Blik 1961/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, II. kafli, I. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga Ísfélags Vestmannaeyja


II. KAFLI
(1. hluti)


Við skildum síðast í Englandi við Gísla J. Johnsen, formann Ísfélags Vestmannaeyja. Hann hafði þá fest kaup á vélum í hið nýja frystihús, frystivél í Danmörku og aflvél í Englandi. Þetta voru fyrstu vélar sinnar tegundar, sem fluttar voru til landsins.
Hvar átti svo frystihúsið sjálft að rísa? Til greina komu 4 staðir. Þeir voru þessir: 1) Nausthamarinn, 2) Ísakshrófið, þar sem Geirseyri stendur nú (austan við gömlu bæjarbryggjuna norðan Strandvegar), 3) „Fyrir neðan lóð Höjdals“. Það mun vera á Stokkhellu vestanverðri, en bæjarbryggjan gamla, Steinbryggjan, er byggð á Stokkhellu. 4) Á svokallaðri Nýjabæjarhellu, sem kennd var við jörðina Nýjabæ. Þar þótti rýmst fyrir frystihúsið, og var sá staður því valinn.
Á almennum fundi í Ísfélaginu snemma vors 1908 var afráðið, að hvert vélbátsfélag eða hver vélbátur skyldi leggja af mörkum kr. 300,00 í nýja frystihúsið, kaupa hlutabréf fyrir þá upphæð.
Þegar formaður Ísfélagsins kom heim úr utanlandsferð sinni, var tekið til að ráða fram úr fjárhagsvandræðum félagsins og skrapa saman peninga til véla- og efniskaupanna. Greiða skyldi fyrst kr. 5.000,00, þegar frystivélarnar yrðu sendar frá Danmörku í maímánuði (1908). En með því að Ísfélagið átti enga peninga handbæra, var rætt um lántöku með ábyrgð sýslusjóðs. Stjórnin fól formanni félagsins og varaformanni, Gísla Lárussyni, allan veg og vanda af lántökum þessum og byggingarframkvæmdum. Afráðið var að fá 6 menn úr Reykjavik til þess að standa fyrir og vinna að byggingu hússins, með því að skortur var jafnan á vinnuafli í Eyjum að sumrinu, þar sem flestallir fullvinnufærir Eyjabúar leituðu eftir sumaratvinnu á Austfjörðum, þeir, sem ekki voru annars bundnir við slátt og önnur búskaparstörf. Stjórnin hafði orð á því, að mjög erfitt mundi reynast að fá húsrými í þorpinu handa þessum 6 mönnum, þrátt fyrir fólksfæðina.
Það er rétt að geta þess, þegar við ræðum nú undirbúning að nýju byggingarframkvæmdunum og öllum þeim fjárhagserfiðleikum, sem formaður þess varð að ráða fram úr, að stjórnin hafði fest kaup á síld frá Reykjavík síðari hluta vertíðar 1908, og skyldi g/s Ceres flytja hana til Eyja á leið sinni til útlanda. Skipið tók síldina í Reykjavíkurhöfn og fór með hana rakleitt til Englands. Að sjálfsögðu kom sú síld aldrei til Eyja. Svo ótraust voru flest viðskipti á þessum tímum, og háði það mjög afkomu manna og öllu atvinnulífi. Ísfélag Vestmannaeyja leitaði nú eftir skaðabótum hjá Sameinaða gufuskipafélaginu, sem átti g/s Ceres, sökum þessa athæfis skipstjórans. Ekki er þess getið, að slík málaleitan bæri neinn árangur.
Þau framlög, sem bátaeigendur í Eyjum höfðu heitið í hið nýja frystihús, kr. 300,00 af hverjum báti, skyldu greiðast í þrennu lagi. Kr. 100,00 skyldu greiðast 20. júní, 20. júlí og 20. ágúst um sumarið. Síðari hluta júlímánaðar hafði svo að segja enginn bátseigandi greitt neitt af þessum peningum. Þó var haldið áfram viðstöðulaust byggingu frystihússins.
Í fjárhagsvandræðunum boðaði stjórn Ísfélagsins til almenns fundar í félaginu í ágúst um sumarið (1908) til þess m.a. að krefjast efnda á greiðslum þeim, sem félagsmenn höfðu heitið félaginu 28. marz um veturinn. Segir í fundargjörð, að þá hafi undirtektir manna um öll fjárframlög reynzt daufar. Ástæðuna telur fundarritari fremur almennt getuleysi manna en viljaleysi. „Ófyrirsjáanleg óhöpp og tafir hafa veikt trú manna um stundarsakir,“ segir í fundargerðinni. Ef til vill eiga mistökin um síldarkaupin frá vetrinum sinn þátt í vonleysinu og tregðunni, þó að stjórnin verði ekki sökuð um þau.
Þrátt fyrir brigðmælgi og hinar daufu undirtektir almennings í Eyjum, afréð stjórn Ísfélagsins að halda fram með allar byggingarframkvæmdirnar og koma upp frystihúsinu með vélum, gögnum og gæðum.
Um miðjan október um haustið var byggingin sjálf næstum fullgerð. Kom þá í ljós, að formaður Ísfélagsins, Gísli J. Johnsen, hafði lánað félaginu úr eigin vasa um kr. 19.000,00 til framkvæmdanna eða nærri helming alls þess, sem framkvæmdirnar höfðu kostað til þessa.
Að sjálfsögðu hafði hann fyrst greitt úr eigin vasa fyrstu afborgun af vélunum, svo að þær yrðu sendar hindrunarlaust til landsins. Þær voru nú komnar til Eyja og biðu þess, að lokið væri við sjálfa bygginguna á Nýjabæjarhellu.
Að sjálfsögðu var Gísla J. J. Johnsen það nú í lófa lagið að eignast frystihúsið nýja, gera það að sinni einkaeign og ef til vill gróðafyrirtæki, eins og allar aðstæður voru þá: mjög vaxandi vélbátafloti með mikla þörf á viðskiptum við frystihúsið nýja og lítil eða engin tök á að koma upp öðru frystihúsi í Eyjum á næstu árum. En öll rök hníga að því, að einkahagsmunir hans hafi aldrei vakað fyrir honum í þessum framkvæmdum. Frystihúsið nýja var hugsjón, sem fyrst og fremst skyldi gagnast öllu byggðarlaginu og almenningur í Eyjum njóta alls hagnaðar af og þó sérstaklega útvegurinn.
Þegar Eyjamenn almennt komu heim frá Austfjörðum um haustið, var boðað til almenns fundur í Ísfélaginu. Voru menn þá enn minntir á greiðsluloforð sín og hversu báglega þeir hefðu reynzt fyrirtækinu til þessa. Á fundi þessum greiddu 18 aðilar 25—400 krónur, en nafnverð hvers hlutabréfs var kr. 25.00 sem alltaf áður. Þannig greiddust inn á fundi þessum alls kr. 2.715,00. Jafnframt gerðu félagsmenn síldarpöntun fyrir næstu vertíð, samtals 15—20 smálestir. Til þess að tryggja mönnum góða síld, var afráðið þegar að senda tvo Eyjabúa til Reykjavíkur, og skyldu þeir gæta þess, að til Eyja yrði aðeins seld góð og óskemmd síld, en ekki hálfónýt eins og oft áður. Til þeirrar farar völdust þeir Magnús Guðmundsson, formaður og bóndi á Vesturhúsum, og Þorsteinn Jónsson skipstjóri í Laufási.
Nýja frystihúsið var fullgert og tók til starfa fyrir áramótin 1908—1909. Þessar framkvæmdir voru sérstæðar með íslenzku þjóðinni. Fyrsta vélknúna frystihúsið á Íslandi var risið af grunni og tekið til nota. Skotið hafði verið fyrstu stoðinni undir hinn risavaxna útveg Íslendinga á þessari öld, sem hefur leitt af sér bætta afkomu á öllum sviðum og stórkostlegar framfarir í efnahagslífi og menningarmálum þjóðarinnar.
Að sjálfsögðu voru Eyjabúar ánægðir með hið nýja framtak Ísfélagsstjórnarinnar þó að lítið bæri á því á yfirborðinu, og margir nutu þegar góðs af. Aðalverk stjórnarinnar var nú að glíma við afleiðingar gjörða sinna: ráða fram úr hinum erfiða fjárhag félagsins. Knúið var enn á félagsmenn og reynt að binda þá og tryggja sér greiðslu þeirra með skriflegum loforðum.
Stjórnin hafði nú gefið út víxil kr. 5.375,00 að upphæð með ábyrgð sýslufélagsins og selt hann til þess að geta staðið í skilum með andvirði frystivélanna.
Þetta víxillán leiddi til ásteytingar nokkru síðar, með því að sýslunefnd neitaði að framlengja ábyrgð sýslufélagsins fyrir því. Þó gaf hún von um það, ef fjárhagur félagsins reyndist betri en almannarómur sagði hann vera, og skyldu tveir sýslunefndarmenn fá aðgang að bókum og reikningum Ísfélagsins og rannsaka fjárhag þess. Að þeirri rannsókn lokinni afréð sýslunefnd að framlengja ekki ábyrgð sýslunnar fyrir víxilláninu nema hún fengi veð í láni, sem Íshúsfélaginu hafði verið heitið úr Landssjóði 1910 samkv. fjárlögum Alþingis 1909.
Það leið fram á sumarið 1909. Skuldir Ísfélagsins höfðu hlaðizt upp m.a. vegna þess, að félagsmenn höfðu ekki greitt framlög sín, greitt þá hluti í félaginu, sem þeir höfðu heitið og stjórnin gerði ráð fyrir í áætlunum sínum. Ýmsir reikningar og fylgibréf höfðu ekki borizt frá útlendum viðskiptavinum Ísfélagsins. Þetta með ýmsu öðru varð þess valdandi, að stjórnin dró það að halda aðalfund félagsins og gera skil fyrir framkvæmdaárið mikla 1908. Þennan drátt notuðu ýmsir sér til að rægja stjórnina, sérstaklega formann hennar, og gera starfið allt tortryggilegt. Þennan róg notuðu svo ýmsir útgerðarmenn í Eyjum sér til varnar, að þeir keyptu ekki hlut í félaginu, enda þótt þeir nytu reksturs þess og starfsemi.
Stjórnin var nú persónulega í ábyrgð fyrir víxillánum félagsins, er námu 12—13.000,00 króna. Firmað Sabroe í Árhúsum, sem seldi frystivélarnar, var sjálft útgefandi víxils að upphæð kr. 7.641,66, sem voru eftirstöðvar af andvirði vélanna. Það fékk nú veð í frystihúsinu fyrir láni þessu.
Í nóvember 1909 hafði verið safnað undirskriftum félagsmanna og skorað þar á stjórnina að halda aðalfund félagsins og leggja fram alla reikninga frá næstliðnu ári. Stjórnin átti í vök að verjast. Hún hlýddi kalli og hélt almennan aukafund í félaginu og skýrði þar frá því, að þau fylgiskjöl, sem hana hefði vanhagað um, hefðu þá nýlega borizt henni og reikningar yrðu því fullgerðir innan skamms. Á fundi þessum skýrði formaður frá því, að skuldir Ísfélagsins næmu þá kr. 23.000,00 og taldi fjárhag félagsins ekki slæman, þegar tekið væri tillit til eigna þess og allrar aðstöðu. Framlög Eyjamanna til framkvæmdanna eða hlutafé nam þá um 8.000,00. Ísfélagið átti þá útistandandi æði mikið fé, sem var andvirði lánaðrar beitu frá s.l. vertíð. Samtímis bárust stjórninni kröfur um greiðslur skulda við síldarseljendur. Þrátt fyrir hinn örðuga fjárhag buðust margir síldarframleiðendur til að selja Ísfélagi Vestmannaeyja beitusíld. Skulu þar nefndir t.d. A. Förland, Geir Zöega og Jóhannes Nordal, sem virðist ávallt hafa reynzt traustasti viðskiptavinurinn, sem Ísfélagið skipti við.


Myndin er af málverki, sem Engilbert Gíslason, málarameistari, gerði 1959 handa Byggðarsafni bœjarins, eitt af þrem.
Íshús Ísfélags Vestmannaeyja, hið fyrsta vélknúna á landinu, sést á myndinni, þar sem það stendur á Nýjabæjarhellu með stafna gegn norðri og suðri, kvist á vesturþekju og 4 glugga á vesturhlið. Húsið var byggt á steyptum kjallara, járnklætt timburhús. Tróðið í húsinu var hornhýði. Nýlunda var það hér í landi að einangra útveggi með því efni, sem reyndist að mörgu leyti mjög vel, ef hvergi komst raki að því.
Nœst sést vesturstafninn á Sjólyst.
Vikið næst á myndinni var nefnt „Anesarvik“. Það bar nafn af Anders Asmundsen, norskum skipstjóra, sem var fyrri maður Ásdísar húsfreyju í Stakkagerði, ömmu séra Jes A. Gíslasonar að Hóli. Asmundsen skipstjóri fórst á skútu sinni 1851. Hann hafði bjargað barni frá drukknun í viki þessu, og síðan var það við hann kennt.
Vikið skarst upp með Bratta að austan og náði langleiðina upp undir stœði Litlabœjar við Strandveg.


Nú nálgast hinn mikilvægi aðalfundur Ísfélags Vestmannaeyja, sem var haldinn 24. febr. 1910 í gamla Goodtemplarahúsinu, sem stóð á Mylluhólnum, þar sem Samkomuhús Vestmannaeyja stendur nú. Þegar fundagjörð félagsins frá árinu 1909 og fram til þessa aðalfundar er lesin ofan í kjölinn, kemur manni vissulega í hug presturinn, sem fór á laxveiðar. Hann hafði Dabba smala með sér til aðstoðar. Stór lax beit á flugu prestsins. Lengi leitaði presturinn lags til að ná veiðinni á þurrt. En þegar minnst vonum varði, sleit laxinn sig af færinu. Þá sagði prestur við Dabba: „Seg þú nú þau orð, sem við eiga, Davíð minn.“ Þetta skildi Dabbi smali og bölvaði stórum.
Mér verður líkt farið og presti, þegar ég les fundargjörðarbókina. Ég veigra mér við að segja það, sem mér kemur í hug og blasir við lesandanum. En við skulum koma á aðalfundinn. —
Fundarstjóri var kosinn Árni Filippusson.
Formaður félagsins, Gísli J. Johnsen, las upp reikninga félagsins fyrir árin 1908 og 1909 með 92 fylgiskjölum og athugasemdum endurskoðenda. Þá var þar glöggt yfirlit um fjárhag félagsins miðað við árslok 1909, skuldir þess og eignir. Á fundinum var líka lagður fram listi yfir skuldunauta félagsins og einstaka bátafélög, sem lagt höfðu fram fé, keypt hlutabréf, til þess að létta undir byggingu hins nýja frystihúss. Bæði voru reikningarnir og listar þessir skilmerkilegir og fullnægjandi. Formaður skýrði reikningana ítarlega, og fundu andstæðingar hans og rógberar engan höggstað og höfðu hægt um sig á fundinum, en vonuðu fastlega þó, að endalyktirnar yrðu þeim í vil. Nokkrar umræður urðu um reikningana, áður en þeir voru samþykktir. Það var gert með 19 atkvæðum gegn þremur.
Miklar umræður urðu á fundinum um það, hvernig skapa mætti þeim félagsmönnum, sem voru stofnendur gamla frystihússins, fjárhagslegt jafnrétti við hina, sem lagt höfðu fé til byggingar nýja, vélknúna frystihússins. Talað var um að gefa út ný hlutabréf til handa stofnendunum og tvöfalda á þeim nafnverð gömlu bréfanna. Endanlega varð þó ekkert út um það gjört.
Fjárhagur félagsins leyfði það, að hluthafar fengju 6% arð af hlutafé sínu gömlu og nýju og samþykkti aðalfundur það. Einnig var samþykkt að greiða stjórninni alls kr. 500,00, sem skyldi skoðast þóknun fyrir félagsstarfið á s.l. árum.
Það sem olli félagsstjórninni mestum erfiðleikum var rógur vissra manna í félaginu á bak stjórninni, og þá sérstaklega formanni hennar, Gísla J. Johnsen. Þessi rógur hafði meðal annars orðið þess valdandi, að sýslunefndin hafði kippt að sér hendinni með að veita ábyrgð sýslusjóðs fyrir láni, kr. 20.000,00, sem Ísfélaginu stóð til boða úr Viðlagasjóði, svo að greiða mætti þar með ýmsar aðkallandi skuldir félagsins og koma viðskiptum þess á traustan grundvöll. Þessi fyrirhugaða lántaka var nú enn tekin fyrir á fundinum og rædd. Síðan samþykkt svohljóðandi tillaga:
Fundurinn gefur stjórn félagsins umboð til þess að taka lán úr Viðlagasjóði, allt að 20.000,00 krónur og að fara fram á það við sýslunefndina hér, að veita ábyrgð þá, sem landsstjórnin setur sem skilyrði fyrir lánveitingunni, svo og að stjórninni sé heimilt, ef sýslunefndin krefst þess, að veðsetja eignir félagsins til tryggingar því, að sýslufélagið bíði eigi halla af að takast hér umrædda ábyrgð á hendur.
Þegar Ísfélag Vestmannaeyja hafði byggt hið nýja frystihús og aukið þar með starfsemi sína og starfssvið, þurfti nauðsynlega að setja félaginu ný lög. Almennur félagsfundur, sem haldinn var 7. febr. 1909, hafði kosið nefnd til þess að semja hin nýju félagslög. Nú var frumvarp til þessara nýju félagslaga lagt fram á aðalfundinum. Það var vandlega undirbúið og nú gengið til atkvæða um það. Allar greinar þess voru samþykktar mótatkvæðalaust nema 3. greinin. Var hún samþykkt með 27 atkv. gegn 5. Ekki er mér kunnugt, hvað þar bar á milli.
Síðan fór fram stjórnarkosning.
Gunnar Ólafsson var nú kosinn formaður Ísfélags Vestmannaeyja með 34 atkvæðum, féhirðir Árni Filippusson með 38 atkvæðum og meðstjórnendur Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum með 20 atkvæðum, Erlendur Árnason, Gilsbakka, með 17 og Jón Einarsson á Gjábakka með 12 atkvæðum.
Varamenn í stjórn Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson. Endurskoðendur urðu þeir Þórarinn Gíslason á Lundi og séra Jes A. Gíslason og til vara Jóhann Þ. Jósefsson.
Þannig launuðu þá útgerðarmenn í Eyjum Gísla J. Johnsen hans mikla og fórnfúsa starf fyrir Ísfélag Vestmannaeyja. Hann hafði til þessa fórnað félaginu óhemjumiklum tíma, neytt þekkingar sinnar á viðskiptum og tækni því til sköpunar og hagsbóta, lánað því fúlgur fjár úr eigin vasa, þegar öll önnur fjárhagssund voru lokuð, og gert yfirleitt allt, sem hugsazt gat og í mannlegu valdi gat staðið til þess að móta það og efla sýslufélaginu í heild til ómetanlegra hagsbóta. Nú varð hann að lúta í lægra haldi fyrir rógi vissra félagsmanna, sem hafði tekizt að gera hann tortryggilegan.

Í marzmánuði 1910 afréð stjórn Ísfélagsins að stofna til verzlunar með kjöt fyrir reikning félagsins. Var þá hinum nýja formanni félagsins falið að festa kaup á nýju kjöti á Austfjörðum og flytja til Eyja á strandferðabátnum Austra, sem hafði kælirúm. Jafnframt var almenningi í sýslufélaginu gefinn kostur á að geyma fisk í íshúsinu í nokkra daga og skyldi gjaldið fyrir geymsluna vera hálfur annar eyrir á pundið (3 aurar á kg.), ef geymslutími væri styttri en vika. Fyrir lengri tíma skyldi taka tvöfalt gjald. Lítið eða ekkert varð af verzlun með kjöt að þessu sinni.
Vorið 1910 var undirbúin lántakan úr Landssjóði og stóð nú ekki á sýslufélaginu að ganga í ábyrgð fyrir láninu.
Þetta haust buðust ýmsir til að kaupa gamla íshúsið af félaginu og vildu breyta því í íbúðarhús. Hæsta tilboð var kr. 900,00. Það þótti stjórninni og félagsmönnum of lítið verð og afréðu að gera það heldur vel úr garði og geyma í því snjó og ís til öryggis útvegi Eyjamanna.
Þetta haust var gengið hart að því að innheimta skuldir, sem félagsmenn stóðu í við Ísfélagið vegna síldarkaupa. Var mönnum hótað málssókn, ef þeir greiddu ekki.

Starfsmenn Ísfélagsins voru nú: Högni Sigurðsson, sem áður, aðalvélstjóri, og honum til aðstoðar var Björn Bjarnason frá Hlaðbæ, síðar útgerðarmaður og búandi í Bólstaðarhlíð. Eftir áramótin 1911 var árskaup Högna hækkað úr kr. 800,00 í kr. 1.000.00 og árskaup Björns í kr. 600,00 eða kr. 50 á mánuði.
Það var ávallt bundið nokkrum erfiðleikum að festa kaup á góðri beitu handa íshúsinu og fá hana flutta til Eyja óskemmda. Í marzmánuði 1911 var beituskortur í Eyjum. Þá boðuðu útgerðarmenn og sjómenn til almenns fundar í Þinghúsi hreppsins og var stjórn Ísfélags Vestmannaeyja boðið á þann fund. Mun hún þar hafa fengið ýmis miður hefluð orð í eyra. Skorað var á hana að festa þá þegar kaup á allt að 20.000 pundum (10 smálestum) beitusíldar. Þá var mjög erfitt að fá síld keypta í landinu. Stjórnin virðist þá hafa verið algjörlega úrræðalaus. Bauðst þá Gísli J. Johnsen til þess að útvega Ísfélaginu síld frá Englandi. Eftir hinn almenna fuad í þinghúsinu skrifaði stjórn Ísfélagsins Gísla J. Johnsen svolátandi bréf:

Vestmannaeyjum, 9. marz 1911.
Herra konsúll, Gísli J. Johnsen, Vestmannaeyjum.

Í tilefni af yfirvofandi beituskorti hér, ályktun almenns fundar útvegsbænda og sjómanna haldinn í dag og tilboði yðar á þeim fundi, leyfir stjórn „Ísfélags Vestmannaeyja“ sér hér með að biðja yður að útvega Ísfélaginu svo fljótt sem unnt er 20—30 þúsund pund beitusíldar frá Englandi eða annars staðar að á þann hátt, sem þér teljið hagkvæmast fyrir félagið og sjávarútveg Vestmannaeyja, eftir þeim núverandi kringumstæðum, sem yður eru kunnar.

Virðingarfyllst
Árni Filippusson,
Jón Einarsson,
Erlendur Árnason,
Magnús Guðmundsson.

Enda þótt Sigurður Sigurfinnsson sæti þennan fund stjórnarinnar í fjarveru formannsins, Gunnars Ólafssonar, sem þá var á þingi, skrifar hann ekki undir fundargerð þessa. Hann var varamaður í stjórninni, eins og áður er fram tekið.
Eftir stjórnarbyltinguna í Ísfélagi Vestmannaeyja 24. febr. 1910, komst brátt til tals á stjórnarfundi að breyta þá þegar hinum nýju lögum félagsins.
Á aðalfundi 25. maí 1911 bar stjórnin fram breytingatillögur við fjórar greinar félagslaganna. Þær voru samþykktar og lögin síðan prentuð eins og þau þá voru endanlega samþykkt.
Ég afræð að birta þau hér, þar sem hér er um að ræða mjög mikilvæg og merkileg félagssamtök, sem byggt hefur og rekur fyrsta vélknúna frystihúsið í landinu.

II. hluti