Guðmundur Arason (Laufási)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Guðmundur Arason.

Guðmundur Arason skipasmíðameistari, forstjóri, kaupmaður, hnefaleikakappi fæddist 17. mars 1919 á Heylæk í Fljótshlíð og lést 27. maí 2008 á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ.
Foreldrar hans voru Ari Magnússon frá Heylæk í Fljótshlíð, bóndi, sjómaður, útgerðarmaður, fisksali, f. þar 1. september 1890, d. 12. apríl 1966, og kona hans Jóhanna Jónsdóttir frá Hrauni, húsfreyja, f. 16. ágúst 1887, d. 20. mars 1974.

Bróðir Guðmundar var Ísleifur Arason járnsmíðameistari, f. 6. ágúst 1913, d. 27. febrúar 1995.

Guðmundur var með foreldrum sínum á Heylæk, síðan í Jórvík í Flóa. Hann fluttist með þeim til Eyja 1924, bjó með þeim í Heiðardal 1924, í Laufási til 1930, er þau fluttu til Reykjavíkur.

Guðmundur stundaði ýmis störf, allt frá því að vera sendisveinn til sjómennsku. Árið 1939 hóf hann síðan nám í skipasmíði í Stálsmiðjunni undir handleiðslu Laurents Rasmussens. Hann lauk sveinsprófi árið 1943 og hlaut meistararéttindi árið 1948.
Hann var verkstjóri yfir nýsmíðadeild Landsmiðjunnar á árunum 1950 til 1962. Þar stjórnaði hann stórum hópi iðnaðarmanna og sinnti ýmsum verkum.
Guðmundur var stofnandi og aðaleigandi Borgarsmiðjunnar hf. árið 1962 er varð ein af stærri vélsmiðjum á landinu. Síðar eða árið 1970 stofnaði hann járninnflutningsfyrirtækið Heildverslun Guðmundar Arasonar og var hann forstjóri þess fyrirtækis til 84 ára aldurs.
Þau Rannveig giftu sig 1945, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í 17 ár í Kópavogi, en fluttu á Reynimel 68 árið 1970 og síðar bjuggu þau í Eskiholti 12 í Garðabæ.
Guðmundur vann mikið fyrir íþróttahreyfinguna og var afreksmaður. Hann var aðalhnefaleikaþjálfari Ármanns á árunum 1938-1953 og Íslandsmeistari í þungavigt árið 1944. Einnig gegndi hann starfi formanns Hnefaleikaráðs Reykjavíkur. Hann keppti fyrir Ármann í frjálsum íþróttum og sundknattleik og varð Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari í þeirri grein. Guðmundur var sæmdur gullmerki ÍSÍ árið 1984 og gerður að heiðursfélaga Ármanns á 100 ára afmæli félagsins árið 1988. Hann var meðal annars formaður byggingarnefndar Ármanns er félagsheimili þeirra við Sigtún var reist. Auk þess var hann sæmdur gullmerki Vals.
Guðmundur var einnig mikill skákmaður. Hann var forseti Skáksambands Íslands á árunum 1966-1969 og var hann gerður heiðursfélagi þess árið 1981. Hann kom því til leiðar að Skáksamband Íslands eignaðist sitt fyrsta húsnæði.
Guðmundur lést 2008 og Rannveig 2017.

Kona Guðmundar, (2. júní 1945), var Rannveig Þórðardóttir úr Reykjavík, húsfreyja, f. 12. maí 1923, d. 11. ágúst 2017. Foreldrar hennar voru Þórður G. Magnússon sjómaður í Reykjavík, f. 1. september 1897, d. 18. júní 1976, og Rannveig Kristmundsdóttir, f. 28. september 1889, d. 29. maí 1923.
Börn þeirra:
1. Ari Guðmundsson, f. 2. nóvember 1944. Kona hans Elín Anna Brynjólfsdóttir húsfreyja, f. 4. mars 1945.
2. Anna Jóhanna Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 27. júlí 1952. Maður hennar Kári Geirlaugsson, f. 15. maí 1949.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.