, að hjónin í Svaðkoti hafi 4 ómaga á framfærslu og reynslan sé, að 300 fiska kosti árlega að fleyta fram hverjum ómaga í Eyjum, þá nemi ómagaframfærsla hjónanna alls 1.200 fiskum árlega eða 146 rd. og 84 skildingum.
Ekki er mér kunnugt um, hver úrskurður sýslumanns varð, en fráleitt hefur hann getað úrskurðað hjónin til aukinnar ómagaframfærslu, svo lítið sem bú þeirra var og efnahagur bágur, enda þótt reglusemi, hirðusemi og mikill myndarskapur væri ríkjandi á heimilinu. Valdsmanninum í Eyjum var það þá einnig kunnugt, að barns var von í Svaðkoti eftir fáar vikur, þegar þetta mál var á döfinni, í jan. 1873. — 16. marz fæddist þeim barnið, en Sæmundur sonur þeirra dó 26. júní sama ár, eins og áður greinir.
Bjarni bóndi gerði bát sinn út í Klauf suður og lét drengina sína og þeirra hjóna róa með sér með færisstúfinn svo fljótt, sem aldur leyfði.
Árið 1882 höfðu hjónin búið 22 ár í Svaðkoti. Þá var heimilisfólkið þar sem hér segir:
Bjarni bóndi Ólafsson, 46 ára.
Ragnheiður Gísladóttir, húsfreyja 49 ára.
Ólafur Bjarnason, 23 ára.
Steinunn Bjarnadóttir, 15 ára.
Gísli Bjarnason, 12 ára.
Guðríður Bjarnadóttir, 7 ára.
Halla Bjarnadóttir, 4 ára.
Ingigerður Gísladóttir, systir Ragnheiðar húsfreyju, 50 ára.

Svo leið veturinn 1882—1883 og vorið kom með stillum og stafandi sól, fuglasöng í björgum, hreiðurgerð og varpi. Nokkrir fýlar settust að í Ofanleitishamri og áttu sér þar hreiður. Teisturnar verptu á bert bergið neðar í Hamrinum. Drengirnir á Ofanleitisbæjunum heilluðust af fuglalífinu. Þeir vissu, að þeirra beið sig í björg og klif í kletta. Að sækja björg í björg var þriðji aðalatvinnuvegur Eyjabúa, ekki sízt bænda og bændaliða þar, og sá atvinnuvegurinn gaf æði oft drýgsta búsílagið — eggin og svo fuglakjötið sem bændur áttu að haustinu í mörgum tunnum til vetrarins. Það fylgdi því viðurkenning og virðing að vera slyngur fjallamaður. Það var hin mikla íþrótt átthaganna og hana var bezt að þjálfa frá blautu barnsbeini. Þessi vissa og þessi tilfinning ýtti mörgum unglingnum út fyrir bergbrúnina, þar sem lítið bar á. Aðeins leikur í smáum stíl fyrst en vaxandi með aldri og kjarki. Foreldrarnir leyfðu aldrei þennan leik nema í fylgd með fullorðnum og vönum fjallamönnum. Þess vegna varð að stelast til að gera þetta í laumi. Þá varð sá leikur oft börnum að aldurtila í Eyjum. Svo fór um Gísla Bjarnason í Svaðkoti.
Á hvítasunnudag 1883 fór hann einförum niður á Ofanleitishamar til þess að fylgjast með fulgalífinu þar. Það var 13. maí.
Þegar leið fram að kvöldi, þótti það ekki einleikið, að Gísli, sem var 13 ára, hafði ekki komið heim og enginn orðið hans var síðan á messutíma. Þá var tekið að leita að piltinum. Fyrst var gengið á alla bæi í grenndinni. Enginn hafði orðið hans var síðan einhverntíma um daginn. Almenn leit var hafin og tóku margir þátt í henni. Um kvöldið seint eða morguninn eftir fannst lík Gísla Bjarnasonar á syllu neðarlega í Hamrinum. Hann hafði hrapað til dauðs.

Bændur og búaliðar „fyrir ofan hraun“ hófu snemma sjósókn um vorið 1883 úr Klaufinni, þar sem uppsátur þeirra var og hafði verið um langan aldur.
Vorið leið og sumarið kom með kyrrlátum dögum og nægum færafiski suður og vestur um eyjar og sund.
Hinn 16. júní (1883) snemma morguns réri Bjarni bóndi Ólafsson á fjögurra manna fari sínu úr Klaufinni í blíðskaparveðri. Með honum voru þessir menn á bátnum: Tíli Oddsson, bóndi í Norðurgarði (52 ára), Guðmundur Erlendsson frá Norðurgarði, léttadrengur hjá þeim hjónum Tíla og Guðríði Jónsdóttur, 15 ára, Ólafur Bjarnason frá Svaðkoti, tæpra 24 ára og Jón Árnason vinnumaður í Draumbæ, 36 ára.

ctr

Ragnheiður Gísladóttir, húsfreyja í Svaðkoti.
Fæddist að Litla-Kollabæ í Fljótshlíð 28. sept.1833,
dó í Haukadal í Dýrafirði 7. júli 1911.
Foreldrar Gísli bóndi Sveinsson og k.h. Steinunn Þorleifsdóttir,
hjón í Litla-Kollabæ.

Nokkru fyrir hádegi veittu menn því athygli á Ofanleitisbæjunum, að eitthvað maraði í sjávarskorpunni spölkorn vestur af Stórhöfða. Sterk athygli fólksins beindist að þessu. Hvað gat þetta verið? Þetta eitthvað sást greinilega í spegilsléttum sjávarfletinum. Að því rak, að báti var skotið á flot til þess að athuga nánar rekaldið. Þá kom í ljós, að þetta var bátur þeirra Bjarna Ólafssonar fullur af sjó, marandi í kafi. Eitt lík var í bátnum, lík Ólafs Bjarnasonar. Hinir horfnir. Báturinn virtist aldrei hafa farið af réttum kili, og tvö færin voru úti. Báturinn var áralaus og seglalaus. Hvað gat hafa komið fyrir og grandað mönnunum? Sú gáta er enn óleyst. Frekast var að því hallazt, að stórhveli hefði valdið slysinu.
Ekkjan í Svaðkoti átti nú aðeins eftir 3 dætur. Svo grimmilega hafði lífið leikið hana.
Við manntal haustið 1883 er þetta heimilisfólkið í Svaðkoti:
Ragnheiður Gísladóttir, ekkja, 50 ára.
Steinunn dóttir hennar, 16 ára.
Guðríður dóttir hennar, 8 ára.
Halla dóttir hennar, 5 ára.
Ingigerður systir hennar 51 árs.
Bóndinn og bræðurnir allir horfnir.
Eftir þessar miklu hörmungar afréð ekkjan Ragnheiður Gísladóttir samt að halda jörðinni, meðan dætur hennar voru að ná þroskaaldri. Þær voru tápmiklar og duglegar og urðu stoð hennar og stytta eftir því sem kraftarnir leyfðu og aldurinn óx.
Bjarni Ólafsson var í herfylkingu Vestmannaeyja, í 4. flokki undir flokksforustu Árna bónda Einarssonar á Vilborgarstöðum.
Ragnheiður Gísladóttir dó að Haukadal í Dýrafirði 7. júlí 1911 hjá Höllu dóttur sinni, sem þar var búsett um ára bil, gift Jóni Guðmundssyni, skipstj., 1904.
Þeirra börn: Bjarni Ragnar, Þorbergur Ágúst, Steinunn Jóhanna, Jón Gísli og Kristján Sæmundur.
Halla Bjarnadóttir dó 25. des. 1930 í Reykjavík.
Steinunn Bjarnadóttir giftist árið 1903 Jóhannesi Einarssyni, skipstjóra í Reykjavik. Þau eignuðust eitt barn: Bjarna Olgeir. Steinunn dó 6. nóv. 1949.
Guðríður Bjarnadóttir giftist árið 1898 Jóni Jónssyni, hreppstjóra Jónssonar frá Dölum í Vestmannaeyjum. Börn þeirra: Bjarni og Jóna Jóhanna, sem bæði dóu í bernsku, Bjarney Ragnheiður, búandi í Vestmannaeyjum, Jóna Jóhanna, búandi í Hafnarfirði, og Ólafur Gunnsteinn, búandi í Vestmannaeyjum. Guðríður Bjarnadóttir dó í Vestmannaeyjum 3. sept. 1950.
Ragnheiður Gísladóttir mun hafa flutzt vestur á Dýrafjörð í hornið hjá Höllu dóttur sinni árið 1910 eða árið áður en hún dó.

Þ.Þ.V.