Jóhann Pálsson (skipstjóri)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Jóhann til hægri ásamt Ásmundi Guðjónssyni.

Jóhann Steinar Pálsson fæddist 21. apríl 1909 á Ísafirði og lést 16. febrúar 2000. Foreldrar Jóhanns voru Páll Sigurðsson trésmiður og Jónína Guðlaug Þórðardóttir. Hann ólst upp til 19 ára aldurs í Mýrdalnum. Eiginkona Jóhanns var Ósk Guðjónsdóttir frá Oddsstöðum. Þau giftust 2. nóvember 1935 og eignuðust fjögur börn; Guðrúnu, Ragnhildi, Steinar og Herjólf. Þau bjuggu að Helgafellsbraut 19. Í gosinu árið 1973 fluttu þau til Reykjavíkur og bjuggu þar til æviloka. Þar vann hann hjá Landsbanka Íslands.

Jóhann Pálsson var formaður og aflakóngur nokkrum sinnum fyrir miðja síðustu öld.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Jóhann:

Jói Páls á öldur Áls
ýtir Bláatindi,
Sjói Hálsar, fyrður frjáls,
fleyi lá þó hrindi.

Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:

Jóhann Páls kólgur kannar
kvaðalaust vel án skaða.
Hannes lóðs hringinn hranna
hraðgengan lætur vaða.
Nýr er sá drekinn dýri,
dæmdur honum til sæmdar.
Freklega tálknung tekur
Týr-bauga sá hinn skýri.

Myndir


Heimildir

  • Minningargreinar. Morgunblaðið 23. febrúar 2000.
  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.

Frekari umfjöllun

Jóhann Steinar Pálsson skipstjóri, stýrimaður, útgerðarmaður, útgerðarstjóri, umsjónarmaður fæddist 23. apríl 1909 á Ísafirði og lést 16. febrúar 2000 á Hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Páll Sigurðsson frá Þykkvabæjarklaustri, trésmiður, f. þar 5. febrúar 1861, d. 8. júní 1914 í Reykjavík, og barnsmóðir og bústýra hans Jónína Guðlaug Þórðardóttir frá Hellum í Mýrdal, húsfreyja, f. 10. júlí 1881, d. 18. maí 1969.
Fósturforeldrar Jóhanns frá fimm ára aldri voru hjónin á Stóru-Heiði í Mýrdal, þau Guðlaug Ásgrímsdóttir húsfreyja, f. 16. ágúst 1860 í Múlakoti á Síðu, d. 20. desember 1944, og maður hennar Magnús Arnoddsson frá Hrútafellskoti u. Eyjafjöllum, bóndi, f. 4. janúar 1851, d. 4. júní 1919.

Jóhann var með foreldrum sínum, en faðir hans lést, er Jóhann var fimm ára. Hann fór þá í fóstur að Stóru-Heiði í Mýrdal.
Hann lauk vélstjóranámskeiði 1930, hinu minna fiskimannaprófi hjá Sigfúsi Scheving 1934 og fiskimannaprófi í öldungadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík 1946.
Jóhann flutti til Eyja 19 ára, varð beitningamaður hjá Stefáni í Gerði á Halkion næstu tvær vertíðir. Síðar var hann skipstjóri á Maí, Hannesi lóðs, Gissuri hvíta, , Tjaldi, Skúla fógeta, Erlingi I. Þá var hann stýrimaður og síðar skipstjóri á Lagarfossi og var aflahæstur vertíðirnar 1943-1945. Síðan var hann með Dverg, Ársæl, Jötun, Blátind. Hann keypti Hannes lóðs VE 200 1952 frá Danmörku og 1955 keypti hann annan Hannes lóðs frá Svíþjóð.
Jóhann hætti sjómennsku 1962 eftir 40 ár á sjónum og 27 vertíðir skipstjóri. Hann seldi Einari Sigurðssyni Hannes lóðs og varð útgerðarstjóri hjá honum næstu árin.
Jóhann var formaður Útvegsbændafélagsins um skeið, í stjórn LÍÚ og Fiskifélagsins. Hann var einn af eigendum Ísfélagsins og í stjórn þess í 10 ár.
Á síðari árum var Jóhann áhugasamur ljósmyndari og átti safn ljósmynda.
Eftir flutning til Reykjavíkur 1973 var Jóhann umsjónarmaður hjá Landsbankanum við Langholtsveg.
Þau Ósk giftu sig 1935, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu á Oddsstöðum við fæðingu Guðrúnar, á Heimagötu 20, (Karlsbergi) 1937 við fæðingu Ragnhildar og við fæðingu Steinars 1943, en bjuggu á Helgafellsbraut 19 við fæðingu Herjólfs 1960 og síðan til Gossins 1973.
Jóhann dvaldi að síðustu á Hjúkrunarheimilinu Skjóli og lést þar á árinu 2000 og Ósk lést 2006.

I. Kona Jóhanns, (2. nóvember 1935), var Ósk Guðjónsdóttir frá Oddsstöðum, húsfreyja, starfsmaður í Sjóklæðagerðinni, f. 15. júlí 1914, d. 1. febrúar 2006.
Börn þeirra:
1. Guðrún Jóhannsdóttir húsfreyja, verslunarrekandi, hótelrekandi, f. 12. ágúst 1935 á Oddsstöðum.
2. Ragnhildur Sigurfinna Jóhannsdóttir húsfreyja, veitingahússrekandi, f. 17. september 1937 á Heimagötu 20.
3. Steinar Óskar Jóhannsson rafvirki, starfsmaður hjá Danfossumboðinu f. 9. mars 1943 á Heimagötu 20, d. 22. október 2019.
4. Herjólfur Jóhannsson trésmiður í Noregi, f. 19. júní 1960.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.