Blik 1978/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

Framhald, (3. hluti)



26. kafli


Kolur og kertastjakar, ljósker og lampar.


1137. Steinkola, lítil, sem fannst í fornum moldarkofa á Kirkjubæjum fyrir mörgum árum. Hún gæti verið nokkur hundruð ára gömul eða frá miðöldum.
1138. Steinkola úr blágrýti. Hún er brotin. Hún fannst í jörðu á Kirkjubæjum á síðari hluta 19. aldar og var löskuð, eins og sjá má. Hún gæti verið frá fyrstu árum Vestmannaeyjabyggðar.
1139. Steinkola. Þessi steinkola fannst í jörðu, þegar grafið var fyrir húskofa að Miðstræti 9 C, þar sem tómthúsið Veggur hefur staðið um tugi ára. Nú munu liðin um 100 ár, síðan steinkolan fannst eða fyrst var hafizt handa að byggja á þessari húslóð. — Ingibergur Friðriksson, verkstjóri frá Batavíu (nr. 8) við Heimagötu, fann hana í gömlum kofa, en hann bjó um árabil að Miðstræti 9 C, húsinu Vegg, og gaf hana Byggðarsafninu.
1140. Steinkola, efnismikil og þung. Hún fannst í jörðu á Vilborgarstöðum um aldamótin síðustu. Hún mun hafa verið notuð þar í gömlum smiðjukofa, sem bóndahjónin Einar Sigurðsson og frú Vigdís Guðmundsdóttir byggðu þar, en þau voru bóndahjón á Vilborgarstöðum á fyrri hluta 19. aldar. Vigfús Pálsson Scheving, bóndi á Vilborgarstöðum, fann kolu þessa og gaf Byggðarsafninu hana árið 1936.
1141. Steinkola, sem telgd hefur verið úr móbergssteini. Hún fannst í öskuhaug nyrzt í Stakkagerðistúni árið 1968, þegar Hilmisgatan var breikkuð. Þarna gegnt húsinu Arnardrangi (nr. 11) við Hilmisgötu stóð bær hjónanna frú Guðríðar Símonardóttur (Tyrkja-Guddu) og Eyjólfs Sölmundarsonar. Og öskuhaugur þeirra var þarna skammt frá bænum, eins og tíðkaðist um aldir á landi voru. Allar líkur eru til þess, að þau hjónin hafi átt steinkolu þessa, en hér er aðeins eftir brot af henni.
1142. Lýsiskola úr látúni. Hún er eins og þær gerðust fullkomnastar, „yfirlampi“ og „undirlampi“. Í „yfirlampanum“ var eldsneyti (hákarlalýsi, sellýsi eða þorskalýsi), og lá kveikurinn (fífukveikur) fram í stútinn. „Undirlampinn“ var til þess gjörður að taka við leka, ef ljósmetið kynni að leka frá ljósinu. Lýsislampa þennan áttu hjónin í Norðurgarði frú Árný Einarsdóttir og Einar bóndi Jónsson. Frú Guðbjörg Einarsdóttir, húsfr. í Norðurgarði eftir foreldra sína, gaf Byggðarsafninu hlutinn. Lýsislampi þessi er ársettur 1894.

Hér á landi féllu lýsislampar almennt úr notkun eftir 1870, þegar steinolía tók að flytjast til landsins. Þó var þetta býsna misjafnt eftir landshlutum og byggðum. Lýsislampar og grútarkolur voru ýmist smíðaðir úr eirblöndu, látúni eða járni, eftir að landsmenn hættu að notast við steinkolurnar.
1143. Grútarlampi úr látúni, einfaldur að gerð. Þeir voru helzt notaðir í peningshúsum (fjárhúsum eða fjósum). Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti, gaf Byggðarsafninu þennan grútarlampa. Hann er úr dánarbúi frú Helgu Skúladóttur frá Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði, en hún var prestsmaddama á Kálfafellsstað í Suðursveit á árunum 1892—1926 og tengda móðir Sigfúsar, kona séra Péturs Jónssonar sóknarprests á Kálfafellsstað.
1144. Grútarkola, lýsislampi. Grútarkola þessi fannst í kjallara hússins nr. 8 við Heimagötu, sem áður fyrr hét Brandshús og síðar Batavía. Friðrik Guðmundsson, vélstjóri, sem bjó þar með konu sinni frú Sigríði Guðmundsdóttur, um tugi ára, fann þennan grútarlampa þar og gaf hann Byggðarsafninu.
1145. Grútarlampi. Þetta er aðeins „undirlampi“. Hjónin á Búastöðum, Lárus Jónsson og frú Kristín Gísladóttir, notuðu hann í fjósinu sínu fyrstu 20 ár búskapar síns á Búastöðum eða frá 1870—1890.
1146. Borðlampi með kúpli. Þennan olíulampa áttu hjónin í Klöpp (nr. 16) við Njarðarstíg, frú Sigurbjörg Sigurðardóttir og Kristján Ingimundarson (Sjá Blik 1976, bls. 209—215). Gefendur: Hjónin frú Svava Hjálmarsdóttir og Alfons Björgvinsson.
1147. Borðlampi. Þennan lampa áttu hjónin á Búastöðum frú Júlíana Sigurðardóttir húsfr. og Pétur Lárusson bóndi.
1148. Hengilampi úr borðstofu hjónanna í Laufási (nr. 5) við Austurveg, frú Elínborgar Gísladóttur og Þorsteins útgerðarmanns og formanns Jónssonar. Þau gáfu Byggðarsafninu þennan olíulampa.
1149. Hengilampi. Þennan olíulampa áttu hjónin í Stórhöfða, frú Guðfinna Þórðardóttir og Jónatan vitavörður og hómópati Jónsson. Þennan stofulampa þeirra gáfu börn þeirra Byggðarsafninu eftir fráfall hjónanna.
1150. Hengilampi. Þessi hengilampi hékk um tugi ára í „stássstofunni“ í Ásgarði (nr. 29) við Heimagötu, heimili þeirra kunnu hjóna í Eyjum, Árna gjaldkera Filippussonar og frú Gíslínu Jónsdóttur. Dætur þeirra, frúrnar Katrín og Guðrún, gáfu Byggðarsafninu lampann.
1151. Gaslukt. Ljósker þetta hékk í Austurbúðinni og var notað þar síðustu 20—30 árin, áður en Eyjafólk fékk rafmagn til nota. Það var árið 1916. Ljósker þetta lýsti upp búðina og hitaði hana jafnframt.
1152. Gaslugt. Ljósker þetta hékk á suðvesturhorni verzlunarhúss Austurbúðarinnar og lýsti þar viðskiptavinunum og öðru farandi fólki þar um slóðir.
1153. Götulugt, gasljósker. Þetta ljósker var fest á húshorn við Strandveginn um eða eftir aldamótin síðustu. Næturmyrkrið á vertíðum hafði ávallt verið sjómönnum hvimleitt og jafnvel háskasamlegt þarna niður við Voginn, í króarsundum og naustum, á klöppum og þangvöxnum skerjum. Um og eftir aldamótin var tekið að lýsa upp Strandveginn og umhverfi hans með gaslugtum. Hér eigum við eina þeirra, sem hékk á húshorni í nánd við Hrófin, uppsátrið nafnkunna. Kippt var í vírspotta, og þá kviknaði ljós. Og þegar birti að degi, var aftur kippt í spottann og slökkt á lugtinni.
1154. Ljósastaur. Um eða rétt eftir aldamótin voru nokkrir slíkir ljósastaurar reistir meðfram Strandveginum, þar sem sjómenn á vertíðum þurftu mest á birtu að halda. Á staurum þessum héngu gaslugtir og hjálmur yfir. Niður frá gaslugtinni hékk vírspotti. — Þá var næturvörður í verstöðinni. Eitt af skylduverkum hans var m.a. að kippa í spottann, þegar skyggja tók að kvöldi og kveikja á götulugtunum. Áður en hann fór af vakt á morgnana, gætti hann þess, að slökkva á ljóskerunum.
1155. Húslugt. Húslugtir voru svo að segja til á hverju heimili, áður en rafljósin komu til sögunnar og lýstu gangandi fólki. Sérlegt fyrirbæri við kirkjuferðir í Eyjum voru húslugtirnar, sem hver heimilisfaðir eða einstæður kirkjugestur hafði með sér, þegar gengið var til Landakirkju að kvöldlagi, t.d. til aftansöngs. Húslugtunum var raðað í anddyri Landakirkju og voru þar þá iðulega í tugatali meðan hin kirkjulega athöfn átti sér stað.
Þessi húslugt er útlend, keypt í Verzlun Gísla J. Johnsen árið 1905. Hana átti um árabil Guðlaugur bóndi og formaður Jónsson í Gerði.
1156. Húslugt. Þessa húslugt átti Magnús Guðmundsson í Hlíðarási (nr. 3) við Faxastíg. Hann smíðaði sjálfur þessa húslugt og notaði hana og heimilisfólk hans um langt árabil.
1157. Húslugt. Hún er af erlendri gerð. Hana átti hreppstjóraheimilið í Baldurshaga (nr. 5) við Vesturveg. Frú Ingibjörg Högnadóttir gaf Byggðarsafninu lugtina.
1158. Kertastjakar tveir úr eirblendi. Þessa kertastjaka áttu prestshjónin á Ofanleiti (1860—1884) séra Brynjólfur Jónsson, sóknarprestur, og madd. Ragnheiður Jónsdóttir. Presturinn lézt árið 1884. Áður en prestsfrúin fluttist frá Eyjum árið 1885 efndi hún til uppboðs á ýmsum munum úr búi þeirra prestshjónanna. Þá voru þessir kertastjakar keyptir. Þeir voru gefnir Byggðarsafninu um það bil 80 árum síðar.
1159. Náttlampi. Þennan náttlampa áttu héraðslæknishjónin á Kirkjuhvoli (nr. 65) við Kirkjuveg Halldór Gunnlaugsson og frú Anna P. Gunnlaugsson, sem var dönsk.
1160. Náttlampi. Hann er mjög gamall og smíðaður úr látúni. Hreppstjórahjónin í Baldurshaga (nr. 5) við Vesturveg, Högni Sigurðsson og frú Marta Jónsdóttir, áttu þennan lampa. Þau höfðu eignazt hann, áður en þau fluttu frá Seljalandi undir Eyjafjöllum til Eyja árið 1902. Högni hreppstjóri var frá Barkarstöðum í Fljótshlíð. Hann lézt 1923. — Frú Marta kona hans var frá Eystri-Sólheimum í Mýrdal, f. 31. des 1867 og d. 12. okt. 1948.
1161. Týra. Þessi opnu eða glaslausu ljóstæki voru kölluð týrur. Þessi týra er dönsk að gerð og uppruna. Hún barst Byggðarsafninu úr dánarbúi héraðslæknishjónanna að Kirkjuhvol: (nr. 65) við Kirkjuveg.
1162. Týra. Þessi týra er ramíslenzk að gerð: Blekbytta með korktappa í stút og málmpípu gegnum tappann. Þar liggur kveikurinn, gjörður úr mismunandi efni.
1163. Kertahald. Svona kertahaldi var stungið t.d. í rúmstuðul eða rúmmara, gluggapóst eða í gat á vegg.
— Jón Vigfússon, bóndi og líkkistusmiður í Túni, smíðaði þetta kertahald og skar það út. Þá var hann unglingur að alast upp í Stakkagerði og víðar í Eyjum, f. 1836. (Sjá Blik 1958, greinina Traustir ættliðir, bls. 13—31).
1164. Kertastjaki. Hann er smíðaður úr hreindýrshorni. Hann er austfirzkur að uppruna og smíðaður um miðja 19. öldina með kertastjaka frá Sömum (Löppum) að fyrirmynd.


27. kafli


Þvottatæki


1165. Þvottavél. Hún er handsnúin. Árið 1912 fékk Verzlun Gísla J. Johnsen í Eyjum eða Edinborgarverzlunin sendar 10 þvottavélar af nýjustu gerð frá hinu þýzka, fræga framleiðslufirma Alexanderverk. Níu af þvottavélum þessum keyptu bændur og útgerðarmenn mjög bráðlega, en ein vélanna varð eftir óseld. Hún var á sínum tíma flutt á hanabjálkaloft verzlunarhússins. Þar var hún geymd árum saman, þar til Byggðarsafnið hlaut eignarrétt á henni. Þá var hún hálfrar aldar gömul eða vel það.
1166. Taurulla. Þessa taurullu, sem er af gamalli, danskri gerð, smíðaði Jón bóndi og líkkistusmiður Vigfússon í Túni. Fyrirmyndin að smíðinni var taurulla sú, sem lengi var notuð hér í Danska-Garði hjá einokunarkaupmanninum. Sú rulla var flutt inn frá Danmörku um miðbik 19. aldar. — Kassinn var fylltur grjóti. Undir kassanum eru kefli og var þvotturinn undinn um þau, þegar rullað var.
Stæltur karlmaður var venjulega hjálparhella kvenna við þessar athafnir. Svo erfitt þótti verkið og átakasamt.
Taurullu þessa smíðaði Jón bóndi um 1870. Hún var notuð í Túni, þar til hún var gefin Byggðarsafninu um 1960.
1167. Taurulla. Þessa útlendu taurullu áttu hjónin á Skaftafelli (nr. 62) við Vestmannabraut, frú Halldóra Þórólfsdóttir og Guðjón Hafliðason, skipstjóri og útgerðarmaður. Þessi tæki voru algeng á heimilum hér á árunum 1920—1960.
1168. Taurulla. Þessa taurullu áttu hjónin í Þinghól (nr. 19) við Kirkjuveg, frú Margrét Sigurðardóttir og Ólafur Auðunsson, útgerðarmaður og kaupmaður. Frú Solveig Ólafsdóttir húsfr. í Þinghól, dóttir hjónanna, gaf Byggðarsafninu rulluna.
1169. Taurulla. Þetta tæki áttu hjónin á Vesturhúsum vestri, frú Jórunn Hannesdóttir bónda og hafnsögumanns Jónssonar á Miðhúsum, og Magnús bóndi og formaður Guðmundsson bónda Þórarinssonar á Vesturhúsum. Jórunn húsfreyja gaf Byggðarsafninu rulluna.
1170. Þvottabali. Þennan þvottabala smíðaði Brynjólfur Brynjólfsson, beykir og síðar ráðsmaður Sjúkrahúss Vestmannaeyja, Litlalandi (nr. 59) við Kirkjuveg. Sigurður verkamaður Árnason á Hofsstöðum (nr. 30) við Brekastíg, gaf Byggðarsafninu balann.
1171. Þvottabretti með bárufleti úr gleri. Brettið áttu hjónin á Gömlu-Heiði (nr. 34) við Heimagötu, frú Guðríður Jónsdóttir frá Káragerði í Landeyjum og Sigurður Sigurfinnsson, bóndi og hreppstjóri.
1172. Þvottabretti með bárufleti úr áli. Þetta bretti fannst á sínum tíma í gömlu íbúðarhúsi hér í bæ, sem ekki hafði verið búið í nokkur ár, þegar hlutur þessi fannst þar.
1173. Þvottaklappa. Hún er merkt stöfunum K.M.D. Það er fangamark frú Kristínar Magnúsdóttur húsfr. í Litlabæ (nr. 16) við Miðstræti, konu Ástgeirs Guðmundssonar formanns og bátasmiðs. Þvottaklöppur voru notaðar til að klappa t.d. vinnuföt, sem verið var að þvo og erfitt reyndist að losa við öll óhreinindi.
1174. Þvottaklappa. Þessa þvottaklöppu átti frú Málfríður Árnadóttir húsfr. á Fögruvöllum, kona Guðlaugs Hanssonar verkamanns og bræðslumanns í Eyjum um árabil.
1175. Þvottakanna og -fat. Þvottastell voru þessir samstæðu hlutir venjulega kallaðir á danska vísu, enda voru það Danir, sem fyrstir fluttu þessa hluti til landsins. Meðan Eyjafólk var að notast við rigningarvatn einvörðungu í heimilum sínum og jafnframt útisalerni eða kamra, voru þessi þvottatæki algeng a.m.k. á hinum efnaðri heimilum. Auðvitað voru þá heldur engar fastar handlaugar til á heimilunum. — Vatnið var borið fram í könnunni og fatið var þvottaskálin, þegar andlit, hendur og stundum líkaminn allur var þvegið. Eftir að innisalerni („klósett“) urðu almenn á heimilunum og fastar handlaugar með rennandi neyzluvatni frá fastalandinu, hurfu þessi þvottaáhöld gjörsamlega.
Þessi þvottatæki bárust Byggðarsafninu úr dánarbúi hjónanna í Hlíð (nr. 4) við Skólaveg, Jóns útgerðarmanns Jónssonar, rithöfundar, og frú Þórunnar Snorradóttur. Dóttir þeirra, frú Ásta Jónsdóttir, Sólhlíð 6, gaf Byggðarsafninu þessa hluti.
1176. Þvottakanna, -fat og grind. Þessi þvottartæki eða „snyrtitæki“ geymum við öðrum þræði til að sýna og sanna nýtni fólks, meðan þjóðin bjó við kröpp kjör og hafði ekki mikla möguleika til þess að bæta sér óhöpp, sem stundum áttu sér stað, þó að í smáu væri. Allt skyldi nýtast til hins ýtrasta. — Hér hefur það óhapp hent, að þvottaskálin hefur brotnað og engin voru tökin á að kaupa nýtt „þvottastell“. Þá var gripið til þess ráðs að bora þvottafatið og festa brotin saman með saumum. Gripið var einnig stundum til þessara ráða til þess að nota lengur matarílát, sem brotnað höfðu.
1177. Þvottapottur með eldstó. Þessi gerð þvottapotta er með þeim elztu, sem fluttust til landsins á þriðja áratug þessarar aldar.


28. kafli


Göngustafir og mannbroddar


1178. Göngustafur úr harðviði. Stafinn átti Guðjón skipstjóri Jónsson á Heiði (nr. 19) við Sólhlíð (Stóru-Heiði). Guðjón var á sinni tíð einn af kunnustu sjósóknurum bæjarins. Frú Bjarngerður Ólafsdóttir, síðari kona Guðjóns skipstjóra, gaf Byggðarsafninu stafinn að honum látnum.
1179. Göngustafur, merktur gullnum stöfum: P.B. Staf þennan átti Páll skólastjóri Bjarnason, sem var skólastjóri barnaskólans hér í bæ á árunum 1920—1938. Hjónin á Svalbarða, frú Anna Tómasdóttir og Bjarni Jónsson, gáfu skólastjóranum stafinn í þakklætisskyni. Frú Dýrfinna Gunnarsdóttir, ekkja skólastjórans, gaf Byggðarsafninu stafinn.
1180. Göngustafur. Þessi stafur var á sínum tíma vinnuhjúaverðlaun Búnaðarfélags Íslands til handa Bjarna Þorsteinssyni, vinnumanni í Gvendarhúsi, fyrir langa og dygga þjónustu við það heimili. Húsbændur hans voru hjónin í Gvendarhúsi, Jón bóndi Jónsson og frú Sesselja húsfr. Jónsdóttir, hálfsystir Hannesar Jónssonar hafnsögumanns á Miðhúsum. — Þessi vinnuhjúaverðlaun voru veitt árið 1915. Þá hafði Bjarni Þorsteinsson verið vinnumaður í Gvendarhúsi nálega 30 ár. Hann lézt árið 1916.
Valdimar formaður Árnason, Sigtúni (áður nr. 53 við Strandveg, nú nr. 28 við Miðstræti), gaf Byggðarsafninu stafinn.
1181. Göngustafur. Þennan staf átti Ingimundur útvegsbóndi og hreppstjóri Jónsson á Gjábakka. Hann kvæntist Margréti heimasætu Jónsdóttur á Gjábakka árið 1858. Þau minntust 50 ára hjúskapar síns árið 1908. Þá gáfu Vestmannaeyingar þessum merka samborgara sínum þennan göngustaf. Á hann er letrað: 1858—1908. Jón Stefánsson sjómaður í Mandal, dóttursonur hjónanna á Gjábakka, gaf Byggðarsafninu stafinn.
1182. Göngustafur. Þessi stafur var vinnuhjúaverðlaun frá Búnaðarfélagi Íslands frá árinu 1928. Á stafinn er letrað: H.E. 1928.
1183. Göngustafur. Hann er merktur gullnum stöfum: Á.F. — Staf þennan átti Árni gjaldkeri Filippusson í Ásgarði (nr. 29) við Heimagötu. Kennarar barnaskólans í Vestmannaeyjum gáfu honum stafinn til minningar um hið mikla og góða starf, sem hann innti af hendi til eflingar barnaskólanum í byggðarlaginu, þegar hann var formaður skólanefndar Vestmannaeyja á árunum 1916 til dauðadags 1932. Á.F. átti drýgstan þáttinn í því, að barnaskólinn eignaðist hið stóra skólahús á fyrstu árum hans í formannsstöðu þessari.
Á stafinn er skráð auk fangamarksins: Þökk og heiður, 17/3 1926, en þann dag var skólanefndarformaðurinn 70 ára gamall.
1184. Mannbroddar. Þegar þeir voru með þessu lagi, voru þeir jafnan nefndir fjallajárn. Þeir voru til á mörgum bændaheimilum í Eyjum fyrr á tímum og notaðir í göngum við fé t.d. í Heimakletti, Klifi og sumum úteyjunum, þar sem fé gekk til beitar fram á vetur eða jafnvel allan veturinn. — Þorsteinn Jónsson, skipstjóri í Laufasi (nr. 5) við Austurveg, gaf Byggðarsafninu þessi fjallajárn. Sjálfur hafði hann notað þau á uppvaxtarárum sínum hér í Eyjum.
1185. Mannbroddar. Þessa mannbrodda gaf Brynjólfur Brynjólfsson á Litlalandi (nr. 59) við Kirkjuveg, Byggðarsafninu. Þeir eru sagðir mjög gamlir.
1186. Mannbroddar. Þessir mannbroddar munu hafa verið smíðaðir á sinni tíð austur í Mýrdal. Sigurgeir Sigurðsson, símaverkstjóri hér í kaupstaðnum, gaf Byggðarsafninu mannbrodda þessa.
1187. Handfang af göngustaf. Það hefur verið listilega gert, skorið út úr hvalbeini. Það fannst vestur í hrauni hér á Heimaey fyrir mörgum árum. Frú Sesselja Lúðvíksdóttir bakarameistara Jónssonar, gaf Byggðarsafninu hlutinn.
1188. Hnúður eða handfang af göngustaf, með þessu letri: „20/4 1871“. Við vitum engin deili á sögu þessa hlutar.


29. kafli


Bitafjalir og nafnsskilti


1189. Björg. Nafnskilti af sexæringnum Björgu eða „Mandalsbjörgu“, eins og fleyta þessi var nefnd í daglegu tali Eyjasjómanna. Aðaleigandi og formaður á báti þessum var Jón útgerðarmaður í Mandal, fyrrum kunnur hákarlaformaður í Eyjum. Kunn í verstöðinni var bitavísa Bjargar, sem þótti vel kveðin:

Björg skal heita hlunnadýr.
Hættum frá og grandi
leiði drottins höndin dýr
hana á sjó og landi.

Sá hét Magnús Loftsson, sem orti þessa bitavísu. Hún var skorin út í fjöl, sem fest var framan á þóftuna milli skutar og austurrúms, öftustu þóftuna í bátnum.
1190. Björgvin. Nafnskilti þetta stóð um tugi ára á tómthúsinu Björgvin (nr. 3) við Sjómannasund. Saga tómthúss þessa er birt í Bliki 1959, bls. 148—152. Árni Árnason, símritar skráði.
1191. Austri. Þetta nafnskilti er af v/b Austra VE-99, sem var fyrst gerður hér út á vertíð árið 1907. Hann var 7,7 rúmlestir að stærð og smíðaður í Danmörku. Formaður bátsins var Helgi Guðmundsson, útgerðarmaður í Dalbæ (nr. 9) við Vestmannabraut.
Eigendur vélbátsins voru sex. Bátur þessi var gerður út frá Eyjum nær tvo áratugi.
1192. Bergþóra. Þetta nafnskilti af v/b Bergþóru VE-88, sem var fyrst gerður hér út vertíðina 1906. Báturinn var 8 smálestir með 10 hestafla Dan-vél.
Eigendur voru fimm. Formaður á bátnum var Magnús útgerðarmaður Þórðarson í Dal (nr. 35) við Kirkjuveg. Vélbátur þessi sökk 20. febr. 1908. Þá var hann með bilaða vél í togi brezks togara, sem vildi bjarga honum til lands. Skipshöfnin bjargaðist.
1193. Fortúna. Nafnskilti af áttæringnum Fortúnu, sem Sigurður formaður og útgerðarmaður Ólafsson í Bólstað (nr. 18) við Heimagötu var formaður á 30 vertíðir, fyrst undir Eyjafjöllum, þá í Landeyjum, og síðast í Eyjum. Ekkja hans, frú Auðbjörg Jónsdóttir, Bólstað, gaf Byggðarsafninu skiltið. Þau hjón fluttu hingað til Eyja árið 1909. Hann stundaði hér smíðar og útgerð. (Sjá Blik 1959, bls. 152—154).
1194. Friðþjófur. Þetta nafnskilti er af hinu nafnkunna áraskipi Friðriks Svipmundssonar á Löndum (Stóru-Löndum, nr. 11) við Landagötu. Það á sína sögu. Það er lagt gulli.
Þegar Engilbert Gíslason, málarameistari hér í bæ, stundaði málaranám í Kaupmannahöfn um og eftir síðustu aldamót, barst honum beiðni frá Friðriki Svipmundssyni, formanni og útgerðarmanni, að hann léti leggja stafi bátsnafnsins gulli. — Engilbert Gíslason kom heim frá námi í Kaupmannahöfn árið 1903. Hafði hann þá hið gulli lagða skilti með sér til Eyja.
— Árið 1906 festi Friðrik Svipmundsson ásamt fimm öðrum Eyjamönnum kaup á vélbáti í Danmörku. Sá bátur var fyrst gerður hér út vertíðina 1907. Hann hlaut nafnið Friðþjófur, og á hann var þá sett þetta skilti. Fleiri vélbáta átti Friðrik Svipmundsson síðar með þessu nafni.
Frú Elín Þorsteinsdóttir, kona Friðriks Svipmundssonar, gaf Byggðarsafninu skiltið eftir fráfall manns síns.
1195. Frí. Þetta er nafnskilti af vélbátnum Frí VE-101, sem reyndist einhver mesta óhappafleyta, sem til Eyja hefur flutzt. Matthías Finnbogason vélsmíðameistari frá Litlu-Hólum í Eyjum (nr. 24 við Hásteinsveg) sagði mér þessa sögu um bát þennan: Bátur þessi var smíðaður í Svíþjóð, keyptur þar og fluttur til Fredereksund í Danmörku. Þar kom það í hlut Matthíasar Finnbogasonar að setja nýja vél í bátinn, en hann var þá að læra vélsmíði í Danmörku. Síðan var hann látinn fara með bátinn til Helsingjaeyrar ásamt öðrum manni. Þar beið bátsins skipsferð heim til Íslands. Á leiðinni til Helsingjaeyrar bilaði nýja vélin í bátnum, svo að þeir urðu að sigla honum. Á leiðinni hvessti mjög, svo að stögin slitnuðu, siglutréð brotnaði og allur reiðinn féll fyrir borð. Eftir 38 klukkustunda hrakning náðu þeir höfn í Helsingjaeyri. Gufuskipið Vesta flutti síðan bátinn á þilfari til Íslands. Þegar lyfta skyldi bátnum á þilfar, orkaði ekki skipsvindan að lyfta honum. Varð þá Matthías að taka vélina úr bátnum. Ungur Dani var fenginn til hjálpar við það starf. Við það verk handleggsbrotnaði hann.
Gufuskipið Vesta flutti síðan bát og vél til Eskifjarðar. Skipið var á leið til Reykjavíkur norður um land. Þess vegna var báturinn settur á land á Eskifirði. Þegar bátnum skyldi lyft af skipsfjöl, tókst svo illa til, að bátsmaður skipsins lenti með hendi í vindu skipsins. Stýrimaður hljóp til og vildi hjálpa honum. Þarna missti bátsmaðurinn lífið og stýrimaðurinn aðra hendina. —
Eyjamenn voru síðan sendir austur á firði til að sækja vélbátinn.
Upprunalega voru eigendurnir fimm að þessum báti. Einn þeirra var Guðjón Þorvaldsson, sem þá bjó á Garðsstöðum við Sjómannasund (nr. 5). Hann byggði síðar Stakkahlíð, sem verið hefur lyfjabúð Vestmannaeyja síðan 1913.
Guðjón Þorvaldsson var formaður á v/b Frí fjórar vertíðir. Hann fluttist til Ameríku með fjölskyldu sína árið 1910. — Vélbátur þessi var stækkaður árið 1914, og var þá nafnskiltið tekið af honum. Ekki var það látið á hann aftur. Bátur þessi fórst með allri áhöfn 3. marz 1918. Talið var, að hann hefði farizt á boðanum Breka vestur af Heimaey.
1196. Svanur. Þetta er nafnskiltið af hinum nafnkunna áttæring hér í Eyjum á síðari hluta 19. aldarinnar. Áttæringurinn Svanur var smíðaður árið 1868. Eigendur voru þá þrír: Guðmundur Erlendsson í London (nr. 3) við Miðstræti, Jón Vigfússon, bóndi og smiður í Túni, og Lárus Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Búastöðum.
Fyrstu sjö árin var Guðmundur Erlendsson formaður á bátnum eða til dánardægurs 1875. Eftir það voru þessir kunnu Eyjamenn formenn á Svan: Jón bóndi Vigfússon í Túni, Guðjón Jónsson, formaður í Sjólyst (nr. 41) við Strandveg, og síðast Ástgeir Guðmundsson, bátasmiður, Litlabæ. Áttæringur þessi var gerður út hér fram yfir síðustu aldamót eða milli 30 og 40 ár. Þá var hætt að stunda á honum fiskveiðar eins og öðrum áraskipum hér, þar sem vélbátaútvegurinn ruddi sér svo mjög til rúms. Svanur var eftir það notaður mikið til flutninga á fé milli Heimaeyjar og Úteyja. Þau urðu örlög nokkurra fleiri hinna opnu skipa í Eyjum, eftir að vélbátaútvegurinn ruddi sér til rúms fyrsta tug aldarinnar.
Nafnskilti þetta gaf Byggðarsafninu frú Anna Eiríksdóttir frá Vegamótum (nr. 4) við Urðaveg, dóttir Eiríks Hjálmarssonar, kennara.
1197. Dagmar. Þetta nafnskilti er af áttæringnum Dagmar, sem Jón bóndi Pétursson í Þórlaugargerði smíðaði árið 1903. Hann var sjálfur formaður á þessum báti um sinn. Síðasti formaður á honum var Guðjón Guðjónsson í Sjólyst (nr. 41) við Strandveg, — vertíðina 1906. Jón Pétursson skar út nafnið og svo ártalið 1903.
1198. Pipp. Nafnskiltið er af v/b Pipp VE-1. Eigendur þessa báts voru þrír: Bjarni Jónsson, gjaldkeri á Svalbarða, Gísli J. Johnsen, kaupmaður og Magnús Jónsson á Sólvangi, sem var formaður á bátnum frá byrjun (1926) til 1929. Þá gerðist sonur hans, Kristinn, formaður á bátnum og var það næstu 12 vertíðirnar. Pipp var 15 rúmlesta bátur með 40 hestafla Dan-vél.
1199. Skallagrímur. Skiltið er af v/b Skallagrími VE-231. Fimm útgerðarmenn munu hafa átt bát þennan í félagi. Stefán Björnsson í Skuld (nr 40) við Vestmannabraut, var skipstjóri á bátnum í 11 vertíðir og síðar Magnús skáld Jakobsson, vélsmiður, 9 vertíðir. Bátur þessi var 14,75 rúmlestir að stærð með 22 hestafla Alfa-vél.
1200. Svalan. V/b Svalan VE-27 var fyrst gerður út hér í Eyjum árið 1926. Formaður á honum fyrstu tvær vertíðirnar var Sighvatur skipstjóri Bjarnason í Ási (nr. 49) við Kirkjuveg, síðar forstjóri Vinnslustöðvarinnar um árabil.
1201. Gulltoppur. Þetta er nafnskilti af v/b Gulltopp VE, sem þeir áttu saman Sæmundur Jónsson frá Jómsborg og Jóhann Vilhjálmsson frá Selalæk (nr. 26) við Vesturveg. Árið 1935 var Benóný Friðriksson frá Gröf (nr. 7) við Urðaveg (Binni í Gröf) skipstjóri á þessum vélbát.
1202. Hannes lóðs. Skiltið er af v/b Hannesi lóðs VE-200. Jóhann Pálsson, skipstjóri og útgerðarmaður, átti bát þennan og gerði hann út. Sjálfur var hann skipstjóri á honum.
1203. Jóhann. Nafnskilti þetta var ætlað á „sumarbát“, sem útgerðarmennirnir Guðmundur Þórðarson á Akri (nr. 17 við Landagötu) og Sigurður formaður og útgerðarmaður Sigurðsson frá Kúfhól í Landeyjum, áttu saman. Sigurður Sigurðsson var óvígður síðari eiginmaður Sigríðar Árnadóttur húsfr. í Frydendal. Ástgeir bátasmíðameistari Guðmundsson í Litlabæ (áður nr. 35 við Strandveg, nú nr. 16 við Miðstræti) smíðaði bátinn. Nafnspjald þetta var aldrei sett á bátinn sökum þess, að S.S. drukknaði meðan framkvæmd sú var á döfinni. Hann drukknaði í Vestmannaeyjahöfn 10. jan. 1912.
Nafnspjald þetta gaf Árni Jónsson verzlunarmaður í Odda (nr. 63 við Vestmannabraut) Byggðarsafninu eins og svo margt annað af gömlum munum.
Árni Jónsson var fæddur árið 1889 að Helgusöndum undir Eyjafjöllum. Hann fluttist til Vestmannaeyja árið 1908 og var lengst af verzlunarmaður hjá Gunnari Ólafssyni og Co á Tanganum eða hartnær 40 ár.
Jóhann hét sonur Sigurðar Sigurðssonar í Frydendal og frú Sigríðar Árnadóttur Johnsen, hinnar nafnkunnu húsfreyju og kaupkonu í Frydendal.
1204. Georg. Þetta nafnskilti er af sumarbáti, sem smíðaður var hér í Eyjum 1903. Einn af þeim fyrstu með færeysku lagi.
1205. M.T. Donwood. Skilti þetta er af skozka togaranum M.T. Donwood, sem strandaði við nyrðri hafnargarðinn hér í Eyjum (Hörgeyrargarðinn) 15. marz 1965. Togari þessi var frá Aberdeen.
1206. Ingimundur S. Ólafsson. Þetta skilti var búið til í þeim tilgangi að vera á leiði barns, sem laust eftir aldamótin lézt hér í Eyjum. Sveinbarn þetta var fætt 7. nóvember 1901. Það dó 26. júlí 1902. Foreldrar barnsins voru hjónin Ólafur Ólafsson og frú Guðrún Magnúsdóttir. Þau bjuggu hér í tómthúsinu Vegg (nr. 9 C) við Miðstræti. Áður hét tómthús þetta Litlakot.

IV. hluti

Til baka