Blik 1978/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, IV. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978




Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

Framhald, (4. hluti)



30. kafli


Slökkvisveit Vestmannaeyja


1207. Brunalúður. Árið 1913 stofnuðu Vestmannaeyingar slökkvisveit í kauptúninu. Brynj. Sigfússon, organisti Landakirkju, beitti sér fyrir stofnun þessari og var kjörinn formaður og framkvæmdastjóri slökkvisveitarinnar. — Fyrst í stað var erfiðleikum bundið að ná fólki saman til hjálpar, þegar bruna bar að höndum. En þetta fór batnandi eftir að fyrsta flutningabifreiðin var keypt til Eyja. Það var árið 1919. Þá var hún látin þjóta um hinn nýstofnaða kaupstað með þeytandi brunalúður til þess að kalla fólk til hjálpar, þegar eldsvoða bar að höndum. Þetta er brunalúður Vestmannaeyja frá þessum árum.
1208. Hjálmur, — brunaliðshjálmur. Liðsmaður nr. 2 í Slökkvisveitinni notaði þennan hjálm. Hann er merktur: Nr.2S.V.
1209. Kjálki af brunadælu Slökkvisveitar Vestmannaeyja. Auðvitað varð að nota sjó til að slökkva með eldinn, því að vatn var ekkert að hafa í kaupstaðnum til þeirra hluta. Sjórinn var handlangaður t.d. af Edinborgarbryggjunni eða Bæjarbryggjunni gömlu á brunastað. Til þess voru notaðar strigafötur (Sjá nr. 1212). Á brunastaðnum var sjónum hellt í ker. Síðan var honum dælt úr kerinu á eldinn. Til þess var notuð öflug brunadæla, sem Slökkvisveitin hafði eignazt með hjálp góðra og efnaðra borgara. Hér eigum við kjálka af brunadælu þessari.
1210. Gaslugt. Nokkru eftir að Slökkvisveit Vestmannaeyja var stofnuð (1913) og tekin til starfa undir forustu Brynj. heitins Sigfússonar, organista og söngstjóra, var þessi gaslugt keypt og notuð um árabil, þegar eldsvoða bar að höndum um nætur.
1211. S.V.-merki brunasveitarmanna. Þannig merki báru slökkvisveitarmennirnir á barmi sér, þegar þeir voru við slökkvistarf.
1212. Strigafötur. Þessar og þannig strigafötur átti Slökkvisveit Vestmannaeyja 1913 í hundraðatali. Fötur þessar voru notaðar til þess að handlanga sjóinn úr höfninni eða af bryggju á brunastað, þegar eldsvoða bar að höndum. Engin önnur ráð voru til þess að afla vatns á fyrstu árum Slökkvisveitarinnar.
Helgi Benediktsson, útgerðarmaður og kaupmaður hér í Eyjum um tugi ára, sendi Byggðarsafninu eitt sinn að gjöf merki Slökkvisveitarinnar (nr. 1211), en hann fluttist til Eyja árið 1919 og varð þá Slökkvisveitarmaður eins og allir aðrir karlmenn í byggðarlaginu. Hann segir svo frá í bréfi, sem skrifað var 45 árum síðar: „... allir verkfærir karlmenn voru skyldaðir til þátttöku í brunaliðsstarfinu og var mönnum skipt niður í sveitir innan brunaliðsins, en sjór var þá sóttur í strigafötum niður í höfn. Hann var handlangaður eða borinn í stórt ker, sem staðsett var á brunastaðnum. Síðan var sjónum dælt úr kerinu í slöngur (vatnsslöngur), og með þeim var sjónum sprautað eða dreift yfir eldinn.“


31. kafli


Íþróttir


1213. Járnkúla. Vissa er fyrir því að þetta er fyrsta kastkúlan, sem hingað var keypt. Hana eignaðist Íþróttafélagið Þór á fyrsta eða öðru starfsári sínu (1913—1914). Þá hófu ungir menn að iðka kúlukast í kauptúninu á Heimaey.
1214. Skauti. Þetta er skauti, gjörður úr hrosslegg. Ýmsir Eyjamenn iðkuðu jafnan skautahlaup fyrri hluta vetrar, áður en vertíð hófst. Helztu skautasvellin voru á Vilpu og Daltjörninni. Áður en Eyjamenn, eldri og yngri, áttu þess kost að eignast tréskauta eða stálskauta, var notast við hrossleggi og jafnvel kýrleggi. Hér eigum við sýnishorn af hvoru tveggja.
1215. Skauti, sem gjörður er úr kýrlegg.
1216. Skauti. „Tæknin kom til“ og fór vaxandi. Smiðir tóku að smíða skauta úr tré og stáli.
1217. Skíði. Skíðastafir. Jafnan hafa skíði verið lítið notuð í Vestmannaeyjum af gildum ástæðum. Snjór er þar jafnan lítill og varir stuttan tíma, þó að hann leggi endur og eins. Þessi skíði með stöfunum tveim voru keypt til Eyja árið 1942. Þau voru á sínum tíma keypt hjá L.H. Muller, kaupmanni í Reykjavík. Sigfús J. Johnsen, kennari, gaf Byggðarsafninu þessi skíði, ásamt tveim skíðastöfum.


32. kafli


Söng- og hljómlist


1218. Bassahorn. Brynjúlfur Sigfússon frá Litlu-Löndum eða Vestri-Löndum við Landagötu, organisti við Landakirkju og söngstjóri um tugi ára, stofnaði fyrstu lúðrasveitina hér í Eyjum árið 1906. Hann stjórnaði þessari hljómsveit sinni um árabil. Almenningur hér kallaði hana „Hornaflokkinn“. Hljómsveitarstjórinn spilaði sjálfur á þetta bassahorn, sem þá var í daglegu tali nefnt „túba“ að erlendum hætti.
Bassahorn þetta lá sem hvert annað rusl um tugi ára á ónefndu hanabjálkalofti hér í bænum og einskis metið. Loks barst það Byggðarsafninu (Sjá Blik 1967, bls. 1—76).
1219. Fiðla. Þessa fiðlu hafði Árni Árnason, tómthúsmaður á Grund (nr. 31) við Kirkjuveg með sér frá Ameríku, þegar þau hjónin komu aftur heim til Eyja árið 1898 eftir fimm ára dvöl vestra. Hann dvaldist þar raunar í 7 ár og lærði þá að spila á fiðlu. Kona hans var frú Jóhanna Lárusdóttir hreppstjóra Jónssonar á Búastöðum og k.h. frú Kristínar Gísladóttur. (Tómthúsið Grund var rifið til grunna í júnímánuði 1974 eftir að hafa skemmzt mikið í gosinu). — Að Árna á Grund látnum eignuðust ýmsir fiðluna. Seinast átti hana Guðni Þorsteinsson, vélsmiður, sonur Þorsteins Steinssonar, vélsmíðameistara. Guðni gaf hana Byggðarsafninu.
Oddgeir Kristjánsson tónskáld og hljómsveitarsjóri lék á þessa fiðlu seinustu árin, sem hann lifði. Hann sagði hana þá beztu fiðlu, sem hann hefði nokkru sinni leikið á. Hún mun vera síðasta hljóðfærið, sem hann handlék.
1220. Grammófónn. Þessi grammófónn er sagður sá fyrsti, sem keyptur var hingað til Eyja. Hann vottar það sjálfur, að hann er fjórða gerð af „fóni“ Edesons og smíðaður árið 1898. Lögin, sem leikin voru á hann, voru á sívalning. Grammófón (glymskratta) þennan átti hér fyrstur Þórhallur Gunnlaugsson, símstöðvarstjóri, sem var fæddur 1886. Hann var unglingur, þegar hann eignaðist fóninn. Eftir fráfall hans áttu fóninn ýmsir í Eyjum.
Síðast átti hann Sverrir Einarsson, tannlæknir, sem gaf hann Byggðarsafninu.
1221. Gjallarhorn. Það er af yngri gerð grammófóna.
1222. Orgel, harmoníum. Þetta er fyrsta orgelið, sem keypt var til Vestmannaeyja. Það kom til Eyja með verzlunarskipi Brydeverzlunarinnar vorið 1878 og var gjöf til Landakirkju frá hinum konunglega umboðsmanni hennar og verndara, Niels Nikolai Bryde, einokunarkaupmanni í Eyjum frá 1844—1879. Orgel þetta var síðan notað í Landakirkju nokkur ár, eftir að Sigfús Árnason frá Löndum lærði orgelleik í Reykjavík og gerðist fyrsti organisti kirkjunnar (Sjá Blik 1967).
Brátt þótti orgel þetta of lítið og „lágróma“ í kirkjunni. Þá leigði organistinn kirkjunni sitt eigin orgel. Ársleigan var kr. 20,00.
Eftir aldamótin var orgel þetta selt burt úr Eyjum. Árið 1960 barst okkur sú frétt, að kona nokkur á Grímstaðaholtinu í Reykjavík ætti þetta gamla orgel úr Landakirkju. Sú frétt reyndist rétt. Hún hafði þá átt það í 48 ár og var sextug að aldri. Við keyptum það á kr. 900,00, sem þóttu töluverðir peningar þá. Á þeim árum hafði Helgi kaupmaður Benediktsson vélskipið Skaftfelling í vöruflutningum milli Reykjavíkur og Eyja. Hann flutti orgelið „heim“ og auðvitað endurgjaldslaust.
1223. Orgel, harmóníum. Þetta var einkaorgel Brynj. Sigfússonar, organista við Landakirkju frá 1904—1941 og söngstjóra um tugi ára hér í bæ. Við þetta hljóðfæri bjó hann til öll lögin sín, m.a. lagið „Yndislega eyjan mín“ sem Byggðarsafnið á í frumriti (Sjá nr. 1227). Svo sem kunnugt er, þá orti Sigurbjörn Sveinsson, skáld og kennari í Eyjum, kvæði þetta, sem er einskonar þjóðsöngur Eyjafólks. — Frú Ingrid Sigfússon, ekkja organistans, söngstjórans og tónlistarmannsins, Br. S., gaf Byggðarsafninu orgelið.
1224. Orgel. Það er lítið og til þess gert að flytjast milli húsa og notast í heimilum fólks við vissar athafnir. Þetta orgel átti Brynj. Sigfússon og flutti það með sér inn á heimili Eyjabúa, t.d. þegar hann spilaði sálma við húskveðjuathöfn, eða skírnarathöfn átti sér stað í heimahúsi.
1225. Slagharpa, píanó. Hljóðfæri þetta ánöfnuðu Byggðarsafninu á sínum tíma hjónin í Garðhúsum (nr. 14) við Kirkjuveg, frú Kristín Jónsdóttir og Jón málarameistari Waagfjörð. Þetta hljóðfæri keypti Jón málarameistari í Kaupmannahöfn, þegar hann dvaldist þar við málaranám fyrir 1920, en það ár kom hann heim frá námi og hafði þá slaghörpu þessa með sér.
Martin Hunger, tónlistarmaður og organisti í Landakirkju 1964—1970, segir um hljóðfæri þetta í bréfi til Byggðarsafnsins: „Þessi tegund slaghörpu er smíðuð í byrjun 19. aldar (á tímum Beethovens) og er undanfari þeirra hljóðfærategunda (slagharpna), sem nú eru algengastar. Slíkt hljóðfæri sem þetta er t.d. geymt í National Gallary of Art í Ameríku, og var það smíðað árið 1825“.
1226. Útvarpstœki. Það er „óinnbyggt“, eins og það var kallað, þegar hátalarinn var ekki í sama kassa. Halldór Brynjólfsson frá Gvendarhúsi átti þetta tæki. (Sjá nr. 1021 og 1228). Frú Steinunn Sveinbjarnardóttir, kaupkona í Hafnarfirði, sjúpdóttir Halldórs Brynjólfssonar, gaf Byggðarsafninu útvarpstækið.
1227. „Yndislega eyjan mín“. Frumrit af lagi Brynjúlfs Sigfússonar, söngstjóra, við „Þjóðsöng Vestmannaeyinga“, kvæði Sigurbjarnar Sveinssonar skálds og barnabókahöfundar, sem hér var barnakennari um árabil (1919—1932). Höfundur þessa lags gaf eitt sinn Oddgeiri Kristjánssyni, tónskáldi og lúðrasveitarstjóra, frumritið að lagi þessu. O.Kr. gaf það síðan Byggðarsafninu.
1228. „Íslendingurinn söngelski“. Þetta er gipsafsteypa af styttu, sem hefur verið í dómkirkjunni í Niðarósi í Noregi (Niðaróssdómkirkju) síðan einhverntíma á miðöldum. Þrjár styttur eru þar, sem minna á heimilishljóðfæri þriggja þjóða: Skotinn með sekkjapípuna, Norðmaðurinn með fiðluna og Íslendingurinn með langspilið, sem við höfum hér. — Ég, sem þetta skrifa, keypti styttu þessa í Niðarósi veturinn 1952, er við hjónin dvöldumst þar.
1229. Söngstjórahúfa. Brynjúlfur Sigfússon, organisti, sem stofnaði Vestmannakór hér í bæ og stjórnaði honum við mikinn og góðan orðstír á árunum 1937—1946, átti þessa húfu og bar hana, þegar kórinn söng opinberlega, t.d. á þjóðhátíðum Eyjafólks og í heimsóknum úti um land.
Frú Ingrid Sigfússon, ekkja söngstjórans, gaf Byggðarsafninu húfuna.
1230. Söngvarahúfa. Þessa söngvarahúfu átti Hannes Hreinsson frá Hæli (nr. 10) við Brekastíg. Hann var einn af kunnustu bassasöngvurum Vestmannakórs.
1231. Orgel. Lítið harmóníum. Þetta var „húskveðjuorgel“ Ragnars G. Jónsonar, sem var organisti við Landakirkju á árunum 1940—1960 og stjórnaði Karlakór Vestmannaeyja um nokkurt árabil.
1232. Orgel. Þetta var heimilisorgel héraðslæknishjónanna frú Önnu og Halldórs Gunnlaugssonar. Hann tók hér við héraðslæknisembættinu af Þorsteini Jónssyni í Landlyst og var læknir hér í 18 ár (1906—1924). Börn þeirra hjóna gáfu Byggðarsafninu orgelið.
1233. Orgel. Þetta orgel átti Stúkan Bára nr. 2, sem stofnsett var hér í Eyjum 1888. Hún starfaði hér um 60 ára bil og olli um tíma straumhvörfum í vínneyzlu og ýmsum öðrum málum Eyjafólks, sem horfði til aukinnar menningar og mannbætandi lífs í byggðinni. Byggðarsafnið geymir orgelið til minningar um það þjóðnytjastarf til gæfu og gengis ungum sem eldri þegnum þjóðfélagsins.
1234. Hljómplata. Vestmannakór syngur undir stjórn Brynjúlfs Sigfússonar:

1. Reykjavík eftir Sigvalda Kaldalóns, tónskáld
2. Öldungnum hnignar eftir Bellmann
3. Eldgamla Ísafold eftir Brynj. Sigfússon, söngstjóra
4. Bergljót eftir Jón Laxdal, tónskáld.

Sungið í Reykjavík 12. júní 1944.
Hermann Guðjónsson frá Ási í Ásahreppi í Rangárvallasýslu gaf Byggðarsafninu plötuna. Hann starfaði í Vestmannakór um árabil og var með í söngfór kórsins til meginlandsins í júní 1944.


33. kafli


Kirkjan


A. Landakirkja.
1235. Altarisdúkur. Á seinustu árum 19. aldarinnar saumaði þennan altarisdúk frú Sigríður Árnadóttir Johnsen í Frydendal, kona Jóhanns Jörgens Johnsen, útgerðarmanns, sem lézt árið 1893. Frúin gaf síðan dúkinn Landakirkju til minningar um mann sinn.
1236. Altarisdúkur. Enginn veit, hver saumaði þennan altarisdúk eða gaf hann Landakirkju. Öll líkindi eru til, að hann sé frá prestsskaparárum séra Brynjólfs Jónssonar, en hann var aðstoðarprestur séra Jóns J. Austmanns að Ofanleiti á árunum 1852—1860 og sóknarprestur Vestmannaeyinga 1860 til dánardægurs 1884.
1237. Altarisdúkur. Séra Oddgeir Þórðarson sýslumanns Guðmundssonar (Gudmundsen) var sóknarprestur Vestmannaeyinga frá 1889—1924 og bjó að Ofanleiti. Einhver dætra hans saumaði þennan altarisdúk og gaf hann síðan Landakirkju.
1238. Altariskerti. Þetta er eilítið sýnishorn af þeim kertum, sem logað hafa við trúarlegar athafnir á altari Landakirkju um langan aldur, eins og gömlu kertastjakarnir á altari kirkjunnar gefa hugmynd um. — Um sinn voru notuð rafmagnskerti á altari Landakirkju, eftir að Eyjakauptún var raflýst 1916. Þau kerti voru fjarlægð af altari kirkjunnar og vaxkertin tekin í notkun á ný samkvæmt ósk biskups. Það var árið 1959.
1239. Hökull. Þegar séra Brynjólfur Jónsson prests Bergssonar að Hofi í Álftarfirði eystra gerðist aðstoðarprestur séra Jóns J. Austmanns að Ofanleiti árið 1852, lét sóknarnefnd Landakirkju sauma þennan hökul handa nýja aðstoðarprestinum. Séra Brynjólfur sóknarprestur notaði hann síðan frá 1860 til 1884, en þá lézt hann.
1240. Kirkjubekkur. Hann er úr skipi Landakirkju. Líkindi eru til þess, að hann hafi verið notaður í kirkjunni frá 1857 til 1960, en þá var skipt um bekki í kirkjunni.
1241. Kirkjubekkur. Þessi bekkur og aðrir eins voru notaðir í kór og á lofti kirkjunnar frá 1903 til 1960 að bezt er vitað.
1242. Handrið. Í reglugjörð frá árinu 1778 varðandi Landakirkju í Vestmannaeyjum voru ákvæði um það, að „vermenn af landi“, sem stunduðu sjóróðra í Eyjum á vertíð, skyldu greiða til kirkjunnar sérstakt sætagjald. Vestmannaeyingar voru þá sjálfir látnir greiða leigu af sætum sínum í kirkjunni, í skipi hennar, kór og á lofti. Hver útróðrarmaður af landi skyldi greiða einn fisk til kirkjunnar af afla sínum á vertíð í leigu fyrir sæti sitt.



„Loftin“, sem áður voru við vesturstafn Landakirkju. Efra loftið er „Haustmannaloftið“.


Til þess að geta veitt þessum aðkomumönnum sæti og fengið leigu eftir, var smíðað loft í kirkjuna. Það var gert 1879. Það loft var við vesturvegg hennar, eins konar „svalir“. Þetta sérlega loft í kirkjunni var kallað „Haustmannaloft“. Þessi konunglegu ákvæði um sætaskattinn voru numin úr gildi einhvern tíma á 19. öldinni. Hins vegar var haustmannaloftið látið vera áfram í kirkjunni, og veitti ekki af þeim sætum með vaxandi byggð og fjölgandi kirkjugestum. Haustmannaloftið var rifið og fjarlægt úr kirkjunni árið 1960, þegar hinu stóra orgeli var komið þar fyrir. Til minningar um þessa atburði geymum við hér í Byggðarsafninu þennan hluta af handriði Haustmannaloftsins.
1243. Pílárar. Þeir voru undir handriðinu á „Haustmannaloftinu“ í Landakirkju (Sjá fyrra númer).
1244. Handrið. Þetta er hluti af handriði „Haustmannaloftsins“ í Landakirkju.
1245. Stoð. Þessi stoð er undan „Haustmannaloftinu“.
1246. Kertahöld. Áður en rafljósin komu til sögunnar í Eyjum og Landakirkja var raflýst (1916) voru þessi kertahöld notuð í kirkjunni, og það höfðu þau verið frá ómunatíð. Þeim var stungið í klampa á veggjum kirkjunnar beggja vegna. Venjulega hóf meðhjálparinn, sem var umsjónarmaður kirkjunnar og hægri hönd prestsins, starf sitt hvert sinn, þegar kirkjulegar athafnir skyldu fram fara í guðshúsinu, með því að kveikja á kertunum á veggjum kirkjunnar og svo í kór. Þrjú kerti voru venjulegast í hverjum kertahöldum.
1247. Ljósastika, kertasúla. Tvær ljósastikur af þessari gerð voru um langt skeið í kór Landakirkju. Þær voru vissulega til lítillar prýði í kór kirkjunnar norðan og sunnanvert við gráturnar. Ellefu kerti munu oftast nær hafa logað þar á hvorri súlu við guðsþjónustur. Við batnandi efnahag Eyjabúa og Landakirkju voru súlur þessar fjarlægðar. Þá eignaðist Byggðarsafnið þessa ljósastiku, líklega 1960.
1248. Páll, stungupáll. Þetta er graftól úr eigu Landakirkju. Stungupáll þessi er mjög gamall. Hann var notaður, þegar teknar voru grafir.
1249. Prestaspaði. Hann var í eigu Landakirkju um langan aldur. Hann var notaður jafnt, hvort moldum var kastað á kistu ríkra eða fátækra, voldugra eða valdleysingja. Hann getur vissulega verið tákn kirkjunnar um jafnrétti og þjóðfélagslegan jöfnuð í anda hennar og trú, þó að ýmislegt skorti þar annars á í hinni jarðnesku tilveru.
Með þessum spaða var kastað mold á kistur margra nafnkunnra Eyjamanna, sem lifðu hér og störfuðu sjálfum sér og Eyjafólki í heild til farsældar og nytja. Ýmissa þeirra er getiö á spjöldum sögunnar, svo sem séra Jóns Austmanns, Kapteins Kohl, séra Brynjólfs Jónssonar, séra Stefáns Thordersen, séra Oddgeirs Þórðarsonar Gudmundsen, Páls skólastjóra Bjarnasonar, Árna gjaldkera Filippussonar, hreppstjóranna Sigurðar bónda Torfasonar, Sigurðar skipstjóra Sigurfinnssonar og Högna Sigurðssonar í Baldurshaga, Jóhanns Jörgens Johnsen, Gísla gullsmiðs Lárussonar, Jóns Hinrikssonar, kaupfélagsstjóra og margra fleiri mætra manna í forustuliði Eyjafólks á síðustu öld og fram á hina tuttugustu.
1250. Rambald, klukkuás. Rambald þetta var tekið úr turni Landakirkju árið 1960. Þá hafði það verið notað hér í klukknaportum og kirkjuturn í 387 ár að bezt er vitað. Það leynir sér ekki, að um það hefur leikið eldur. — Nú er vitað, að „Rauður“ hefur aldrei komið í nálægð Landakirkju, síðan hún fyrst var byggð ári 1573, nema þegar ræningjarnir frá Norður-Afríku brenndu hana til ösku, 17. júlí 1627. Þá stóð hún á Löndum, sem voru á norðaustan verðri Heimaey. Þar var Landakirkja fyrst byggð árið 1573.
Við gerum þessu skóna: Klukknaportið stóð vestan við kirkjustafninn, þegar hann féll í bálinu mikla, sem ræningjarnir stofnuðu til. Þá hefur logandi kirkjustafninn fallið ofan á klukknaportið, sem brunnið hefur til ösku, en eikarrambald þetta sviðnað. Það ber þess merki. Síðan hékk rambald þetta í klukknaporti við fjórar kirkjur í Eyjum, sem byggðar voru hér á næstu 150 árum. Landakirkjur þær voru þessar: Kirkja byggð árið 1631, fjórum árum eftir Tyrkjaránið; kirkja, sem byggð var árið 1722, og svo árið 1748. Landakirkja sú, sem enn stendur, var byggð á árunum 1774—1778. Árið 1857 var fyrst settur turn á Landakirkju. Þá var rambald þetta flutt úr klukknaporti í kirkjuturninn. Þar var það notað til ársins 1960. Þá var því fleygt út fyrir vegg kirkjunnar, enda hafði Eggert Ólafsson, bátasmíðameistari, smíðað nýtt rambald eftir þessu forna og sögulega rambaldi. Þannig var klukkuás þessi notaður hér frá 1573—1960 að bezt er vitað.
Kunnur bátasmíðameistari hér í kaupstaðnum skoðaði eitt sinn rækilega rambald þetta í krók og kring, því að hann undraðist lagið á því. Það er smíðað úr harðri eik. Meistari þessi kvaðst sannfærður um, að rambaldið hefði upphaflega verið smíðað úr skipskrikkju, eikarbandi úr aftur- eða framstafni á stóru seglskipi, t.d. verzlunarskipi.
1251. Skarbítur eða ljósaöx. Skarbítur þessi var notaður í Landakirkju um langan aldur, — ef til vill frá miðöldum. Skarbítur var notaður til þess að klippa skar af tólgarkertum.
1252. Loftbiti. Þetta er miðhluti úr loftbita í Landakirkju. Árið 1960 áttu sér stað ýmsar breytingar á kirkjunni innan veggja, þegar hinu stóra hljóðfæri (orgeli) var komið þar fyrir. Þá var m.a. tekinn þessi hluti úr loftbita kirkjunnar. Hér er hann, og er að ýmsu leyti athyglisverður hlutur. Hann sýnir m.a. samsetningu loftbita fyrir tveim öldum. Ófeyskinn er hann einnig eftir tveggja alda veru í kirkjunni.
1253. Járnlykill. Landakirkja var sameiginlegt guðshús báðum sóknunum í Eyjum, Kirkjubæjasókn og Ofanleitissókn. En á prestssetrunum voru einnig bænahús, enda grafreitir á báðum prestssetursjörðunum. Bænahús þessi voru lögð niður á síðustu öld og ekki fyrr. Eftir það voru þau skemmur á prestssetrunum. Þessi lykill er bænahússlykillinn frá Ofanleiti, síðar skemmulykillinn. Aldraður Vestmannaeyingur eignaðist lykilinn, þegar skemman var rifin til grunna um aldamótin síðustu eða nokkru síðar. Hann hafði óbilandi trú á lyklinum eins og helgum dómi, meðan hann lifði. Barnabarn gamla mannsins gaf Byggðarsafninu lykilinn að afanum látnum.
1254. Járnlykill. Vissa er fyrir því, að þessi lykill er gamli bænahússlykillinn, síðar skemmulykillinn, á prestssetursjörðinni á Kirkjubæjum. Sú jörð var í byggingu vissrar ættar í Vestmannaeyjum um árabil. Síðustu „ábúendur“ þessarar jarðar geymdu lykilinn og gáfu hann Byggðarsafninu.

B. „Skeljastaðakirkja í Þjórsárdal“.
1255. Blýþynna, blýplata. Hana fundum við hjónin í vikurhaug utan við kirkjugarðinn á Skeljastöðum í Þjórsárdal sumarið 1942.
Í fornum ritum okkar er fullyrt, að Hjalti Skeggjason hafi byggt kirkju á bæ sínum í Þjórsárdal. Hins vegar er bæjarins ekki getið. — Langt er síðan tóku að finnast mannabein, sem komu upp úr vikrinum á Skeljastöðum. Það sannaði okkur, að bærinn sá hefur verið kirkjustaður og þar hefur Hjalti Skeggjason búið. Enginn annar kirkjustaður hefur fundizt í Þjórsárdal.
Kirkjugarðurinn á Skeljastöðum var grafinn upp sumarið 1939. Þar unnu saman íslenzkir og danskir fornfræðingar. Vikurhaugurinn var m.a. verksummerkin.
Á fyrri öldum voru þök kirkna lögð blýplötum og jafnvel veggir líka. Þessi blýplata kynni því að vera nálega 1000 ára gömul.

C. Miðbœliskirkja undir Eyjafjöllum.
1256. Oblátudósir, oblátubuðkur, bakstursbaukur, bakstursdósir. Á oblátudósum þessum stendur ártalið 1655. Þær segja sína sögu.
Þessar öldruðu oblátudósir eru gjöf til Byggðarsafnsins frá hjónunum frú Rebekku Ágústsdóttur Gíslasonar, Valhöll (nr. 43) við Strandveg, og Sigurðar Ólafssonar, verkfræðings í Reykjavík. Frúin er dótturdóttir Þorsteins héraðslæknis Jónssonar í Landlyst og konu hans frú Matthildar Magnúsdóttur. Jafnframt er frú Rebekka Ágústsdóttir sonardóttir Gísla kaupmanns Stefánssonar í Hlíðarhúsi og konu hans frú Soffíu Andersdóttur frá Stakkagerði.
Gísli kaupmaður var sonur Stefáns bónda og stúdents í Selkoti undir Eyjafjöllum Ólafssonar bónda þar og gullsmiðs Jónssonar. Kona Ólafs gullsmiðs var frú Guðlaug húsfreyja í Selkoti Stefánsdóttir prests í Laufási Einarssonar.
Frú Guðlaug Stefánsdóttir húsfr. í Selkoti eignaðist oblátudósir þessar um 1780. Þá voru um það bil 15 ár liðin frá því, að Miðbæliskirkja var lögð niður. Það var gert með konungsbréfi 17. maí 1765.
Gísli Stefánsson kaupmaður í Hlíðarhúsi í Eyjum eignaðist dósirnar mörgum árum eftir að amma hans féll frá. Ágúst sonur hans í Valhöll erfði þær eftir föður sinn.
Hjónin frú Rebekka Ágústsdóttir og Sigurður Ólafsson færðu Byggðarsafninu þessa merku gjöf og þennan gagnmerka hlut til minningar um son sinn, Ágúst Gunnar, sem þau misstu tvítugan að aldri. Hann var fæddur 12. ágúst 1928 og fórst í flugslysi 27. marz 1948.
Á lokinu stendur skráð á latínu: „Homini larga Flendi Materia ubiq(ue) est“, sem lærðir menn segja að þýði: Manninum gefst alls staðar nœgilegt harmsefni.
Gizkað er á, að þetta sé ritningar grein úr Vulgata, sem er latnesk biblíuþýðing. — Letrið á framhlið oblátu dósanna kvað vera hebreska og þýða Jehova.
TOS er eflaust skammstöfun á nafni hins upprunalega gefanda, Tómasar Oddssonar, samkvæmt Vísitasíubók Miðbæliskirkju, sem enn kvað vera geymd í Danmörku.


34. kafli


Prentiðnin


1257. Prentvél, — handsnúin prentvél, sem keypt var til landsins 1890 og hingað til Eyja árið 1917. Þetta er fyrsta prentvélin, sem keypt var til Eyja. Hana keypti Gísli J. Johnsen, kaupmaður og útgerðarmaður, og hóf þá þegar blaðaútgáfu í Eyjum. Hann gaf út vikublaðið Skeggja. (Sjá Blik 1971, grein um Pál Bjarnason, fyrsta ritstj. hér, síðar skólastjóra).
Eftir því sem næst verður komizt sannleikanum, þá er þetta prentvél Félagsprentsmiðjunnar í Reykjavík, og var keypt til landsins árið 1890. G.J.J. greiddi kr. 7000,00 fyrir prentvélina, þegar hann keypti hana (1917). Hann rak prentsmiðju sína á hanabjálkalofti verzlunarhúss síns. Þar var hún rekin um það bil einn tug ára. — Þegar Einar Sigurðsson, útgerðarmaður, keypti verzlunarhús G.J.J. árið 1940, gaf hann Byggðarsafninu prentvélina.
1258. Prentvél Vikublaðsins Víðis í Vestmannaeyjum.
1259. Pressa. Handknúin prentvél. Hún var eign Víðisprentsmiðjunnar hér í bæ.

V. hluti

Til baka