Halldóra Jónsdóttir (Vilborgarstöðum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Halldóra Jónsdóttir húsfreyja í Ey í V-Landeyjum, síðar í dvöl á Vilborgarstöðum, fæddist 13. september 1833 í Sigluvíkursókn í V-Landeyjum og lést 13. maí 1903.
Foreldrar hennar voru Jón tómthúsmaður í Lónshúsi í Garði, Gull., f. 1806, d. 22. maí 1842, Gíslason, og barnsmóðir hans Vigdís vinnukona á Skeið í Stórólfshvolssókn 1835, Bakkakoti á Rangárvöllum 1840, f. 1793 í Breiðabólsstaðarsókn, d. fyrir mt. 1845, Andrésdóttir bónda í Hvolhreppi, f. 1772, d. 8. desember 1834, Jónssonar, og konu Andrésar, Ingibjargar húsfreyju, f. 1770, d. 16. apríl 1824, Þorsteinsdóttur bónda á Bakkavelli, f. (1730), d. 13. júní 1785, Árnasonar, og konu Þorsteins, Vigdísar húsfreyju, f. 1726, d. 6. nóvember 1788, Jónsdóttur.
Móðir Andrésar Jónssonar var Neríður , f. 1727, d. 12. nóvember 1803, Andrésdóttir.

Halldóra var með vinnukonunni móður sinni í Bakkakoti á Rangárvöllum 1840, vikastúlka í Vallarhjáleigu í Hvolhreppi 1845, léttastúlka á Árgilsstöðum þar 1850, vinnukona þar 1855, og þar var Sveinbjörn Þorleifsson vinnumaður. Svo var einnig 1860.
Þau Sveinbjörn voru bændahjón í Ey í V-Landeyjum 1870 með synina Sigurð og Arngrím hjá sér, voru búandi þar 1880 og Guðrún og Sigrún höfðu bæst í barnahópinn. Þar voru þau enn 1890 með dæturnar. Hjónin fluttust til Eyja 1899, Halldóra til Arngríms og Sveinbjörn til Sigurðar.
Halldóra fluttist að Ey í Landeyjum 1902. Hún lést 1903.

I. Maður Halldóru var Sveinbjörn Þorleifsson bóndi, f. 6. janúar 1837, d. 5. ágúst 1911.
Börn þeirra voru:
1. Sigurður Sveinbjörnsson bóndi í Brekkuhúsi, f. 20. júní 1865, d. 11. júní 1933.
2. Arngrímur Sveinbjörnsson bóndi á Kirkjubæ, f. 17. júní 1868, d. 11. febrúar 1937.
3. Guðrún Sveinbjörnsdóttir, f. 1874. Hún var niðursetningur á Eystri-Hóli í V-Landeyjum 1901.
4. Sigrún Sveinbjörnsdóttir húsfreyja í Eystra-Fróðholti á Rangárvöllum, f. 2. nóvember 1878, d. 23. apríl 1948.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.