Hallgrímur Jónsson (yfirlögregluþjónn)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Hallgrímur Jónsson.

Hallgrímur Jónsson frá Laxamýri í S.-Þing., lögreglumaður, varðstjóri, afreksmaður í íþróttum, fulltrúi, forstöðumaður fæddist 22. júní 1927 á Bessastöðum á Álftanesi og lést 20. febrúar 2022.
Foreldrar hans voru Jón Helgi Þorbergsson bóndi á Bessastöðum og Laxamýri, ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands, rithöfundur, f. 31. júlí 1882, d. 5. janúar 1979, og kona hans Elín Vigfúsdóttir húsfreyja, f. 29. september 1891, d. 22. ágúst 1986.

Hallgrímur var með foreldrum sínum, á Bessastöðum, flutti með þeim að Laxamýri 1928 og ólst þar upp.
Hann lauk gagnfræðaprófi á Húsavík 1948 og búfræðiprófi á Hvanneyri 1951, sótti námskeið hjá lögreglunni í Reykjavík veturinn 1953-1954, stundaði nám við lögregluforingjaskóla í Bandaríkjunum 1957-1958.
Hallgrímur hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík 1952, var yfirlögregluþjónn í Eyjum 1963-1965 og rannsóknalögreglumaður þar, varðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík 1966-1971, fulltrúi hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík 1971-1979. Hann var forstöðumaður Breiðholtssundlaugar í Reykjavík 1980-1997.
Hallgrímur var afreksmaður í íþróttum, varð margsinnis Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í kringlukasti og setti tvö Íslandsmet í kringlukasti á árunum 1953-1964. Hann var einnig methafi í kúluvarpi og kringlukasti öldunga. Hann komst í sex manna úrslit á Búkarest-leikunum í Rúmeníu 1955 og var í landsliði Norðurlanda ásamt Vilhjálmi Einarssyni.
Hallgrímur var formaður Lögreglufélags Reykjavíkur 1969 og sat á þingum BSRB.
Hann ritaði bókina Á slóðum manna og laxa, gefin út 1985 hjá Skjaldborg og Reynsluslóðir lögreglumanns og íþróttakappa, gefin út 2009.
Þau Svava giftu sig, eignuðust tvö börn, en skildu.
Þau Þórunn giftu sig 1959, eignuðust þrjú börn.
Þórunn lést 2018 og Hallgrímur 2022.

I. Kona Hallgríms, (skildu), var Sigríður Svava Kristjánsdóttir, f. 13. júlí 1929, d. 1. september 2001. Foreldrar hennar voru Kristján Gíslason sjómaður, f. 11. nóvember 1887, d. 20. maí 1963 og Margrét Jóhanna Magnúsdóttir, f. 1. júní 1899, d. 1. maí 1979.
Börn þeirra:
1. Elín Margrét Hallgrímsdóttir símenntunarstjóri, f. 17. október 1953, alin upp hjá föðurforeldrum sínum. Maður hennar Kjartan Helgason.
2. Álfhildur Hallgrímsdóttir sérfræðingur hjá Heilsugæslunni, f. 20. ágúst 1955. Fyrrum maður hennar Árni Elíasson.

II. Kona Hallgríms, (21. nóvember 1959), var Sigríður Þórunn Franzdóttir kaupmaður, dægurlagahöfundur, kennari, f. 19. september 1931, d. 30. júní 2018. Foreldrar hennar voru Franz Á. Arason sjómaður, síðar verkamaður, bifreiðastjóri í Reykjavík, f. 13. ágúst 1897, d. 23. nóvember 1983, og Sveinbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja, verkakona, f. 13. ágúst 1905, d. 30. júlí 1996.
Börn þeirra:
3. Sveinbjörg Hallgrímsdóttir myndlistarmaður, kennari, f. 1. október 1957. Fyrrum maður hennar Karl Guðmundsson.
4. Þorbergur Hallgrímsson flugvirki, flugmaður, f. 13. janúar 1959, d. 26. mars 2019.
5. Ásgerður Hallgrímsdóttir grunnskólakennari, f. 3. október 1962. Maður hennar Ólafur B. Lárusson.
Börn Þórunnar:
6. Ingunn Elín Hróbjartsdóttir fyrrv. gistihússstýra, f. 6. desember 1949. Fyrrum maður hennar Þráinn Sigurðsson.
7. Jóna Hróbjartsdóttir fyrrv. bankafulltrúi, f. 26. október 1950. Maður hennar Guðmundur Lárusson, látinn.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.