Guðrún Grímsdóttir (Oddsstöðum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Guðrún Grímsdóttir húsfreyja á Oddsstöðum fæddist 10. júní 1888 og lést 4. maí 1981.

Faðir hennar var Grímur frá Brekku í Hróarstungu, bóndi á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá, f. 17. september 1844, drukknaði í Seyðisfirði, Þorsteinsson bónda á Brekku í Hróarstungu, f. 1822, d. fyrir 1893 (var frumkvöðull að vatnsveitingum, garðrækt o.fl. í héraðinu), Árnasonar bónda á Sævarenda í Loðmundarfirði, f. um 1787, Árnasonar og konu Árna á Sævarenda, Þuríðar húsfreyju frá Eyjólfsstöðum á Völlum á Héraði, f. um 1784, Hallsdóttur.
Móðir Gríms á Þrándarstöðum og barnsmóðir Þorsteins Árnasonar var Halldóra frá Dalhúsum á Héraði, síðar húsfreyja í Fossgerði í Eiðaþinghá, kona Bjarna Bjarnasonar bónda, fædd um 1823, Gísladóttir bónda í Dalhúsum, f. 1787 á Eyvindará í Eiðasókn, d. 26. nóvember 1862, Nikulássonar, og konu Gísla, Margrétar húsfreyju, f. 1794 á Tókastöðum í Eiðasókn, Árnadóttur Rustikussonar.

Móðir Guðrúnar og kona Gríms á Þrándarstöðum var Vilborg Einarsdóttir, húsfreyja, f. 29. september 1852. Hún var barn hjá foreldrum í Hleinargarði í Eiðaþinghá 1855, með móður sinni ekkjunni og vinnukonunni í Hleinargarði 1860, ekkja á Arnaldsstöðum í Fljótsdal 1890, hjá dóttur sinni Halldóru Grímsdóttur í Glúmsstaðaseli í Valþjófsstaðarsókn 1910.
Faðir Vilborgar var Einar bóndi í Hleinargarði, f. 2. febrúar 1801, d. 21. júní 1856, Jónsson bónda á Hrafnkelsstöðum, Bessastöðum, Glúmsstöðum og síðast á Klúku, f. 1773, d. 13. janúar 1850, Eiríkssonar, Bárðarsonar, - þ.e. Bárðarætt frá Fljótsdal.
Móðir Einars í Hleinargarði og kona Jóns Eiríkssonar var Guðbjörg húsfreyja, f. 1769, d. 11. júlí 1819, Magnúsdóttir bónda í Skriðdal.
Móðir Vilborgar og kona Einars var Halldóra frá Víkingsstöðum á Héraði, húsfreyja í Hleinargarði, f. 7. ágúst 1812, d. 17. maí 1895, Eiríksdóttir bónda í Hvammi á Völlum, f. 1788, d. 16. október 1816, Sölvasonar bónda í Hóli og Klúku í Fljótsdal, Bessasonar og konu Sölva, Aðalborgar húsfreyju, f. 1762, Sigfúsdóttur.
Móðir Halldóru í Hleinargarði og kona Eiríks í Hvammi var Sigríður húsfreyja, f. 1788, Einarsdóttir bónda á Ásgeirsstöðum í Eiðaþinghá, Nikulássonar og ráðskonu hans (kona Einars var enn á lífi þá), Halldóru Jónsdóttur pamfíls. Reynt var að kenna Sigríði Guðmundi nokkrum, en að hún væri dóttir Einars, - „þótti þar enginn efi á“ (Æ.Au.).

Guðrún Grímsdóttir var systir Halldóru Grímsdóttur, móður Hjörleifs Guðnasonar og Þórhildar húsfreyju í Landlyst, f. 16. janúar 1912, d. 20. desember 1993, konu Guðmundar Hróbjartssonar skósmiðs.
Hún var og móðursystir Unnar Pálsdóttur húsfreyju og forstöðukonu Elliheimilisins í Skálholti, konu Matthíasar klæðskera.

ctr


Börn Guðjóns Jónssonar bónda
á Oddsstöðum og kvenna hans:


Oddsstaðahjónin Guðjón Jónsson og síðari kona hans Guðrún Grímsdóttir með börnum frá fyrra og síðara hjónabandi Guðjóns bónda, m.m.
Aftasta röð frá vinstri: Guðlaugur, Kristófer, Hjörleifur Guðnason, fóstursonur þeirra hjóna, systursonur Guðrúnar húsfreyju, Pétur, Árni, Herjólfur.
Miðröð f.v.: Ingólfur, Vilborg, Jón, Njála, Guðmundur.
Fremsta röð f.v.: Ósk, Fanný, Guðjón Jónsson, Guðrún Grímsdóttir, Jóna Pétursdóttir Guðjónssonar, sem fóstruð var upp hjá þeim hjónum frá 5 ára aldri.


Guðrún var vinnukona á Oddsstöðum og tók við fjölmennu bónda- og bjargveiðimannaheimili Guðjóns eftir lát fyrri konu hans Marteu Guðlaugar Pétursdóttur. Mörg barna þeirra voru enn á æskuskeiði og gekk hún þeim í móðurstað.
Auk þess fóstraði hún systurson sinn, Hjörleif Guðnason og Jónu Pétursdóttur frá Kirkjubæ, dóttur Péturs Guðjónssonar og fyrri konu hans.
Síðustu áratugina bjó hún með Ingólfi syni sínum, fyrst á Oddsstöðum. Þau byggðu hús við Kirkjubæjarbraut 24. Við Gos fluttust þau til Reykjavíkur í skjól Vilborgar Guðjónsdóttur, en til Eyja fluttust þau fljótlega eftir Gos og bjuggu í fjölbýlishúsinu að Hásteinsvegi 60-64, Hásteinsblokkinni.

Börn Guðrúnar Grímsdóttur og Guðjóns á Oddsstöðum:
1. Ingólfur, fæddur 7. febrúar 1917, dáinn 16. nóvember 1998.
2. Guðlaugur, fæddur 2. júní 1919, dáinn 2. júní 2008.
3. Árni, fæddur 12. mars 1923, dáinn 16. nóvember 2002.
4. Vilborg, fædd 22. ágúst 1924.
Fósturbörn Guðrúnar og Guðjóns voru:
5. Hjörleifur Guðnason, f. 5. júní 1925, d. 13. júní 2007, systursonur Guðrúnar.
6. Jóna Halldóra Pétursdóttir sonardóttir Guðjóns, f. 18. ágúst 1933.
Stjúpbörn, börn Marteu Guðlaugar og Guðjóns:
Sjá Marteu Guðlaugu.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.