Blik 1961/Ingibjörg Tómasdóttir

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



Ingibjörg Tómasdóttir
kaupkona


Nokkur minningarorð


Ingibjörg Tómasdóttir og Þórður Böðvarsson, bróðursonur hennar.

Í ágústmánuði n.k. eru 70 ár liðin frá fæðingu einnar þeirrar merkustu konu, sem hér hafa lifað og starfað á seinustu áratugum. Sú kona var Ingibjörg Tómasdóttir frá Reyðarvatni í Rangárvallasýslu. Hún vann hér um skeið markvert menningarstarf.
Ingibjörg Tómasdóttir fæddist að Reyðarvatni 22. ágúst 1891 og ólst þar upp hjá foreldrum sínum, Tómasi bónda Böðvarssyni frá Sámsstöðum Tómassonar og konu hans Guðrúnu Árnadóttur frá Reynifelli Guðmundssonar frá Keldum á Rangárvöllum.
Þrennt einkenndi sérstaklega þessa dóttur sunnlenzkra sveita á uppvaxtarárum hennar: starfsgleði, tónlistarhneigð og hlýhugur til alls, sem lifði og hrærðist í kringum hana.
Heimili þeirra Reyðarvatnshjóna var mikið myndar- og rausnarheimili, sem gott þótti að gista, enda gestrisni í hávegum höfð og hjálpsemi við alla orðlögð. Heimilið var jafnan mannmargt. Börnin voru 5 og margt vinnufólk, samtals milli 10 og 20 manns í heimili.
Þegar Ingibjörg heimasæta að Reyðarvatni stálpaðist, fór orð af því í sveitinni, hversu þessi stúlka væri skemmtileg viðskiptis, léttlynd, gamansöm og orðheppin. Hún þótti skörungur í framkomu, djörf og siðprúð og hreinskilin, —og hafði gaman af að taka á móti gestum, gera þeim gott og gleðja þá.
Ingibjörg var yngst systkina sinna. Önnur systkini hennar: Tómas trésmíðameistari, látinn fyrir nokkrum árum, Böðvar, bóndi og útgerðarmaður á Stokkseyri, Árni hreppstjóri á Stokkseyri og Guðrún fyrrv. húsfreyja á Kanastöðum, nú búsett í Reykjavík.

Snemma bar á listhneigð hjá Ingibjörgu Tómasdóttur. Sérstaklega bar snemma á því, hversu söngvin hún var og hneigð til tónlistar. Henni var því ungri komið til tónlistarnáms. Það nám lék henni í hug og við hönd. Ung að aldri varð hún organisti í Keldnakirkju og spilaði þar um 18 ára skeið. Jafnframt kenndi hún ungu fólki í sveit sinni orgelspil.

ctr


NEMENDUR í TÓNLISTARSKÓLA INGIBJARGAR TÓMASDÓTTUR MEÐ KENNARA SÍNUM, ÁRIÐ 1933 EÐA 1934


Aftasta röð frá vinstri: 1. Salgerður Arngrímsdóttir frá Kirkjubæ, 2. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir frá Sæbergi, 3. Guðríður Haraldsdóttir frá Garðshorni, 4. Áróra Kristinsdóttir, Kirkjuvegi 74, 5. óþekkt, 6. Sóley Þorbjarnardóttir Arnbjörnssonar.
Miðröð frá vinstri: 1. Jórunn Guðjónsdóttir frá Kirkjubæ, 2. Jóna Guðlaugsdóttir, Mosfelli, 3. Ingibjörg Tómasdóttir, tónlistarkennari, 4. Margrét Guðmundsdóttir, Bjarkarlundi, 5. Rut Þórðardóttir frá Fagrafelli, 6. Guðmunda Jónsdóttir frá Seljalandi.
Fremsta röð frá vinstri: 1. Guðrún S. Scheving frá Heiðarhvammi, 2. Sigríður Haraldsdóttir frá Garðshorni, 3. Jóhanna Hjartardóttir frá Geithálsi, 4. Elínborg Sigurðardóttir frá Skuld, 5. Guðríður Guðmundsdóttir frá Viðey, 6. Ásta Haraldsdóttir frá Garðshorni.


Árið 1923 fluttist Ingibjörg til Stokkseyrar. Stofnaði hún þar smábarnaskóla og kenndi þar ýmsu fólki að leika á orgel. Þarna dvaldist hún 3—4 ár. Frá Stokkseyri fluttist síðan Ingibjörg hingað til Vestmannaeyja. Það mun hafa verið 1927. Hér stofnaði hún tónlistarskóla, hinn fyrsta í Vestmannaeyjum, og kenndi mörgum ungum stúlkum orgelspil, líklega alls á þriðja hundrað manns hér í bæ.
Það hefur jafnan reynzt erfitt Íslendingi að lifa á iðkun listar einnar saman. Svo fór um Ingibjörgu Tómasdóttur. Hún stofnaði af þeim sökum til verzlunarreksturs og matsölu hér í Eyjum til þess að fleyta sér fram og hafa viðunandi afkomu. Um nokkurt skeið, eftir að hún settist að hér í Eyjum, rak hún matsölu í Bifröst við Bárugötu og rak þar jafnframt dálitla verzlun í einni stofunni. Þetta var á kreppuárunum tilfinnanlegu 1930—1936. Á vertíð 1936 rak Ingibjörg matstofu í Geirseyri við Strandveg. Þá vertíð munu hafa borðað þar að jafnaði um 50 manns. Fæðiskaupendum Ingibjargar Tómasdóttur þótti gott við hana að skipta, fæðið ekki klippt við nögl, vel lagað og verði í hóf stillt. Hún var í öllu viðskiptalífi sínu sem í daglegri framkomu hreinskilin, ábyggileg og sanngjörn, laus við ágengni og nirfilshátt. Seinustu ár sín hér í Eyjum rak hún verzlun að Miðstræti 2, þar sem verzl. Framtíðin er nú rekin.
Ingibjörg Tómasdóttir var þroskuð kona. Hjálpfýsi hennar, hlýhugur til alls og allra og trygglyndi voru mjög áberandi eigindi í skapgerð hennar. Ávallt skyldi hún fyrst líta á innri manninn og svo þarfir náunga síns. Hún var kjarkmikil kona og úrræðasöm, höfðingi í lund, kærleiksrík og heiðarleg. Ingibjörg Tómasdóttir var sérstaklega kærleiksríkur dýravinur og sýndi það iðulega í verki.
Ingibjörg var búsett hér í Eyjum um aldarfjórðungs skeið og andaðist hér í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 18. sept. 1952. Hún átti við mikla vanheilsu að stríða síðustu æviárin.
Ingibjörg giftist aldrei og dó barnlaus, en fjöldi barna nutu kærleika hennar og umönnunar, ekki sízt þau, sem hún vissi að bjuggu að einhverju leyti við skarðan hlut í uppvextinum vegna fátæktar eða skorti á umhyggju sinna nánustu.
Við, sem höfðum nánustu kynni af Ingibjörgu Tómasdóttur, meðan hún dvaldist hér, söknuðum hennar sárt, hispursleysis hennar og drengskapar, kærleikslundar og lífgandi krafts, sem henni fylgdi jafnan. Blessuð sé minning hennar og þökk sé henni fyrir þau menningarstörf, sem hún innti hér af hendi, og hjálp og líkn, er hún veitti mörgum af hlýhug og mannúð, oftast þannig, að sem minnst bæri á.

Þ.Þ.V.


ctr


Mynd þessi er af fæðiskaupendum Ingibjargar Tómasdóttur á vertíð 1934. —
Efsta röð frá vinstri: 1. Nikulás Einarsson, Geldingalæk; 2. Halldór Árnason frá Reyðarvatni; 3. Helgi Sigurðsson, Stokkseyri; Gísli Ingvarsson, Skipum; 5. Guðjón Jónsson, Gaulverjabæ; 6. Jón G. Jónsson, Stokkseyri; 7. Lárus Andersen, Eyrarbakka.
Miðröð frá v.: 1. Engilbert Kristjánsson, Keldum; 2. Ólafur Bergsteinsson, Árgili; 3. Guðni Guðjónsson, Bakkakoti; 4. Elín Guðmundsdóttir, Stóra-Hofi; 5. Ingibjörg Tómasdóttir; 6. Sverre Hovland, Björgvin í Noregi; 7. Zophónías Stefánsson, Mýrum í Skriðdal; 8. Eggert Arnórsson.
Fremsta röð frá v.: 1. Hilmar(Skagfirðingur); 2. Ágúst Guðmundsson, Stóra-Hofi, Rangárvöllum; 3. Þuríður Bárðardóttir; 4. Ragna Guðjónsdóttir; 5. Guðmundur Jónsson, verkfr., Stokkseyri; 6. Axel (Reykjavík). (Nokkra vantar á myndina).
Myndina tók Kjartan ljósm. Guðmundsson.
Heimild: Halldór Árnason.