Guðmundur Erlendsson (London)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Guðmundur Erlendsson formaður og lóðs í London fæddist 27. júní 1839 og lést 20. júní 1875.
Faðir Guðmundar var Erlendur bóndi á Borgareyrum þar, f. 7. mars 1805 í Krosssókn í A-Landeyjum, d. 10. júní 1851, Höskuldsson bónda í Krosshjáleigu (nú Kross II) í A-Landeyjum, f. 1778 þar, d. 28. apríl 1818, drukknaði, Erlendssonar bónda í Álftarhóli, f. 1738, d. 9. febrúar 1786, Höskuldssonar og konu Erlendar Höskuldssonar, Marínar húsfreyju, f. 1743, d. 7. febrúar 1805, Sigmundsdóttur.
Móðir Erlendar Höskuldssonar á Borgareyrum og fyrri kona Höskuldar í Krosshjáleigu var Guðrún húsfreyja, f. 1776, d. 18. mars 1810, Einarsdóttir bónda í Drangshlíð undir Eyjafjöllum og Kanastöðum í Landeyjum, f. 30. janúar 1747, á lífi 1813, Einarssonar, Hallssonar, og fyrri konu Einars Einarssonar í Drangshlíð, sem er óþekkt. Seinni kona hans var Anna Vigfúsdóttir móðir Auðbjargar (Iðbjargar) langömmu Guðmundar Þórarinssonar manns Guðrúnar Erlendsdóttur.

Móðir Guðmundar í London var Þórdís húsfreyja á Borgareyrum, áður á Vilborgarstöðum, Gjábakka og í Stóru-Hildisey, f. 1800 á Vilborgarstöðum, d. 29. nóvember 1855 í Stóra-Dalssókn undir Eyjafjöllum, Magnúsdóttir bónda á Vilborgarstöðum 1801 og 1816, ekkli á Borgareyrum undir Eyjafjöllum 1845, f. 1771, d. 2. ágúst 1846 í Stóra-Dalssókn, Jónssonar í Gvendarhúsi Einarssonar og konu Jóns Einarssonar, Margrétar Brandsdóttur.
Kona Magnúsar á Vilborgarstöðum og móðir Þórdísar var Herborg Helgadóttir og móðir Herborgar var Guðríður Sveinsdóttir.

Guðmundur var bróðir Guðrúnar Erlendsdóttur húsfreyju á Vesturhúsum og Þorgerðar Erlendsdóttur húsfreyju á Fögruvöllum.

Guðmundur var með foreldrum sínum á Borgareyrum u. Eyjafjöllum í æsku.
Hann fluttist frá Borgareyrum 1855 að Stóra-Gerði, 16 ára. Hann var léttadrengur í Stóra-Gerði á því ári og 1856, vinnumaður í Nýja-Kastala 1858 og 1859 á Gjábakka 1860-1862, í Juliushaab 1863 og 1864.
Þau Una voru ógift húsfólk í Stakkagerði 1865 með son sinn Þorstein eins árs, 1866 í London, tómthúsfólk þar 1867 með Þorstein og Þórunni. Þau Una giftust á því ári og bjuggu síðan í London.
Guðmundur var í Herfylkingunni.
Hann lést 1875 úr „guluveikin“.

I. Barnsmóðir Guðmundar var Guðrún Erlendsdóttir, f. 8. júlí 1850, síðar í Vesturheimi, kenndi Guðmundi barn, en hann neitaði faðerninu.
Barnið var
1. Vigfús Guðmundsson, f. 14. júlí 1868, d. 17. mars 1927. Hann var með móður sinni á Gjábakka 1870, niðursetningur í Juliushaab hjá Gísla Engilbertssyni og Ragnhildi Þórarinsdóttur 1880. Hann fór til Utah frá Júlíushaab 1886.

II. Kona Guðmundar, (25. október 1867), var Una Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 19. apríl 1839, d. 25. apríl 1930.
Börn þeirra hér:
1. Þorsteinn Guðmundsson sjómaður, f. 10. ágúst 1864, fórst með þilskipinu Jósefínu í apríl 1888.
2. Helgi Guðmundsson, f. 18. maí 1866, d. 10. júní 1866, „dó úr uppdráttarveiki barna“.
3. Þórunn Guðmundsdóttir húsfreyja í Steinum, f. 19. desember 1867, d. 26. febrúar 1924. Hún var kona Helga Jónssonar.
4. Þórdís Guðmundsdóttir bústýra, f. 7. september 1870, d. 26. maí 1949.
5. Helga Guðmundsdóttir, f. 19. mars 1873. Hún var þvottahúsrekandi í Kaupmannahöfn. Var á lífi 1948. Hún kostaði listnám Nínu Sæmundsson (Jónínu Sæmundsdóttur), en þær voru systkinabörn. Una og Sæmundur voru systkini.
6. Herdís Magnúsína Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 29. júlí 1874, d. 19. september 1944. Hún var kona Magnúsar Ísleifssonar húsasmíðameistara í London.
Fósturbarn þeirra var
7. Þórunn Sigurðardóttir húsfreyja, f. 14. janúar 1889, d. 22. nóvember 1948.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.